Leita í fréttum mbl.is

Gylfi Arnbjörnsson metur þróun mála - skaut Cameron sig (les: Breta) í fótinn?

Gylfi ArnbjörnssonEnn eru menn að velta fyrir sér áhrifum og afleiðingum þess samkomulags sem náðist fyrir skömmu í efnhagsmálum Evrópua, en Bretar stóðu fyrir utan, að sögn þeirra sjáfra til að verja breska hagsmuni. Heit umræða hefur spunnist um málið í Bretlandi og læðist að sú spurning hvort Bretar (les: David Cameron, forsætisráðherra) hafi skotið sig í fótinn með neitun sinni? Skotar eru t.a.m æfir vegna aðgerða Camerons og raddir heyrast frá Skotlandi um að ganga í Norðurlöndin!  Skoska stjórnin hefur t.a.m. umtalsverð völd á sviði heilbrigðis og menntamála. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sagði í dag á þýska þinginu, að þrátt fyrir neitun Breta, myndu þeir halda áfram að vera mjög mikilvæg þjóð innan ESB.

Hér heima veltir forseti ASÍ, Gylfi Arnbjörnsson (sem er hagfræðimenntaður) fyrir sér þróun mála í löngum og ítarlegum pistli. Hann tekur meðal annars saman niðurstöðuna svona:

" Meirihluti leiðtoga ESB ríkjanna hefur nú náð samkomulagi um aukið samstarf og samráð við stjórn ríkisfjármála. Með þessu samkomulagi geta ESB ríkin í ríkari mæli en verið hefur haft áhrif á þróun efnahagsmála einstakra ríkja út frá hagsmunum heildarinnar. Sem stendur hafa 17 ríki Evrusvæðisins staðfest samkomulagið en hin 10 ríkin geta gerst aðilar að því ef þau vilja og hafa sex þeirra þegar tilkynnt að þau hafi áhuga á því.

"Aðaltriði samkomulagsins eru:

• Ríki ESB munu í ríkari mæli samhæfa efnahagsstefnu sína á sumum sviðum.
• Evruríkin munu skuldbinda sig til þess að hafa jöfnuð í ríkisfjármálum eða afgang. Það verður litið á það sem fullnægjandi að árlegur sveifluleiðréttur halli einstakra ríkja verði ekki meiri en sem nemur 0,5% af landsframleiðslu á ári.
• Ný ríki, sem taka upp evruna, verða að mæta sömu kröfum og upplýsa jafnframt um þjóðarskuldir sínar.
• Um leið og eitt af evruríkjunum lendir í þeirri aðstöðu að halli í ríkisfjármálum verður 3%, munu sjálfkrafa fara í gang viðbrögð, þar með talið sektir nema aukin meirihluti evruríkjanna setji sig gegn því.
• Framkvæmdastjórn ESB á að setja fram tímasetta áætlun um það, með hvaða hætti einstaka ríki nái viðunandi jöfnuði í ríkisfjármálum.
• Hafi ríki þegar halla eða óviðunandi afgang í ríkisfjármálum eiga þau að senda Framkvæmdastjórninni og Ráðherraráðinu áætlun um til hvaða aðgerða verði gripið til að koma jafnvægi á ríkisfjármálin.
• Ríki munu gera grein fyrir lánsfjáráætlun og útgáfu ríkisskuldabréfa fyrirfram.
• Frá júlí 2012 verður sett á laggirnar ný stofnun, Evrópski stöðugleikasjóðurinn (European Stability Mechanism – ESM) sem verður varanlegur jöfnunar- og jafnvægissjóður evruríkjanna.
• 27 ríki Evrópusambandsins munu leggja Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til 200 milljarða evra (32.000 milljarða króna) til að takmarka umfang fjármálakreppunnar."

Gylfi veltir einnig fyrir sér hvaða þýðingu þetta hafi fyrir umsókn Íslands að ESB og hann telur að þetta styrki hana, frekar en hitt og telur að nýr sáttmáli stuðli að markmiðum um stöðugleika og traustan gjaldmiðil fyrir Ísland:

"En hvernig líta þessi mál út frá sjónarhóli okkar Íslendinga? Alþingi ákvað árið 2009 að sækja um aðild að ESB og láta á það reyna hvort þjóðin vilji gera aukið og nánara samstarf við ríki Evrópu að grundvelli nýrrar sóknar í efnahags-, atvinnu- og félagslegu tilliti með fullri aðild að ESB. Nauðsynlegt er að skoða samkomulag ríkja ESB í ljósi þeirra markmiða sem við settum okkur með aðildarumsókninni. Mikilvægt er að horfa til langtíma jafnvægis í hagkerfinu og áhrifa þess á uppbyggingu og þróun atvinnulífsins. Hagkerfi Íslands er lítið og veikbyggt og höfum ekki mikil tök á því að fylgja Bretum eftir, slíkt myndi skapa mikla óvissu og veikja forsendur nýsköpunar og uppbyggingar. Margir hafa haft af því áhyggjur að þetta samkomulag komi í veg fyrir að stjórnvöld geti staðið fyrir nauðsynlegri innspýtingu í hagkerfið í samdrætti, eins og nú er þörf á, en það er oftúlkun að mínu mati. Aukin hagvöxtur er einfaldlega forsenda fyrir ábyrgri áætlun í ríkisbúskapnum og því langsótt að koma í veg fyrir slíkt. Óráðsía í ríkisfjármálum ógnar stöðugleika gengisins og dregur þannig úr hagvexti til lengri tíma litið, þó hann aukist tímabundið á meðan verið er að eyða peningunum. Samkomulagið um traustari grundvöll fyrir evruna hróflar heldur ekki við forræði aðila vinnumarkaðarins á gerð kjarasamninga en gæti auðveldað samskipti þeirra við stjórnvöld.

Það er fróðlegt að setja þessa þróun í Evrópu í samhengi við þann vanda sem lengi hefur blasað við hér á landi. Ég hef oft varpað fram þeirri spurningu hvernig hægt væri að koma á meiri aðhaldi að stefnumörkun og aðgerðum (eða aðgerðaleysi) stjórnvalda í ríkisfjármálum. Þjóðarsáttarsamningurinn frá árinu 1990 var t.d. grundvallaður á samkomulagi milli aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda um fastgengisstefnu og meiri aga í ríkisfjármálum til að styðja við hana. Þetta samkomulag entist meirihluta tíunda áratugarins og lagði grunn að mikilvægum stöðugleika í atvinnulífinu með lágri verðbólgu og lægri vöxtum en áður höfðu sést. Undir lok þess áratugar fór hins vegar að bera á ,,óþolinmæði‘‘ stjórnmálamanna vegna langvarandi aðhalds í ríkisfjármálum ásamt vaxandi tilhneigingar til þess að nota tekju- og gjaldahlið ríkisfjármála til að auka vinsældir í aðdraganda kosninga. Segja má að fyrsti áratugur nýrrar aldar hafi einkennst af agaleysi í stjórn ríkisfjármála, þar em stjórnvöld kynntu undir þenslu í atvinnulífinu með skattalækkunum, útgjaldaaukningu og auknum fjárfestingum hins opinbera. Í raun var þetta ábyrgðarleysi engu skárra en það sem gerðist í mörgum ríkjum ESB. Á endanum fór það svo að við þurftum að fá AGS sem sérstakan tilsjónaraðila með stjórn ríkisfjármála til að skapa nauðsynlegan trúverðugleika gagnvart frændum okkar á Norðurlöndunum til að þeir treystu sér til að veita okkur þau lán sem var okkur voru lífsnauðsynleg. Þó áætlun stjórnvalda og AGS um aðlögun ríkisfjármálanna að nýjum og breyttum veruleika hafi um margt verið erfið hefur markmiðið um hallalaus fjárlög verið ábyrgt og notið stuðnings aðila vinnumarkaðarins – þó deilt hafi verið um einstaka ákvarðanir.

Séð í þessu samhengi er nýtt samkomulag ESB ríkjanna allrar athygli vert og mikilvægt fyrir okkur að velta því fyrir okkur hvort þetta gæti verið það aðhald, sem brýnt er að koma á hér á landi gagnvart óábyrgri og ósamstæðri hagstjórn. Gæti aðild að þessu fyrirkomulagi komið í stað beinnar íhlutunar AGS, en minna má á að ekki hefur verið gengið frá því með hvaða hætti samstarf okkar við AGS verði háttað á næstu misserum."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband