Leita í fréttum mbl.is

Magnús Orri Schram í eldhúsdagsumræðum: Verðum að klára viðræðurnar við ESB

Magnús Orri SchramEldhúsdagsumræður fóru fram á Alþingi Íslendinga þann 29. maí síðastliðinn. Einn þeirra sem talaði var Magnús Orri Schram og í ræðu hans segir þetta:

"Virðulegi forseti.

Í vinsælu dægurlagi frá árinu 1977 söng Diddú með Spilverki Þjóðanna á þessa leið:

Líf mitt er greypt – í malbik og steypt – í bensín á bílinn eytt.

Hann vinnur öll kvöld – fyrir hádegi ég – of þreytt til að sofa hjá –

En húsið mjakast upp –

gleypir mig – gleypir þig

Svona birtist veruleikinn Spilverkinu  – kynslóðinni sem fæddist um miðja síðustu öld – endalaust streð og basl við að ná endum saman og allur peningurinn og allur frítíminn fór í steinsteypu.

Ég er viss um að unga fólkið sem hefur komið inn á húsnæðismarkaðinn á síðustu árum getur tekið undir hvert orð í dægurlaginu. Allt sparifé horfið og skuldafangelsi verðtryggingar, verðbólgu og íslenskrar krónur staðreyndin ein.  Svona birtist veruleikinn ungu fólki 1977, og hefur í raun birst ungu fólki á Íslandi með svipuðum hætti allt síðan þá. Basl og meira basl –  og að óbreyttu, ef stjórnmálamenn bregðast ekki við  – basl um alla framtíð fyrir þá sem hyggja á kaup á húsnæði.

Það sjáum við best ef við skoðum stöðu ungs fólks sem keypti íbúð fyrir tíu árum og tók til þess 10 milljón króna lán. Það hefur í dag greitt rúmar átta milljónir inná lánið,  en enn standa eftir 16 milljónir – ógreiddar. Það er tvöfalt meira en ef unga fólkið ætti heima í landi sem byggi við evru.  Ungir íslendingar þurfa nefnilega að greiða milljónir á ári aukalega fyrir að taka lán í íslenskum krónum."

Síðan segir Magnús Orri: "

Mér varð hugsað til þessarar stöðu í útskriftarveislum helgarinnar. Þar var ánægjulegt að sjá unga fólkið uppskera og halda á vit ævintýranna með prófskirteini uppá vasann,– en hvar liggja þau ævintýr – getur þetta unga fólk hugsað sér að taka þátt í samfélaginu hérna heima, stofna fjölskyldu,  henda sér útí baslið og kaupa íbúð – þegar við krefjum þau um að greiða fyrir tvær íbúðir en eignast bara eina.

Við Jafnaðarmenn höfum um langa hríð talið að besta leiðin úr þessum vandræðum, besta leiðin til að losa unga fólkið okkar undan þessu basli, sé að sækja um aðild að Evrópusambandinu.  Með þeim hætti teljum við að hægt sé að tryggja Íslendingum sambærileg lífskjör og aðrir Evrópubúar njóta.

Um þessar mundir er hart sótt að þeim sem vilja sækja um aðild að Evrópusambandinu en við höldum ótrauð áfram,  enda teljum við hyggilegast að þjóðin fái sjálf að taka afstöðu til aðildar að sambandinu. Hún á að fá að kjósa um samning – en ekki um stöðu viðræðna. Skammt er í að við vitum hvernig samstarf á sviði myntmála mun líta út, hvernig hugað verður að sjávarútvegi, landbúnaði og byggðamálum í samningi milli sambandsins og Íslands. Því væri það fásinna að hætta viðræðum, heldur eigum við að leyfa þjóðinni að taka afstöðu til aðildar á grundvelli upplýsinga, ekki hræðsluáróðurs.

Við jafnaðarmenn viljum sækja um aðild því við teljum að með þeim hætti verði hægt að lækka verð á mat,  lækka vexti, losna undan verðtryggingu og okur-verðbólgu.  Þá verður hægt að veita fyrirtækjum okkar sömu möguleika til verðmætasköpunar og fyrirtækjum annars staðar í Evrópu og þá verður hægt að ferðast án þess að það kosti hönd og fót. Jafnvel hægt að splæsa í kaffibolla á Strikinu ef svo ber undir. Það sem er þó kannski mikilvægast – það þarf ekki að greiða 24 milljónir fyrir tíu milljón króna lán.

Flestir stjórnmálaflokkar virðast vera að gefast upp á íslenskri krónu en skortir samt framtíðarsýn um hvaða valkostir bjóðast almenningi.

Þess vegna  – Virðulegi forseti – er það eitt brýnasta verkefni okkar að leiða til lykta viðræðurnar við Evrópusambandið og sjá hvaða leiðir eru færar til upptöku nýrrar myntar."

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband