Leita í fréttum mbl.is

Þorsteinn Pálsson um ESB og friðarverðlaunin

Þorsteinn PálssonHelgarhugleiðing Þorsteins Pálssonar í Fréttablaðinu þann 15.desember, fjallaði um friðarverðlaun Nóbels og þá staðreynd að ESB, fékk þau í ár. Þorsteinn skrifar til að byrja með:

"Friðarverðlaun Nobels hafa oft orðið kveikja að deilum. Ekki þurfti að koma á óvart að svo yrði einnig þegar tilkynnt var að Evrópusambandið hefði hlotið þau í ár. Hér heima hefur þessi ákvörðun gefið andstæðingum hugsanlegrar Evrópusambandsaðildar efni í örlítið hnútukast.

Þetta vekur tvær spurningar. Sú fyrri er: Verðskuldar Evrópusambandið þessa sæmd? Sú síðari er: Hefur Ísland hag af því að taka þátt í alþjóðasamstarfi sem stuðlar að friði?

Óumdeilt er að friðarhugsjónin er rótin að stofnun Evrópusambandsins. Það voru hugsjónamenn sem trúðu því að frjáls viðskipti og jöfn samkeppnisstaða ríkja væri ein af forsendum sátta og samlyndis. Þetta var hins vegar ekki unnt að sanna fyrir fram með útreikningum. Eftir á sýnir reynslan lengsta friðartíma í Evrópu.

Þá segja gagnrýnendurnir að friðurinn sé Atlantshafsbandalaginu að þakka. Sannarlega má ekki vanmeta mikilvægt hlutverk þess. Og viðurkenna verður að herstyrkur Bandaríkjanna hefur ráðið meir um árangur bandalagsins en varnarviðbúnaður Evrópuríkjanna sjálfra. En það breytir ekki hinu að sameiginlegar leikreglur um sameiginlega viðskiptahagsmuni hafa átt sinn ríka þátt í að varðveita friðinn; og þær vega þyngra nú en í byrjun.

Stundum er því haldið fram að friðarhugsjón Evrópusamvinnunnar skipti ekki máli lengur með því að sú tíð sé liðin að menn hafi áhyggjur af stríði. Víst er að sá ótti ristir ekki jafn djúpt og fyrrum. En eftir sem áður þarf að beita þeim ráðum sem menn kunna best til þess að sá ótti haldi áfram að fjarlægjast. Góð reynsla af meðulunum gerir þau einfaldlega ekki óþörf."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband