Leita í fréttum mbl.is

UTN: Stór áfangi náðist í ESB-viðræðum

UtanríkisráðuneytiðÁ vef Utanríkisráðuneytis segir í frétt: "Stór áfangi náðist í morgun þegar viðræður hófust um sex málaflokka í aðildarviðræðum Íslands og Evrópusambandsins á ríkjaráðstefnu sem fram fór í Brussel. Viðræður eru nú hafnar um 27 af þeim 33 samningsköflum sem fjallað er um. Kaflarnir sem opnaðir voru í morgun varða efnahags- og peningamál, byggðastefnu og samræmingu uppbyggingarsjóða, umhverfismál, utanríkistengsl, skattamál og frjálsa vöruflutninga. Á fundinum lauk einnig viðræðum samkeppnismál og hefur því 11 samningsköflum verið lokað á þeim 18 mánuðum sem liðnir eru frá því að efnislegar viðræður hófust.

Í ávarpi sínu í morgun fagnaði Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra því að nú væru samningaviðræður hafnar um mikilvæga málaflokka á borð við evrusamstarfið, byggðamálin, fríverslunarsamninga og utanríkisviðskipti, sem allt væru grundvallarhagsmunamál fyrir Íslendinga. Hann sagði upphaf viðræðna um málaflokka sem stæðu alfarið utan EES-samstarfsins vera til marks um að senn sæist til lands enda væru nú 4/5 allra samningskafla á borðinu. Framundan væri að hefja viðræður um útistandandi kafla svo sem landbúnað og sjávarútveg. Þegar samningum er lokið fengi íslenska þjóðin að greiða atkvæði um aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Utanríkisráðherra sagðist sannfærðari en nokkru sinni fyrr um að aðild Íslands að Evrópusambandinu myndi þjóna hagsmunum Íslands. Efnahagslegur stöðugleiki og traust ytri umgjörð myndi bæta lífskjör Íslendinga og samvinna við önnur Evrópuríki myndu tryggja fullveldi landsins. Yfirstandandi efnahagserfiðleikar krefðust meiri samvinnu allra ríkja, ekki minni, og evrusamstarf sem byggði á auknum aga og aðhaldi væri fýsilegur valkostur fyrir Ísland. Í lok ávarps síns þakkaði utanríkisráðherra samningaliði Íslands og þeim fjölmörgu hagsmunaaðilum, félagasamtökum og sérfræðingum á Íslandi sem lagt hafa hönd á plóginn á undanförnum misserum og lagt grunninn að góðri framvindu í viðræðunum.

Utanríkisráðherra fór fyrir íslensku sendinefndinni en í henni voru einnig Stefán Haukur Jóhannesson, aðalsamningamaður Íslands, Björg Thorarensen, varaformaður samninganefndar Íslands, Þórir Ibsen, sendiherra Íslands gagnvart ESB, Högni S. Kristjánsson, sviðsstjóri viðskiptasviðs utanríkisráðuneytisins, Kristján Guy Burgess, aðstoðarmaður utanríkisráðherra, Auðunn Atlason, ráðgjafi utanríkisráðherra í Evrópumálum, Harald Aspelund, skrifstofustjóri Evrópumála í utanríkisráðuneytinu og Bryndís Kjartansdóttir, formaður samningahóps um EES..

Samningaviðræður Íslands og ESB snúast um 33 samningskafla í löggjöf á mismunandi sviðum. Alls hafa 27 kaflar verið opnaðir og er samningum lokið um 11 þeirra. Sjá nánar um stöðu viðræðna. Næsta ríkjaráðstefna fer fram í mars á næsta ári og verður sú fyrsta undir formennsku Íra."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband