Leita í fréttum mbl.is

Þröstur Ólafsson um undanþágur og orðaskak í FRBL

Þröstur ÓlafssonBlöðin eru bókstaflega full af Evrópuumræðu og það er greinilegt að þetta er eitt af "málum málanna" í íslensku samfélagi.

Þröstur Ólafsson, hagfræðingur, skrifar grein í FRBL þann 4. janúar um ESB-málið. Hún hefst svona:

"Mér varð það á að lenda í orðaskaki við góðan vin minn út af ESB. Það hefði ég ekki átt að gera, því orðaskak, svo ekki sé talað um rifrildi, skilar engu nema sáru sinni. En tilefni orðaskaksins er þó þess virði að það sé rætt. Vinur minn fullyrti, og fékk ákafan stuðning flestra borðfélaga okkar, að það væri fyrir fram vitað að við fengjum engar undanþágur frá reglum ESB. Það færu því ekki fram neinar samningaviðræður, heldur ætti sér stað aðlögunarferli að regluverki ESB. Mér gremst fátt jafnmikið og þegar fólk gefur sér niðurstöðu úr óorðnum atvikum fyrir fram; tala nú ekki um þegar um samningaviðræður er að ræða.

Enginn veit fyrir fram hvað út úr fjölþjóðlegum samningaviðræðum kemur. Stundum kemur heilmikið, eins og t.d. bæði úr viðræðum okkar um EES og jafnvel við inngöngu okkar í NATO. Í báðum tilvikum fengum við varanlegar undanþágur. Í EFTA-viðræðunum drógum við þó nokkrar undanþágur að landi. Þegar við gengum í Sameinuðu þjóðirnar var engin undanþága í boði. Allar þjóðir sem gengið hafa í ESB hafa fengið undanþágur frá meginregluverki sambandsins, ýmist tímabundnar eða varanlegar, allt eftir því hve mikilvægur viðkomandi málaflokkur var hverri þjóð. Hver niðurstaðan verður hjá okkur get hvorki ég né aðrir fullyrt neitt um. Það er hins vegar afar ólíklegt að þær verði ekki einhverjar. Hvaða máli þær muni skipta okkur, þegar upp er staðið, er svo annað mál."

Síðan segir Þröstur:

"Þegar bent er á samningsmarkmið okkar gagnvart ESB spyr almenningur um undanþágur. Undanþágubeiðnir hafa verið veganesti íslenskra samningamanna allt frá því að við fyrst ræddum við Dani um viðskipti og gagnkvæm réttindi. Það sagði mér maður sem hefur tengst samningaviðræðunum í Brussel að undanþágubeiðnir okkar séu að fjölda til svipaðar og allar undanþágubeiðnir annarra þjóða, sem sótt hefðu um aðild að ESB. Þótt þetta séu eflaust ýkjur segir þetta sína sögu. Undanþágur beinast að almennum reglum en einnig að ákveðnum málaflokkum sem við viljum halda óskertu forræði yfir. Þar ber hæst að halda fiskveiðiauðlindinni út af fyrir okkur. Flestir Íslendingar munu vera sammála um að það sé frágangssök, sé því ekki náð. Við viljum þó að íslenskum útgerðarmönnum sé leyft að eiga evrópskar útgerðir með veiðirétti.

En kjarni þessa máls snýr ekki að ESB heldur okkur sjálfum. Við teljum okkur trú um að við verðum undir í þessum heimi nema aðrar þjóðir veiti okkur undanþágur frá meginreglum í samskiptum þeirra. Á þessu er því miður alið með skírskotun til fámennis. Höfum við þó sýnt að við stöndumst samanburð ágætlega. Okkur hefur ætíð vegnað best þegar samskiptareglur okkar við aðrar þjóðir voru gagnkvæmar og viðskiptin frjáls."

ESB-málið er hitamál, þessvegna er best að klára það!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband