Leita í fréttum mbl.is

Jón Steindór Valdimarsson í FRBL: Skeinuhættir stjórnmálamenn

Jón Steindór ValdimarssonJón Steindór Valdimarsson, formaður samtakanna Já-Ísland, skrifaði góða grein í Fréttablaðið um ESB-málið þann 15.1. Greinin birtist hér með góðfúslegu leyfi höfundar.

SKEINUHÆTTIR STJÓRNMÁLAMENN 

Langt er síðan ég gerði upp hug minn um að Íslandi væri best borgið með aðild að Evrópusambandinu. Þar gildir einu hvort litið er til lífskjara, starfsskilyrða atvinnulífsins, öryggis- og varnarmála eða menningarmála.

Ekki er byggt á skammtímasjónarmiðum um að ESB muni reynast einhvers konar bjargvættur á neyðarstundu. Þvert á móti er skoðunin byggð á því að aðildin muni fela í sér meiri farsæld fyrir okkur öll á næstu áratugum.

Brýnasta hagsmunamálið í bráð og lengd er að tryggja efnahagslegan stöðugleika og búa í haginn fyrir öflugan útflutning. Það er forsenda góðra lífskjara. Með haftakrónu, hárri verðbólgu, gengissveiflum og annarri óáran sem fylgir okkar sjálfstæðu peningamálastefnu tekst það ekki. Í þeim efnum er reynslan ólygnust.

Ég er eindreginn stuðningsmaður aðildar Íslands að ESB. Af aðild verður auðvitað ekki ef aðildarviðræðum verður slitið. Það er öldungis fráleitt að halda því fram að aðildarviðræðurnar séu bara hjal um ekki neitt – niðurstaðan liggi þegar fyrir. Það verður að halda viðræðum áfram af fullum þunga og ná hagstæðri niðurstöðu.

Ágæti aðildar að ESB er ekki háð víðtækum undanþágum frá hinu og þessu. Hagsmunir okkar og framtíð geta aldrei ráðist af þröngum sérhagsmunum eða ýtrustu kröfum háværra gæslumanna þeirra. Almenningur á ekki að súpa seyðið af þeim með lakari lífskjörum.

Ég er handviss um að þegar grannt verður skoðað mun heildarhagsmunum Íslands verða betur borgið innan ESB. Að fenginni niðurstöðu viðræðna mun auðvitað hver og einn vega og meta fyrir sig hvort skynsamlegra sé að segja já eða nei.

Stjórnmálamenn eiga margir hverjir erfitt með að hugsa til lengri tíma en enda hvers kjörtímabils. Eigið þingsæti og hagsmunir flokksins yfirskyggja því miður oftar en ekki langtímahagsmuni lands og lýðs. Slíkir stjórnmálamenn eru okkur skeinuhættir og þá eigum við að forðast eftir mætti. Því miður eru þeir margir á kreiki nú sem fyrr.

Sjálfur mun ég leggja þeim lið sem vilja halda dyrum opnum, leiða aðildarviðræður til farsælla lykta á næstu misserum og bera niðurstöðuna undir þjóðina. Hinir mega eiga sig.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband