Leita í fréttum mbl.is

Árni Þór Sigurðsson um ESB-málið á Smugunni

Árni Þór SigurðssonUmræðan um ESB-málið hefur verið sérlega lífleg eftir að ákveðið var að hægja aðeins á ferlinu, sem í raun og veru lá fyrir og hefur verið þekkt lengi. Andstæðingar aðildar og viðræðna blása úr nánast öllum skilningarvitum og froðufella næstum yfir málinu. Hávaðinn og lætin í málinu hafa kannski aldrei verið meiri en einmitt núna.

Einn angi af þessu máli er fordæmalaust framferði Jóns Bjarnasonar í Utanríkismálanefnd, þar sem hann, upp á sitt einsdæmi, myndaði nýjan meirihluta með Sjálfstæðisflokki og Framsókn. Á "Macchiavellísku" heitir þetta að stinga félaga sína í bakið!

Árni Þór Sigurðsson, félagi Jóns í VG og formaður Utanríkismálanefndar bloggar á Smugunni um þróun ESB-málsins og segir þar meða annars:

"Vinstrihreyfingin – grænt framboð, eins og aðrir þingflokkar, skipar fólki til verka eins og það er talið nýtast heildinni best og þingmenn sitja í þingnefndum fyrir hönd félaga sinna í þingflokknum. Mikilvægt er að þingmenn sýni félögum sínum í þingflokki trúnað og heilindi í störfum sínum og búi yfir félagsþroska. Ítrekaður misbrestur á því hlýtur að kalla á nýjar ákvarðanir þingflokksins, og ég fullyrði að allir þingflokkar hefðu við sömu aðstæður brugðist við með sambærilegum hætti, þótt etv. hefðu ekki allir boðið jafnvel og þingflokkur VG. „Strákarnir okkar“ hafa verið óþreytandi við að lýsa því einmitt hvað liðheildin skiptir miklu í liðsíþrótt eins og handboltanum. Stjórnmálastarfið á Alþingi snýst ekki síst um liðsheild. Sólospil er ekki til þess fallið að efla samheldni eða ná meiri árangri. Endalok Samstöðu, sem eru komin til vegna þess að stofnandi hennar getur ekki unnið með öðru fólki, eins og við í VG urðum áþreifanlega vör við, er nýjasta dæmið þar um."

Trúnaður og félagsþroski, einmitt!

Síðan segir Árni þetta:

"Hér má rifja upp að vissulega urðu umræður um það vorið 2009 hvort efna ætti til þjóðaratkvæðagreiðslu áður en sótt yrði um aðild. Tvær megin ástæður réðu afstöðu margra í þingflokki VG í því efni: í fyrsta lagi sýndu allar kannanir að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar var þeirrar skoðunar að það ætti að sækja um aðild að ESB; í öðru lagi töluðu helstu forystumenn NEI-hreyfingarinnar, þ.e. Heimssýnar, þ.á.m. þáverandi formaður, mjög ákveðið gegn tvöfaldri þjóðaratkvæðagreiðslu því líkur væru á að jákvæð útkoma úr henni (eins og allt benti til að yrði) myndi í raun binda hendur margra kjósenda í seinni atkvæðagreiðslunni. Þannig voru það ekki síst forystumenn Heimssýnar sem áttu ríkan þátt í þeirri afstöðu þótt þeir hafi nú snúið við blaðinu og kannist lítt við fyrri sjónarmið og kalli aðra svikara. Ekki stórmannleg framganga það."

Leturbreyting: ES-bloggið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Fáir hafa logið eins miklu og svikið eins mikið eins og Árni Þór Sigurðsson, að mati flestra VG félaga sem gefið hafa frat í flokkinn og þeirra sem vilja hafa heiðarleika og trúverðurgleika að leiðarljósi.Það eykur ekki trúverðurgleika Evrópusamtakanna að vitna í slíkan mann.Nei við ESB.

Sigurgeir Jónsson, 17.1.2013 kl. 18:26

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Já, talið bara ykkar "macchíavellísku", mér sýnist það sæma ykkur bezt.

Það er reyndar ekkert nýtt hjá ESB-innlimunarsinnum, sem setja HUGSANLEGAN fjárhagslegan, pragmatískan ávinning (þar sem flestu er þó lofað upp í ermina) ofar en fullveldisrétt þjóðarinnar og að æðsta löggjafarvald yfir landinu haldist hér.

Ekki vildi Jón forseti Sigurðsson, að Íslendingar fengju einn af 25 fulltrúum á löggjafarþingi Danaveldis -- og hefði aldrei litið við því að fá 0,06% atkvæðavægi fyrir Ísland í því ráðherraráði ESB, sem setur lög um sjávarútvegsmál fyrir Brusselveldið.

Árni Þór Sigurðsson & Co. í VG hafa nú þegar glatað trúnaði 58% þeirra sem kusu VG 2009, en myndu ekki gera það nú skv. nýlegri skoðanakönnun. Segir það ekki töluvert um álit manna í VG á svikum forystunnar? Segir það ekki eitthvað um siðferðisástand þeirra sömu forystumanna?

Jón Valur Jensson, 17.1.2013 kl. 19:03

3 Smámynd: Gunnar Hólmsteinn Ársælsson

Jón Valur: Þú hefur ekki hugmynd um hvað nafni þinn Sigurðsson hefði sagt eða gert í nútímanum og reyndar mjög dæmigert fyrir bullið í ykkur, þessu liði sem vill borga ofuvexti, lifa við óðaverðbólgu og handónýtan gjaldmiðil. Þið hafið ekki snefil af tilfinningu fyri því sem heitir almannahagsmunir og ættuð að reyna að læra hvað það orð þýðir!

Ps. Legg svo til að Jón Bjarnason stofni flokk anarkista - hann virðist ansi stjórnlaus þessa dagana.

Gunnar Hólmsteinn Ársælsson, 17.1.2013 kl. 21:09

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

Er óðaverðbólga hér? Er krónan "handónýt"? Ekki telur jafnvel Steingrímur J. það. Krónan eða sveigjanleiki hennar hefur hjálpað okkur gríðarlega að aðlaga okkur að aðstæðunum og aukið tekjur af ferðaþjónustu og útflutningi, jafnvel komið endurnýjunarkippum í gamlar iðngreinar sem voru að leggjast af eða stuðla að nýsköpun. Og ekki borga ég ofurvexti af veðtryggðu láni hjá Arion banka, þar sem eru fljótandi vextir, en ekki verðtrygging. Þar að auki fengjust aldrei 40 ára lán í banka í Evrópu með sömu lágu árlegu afborgununum og vöxtunum sem eru á verðtryggðu lánunum hér.

En um hug Jóns Sigurðssonar veit ég örugglega snöggtum meira en þú, enda verið á kafi í ritum hans og um hann.

Vegna stefnu Dana með hinum illa þokkuðu stöðulögum ritaði hann í I. árg. Andvara árið 1874 (s. 116-117, hornklofainnskot JVJ):

„Um hitt, sem einungis snertir Danmörku, höfum vér aldrei óskað að hafa neitt atkvæði; það eru Danir sjálfir, sem hafa verið að ota að oss þessum málum og bersýnilega til þess að ávinna með því fullkomið yfirvald yfir oss í vorum eiginmálum, því að þá er það eftir þeirra áliti jafnrétti, að þegar vér erum til dæmis 25 sinnum færri en þeir, þá skulum vér hafa einungis eitt atkvæði móti 25 í hverju máli sem er. Þeir [Danir] eru íhaldnir [= skaðlausir], þó að þeir gefi oss eitt atkvæði af 25, þótt það sé í þeirra eiginmálum, en vér getum ekki staðizt við að hafa ekki meira en 25. part atkvæða í vorum eiginmálum. Oss finnst því auðsætt, að í þessari grein sé mikill óréttur falinn, er vér ættum sem fyrst að fá rétting á.“

Sjá menn ekki hliðstæðuna? Esb.-innlimunarsinnar láta eins og það yrði til góðs fyrir okkur að fá atkvæði um „málefni Evrópu“ og að sá mikilvægi ávinningur réttlæti það að gefa þingfulltrúum og ráðherrum hinna 27 þjóðanna „hlutdeild í“ (= allsráðandi vald yfir) okkar löggjafarmálum, okkar eiginmálum, ef fulltrúum þeirra sýnist svo.

En hliðstæðan er ekki fullkomin. Í stað þess að við hefðum fengið 25. hvern þingmann á þingi Dana skv. áðurgreindu fengjum við 125. hvern þingmann á 750 manna Esb.þinginu í Strassborg og Brussel og einungis 1/1666 (0,06%) atkvæðavægis í hinu volduga ráðherraráði í Brussel – því sem t.d. fer með virkustu löggjöf um sjávarútvegsmál í Esb., m.a. „regluna“ óstöðugu um hlutfallslegan stöðugleika fiskveiða (um hana: afhjúpandi staðreyndir hér: blogg.visir.is/jvj/2010/07/25/relative-stability/)!

En getum við, eins og Jón forseti orðar það, „staðizt“ með því að hafa einungis 1/125 eða 1/1666 atkvæða „í okkar eiginmálum“? Vitaskuld ekki! Hve langan tíma sem valdamenn ráðandi stórþjóða í Esb. taka sér til að komast yfir það sem þær kjósa sér af fiskveiðiauðlindum okkar (sem eru miklu auðugri en margir halda nú), þá ættum við okkur enga vörn, umþóttun né tillitssemi nema í mesta lagi í 15-20 ár, áður en ráðamenn nefndra stórþjóða yrðu búnir að koma þessu í framkvæmd.

Málið er alvarlegra en við blasti hér. Í Esb.-þinginu hefðu 8 þingmenn okkar ekki leyfi til að bera fram lagafrumvörp – einungis framkvæmdastjórn Esb. hefur vald til þess! – Það sem verra er: í ráðherraráðinu eykst vald stærstu ríkjanna frá árinu 2014 skv. Lissabonsáttmálanum. Fjögur stærstu ríkin (af 27), Þýzkaland, Frakkland, Bretland og Ítalía, fá 53,64% atkvæðavægis. Sex stærstu (með Spáni og Póllandi) verða með 70,44% atkvæðamagns, öll hin 21 samanlagt með 29,56%!

Enginn má við margnum. Víst er, að Bretland, Spánn, Belgía, Þýzkaland o.fl. lönd myndu notfæra sér valdið í ráðherraráðinu til að haga málum í sína þágu, ekki smáþjóðar á útjaðri Esb.

Íslandi allt. Aldrei að víkja! (orð Jóns forseta).

Jón Valur Jensson, 18.1.2013 kl. 11:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband