Leita í fréttum mbl.is

Össur í FRBL: Evrusvæðið réttir af

Í innsendri grein í FRBL um Evrusvæðið segir Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra:

"Fjárfestar eru á ný að öðlast traust á evrusvæðinu. Nýleg könnun meðal tæplega átta hundruð fjárfesta sýndi að þeir telja nú evrusvæðið komið yfir það versta í efnahagserfiðleikum sínum. Það er í samræmi við æ fleiri teikn um að evrusvæðið sé að rétta úr kútnum. Skammtímatölur eru allar í rétta átt. Í upphafi árs lýsti Christine Lagarde, forstjóri AGS, því yfir að Portúgal væri komið á beinu brautina. Írland er á jákvæðri leið sem allir þekkja. Á Ítalíu er bankakerfið á mun traustari grunni en menn töldu. Traust forysta Marios Monti, fráfarandi forsætisráðherra, hefur komið fjötri á skuldir ítalska ríkisins. Þó hafa mest kaflaskil orðið í Grikklandsfárinu, sem misserum saman var notað til að spá kafsiglingu evrunnar. Annað varð uppi. Föst viðspyrna Grikkja með einbeittri liðsemd Evrópusambandsins leiddi til að fyrir skömmu hækkuðu matsfyrirtæki lánshæfismat Grikklands um heila sex flokka. Nýjasta hagspá Evrópusambandsins undirstrikar þetta með því að spá efnahagsbata á þessu og næsta ári. Duttu svo dauðar lýs úr hári margra þegar Morgunblaðið birti frétt um að nú sæi fyrir endann á erfiðleikum evrusvæðisins. Blaðið hefur þó með aðdáunarverðri reglusemi spáð yfirvofandi andláti evrunnar – ef ekki í þessari viku, þá örugglega hinni næstu.

Evran hefur styrkst

Í kjölfar alþjóðlegu fjármálakreppunnar, sem náði hámarki haustið 2008, stigu aðildarríki Evrópusambandsins harða glímu við margvíslega erfiðleika. Þá mátti að nokkru rekja til inngróinna veikleika í reglu- og stofnanaumgjörð evrusvæðisins. Duldist þó fáum að stór hluti vandans lá í langvarandi agaleysi í opinberum fjármálum ýmissa evruríkja. Evrusvæðið hefur því fyrst og fremst glímt við ríkisfjármála- og bankakreppu í sumum aðildarríkjum. En evruríkin eiga hins vegar ekki við gjaldeyris- eða gjaldmiðilskreppu að stríða.
Þannig hefur evran sem gjaldmiðill haldið styrk sínum á alþjóðlegum gjaldeyrismörkuðum frá því fjármálakreppan skall á og löngu fyrr. Í lok ágúst síðastliðins, löngu eftir að kreppan hófst, var gengi hennar 6,5% hærra en gengi Bandaríkjadals. Það er verulega hærra en þau 4% sem evran hefur að meðaltali verið sterkari en Bandaríkjadalur frá því hún kom í heiminn árið 1999. Frá upphafi evrusamstarfsins hefur Seðlabanka Evrópu jafnframt tekist í meginatriðum að halda verðbólgumarkmiði sínu. Greiðslukerfi evrunnar hefur jafnan verið traust og engin fjármagnshöft þurft á viðskipti með evrur frá því að fjármálakreppan skall á."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Þetta passar allt saman við ESB hjá Össuri.Bönkunum innan ESB skal bjargað ,minna máli skiptir þótt almenningur og skólabörn, til dæmis í Portúgal svelti.Stefna Össurar og ESB sinna á Íslandi hefur verið að hygla íslenskum bönkum í eigu vogunarsjóða, hrægamma , til að þóknast AGS og ESB.Nei við ESB.

Sigurgeir Jónsson, 21.1.2013 kl. 20:37

2 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Þar fyrir utan þá blasir við að útflutningur samanlagðra evru ríkja er í mínus miðað við innflutning.Þar af leiðandi getur ekkert gerst annað en að evran á eftir að falla, eða að kaupgeta almennings á evrusvæðinu verður skorinn niður eins og gert var í Grikklandi.

Sigurgeir Jónsson, 21.1.2013 kl. 20:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband