Leita í fréttum mbl.is

Árni Páll Árnason um "rótarmeinið mikla"

Árni Páll Árnason, alþingismaður, skrifaði grein um gjaldmiðils og efnhagsmál í Fréttablaðið þann 26.janúar og hefst hún með þessum orðum:

"Ísland hefur náð miklum árangri undanfarin ár en við vitum líka að enn er margt óunnið. Horfum til þess vanda sem bíður: Kaupmáttar, skuldastöðu, stöðu lífeyrisþega sem geta ekki aukið tekjur sínar með því að bæta við sig vinnu, húsnæðislausna ungs fólks og þeirrar lykilspurningar af hverju sjálfbær hagvöxtur og fjárfesting lætur á sér standa.

Það merkilega er að ein og sama orsökin bakar allan þennan vanda og kemur í veg fyrir úrlausn hans. Það er eitt og sama rótarmeinið: Hið úrsérgengna hagkerfi krónunnar.

Gengisfelling er arðrán

Gengisfallið árið 2008 rýrði kjör okkar og færði skuldastöðuna í hæðir sem við höfðum aldrei gert ráð fyrir. Gengisfallið var vissulega á sinn hátt aðferð til að ná fram efnahagslegum viðsnúningi sem við höfum síðan notið en það gerði bara eitt: Það lækkaði í einni svipan laun landsmanna. Það er þessi aðferð við efnahagslegan viðsnúning sem forystumenn gömlu kerfisflokkanna – Sjálfstæðisflokksins, Framsóknar og VG – mæra við hvert tækifæri og forsetinn lofsyngur í Davos.

Þessi íslenska aðferð byggir ekki á neinni efnahagssnilli. Hún skapar engin verðmæti. Hún felur bara í sér einfalt gamaldags arðrán. Krónan gerir ráðandi öflum kleift að lækka launin okkar án þess að við fáum rönd við reist. Það er nú öll snilldin.

Áskrift að skuldavanda

Með sama hætti hækkar krónan skuldir okkar. Skuldavandinn er bein og óhjákvæmileg afleiðing krónunnar. Þeir sem ekki vilja skipta um gjaldmiðil eru að biðja um að vera áskrifendur að skuldavanda með reglulegu millibili.

Gengisfallið rýrði kjör lífeyrisþega. Þótt núverandi ríkisstjórn hafi staðið vörð um kaupmátt lífeyrisþega og sett hækkun lægstu bóta í forgang hefur hann samt rýrnað. Það er gömul saga og ný að engir tapa meira á verðbólgu og gengissveiflum en lágtekjufólk og lífeyrisþegar. Það virðist torlærð lexía á Íslandi og í öllu falli virðist forysta kerfisflokkanna ónæm fyrir þeim sannindum."

Í lokin segir Árni: "Í engu öðru þróuðu ríki býr launafólk og verðmætaskapandi fyrirtæki við jafn fullkomna óvissu um verðmæti þess gjaldmiðils sem við fáum greitt í fyrir vinnu okkar og vöru. Þess vegna snýst spurningin um aðild að Evrópusambandinu og upptöku evru um svo allt annað og meira hér á landi en í nokkru nágrannalandanna. Þau búa við gjaldgengan gjaldmiðil en við ekki. Þar er valið milli tveggja kosta sem báðir hafa kost og löst. Hér er valið um gjaldgengan gjaldmiðil – eða ekki.

Rótarmeinið mikla er augljóst. Það mengar og skemmir allt athafnalíf og þjóðlíf, elur á skammtímahugsun og gróðabralli og refsar fólki fyrir sjálfsaga, forsjálni og vinnusemi. Það er þjóðarnauðsyn að uppræta það.

Alþjóðleg samkeppni með krónu er eins og að hlaupa 100 metra hlaup á Ólympíuleikum á vaðstígvélum með 20 kílóa lóð á bakinu. Þess vegna flýja fyrirtækin þetta góða land og fólkið ferðbýr sig. Það er sannkallað kraftaverk hverju íslensk þjóð og samkeppnishæf fyrirtæki hafa áorkað með þessar drápsklyfjar. Hugsið ykkur hvað við gætum ef þessari byrði væri létt af okkur og við nytum sama afkomuöryggis og frjálsborið fólk í öðrum Evrópulöndum.

Þess vegna verðum við að halda áfram opnum þeim leiðum sem vísað geta út."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband