Leita í fréttum mbl.is

Verðtrygging-Verðtrygging-Verðtrygging!

Hvað sem verður í lokahnykk kosningabaráttunnar í vor, er verðtryggingin mál málanna þessa dagana. Kannski ekki nema vona, því svo virðist vera sem landsmenn séu búnir að fá nóg af þessu fyrirbæri, sem í raun var hugsað sem skammtímafyrirbæri, en hefur viðgengist í yfir 30 ár.

Hagfræðingurinn Jón Steinsson skrifar grein um þetta á Eyjunni og segir þar meðal annars:

"Framsóknarmenn vilja afnema verðtryggingu neytendalána. En á sama tíma vilja þeir halda í krónuna. Þeir vilja leiðrétta stökkbreytt lán. En á sama tíma vilja þeir lækka skuldir ríkisins.

Það sem kemur mér helst á óvart er að þeir hafi ekki hreinlega ályktað að þeir vilji eiga kökuna og borða hana líka.

Í Argentínu lofaði Cristina Fernandez, forseti og frambjóðandi Peronista, kjósendum að allir fengju flatskjá ef hún næði kjöri. Það virtist ganga vel í kjósendur þar. Kannski er það næsti leikur hjá framsóknarmönnum.

Það er orðinn fastur liður fyrir Alþingiskosningar að Framsóknarflokkurinn tefli fram kosningaloforðum sem eru „too good to be true.“ Þ.e., hljóma of vel til þess að þau séu í raun skynsamleg þegar allar afleiðingar þeirra eru teknar með í reikninginn.

Í kosningunum árið 2003 bjargaði Framsóknarflokkurinn sér fyrir horn með því að lofa 90% húsnæðislánum og hækkun hámarkslána hjá Íbúðalánasjóði. Þetta gerði hann þrátt fyrir að húsnæðisverð væri þá hærra en það hafði verið árum saman. Hann stóð síðan við þetta kosningaloforð þegar húsnæðisverð var orðið ískyggilega hátt í sögulegu samhengi."

Ólafur Margeirsson, doktorsnemi í hagfræði, skrifar einnig grein um verðtryggingu á Pressunni og segir þar meðal annars: "Nú þegar líður að kosningum er ekki úr vegi að íhuga hvernig eigi að uppfylla eitt af þeim fjölmörgu kosningaloforðum sem á þjóðinni munu dynja næstu mánuði: hvernig á að afnema verðtryggingu á lánum til einstaklinga?

Ég ætla að biðja lesendur um að lesa eftirfarandi með þá staðreynd í huga að ég er ekki lögfróður maður. Sá texti sem ég hér rita verður því að taka með „klípu af salti“ eins og sagt er á engilsaxneskri tungu þegar ég íhuga lögfræðilega möguleika.

Einnig: ég þekki vel rökin um að verðtryggt lán sé einfaldlega frjáls samningur milli tveggja frjálsra aðila – lántaka og lánveitanda – og það sé síst af hinu besta að beinlínis banna slíka samninga. Ég ætla samt að leyfa mér að gera ráð fyrir því hér að slíkir samningar séu bannaðir enda er ég satt best að segja þeirrar skoðunar að það sé þjóðhagslega hagkvæmast að banna verðtryggingu, eins og hún er framkvæmd í dag, í lánum til einstaklinga. Þar að auki er hægt að finna mýmörg dæmi þess að frjálsir samningar milli frjálsra aðila eru bannaðir. Af hverju mega lyfjafyrirtæki til dæmis ekki framleiða og selja hvað sem þau vilja? Ein ástæðan er sú að framleiðendunum er skylt að upplýsa neytandann um hvað hann mun láta ofan í sig og hvaða áhrif það mun hafa (íhugið í framhaldi af þessu stöðuna sem lánveitandi og lántaki verðtryggðs láns eru í)."

Hér er einnig umfjöllun Spegilsins á RÚV um verðtryggingu


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Evrópusamtökin hafa ekki gert neina samþykkt um verðtrygginguna.Skrif þau sem birtast hér á síðu Evrópusamtakanna ber því að líta á sem einkaframtak þess sem það ritar.Innan samtakanna eru framsóknarmenn og margir sem vilja ekki inngöngu íslands í ESB.Þar á meðal undirritaður.Samfylkingin er greinilega orðin skelkuð þegar kosningar nálgast og hreytir þá fúkyrðum í allar áttir.Nei við ESB.

Sigurgeir Jónsson, 12.2.2013 kl. 20:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband