Leita í fréttum mbl.is

Andrés Pétursson um maltnesku fyrirmyndina og Evrópu

Andrés PéturssonAndrés Pétursson, formaður Evrópusamtakanna, skrifaði greín um Evrópumálin í FRBL þann 23.maí og birtist hún hér með leyfi höfundar:

Maltneska fyrirmyndin og Evrópa

Ísland hefur nú gert fríverslunarsamning við Kína og er það af hinu góða. Hins vegar breytir það litlu varðandi þá staðreynd að Evrópumarkaðurinn er og verður langmikilvægasti markaður fyrir íslenskar vörur og þjónustu næstu árin og áratugina.

Það er því mikilvægt að skynsamt fólk í öllum stjórnmálaflokkum láti ekki tímabundna erfiðleika í nokkrum Evrópulöndum blinda sér sýn varðandi stefnumörkum í alþjóðamálum. Það versta sem við gætum gert er að loka Evrópudyrunum og taka upp einhvers konar sjálfsþurftarbúskap í alþjóðasamstarfi.

Einstaka álitsgjafar hafa líka haldið því fram að með hinum nýja fríverslunarsamningi við Kína og auknum áhrifum annnarra Asíulanda í heimsviðskiptum þá eigum við Íslendingar að snúa okkur í ríkari mæli austur á bóginn í leit að bandamönnum. Ekki er ég á móti því að eiga í viðskiptum við sem flest lönd en gleymum því aldrei að Kína er gamalt heimsveldi og ætlar sér stóra hluti á komandi áratugum.

Það er því mikilvægt að stíga varlega til jarðar í samskiptum við risann í austri og gott að eiga góða og öfluga bandamenn í Evrópu. Langtímahugsun Maltverjar hafa tekið mjög skynsamlega á þessu máli. Þeir gengu í Evrópusambandið árið 2004 en hafa á sama tíma stóreflt samskipti sín við Kína.

Á þessum tæpu tíu árum hafa Kínverjar sexfaldað beina fjárfestingu í landinu og kínverskar viðskiptasendinefndir koma reglulega til landsins. Í máli Joe Borge, fyrrum utanríkisráðherra Möltu, sem kom hingað til lands fyrir rúmum tveimur árum, kom fram að Kínverjar hafa sexfaldað beina fjárfestingu (FDI) í landinu og að ferðir kínverskra viðskiptasendinefnda til Möltu hafa margfaldast.

Ástæðuna telur Borg meðal annars vera að Maltverjar hafa leitt nefnd Evrópuþingsins sem sér um samskiptin við Kína.

Því sjái Kínverjar sér hag í því að rækta tengsl sín við Möltu. Í nýlegri grein í The Malta Independent, sem er eitt helsta dagblað Möltu, kemur fram að þrátt fyrir efnahagsörðugleikana í heiminum á undanförnum misserum hafa Kínverjar og Maltverjar aukið viðskipti sín á milli um 25% undanfarin þrjú ár.

Í því sambandi er vert að geta þess að yfirvöld á Möltu hafa haldið vel á sínum málum varðandi evruna og því hafa eyjarskeggjar ekki lent í sömu hremmingum og nágrannar þeirra í Grikklandi og á Kýpur. Á þessu sést að með skynsamlegri efnahagsstefnu og langtímahugsun í alþjóðamálum er hægt að sameina kosti þess að ganga í Evrópusambandið og á sama tíma rækta samband sitt við hin nýju efnahagsstórveldi í Asíu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Snorri Hansson

Það sem formaður UKIP,sagði á Evrópuþinginu 2010

er sígilt og óendanlega skynsamlegt.

Skylduskoðun bæði andstæðinga aðildar og aðildarsinna.

http://www.youtube.com/watch?v=HeMRhzbv9dw

Snorri Hansson, 24.5.2013 kl. 02:19

Snorri Hansson, 24.5.2013 kl. 02:25

2 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Fjárfestingar Kínverja á Möltu byggast á því að kaupa þar upp verslanir, hótel og veitingastaði.Þessi viðskipti byggast á fátækt möltubúa og eymd þeirra innan ESB.Þessi uppkaup Kínverja færa möltubúum engin auðævi, því miður.Við skulum vona að Ísland lendi aldrei í þeirri aðstöðu sem Malta er í.Andrés Pétursson er á kolrangri leið eins og jafnan áður.Nei við ESB.

Sigurgeir Jónsson, 24.5.2013 kl. 21:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband