Leita í fréttum mbl.is

Tjónið af hruni krónunnar (Úr glerhúsinu í VBL)

Hér er að finna stórfína grein eftir Sigurð Má Jónsson, aðstoðarritstjóra Viðskiptablaðsins frá 30. apríl. Birt með góðfúslegu leyfi höfundar. 


SMJEf krónan er bara mælitæki, hvers vegna er þá svona mikið rifist um hana? Ekki er að sjá að önnur mælitæki kalli á jafn heitar umræður og væri þó sjálfsagt tækifæri til þess fyrir þrasgjarna þjóð. Því er freistandi að halda að krónan sé annað og meira en bara mælikvarði á hagstjórn eða hitamælir hagkerfisins eins og sumir vilja segja. Hugsanlega er hún tákn um sjálfstæði okkar og getu til að lifa í þessu landi þar sem við þurfum að takast á við hagsveiflur rétt eins og öldur sem brotna á ströndum landsins.
 
Það sýndi sig hins vegar að krónan var ekki tilbúin í þann leik sem við buðum henni uppá, svo sem skortsölu og skefjalausa spákaupmennsku. Þá var krónan eins og lítil skekta á stórsjó á meðan öruggari myntir sigldu framhjá enda kom á daginn að enginn treysti sér til að styðja við hana. Krónan hefur alltaf verið til merkis um sjálfstæði þjóðarinnar þótt enn megi deila um þá ákvörðun að kasta dönsku krónunni og taka upp þá íslensku á sínum tíma. Engin leið er að segja til um hvernig þróunin hefði orðið hér á landi ef það hefði ekki verið gert. En við sitjum uppi með íslensku krónuna og munum sjálfsagt gera það næstu árin, hvort sem okkur líkar það vel eða illa.
 
Tjónið vegna hruns krónunnar er af öðrum ástæðum og miklu meira en tjónið sem hlaust af falli bankanna. Það kemur meðal annars fram í verðbólgu, hækkandi verðlagi, verðtryggðum lánum og miklum hækkunum á erlendum skuldum fyrirtækja, ríkis, sveitarfélaga og einstaklinga. Sömuleiðis birtist það í háum vöxtum innanlands og erfiðleikum íslenskra fyrirtækja erlendis þar sem gjaldmiðillinn er jafn forsmáður og Jón Hreggviðsson forðum.
 
Þetta mikla tjón sem hefur orðið vegna falls gjaldmiðils okkar nemur hundruðum ef ekki þúsundum milljarða króna og hefur leitt af sér mestu eignaupptöku og gjaldþrotahrinu Íslandsögunnar. Krónufallið er meginástæðan fyrir greiðsluerfiðleikum og gjaldþrotum fyrirtækja og einstaklinga, samhliða vaxandi atvinnuleysi sem ógnar hratt nýju bankakerfi.
 
Þess vegna er tjón Íslands núna svo miklu meira en við sjáum í nokkru öðru landi sem glímir við afleiðingar heimskreppunnar. Þetta má glöggt sjá með því að bera saman tjón almennings og fyrirtækja á Íslandi og í öðrum löndum innan evrunnar – en þar er ekkert sambærilegt tjón að finna. Kreppan þar er fyrst og fremst vegna samdráttar og atvinnuleysis. Færa má rök fyrir því að tjónið vegna gjaldmiðilsins sé nálægt 70% - 80% af heildartjóninu hér á landi.  Og það er skaði sem heldur áfram að vaxa og ógnar nú allri framtíð heimila og atvinnulífs hér á landi sem þurfa að berjast áfram með ónýtan gjaldmiðil og lokun á erlendum fjármálamörkuðum. Um leið kemur það í veg fyrir að súrefni berist til atvinnulífsins og tefur þar með fyrir endurreisninni.   

Einnig að finna á www.evropa.is


 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband