Leita í fréttum mbl.is

Utanríkisráðherra Litháen í viðtali við MBL

Fyrir skömmu birtist þetta viðtal í MBL:  

Ísland verði hluti samstillts hóps Eystrasaltsins og Norðurlandanna

Utanríkisráðherra Litháens vill fá Ísland í ESB. Litháar stefna ótrauðir á upptöku evrunnar

Vygaudas Usackas „Fyrstu árin fóru í að læra. Síðan kemur skilningurinn á því hvernig hlutirnir ganga fyrir sig. Það er ekki hægt að segja þvert nei í samstarfinu og ganga á dyr.“
Vygaudas Usackas „Fyrstu árin fóru í að læra. Síðan kemur skilningurinn á því hvernig hlutirnir ganga fyrir sig. Það er ekki hægt að segja þvert nei í samstarfinu og ganga á dyr.“
„ÞAÐ er okkur gleðiefni að Ísland skuli hafa lagt fram aðildarumsókn að Evrópusambandinu því með ykkur kæmi ný rödd og fleiri atkvæði sem myndi stuðla að því að enn betur yrði hlustað á aðildarríkin í norðurhluta álfunnar,“ segir Vygaudas Usackas, utanríkisráðherra Litháens, sem varð um helgina að þeirri ósk sinni að verða fyrsti erlendi utanríkisráðherrann til að sækja íslensk stjórnvöld heim eftir að umsóknin var lögð fram.

– Litas, gjaldmiðill ykkar, er tengdur við evruna. Hversu raunhæf er áætlun ykkar um upptöku evru snemma á næsta áratug?

„Það markmið okkar stendur. Við glímum við mikla niðursveiflu og þá áskorun að koma böndum á fjárlagahallann í samræmi við Maastricht-skilyrðin í gjaldeyrisferlinu. Hvort það tekst mun tíminn leiða í ljós. Það ríkir samkomulag um það á milli stjórnvalda og verkalýðsfélaga að leita leiða til að afla tekna með sköttum og niðurskurði í útgjöldum með lækkun launa hjá opinberum starfsmönnum, sem er því meiri sem launin eru hærri.“

– Hefur borið á gagnrýni á ósveigjanleika evrunnar sem gjaldmiðils?

„Já, en meirihluti sérfræðinga í efnahagsmálum álítur kostina fleiri en gallana.“

– Hvernig mælist stuðningurinn við ESB?

„Hann er með því mesta í sambandinu. Eftir því sem ég best veit er hann um 70%.“

 

Sögulegt tækifæri

– Hver voru rökin fyrir aðild Litháens?

„Þetta var sögulegt tækifæri fyrir okkur til að sameinast Evrópu og evrópskum stofnunum. Annað atriði er að fyrir lítið ríki – íbúafjöldi Litháens er aðeins um 3,5 milljónir – veitti þetta einstakt tækifæri til að fá aðgang að markaði með um hálfan milljarð neytenda.

Hagkerfið er drifið áfram af útflutningi og fjórfrelsið sem í aðildinni fólst, fyrir vörur, þjónustu, fólk og fjármagn, var okkur því afar mikilvægt. Samanlagt hefur þetta vegið þungt í hagkerfi landsins á síðustu 5 til 7 árum, þegar hagvöxtur hefur verið á bilinu 7 til 9%.“

– Hvaða efnahagsáhrif hefur aðildin haft?

„Árið 1998, nokkrum árum fyrir inngöngu, reiddi hagkerfið sig mjög á viðskipti við Rússlandsmarkað og við nágrannaríki á borð við Finnland og Pólland. Um og yfir 80% útflutningsins fóru til Rússlands, Úkraínu, Kasakstans og annarra ríkja í heimshlutanum. Nú þegar við erum orðið aðildarríki ESB er vægi einstakra ríkja í útflutningnum dreifðara.“

Ráðherrann hugsar sig um og segir svo annan orsakavald í uppgangi síðustu ára liggja í styrkjum frá sambandinu, þar með töldum svæðisbundnum styrkjum úr sameiginlegu landbúnaðaráætluninni (CAP), sem alls hafi numið um tveimur milljörðum evra í fyrra.

 

Hundruð milljarða í sambandsstyrki

– Þú minntist á hraðan vöxt hagkerfisins á undangengnum árum. Er samstaða um það í Litháen að hann hafi verið drifinn áfram og e.t.v. ofhitnað vegna aðgengis að ódýru lánsfé?

„Við erum þátttakendur í alþjóðahagkerfinu. Útlán banka eiga þátt í niðursveiflunni.“

– Eru því uppi kröfur um nýtt regluverk?

„Vissulega. Við leggjum höfuðáherslu á þrennt á meðan Svíar gegna formennsku í sambandinu til áramóta. Fyrst ber að nefna orkuöryggi. Í öðru lagi er það regluverkið um markaðina sem er brýnt að verði tekið til endurskoðunar en þar hafa Svíar beitt sér mjög. Þriðja atriðið varðar undirbúning vegna loftslagsráðstefnunnar í Kaupmannahöfn í desember. Þar ríður á að samhæfa stefnuna.“

– Gætirðu sagt frá samstarfi Eystrasaltsríkjanna þriggja í aðildarferlinu?

„Ég fór fyrir litháísku samninganefndinni. Við vorum í hópi 10 ríkja sem var boðin innganga á mismunandi tíma. Eistar, svo dæmi sé tekið, fengu boð um aðildarviðræður á undan okkur og Lettum. Boðið til Eista var jákvæð ögrun sem hvatti okkur til að setja markið hærra, hraða nauðsynlegri lagasetningu og koma á þeim umbótum sem krafa er gerð um af hálfu sambandsins í aðdraganda aðildar. Við enduðum á því að ganga í sambandið á sama tíma, 1. maí 2004, og má óhikað fullyrða að samkeppnin hafi verið heilbrigð og til góða. Hitt er annað mál að þegar kemur að uppbyggingu innviða, svo sem vega og lestakerfis, standa ríkin þrjú þétt að hvort öðru.“

– Hversu vel hefur Litháum gengið í ESB?

„Ég skal játa að fyrstu árin fóru í að læra. Síðan kemur skilningurinn á því hvernig hlutirnir ganga fyrir sig. Það er ekki hægt að segja þvert nei í samstarfinu og ganga á dyr. Fegurð sambandsins felst í þeirri margbreytni ólíkra ríkja og menningarsvæða sem það stendur fyrir þar sem málamiðlun gildir.“

Í hnotskurn
» Þegar Usackas hóf störf í Brussel árið 1992 var hann eini starfsmaður litháísku utanríkisþjónustunnar þar, að frátöldum yfirmanninum sem dvaldi í borginni frá þriðjudegi til föstudags.
» Nú áætlar hann að Litháar hafi um 60 manna starfslið í Brussel þar sem finna megi fulltrúa nær allra ráðuneyta stjórnvalda í Vilnius.
» Í nýlegri skýrslu samtakanna Open Society er því haldið fram að Eystrasaltsríkin telji rödd sína ekki heyrast nógu vel í Brussel.
» Spurður um þessa greiningu bendir Usackas á að ríki, þar með talin Eystrasaltsríkin, séu sterkari í samstarfinu í sameiningu.
» Hann sé ósammála því að ekki sé hlustað á rödd ríkjanna, sem geti beitt hópefli í málafylgju sinni.

Ótti við uppkaup á landi

Inntur eftir því hvaða undanþágur Litháar hafi fengið í aðildarsamningnum hugsar Usackas, sem fór fyrir samningagerðinni, sig um og rifjar svo upp að borið hafi á rangfærslum og ýkjum í tengslum við samninginn og ákvæði hans. Meðal annars hafi verið reynt að sá fræjum ótta um að Danir og Þjóðverjar myndu kaupa upp landbúnaðarland í Litháen í stórum stíl.

„Við fengum undanþágur frá þessu en féllum síðan frá þeim eftir að í ljós kom að þær reyndust óþarfar og að ef eitthvað er væri æskilegt að laða að erlent fjármagn. Svo fór lítið fyrir Dönum og Þjóðverjum.“

Hvað snerti aðrar undanþágur hafi þær m.a. varðað samning um niðurrif kjarnorkuvers og ferðarétt fólks sem er búsett í Kalíngrad, rússnesku yfirráðasvæði vestan Litháens sem á land að Eystrasaltinu.

Aðspurður um sérsvið Litháa innan ESB segir Usackas landið búa að mikilli reynslu af samskiptum austurs og vesturs og hafi það fram yfir hin Eystrasaltsríkin að eiga ekki í jafn spennuþrungnu sambandi við Rússa."

Heimild: MBL


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Ánægjulegt að Mbl.is geri loks þessa síðu sýnilega á forsíðu bloggsins  eftir að Heimsýn hefur eitt riðið þar húsum árum saman.

Hvet menn til að vera duglega við skriftir með skýrri og skilmerkilegri framsetningu til að leggja til efnivið svo hægt sé eftir föngum að leiðrétta staðhæfingar og efnisatriði ófræingar- og hræðsluáróðurins sem Evrópuandstæðingar hafa verið ófeimnir við að sturta yfir landslýð.

Helgi Jóhann Hauksson, 29.7.2009 kl. 01:28

2 Smámynd: Jóhann Pétur Pétursson

Haugalygi. Umræðan um Evrópusambandið hefur verið algjörlega einsleit. Evrópusambandið hefur enga galla hefur verið viðkvæðið hingað til. Skiptir engu þó að áhrif smáþjóða séu engin, engar varanlegar undanþágur frá sameiginlegri nýtingu fiskistofna fáist. Evrópusambandið er samt fyrirheitna landið óháð göllum ESB.

Jóhann Pétur Pétursson, 29.7.2009 kl. 11:52

3 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Já, mjög gott að síðan sé komin á flaggstatus.

Taka ber eftir áhyggjum Litháa um að danir og þjóðverjar keyptu allt landið upp.

Hljómar kunnuglega.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 29.7.2009 kl. 12:42

4 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Ísland og Litháen eiga ámóta mikið sameigilegt og þoskur og Múlasni. Hagsmunir þessara landa fara einfaldlega ekki saman og því munu sameiginleg áhrif Íslands og Litháenn ekki ver nein í sambandinu. það er að seigja Ísland og Litháen verða andstæðingar innan sambandsins í flestum málum. Öðru máli gildir hinsvegar um ímis önnur lönd sambansins eins til dæmis Íra.

Og þá spyr maður sig hefur þessi maður humynd um hvað hann er að tala ?

Guðmundur Jónsson, 29.7.2009 kl. 13:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband