Leita í fréttum mbl.is

Hagur neytenda batnar við ESB-aðild

ESBFram kom í fréttum í dag að á sviði neytendamála erum við Íslendingar aftarlega á merinni, miðað við aðrar Evrópuþjóðir. Þó hefur mikið áunnist. Í framhaldi af þessu er vert að minna á skýrslu sem Háskólinn á Bifröst gaf út í fyrra. Skýrslan er unnin af Eiríki Bergmann og Evu H. Önnudóttur. Hún heitir einfaldlega Hverju myndi ESB aðild breyta fyrir íslenska neytendur?

Í henni kemur fram að hagur neytenda (les: almennings) myndi líklega stórbatna við aðild að ESB,matarverð myndi að öllum líkindum lækka um allt að 25%, mestmegnis vegna niðurfellinga tolla.

Orðrétt segir í skýrslunni: ,,Ef Ísland gengi alla leið í myntbandalag ESB má gera ráð fyrir að vextir á húsnæðislánum myndu lækka töluvert, en erfitt er að spá fyrir um hve mikil lækkunin yrði. Ástæðan fyrir því er sú að dregið hefur saman með vöxtum á húsnæðislánum í þeim ríkjum sem tekið hafa
upp evruna en vextir á Íslandi er hærri en víðast í Evrópu. Fyrir almenning munar hér verulega um hvert prósentustig sérstaklega fyrir þá sem eru að festa sér kaup á húsnæði í fyrsta sinn. Þar fyrir utan myndi aðild að ESB og myntbandalagi ESB lækka viðskiptakostnað og auka viðskipti og fjárfestingar erlendra aðila á Íslandi."

Öll skýrslan


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fullyrðingin um að hagur almennings (neytenda) muni batna stórlega við inngöngu í ESB og með upptöku Evru er stórlega ýkt. Fljótt á litið (hef ekki lesið skýrsluna) get ég ekki betur séð en að ekki sé tekið inn í myndina áhrif verðbólgu sem mun eftir sem áður hafa neikvæð áhrif á verðbætur íslenskra húsnæðislána.

Vextir eru efnahagsstjórntæki og háir vextir undanfarin ár á Íslandi voru til þess að slá á þenslu (þó svo það hafi ekki tekist að fullu, en aðrar ástæður liggja þar að baki sem ég ætla ekki að fara í nú). 

Lágt vaxtastig í Evrópu er tilkomið vegna lítillar þenslu á því svæði. Ef Ísland tekur upp Evru þá mun sama efnahagsstjórnin gilda fyrir allt Evrusvæðið. Þegar Ísland lendir í þenslu að nýju (sem mun gerast reglulega) þá munum við ekki lengur hafa völd yfir vöxtum sem stjórntæki sem þýðir að ekki verður hægt að slá á þensluna.

Þenslan mun verða til þess að verðbólga fer á fullt á Íslandi og vegna þess að ekki er hægt að slá á hana mun hún enda í óðaverðbólgu sem mun flæða inn í Íslensk íbúðarlán og gera það að verkum að lánin hækka og á endanum mun fólk missa íbúðarhúsnæði sitt í umvörpum.

Þetta kalla ég ekki að bæta hag almennings og mér finnst það ábyrgðarleysi af evrusinnum að taka ekki meira mark á þeirri staðreynd að verðbólga verður ekki leyst með upptölu Evru og að neikvæð áhrif verðbólgu á Íslenskt Evru hagkerfi getur orðið til þess að almenningur tapi stærstu eignum sínum, þ.e. húsnæðinu.

Að lokum vil ég benda á að Jóseph Siglitz, nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, er á móti því að Ísland taki upp Evru vegna þess að efnahagur landsins og Evrópulandanna er ekki sambærilegur og þess vegna þurfum við að beita öðrum efnahagsaðgerðum hér en þar (þ.e. að samdráttur getur komið upp í Þýskalandi sem gerir það að verkum að Seðlabanki Evrópu beitir aðferðum til að örva hagkerfið, en á meðan getur verið þensla hér sem ýkist um allan helming við aðgerðir Seðlabanka Evrópu).

Magnús B Jóhannesson (IP-tala skráð) 11.9.2009 kl. 21:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband