Leita í fréttum mbl.is

Sagði Adolf eitthvað sem mátti ekki?

adolfAdolf Guðmundsson, formaður LÍÚ, sér ástæðu til að senda frá sér fréttatilkynningu eftir viðtal á Rás-2, í gær, sem vakið hefur mikla athygli. Þar sagði Adolf það ekki vera raunhæft að draga ESB-umsóknina til baka og að stefna bæri að ná eins góðum samningi í sjávarútvegsmálum, eins og hægt er.

Þetta hleypti illu blóði í ýmsa stjórnarmenn í LÍÚ.

En Adolf hefur sent þetta frá sér og er m.a. að finna á vef LÍÚ.

"Að gefnu tilefni vill undirritaður árétta að engin breyting hefur orðið á afstöðu LÍÚ til aðildar að Evrópusambandinu. Ummæli mín undir lok viðtals í síðdegisþætti á Rás 2 í sl. miðvikudag voru í fréttum RÚV síðar þann sama dag af einhverri ástæðu slitin úr samhengi við annað sem ég hafði sagt fyrr í þættinum.

LÍÚ hefur um árabil lýst þeirri afstöðu samtakanna að Ísland eigi ekki erindi inn í Evrópusambandið. Ríkisstjórn Íslands sótti hins vegar um aðild að ESB þvert á vilja meirihluta þjóðarinnar. Ég lýsti því í viðtalinu að ég teldi óraunhæft að reikna með því að umsóknin yrði dregin til baka og átti þá við að ég sé engin merki þess að ríkisstjórnin geri það, sem þó væri auðvitað hið eina rétta í málinu. Í ljósi þess bæri okkur skylda til þess - eins og ávallt þegar hagsmunir Íslands eru í húfi - að ná eins góðum samingum fyrir Íslands hönd og kostur væri.

Ég tel að það komi strax í ljós í aðildarviðræðunum, að það eru engin líkindi til þess að við náum viðunandi samningi fyrir Íslands hönd eins og ég lýsti í viðtalinu."


Þá er það spurningin: Sagði Adolf eitthvað sem mátti ekki segja? 


Ungir Evrópusinnar senda Ísafold opið bréf

Ungir Evrópusinnar hafa sent Ísafold, sem eru samtök gegn ESB, bréf vegna bréfs hinna síðarnefndu til þingmanna Íslands.

Það byrjar svona: " Eftir að við lásum bréf ykkar, sem stílað er á hæstvirtan forseta Alþingis og háttvirta Alþingismenn, þar sem þið hvetjið þingmenn til þess að samþykkja þingsályktunartillögu þess efnis að draga umsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka og gefið fyrir því tvær ástæður hvers vegna þið styðjið slíka tillögu, langar okkur að benda ykkur á nokkra hluti.

Þið segið í bréfinu að þær forsendur sem leiddu til aðildarumsóknar Íslands að ESB, að Evrópusambandsaðild og upptaka evrunnar myndu flýta fyrir efnahagsbata hins íslenska hagkerfis, séu brostnar. Það verður að teljast einstakt í sögunni að tólf frjáls og fullvalda ríki kasti af sjálfsdáðum eigin gjaldmiðli og taki í staðinn upp sameiginlega mynt, mynt sem í dag er orðinn einn útbreiddasti gjaldmiðill í heimi og hátt í þrjátíu ríki nota. Gengi evrunnar hefur sveiflast töluvert gagnvart Bandaríkjadal og á fyrstu árum féll til dæmis gengi hennar verulega en styrktist svo að nýju. Það stöðvaði hins vegar ekki ný ríki í því að taka upp Evruna sem og íslensk fyrirtæki, til dæmis útgerðarfyrirtæki, í að stunda sín viðskipti í Evrum. Það er því fullsnemmt að dæma evruna til dauða."


Allt bréfið 


Verða Íslendingar fyllibyttur í boði ESB?

Ögmundur JónassonÖgmundur Jónasson, þingmaður(!) fer mikinn í Morgunblaðinu í dag, í grein sem næstum vekur upp gæsahúð, þannig er andinn í henni. Segja má að hún falli í flokk þeirra greina sem styðja við hina svokölluðu "Hrægammakenningu" þ.e. að ESB vilji sölsa undir sig allt verðmætt hér við land.

Ögmundur skrifar m.a.: "Ef Ísland sameinast Evrópusambandinu fjölgar íbúum um 0,07 prósent. Yfirráðasvæði sambandsins stækkar um tæp 10 prósent og áhrifasvæði (eftirlits- og björgunarsvæði) um 20 prósent. Það er ekki að undra að herskáir Evrópusinnar líti hýru auga til Festung Island, Virkisins í norðri. Áhrifasvæðið færi úr ca 10 milljónum ferkílómetra í 12 milljónir ferkílómeta. Koma aðrir jafn færandi hendi? Halda menn að þessum 0,07 prósentum muni verða treyst fyrir stjórn og eftirliti á 20% Evrópu? Að sjálfsögðu ekki. En ekki mun standa á styrkveitingum – svona rétt á meðan verið er að tala okkur til. Hið sama gæti hent okkur og indíána Norður-Ameríku. Þeir töpuðu landinu en sátu uppi með glerperlur og eldvatn." (Leturbreyting, ES-blogg)

 Hann notar s.s. sér til stuðnings eitt ógeðfelldasta dæmið úr amerískri sögu, þ.e.a.s. meðferð hvíta mannsins á indíánum.

Og gefur þar með í skyn að meðferð ESB á Íslendingum verði svipuð. Og ekki nóg með það, heldur er ESB líka ein allsherjar peningadæla, sem notar fé sitt til að "kaupa" lönd inn í sambandið!

Þetta er makalaus málflutningur og í raun eitt það versta sem sett hefur verið á pappír í ESB-umræðunni lengi.

Ögmundur virðist hafa orðið öfgunum að bráð, talar um "stórríki", "innlimun", "við gegn þeim" og segir að ESB sé að tala niður til okkar, svo eitthvað sé nefnt.

Ögmundur ætti að vita betur; ESB rænir t.d. ekki auðlindum af aðildarþjóðum, hefur ekki innlimað eitt einasta landa og ekki borgað með búsi!

Það mun verða íslenska þjóðin sem greiðir atkvæði um það á endanum, hvort við göngum í ESB eða ekki! Þegar aðildarsamningur liggur fyrir!

Stundum verður maður kjaftstopp, grein Ögmundar er í þeim flokknum!

Vonandi er botninum náð hjá Ögmundi með þessari ótrúlegu grein! 

Okkur hjá Evrópusamtökunum er spurn eftir lesturinn á greininni:

Verða Íslendingar fyllibyttur í boði ESB? 

 


Er ESB skrifræðisbákn?

Gunnar Hólmsteinn ÁrsælssonGunnar Hólmsteinn Ársælsson, stjórnarmaður í Evrópusamtökunum, skrifar grein í Fréttablaðið í gær og spyr ER ESB SKRIFRÆÐISBÁKN?

Hann skrifar m.a: " Þegar rætt er um ESB hafa andstæðingar þess mjög gaman af því að halda uppi allskyns goðsögnum um sambandið og starfsemi þess.

Ein slík er að ESB sé stórkostlegt skrifræðisbákn og pappírsskrímsli. En lítum á nokkrar staðreyndir: Aðildarríki ESB eru 27 að tölu og telur sambandið um 500 milljónir manna. Hjá því starfa um 50.000 manns, sem er um það bil 0,0001% af íbúafjölda álfunnar.

Á vefsíðu Evrópusamtakanna er einmitt fjallað um þetta og þar segir eftirfarandi:

"Er ESB ekki bara skrifræðisbákn? Starfsfólk ESB er um 50.000 manns, íbúar ESB eru um 500 milljónir. Yfirfært á Ísland myndi þetta þýða um 30 manna starfslið, eða álíka og þeir sem vinna hjá embætti sýslumannsins í Hafnarfirði."

En hvernig lítur þetta út í öðrum löndum? Tökum dæmi til samanburðar frá Bandaríkjunum, en margir helstu Nei-sinnar eru mjög hallir undir aukin samskipti einmitt í þá áttina. Nægir þar að nefna t.d. menn á borð við Björn Bjarnason, fyrrum dómsmálaráðherra og Styrmi Gunnarsson, fyrrum ritstjóra Morgunblaðsins."

Öll greinin 


EU-27 skýrsla komin út

Evrópusamtökin vekja athygli á útkomu skýrslu EU-27 Watch númer 9 en í skýrslunni er að finna framlag Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands um Evrópuumræðuna hérlendis.

Hér að neðan er útskýrt hvaða umfjöllunarefni voru tekin fyrir að þessu sinni og veittar upplýsingar um nýja vefsíðu þar sem má nálgast skýrsluna alla. 

EU-27 Watch No. 9 / EU-27Watch.org released

The latest edition of the EU-27 Watch is available free of charge at www.eu-27Watch.org. In this edition, experts on European integration from the 27 member states and 4 candidate countries disclose the Euro-political discourse relevant to their respective countries in English.

Topics of the ninth edition include:

the implementation of the Lisbon Treaty;
the European Neighbourhood Policy and enlargement;
European economic policy and the financial crisis;
European climate and energy policy.

The EU-27 Watch has provided concise depictions of the prevailing European debates for the past 6 years. Through use of the footnotes, further English sources can be found on country specific issues.

The new platform, www.eu-27Watch.org, presents the reader enhanced access to the texts. Reports are sorted by country or by question, presenting the reader quicker access to information. The timeline gives an overview of the European political environment since 2004.

www.eu-27Watch.org 

 


Það er 2010!

fish_Atlantic_codMagnað er að heyra hvað menn geta verið fastir í sögunni! Það á svo sannarlega við um ESB-málið, þ.e.a.s þá staðreynd að Nei-sinnar eru sífellt að tönnlast á því hvað Norðmenn hafi fengið rotinn samning í sjávarútvegsmálum. Menn deilir hinsvegar um hvort það hafi verið raunin.

Norðmenn voru að semja í upphafi níunda áratugarins, á síðustu öld (c.a. 1990, í tölum). En nú er 2010! 

Það eru allt aðrir hlutir i gangi núna, hlutirnir standa bara ekki ekki í stað! Samningur Norðmanna er ekki einhver algildur FASTI sem sífellt er hægt að vísa til.

Þetta sýnir einnig mikla örvæntingu NEI-sinna, sem eru einfaldlega á nálum yfir því að Ísland geti fengið góðan samning. Það er s.k. "worst-case-scenario" Nei-sinna, versta mögulega útkoma.

Það eru nefnilega mjög margir sem geta hugsað sér aðild, náist góður samningur um sjávarútvegsmál.

Eða um 71%, samkvæmt könnun, sem Morgunblaðið birti ekki!

Hér má hlusta á Jón Steindór og Adolf Guðmundsson ræða ESB og sjávarútveginn.

 


Æpandi þögn Morgunblaðsins

MBLHún er æpandi, þögn Morgunblaðsins um þau ummæli Adolfs Guðmundssonar, formanns LÍÚ í gær að óraunhæft sé að draga umsókn Íslands að ESB til baka.

Ekki hefur verið birtur stafkrókur í blaðinu um þetta. Núll viðbrögð!

Þess í stað velur Morgunblaðið að birta um miðjan dag yfirlýsingu frá einhverjum samtökum sem kalla sig Ísafold, þar sem hvatt er til þess að umsóknin verði dregin til baka. Nokkuð sem er ekkert nýtt, hefur núll fréttagildi.

Þetta er mjög fyndið, það verður að segjast eins og er. 

Svo hefur verið reynt að láta það í veðri vaka að þetta sé nú bara skoðun Adolfs. Evrópusamtökunum þykir það afar ólíklegt.

Við minnum á það í þessu samhengi að flestöll stærstu útgerðarfyrirtæki landsins eru farin að gera upp í Evrum.

Þá má nánast fullyrða að í aðild felist tækifæri fyrir útgerðarfyrirtæki Íslands, með auknu samstarfi við sjávarútvegsaðila í Evrópu.

 


Nei-sinnar fá á lúðurinn frá LÍÚ

Einn á'ann!Um daginn kom hingað "MEP-inn" Daniel Hannan, þingmaður Evrópuþingsins í boði Nei-sinna. Hann skvetti framan í þá kaldri vatnsgusu. Hann sagði nefnilega að Ísland ætti að klára aðildarferlið!

Nei-sinnar fengu svo einn á'ann í dag, þegar Adolf Guðmundsson, formaður LÍÚ, sagði á Rás 2 að það væri ekki raunhæft að draga umsóknina að ESB til baka.

Þetta hefur vakið mikil viðbrögð og menn eru að bíða eftir því hvað Mogginn segi. En þegar þetta er skrifað hefur ekki heyrst hósti né stuna úr Hádegismóum.

 


Adolf Guðmundsson (LÍÚ): Ekki raunhæft að draga ESB-umsókn til baka - Eyjan: Viðsnúningur LÍÚ

Adolf GuðmundssonÞeir Jón Steindór Valdimarsson (sjá færslu frá því fyrr í dag) og Adolf Guðmundsson (mynd), formaður LÍÚ, mættust á Rás 2 síðdegis og ræddu ESB-málin.

Út frá grein þess fyrrnefnda, sem birtist í Fréttablaðinu í dag.

Ekki skulu umræðurnar raktar hér í smáatriðum, en þær voru málefnalegar.

Það sem vakti hinsvegar athygli ritara var sú skoðun Adolfs að EKKI ætti að draga umsókn Íslands að ESB til baka. Það væri ekki RAUNHÆFT. Þetta hlýtur því að vera opinber stefna LÍÚ. Adolf sagði það einnig mikilvægt að fá eins góðan samning fyrir Ísland og mögulegt væri.

Varla er hægt að vera meira sammála Adolfi!

LÍÚ vill því láta lýðræðið (og samningsferlið) hafa sinn gang og það verður að teljast skynsamleg afstaða LÍÚ. Athyglisvert er að Adolf notar ekki hugtakið "aðlögunarferli."

Afstaða LÍÚ er því algerlega andstæð stefnu Bændasamtakanna, sem ekki vilja taka þátt í ferlinu og neita að ræða ESB-málið.

Eyjan birtir frétt um málið og telur þetta vera viðsnúning LÍÚ í málinu. Lesa hér

Frétt RÚV um sama 

(Athyglisvert er að vefur Morgunblaðsins hafði ekki birt frétt um málið kl. 20.15.)

 

 

 

 


Jón Steindór um sjávarútvegsmál

Jón Steindór ValdimarssonJón Steindór Valdimarsson, skrifar grein í Fréttablaðið í dag um ESB-Ísland og sjávarútvegsmál. Grein hans hefst svona:

" Fiskveiðistefna ESB er til endurskoðunar. Hún er langt frá því að vera fullkomin og skilar ekki þeim árangri sem henni er ætlað. Þess vegna er hún til endurskoðunar og þar takast á margvíslegir hagsmunir innan einstakra aðildarríkja og einnig á milli þeirra. Hér koma að borði 27 ríki, sum með verulega hagsmuni af fiskveiðum, önnur alls enga. Öllum er ljóst að grípa þarf til róttækra ráðstafana til þess að byggja upp fiskistofna og gera útgerð og fiskvinnslu að arðbærum atvinnugreinum.

Stjórn fiskveiða á Íslandi og úthlutun aflaheimilda hefur verið sífellt þrætuepli frá því að byrjað var að stjórna veiðum hér við land með markvissum hætti. Engin sátt ríkir um kerfið og sitja Íslendingar þó einir að sínum fiskimiðum og þurfa ekkert tillit að taka til annarra þjóða þegar rætt er nýtingu þeirra. Þetta er ágætt að hafa í huga þegar rætt er um sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins og erfiðleika við endurskoðun hennar. "

Í lokin talar Jón um regluna um "hlutfallslegan stöðugleika" og segir:

"Niðurstaðan af því sem að framan er rakið er sú að ekkert gefur til kynna að reglan verði ekki áfram hornsteinn sjávarútvegsstefnu ESB. Líklegt er að gerðar verði breytingar á útfærslu hennar svo hún þjóni betur settum markmiðum. Þetta má ráða m.a. af umsögn Evrópuþingsins frá 25. febrúar 2010 og nú síðast af sameiginlegri yfirlýsingu Póllands, Þýskalands og Frakklands um hlutfallslegan stöðugleika frá 29. júní 2010.

Flest bendir til þess að þróunin verði sú að draga úr miðstýringu og fela aðildarríkjum, strandsvæðum og hagsmunaaðilum mun meiri völd og áhrif á stjórnun fiskveiða en nú er. Það er þróun sem ætti að vera Íslendingum að skapi."

Öll greinin er hér

 


Gautaborgarpósturinn fjallar um Ísland í leiðara

gpulqlc.pngOkkur barst ábending um leiðara Göteborgsposten (GP) frá því þann 30.júlí, en í honum er fjallað um Ísland og ESB.

Höfundur leiðarans finnur margt sameiginlegt með leið Svíþjóðar inn í ESB og þess sem er að gerast á Íslandi núna. Andstaða við ESB var mikil í Svíþjóð, en það hefur breyst og frá aldamótum hefur þeim fækkað stöðugt, sem eru á móti sambandinu.

Og myndin af ESB sem annaðhvort "himnaríki" eða "helvíti"er nú horfin og það finnst leiðarahöfundi jákvætt. ESB er orðið hluti af hversdagsleika Svía.

Svíar fengu sína "krísu" í kringum 1990, en þó var hún ekkert í samanburði við það KERFISHRUN sem varð hér. Leiðarahöfundur GP segir í lokin:

" Í krísunni bar nokkuð á því að stjórnmálamenn skelltu skuldinni á ESB, ef skera þurfti niður hjá ríki eða sveitarfélögum. Slíkir prettir eru sem betur fer liðin.

Þetta er álíka og þegar sumir segja að það sé fyrst og fremst Evrunni að kenna að hin ýmsu lönd í Evrópu lentu í efnahagserfiðleikum. Það er heimskara en heimskt."


Nýtt frá Guðmundi Gunnarssyni

Guðmundur GunnarssonGuðmundur Gunnarsson, Eyjubloggari, segir í nýjasta pistli sínum:

" Einungis með ESB aðild fær Ísland stuðning Evrópska Seðlabankans og aðeins þannig komum við krónunni inn fyrir EMR-2 vikmörkin og aðgang að fjármagni á viðunandi kjörum og á ásættanlegum tímaramma.

Það hefur margoft komið fram að hin Norðurlöndin hafa alltaf verið reiðubúin til að hjálpa okkur. Við erum ein skuldugasta þjóð í Evrópu með ónýtan gjaldmiðil sem meir að segja útvegsmenn vilja ekki nota. Við höfum glatað efnahagslegu sjálfstæði og höfum ekkert lánstraust erlendis og erum búinn að koma okkur í gjörgæslu AGS.

Við verðum að hafa efnahagslega burði til þess að geta nýtt auðlindir okkar og náð aftur upp lífskjörunum. Hvaða leið fóru Danir, Svíar og Finnar og hvar standa þeir nú? Þar hafa þúsundir heimila og fyrirtækja ekki farið á hausinn, þar varð ekki kerfishrun. Við erum það fámenn og með okkar ónýtu krónu og efnahagskerfi. Það er út í hött að bera okkur saman við Sviss og Noreg.

En álit Íslands fellur sífellt og við sjálf erum okkar verstu óvinir og erum að hrekja vel menntað fólk frá landinu. Okkur er lýst sem þrasandi þráhyggjumönnum, með sífelldar kröfur um sérstaka meðferð og gerum kröfur um að skattborgarar annarra landa axli byrðar sem eru afleiðingar glæfralegrar hægri sveigju með íslenska hagkerfið."

Allur pistillinn

Baldur um ESB og íslenska menningu

Baldur ÞórhallssonDr. Baldur Þórhallsson skrifaði um ESB og íslenska menningu í Fréttablaðið fyrir skömmu. Þar segir hann m.a.:

"Eitt mikilvægasta verkefni hverrar þjóðar er að standa vörð um menningu sína og hefðir. Okkur Íslendingum hefur tekist vel til hvað þetta varðar en betur má ef duga skal í síbreytilegum heimi.

Íslensk menning er evrópsk menning og hefur verið það allt frá því að land byggðist. Áhrif annarra heimshluta á hefðir okkar og menningu voru hverfandi allt þar til að bandarískur her steig hér á land. Amerísk áhrif hafa þó aldrei náð að yfirskyggja evrópska menningararfleifð okkar. Hvert sem litið er blasa við evrópsk menningaráhrif. Þetta á til dæmis við um bókmenntir, leiklist, kvikmyndagerð, sjónvarps- og útvarpsefni, trúmál, íþróttir og tónlist."

Baldur sendi heimasíðu Evrópusamtakanna grein sína og hana má lesa hér

Styrmir Gunnarsson og "hrægammakenningin"

Styrmir GunnarssonStyrmir Gunnarsson, fyrrum ritstjóri Moggans gerir sitt til þess að halda "hrægammakenningunni" á lofti í sambandi við ESB.

Boðskapur hennar er að ESB vilji hrifsa til sín allt sem Ísland hafi að gefa, í nútíð og framtíð. Þetta kemur berlega í ljós í nýjasta sunnudagsblaði Nei-hirðarinnar, Morgunblaðinu, sem kom út síðastliðinn laugardag.

Þar segir Styrmir: " Evrópusambandið leggur mikla áherzlu á að fá Ísland inn af tveimur ástæðum. Lega landsins, sem getur haft þýðingu í framtíðinni vegna væntanlegrar opnunar norðurskautssvæðanna. Náttúruauðlindir okkar, sem ESB-ríkin vilja komast í."Skýrara getur það ekki verið!

Guðni Ágústsson, fyrrum formaður Framsóknarflokksins er einnig fylgismaður þessarar kenningar, en í Kastljósi síðastliðið föstudagskvöld sagðist hann ekki vilja "sjá Bretann hér inni í landhelginni."

Okkur á ES-blogginu er spurn: Í hvaða veruleika lifa þessir menn? Og hvaða hagsmuni er raunverulega verið að verja?

Halda Styrmir og Guðni virkilega að þetta verði raunin? Innst inni?

Guðni ræddi síðan mikið um ferðamennsku og var í raun með flottar hugmyndir í því samhengi. En á hverju byggist ferðamennskan? Jú, erlendum ferðamönnum, en stór hluti þeirra kemur frá Evrópu.

En þegar afstaða manna er á borð við þetta og einkennist af svona sérkennilegum hugmyndum, sem eiga sér enga stoð í veruleikanum, er þá von til þess að þessir  sömu menn geti átt farsælt samstarf við erlenda aðila? Og fylgisveinar þeirra?

Það verður spennandi að sjá hvað kemur næst: Að ESB taki af okkur ÞJÓÐHÁTÍÐINA?


Jón Steindór: Merkur áfangi

Jón Steindór ValdimarssonJón Steindór Valdimarsson ritaði nýlega pistil um niðurstöðu ríkjaráðstefnu ESB um að formlega hefja aðildarviðræður við Ísland. Hér er pistill Jóns í heild sinni, af vefsíðu Sterkara Ísland:

"Ástæða er til þess að fagna enn einum merkum áfanga í vegferð íslensku þjóðarinnar frá hinum óæðri bekk til öndvegis meðal annarra Evrópuþjóða. Vonandi verður 27. júlí 2010 ein af þeim dagsetningum sem fara í sögubækur þjóðarinnar þegar þroskasaga hennar verður rakin.

Upphaf formlegra samningaviðræðna staðfestir vilja Alþingis sem birtist í þingsályktunartillögu þess frá 16. júlí 2009.  Sömuleiðis staðfestir upphaf viðræðna vilja þjóðarinnar sem birtist í skoðanakönnunum síðustu 10 ára fyrir ályktun Alþingis.

Í hönd fara tímar erfiðra samninga við Evrópusambandið og aðildarríkja þess um aðildarskilmála. Öllum er ljóst hvaða atriði skipta þar mestu máli – ekki síst í þjóðarsálinni þar sem tilfinningar bera skynsemina og raunhæft hagsmunamat oft ofurliði. Samningamenn Íslands eru því ekki í öfundsverðri stöðu og eiga örugglega við ramman reip að draga. Því ríður á að allir leggist á eitt að hjálpa til við að ná sem hagstæðustum samningi.

Mikilvægt er að sú umræða sem fer í hönd á meðan samningar standa og ekki síður þegar samningurinn liggur fyrir verði málefnaleg og taki mið af heildarhagsmunum en ekki sérhagsmunum; langtímahagsmunum en ekki skammtímahagsmunum;  framtíðinni en ekki fortíðinni; hagsmunum almennings en ekki stjórnmálanna. Á endanum mun slík umræða leiða til farsællar niðurstöðu."


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband