Ögmundur Jónasson, þingmaður(!) fer mikinn í Morgunblaðinu í dag, í grein sem næstum vekur upp gæsahúð, þannig er andinn í henni. Segja má að hún falli í flokk þeirra greina sem styðja við hina svokölluðu "Hrægammakenningu" þ.e. að ESB vilji sölsa undir sig allt verðmætt hér við land.
Ögmundur skrifar m.a.: "Ef Ísland sameinast Evrópusambandinu fjölgar íbúum um 0,07 prósent. Yfirráðasvæði sambandsins stækkar um tæp 10 prósent og áhrifasvæði (eftirlits- og björgunarsvæði) um 20 prósent. Það er ekki að undra að herskáir Evrópusinnar líti hýru auga til Festung Island, Virkisins í norðri. Áhrifasvæðið færi úr ca 10 milljónum ferkílómetra í 12 milljónir ferkílómeta. Koma aðrir jafn færandi hendi? Halda menn að þessum 0,07 prósentum muni verða treyst fyrir stjórn og eftirliti á 20% Evrópu? Að sjálfsögðu ekki. En ekki mun standa á styrkveitingum svona rétt á meðan verið er að tala okkur til. Hið sama gæti hent okkur og indíána Norður-Ameríku. Þeir töpuðu landinu en sátu uppi með glerperlur og eldvatn." (Leturbreyting, ES-blogg)
Hann notar s.s. sér til stuðnings eitt ógeðfelldasta dæmið úr amerískri sögu, þ.e.a.s. meðferð hvíta mannsins á indíánum.
Og gefur þar með í skyn að meðferð ESB á Íslendingum verði svipuð. Og ekki nóg með það, heldur er ESB líka ein allsherjar peningadæla, sem notar fé sitt til að "kaupa" lönd inn í sambandið!
Þetta er makalaus málflutningur og í raun eitt það versta sem sett hefur verið á pappír í ESB-umræðunni lengi.
Ögmundur virðist hafa orðið öfgunum að bráð, talar um "stórríki", "innlimun", "við gegn þeim" og segir að ESB sé að tala niður til okkar, svo eitthvað sé nefnt.
Ögmundur ætti að vita betur; ESB rænir t.d. ekki auðlindum af aðildarþjóðum, hefur ekki innlimað eitt einasta landa og ekki borgað með búsi!
Það mun verða íslenska þjóðin sem greiðir atkvæði um það á endanum, hvort við göngum í ESB eða ekki! Þegar aðildarsamningur liggur fyrir!
Stundum verður maður kjaftstopp, grein Ögmundar er í þeim flokknum!
Vonandi er botninum náð hjá Ögmundi með þessari ótrúlegu grein!
Okkur hjá Evrópusamtökunum er spurn eftir lesturinn á greininni:
Verða Íslendingar fyllibyttur í boði ESB?