"Lögð er þung áhersla á sérstöðu Íslands og tekið fram að lausnir á deilumálum viðræðnanna verði að þjóna hagsmunum beggja aðila. Ísland yrði minnsta, strjálbýlasta og vestasta aðildarríki ESB. Það er langt frá hinum ríkjunum og glímir við óblíða náttúru. Þessar staðreyndir eru til merkis um sérstöðu Íslands og munu móta viðræðurnar," segir í greinargerðinni. Þar segir enn fremur að viðræður um þá hluta löggjafar ESB sem EES-samningurinn nær yfir ættu að vera einfaldar. Íslendingar muni hins vegar færa rök fyrir því að þær sérlausnir sem þegar eru viðurkenndar í EES-samningnum byggi á gildum rökum. Þar er til að mynda um að ræða reglur um fjárfestingu og um orku- og umhverfismál. Einnig þurfi að taka tillit til sjálfbærrar nýtingar Íslendinga á til dæmis hvölum og ákveðnum fuglategundum. Þá skuli eignarréttur og yfirráð yfir orkuauðlindum og vatni eingöngu vera á höndum aðildarríkjanna sjálfra."
Þetta er hluti fréttar í Fréttablaðinu í dag um þá staðreynd að í dag hefst í raun með formlegum hætti það samningaferli sem sett var í gang með umsókn Íslands að ESB, Evrópusambandinu.
Ljóst er að mikil áhersla verður lögð á sérstöðu Íslands sem þjóðar (og efnahagskerfis). Það er einnig ljóst að það er ekki ætlunin að afsala yfirráðum yfir auðlindum landsins.
Fréttamannafundur um málið verður haldinn í Brussel kl. 10.00 og má sjá hann hér
En hvernig bregst dagblað Nei-sinna, Morgunblaðið, við þessu? Kíkjum á leiðara dagsins:
" Eitt blómlegasta skeið íslenskrar efnahagssögu stóð frá 1991 í hálfan annan áratug. Kaupmáttur óx jafnt og þétt. Atvinnuástand var í blóma. Veruleg eignamyndun átti sér stað hjá fólki og fyrirtækjum. Skattar voru lækkaðir ár frá ári og ýmsir skattar aflagðir."
Á þessum tíma stórjukust líka samskipti og viðskipti okkar við Evrópu, ekki síst vegna tilkomu EES-samningsins, sem í upphafi átti að vera einskonar "fordyri" að ESB.
"Frelsi einstaklinga til orðs og æðis snýst um samkeppni, frjálsan markað og umfram allt fagleg og lögleg vinnubrögð."
Segja má að þetta sé ESB í hnotskurn, ESB snýst að mjög miklu leyti um VIÐSKIPTI, virka samkeppni, frelsi á mörkuðum og fagleg og lögleg vinnubrögð. Þarna hittir leiðarahöfundur Morgunblaðsins naglann á höfuðið, sem er jákvætt!
Og í lokin segir í leiðaranum:
" Á Íslandi skaut rótum illgresi í lystigarði frjáls atvinnulífs sem skipaður var af um það bil 20-25 viðskiptaóvitum. Nú hefur illgresinu verið eytt, enda er grundvallaratriði í huga frjálshyggjumanna að láta ekki skattgreiðendur bera kostnaðinn af misheppnuðum viðskiptaævintýrum einkaaðila. Evrópulöndin ákváðu öll að bjarga sínum bönkum með tilheyrandi kostnaði skattgreiðenda. Íslendingar eru að því leyti heppnir - bankarnir eru búnir að fara á hausinn og nýtt upphaf er næsta skref."
Úff, hvað við erum í raun heppin að allt HRUNDI hér á skerinu, KRÓNAN, BANKARNIR! Lukkunnar pamfílar!
Kannski er þetta bara það besta sem nokkurn tímann hefur gerst í sögu landsins? Sitja t.d. uppi með gjaldmiðil í höftum og sem aðrar þjóðir skrá ekki einu sinni hjá sér, reikna ekki með! Skemmtilegt!
En hvað er svo næsta skref? Um það segir ekkert.
Fyrir Evrópusinna er hinsvegar málið alveg á hreinu: Aukin og mun virkari samskipti við Evrópu, virk aðild að ESB, þjóð meðal þjóða!