Leita í fréttum mbl.is

Samtök Iðnaðarins: ESB afstaðan óbreytt - SI vill klára samningana - málið langtímamál!

Helgi MagnússonÞátturinn Klinkið á Stöð 2/ www.visir.is tók viðtal við Helga Magnússon, formann Samtaka Iðnaðarins á Þorláksmessu og ræddi þar meðal annars um ESB-málið.

Þar kom skýrt fram að afstaða samtakanna er óbreytt, S.I. vill klára aðildarviðræðurnar við ESB og leggja samninginn í dóm þjóðarinnar. Helgi sagði þetta vera langtímamál, sem ætti að klára!

Sammála!


"Brjálaður" Evrópusinni á DV-blogginu: Varúð!

dv-logoÁ bloggi DV segir: "Þá er brjálaði Evrópusinninn kominn á dv bloggið. Hér verður hægt að lesa alls konar um Evrópusambandið, um umsókn Íslands að Evrópusambandinu og miklu miklu meira um Evrópumál.

Þú hefur nú verið varaður/vöruð við."

Meira hér 


Danir styðja aðhaldsaðgerðir í ESB

Í Fréttablaðinu í dag segir: "Danska ríkisstjórnin stefnir að því að taka þátt í nýjum sáttmála 26 ríkja Evrópusambandsins um aðhald í ríkisfjármálum, að svo miklu leyti sem undanþága Dana frá myntsamstarfi ESB leyfir. Nicolai Wammen, Evrópumálaráðherra Dana, segist ekki telja þörf á þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Danmerkur að samningnum og að hann feli ekki í sér fullveldisafsal, en stjórnarandstöðuflokkar á hægri vængnum eru honum ósammála.

Texti sáttmálans er ekki fullfrágenginn. Wammen sagði á fundi með blaðamönnum í Kaupmannahöfn að Danir hefðu fengið fullvissu fyrir að undanþágan yrði að fullu virt. "Við viljum taka þátt að eins miklu leyti og við getum og gerum ráð fyrir að meirihluti á danska þinginu styðji þá afstöðu," segir Wammen. Hann segir að gera verði lögfræðilega úttekt á endanlegum texta samningsins áður en ákveðið verður hvort halda á þjóðaratkvæðagreiðslu um hann. "Ef niðurstaðan er sú að Danmörk gefi frá sér fullveldi þá verður atkvæðagreiðsla, en miðað við það sem við höfum séð hingað til verður ekki þörf á því."

Lesa má alla fréttina hér.


Hið stóra EF!

Á RÚV byrjar frétt svona: "Ragnar Árnason prófessor í hagfræði segir að betra sé að hafa krónuna áfram ef vel tekst til í hagstjórn á Íslandi. Ástæðan fyrir verðbólgu og flöktandi gengi sé misheppnuð hagstjórn. (Kom fram á morgunfundi ASÍ um gjaldmiðilsmál í morgun, innskot; ES-bloggið, sem og leturbreyting)

Þetta með EF-ið vekur upp spurningar: Hvað EF ekki tekst til, sem það greinilega (og samkvæmt þessu) hefur ekki tekist til þessa? Á þá landslýður bara að sitja í súpunni?

Og vill Ragnar búa áfram við verðtryggingu, sem menn segja að sé nánast ekki hægt að afnema, vegna krónunnar? Og hvernig á að takast að lækka vexti með krónunni, nokkuð sem menn segja að útheimti sjálfkrafa hærri vexti en aðrir gjaldmiðlar í kringum okkur?

Á öðrum stað í fréttinni segir: "Ef hagstjórn á Íslandi er dæmd til að vera slæm í framtíðinni þá kynni að vera betra að taka upp einhverja aðra mynt," segir Ragnar."

Er ekki fullreynt?


Friðrik Jónsson á Eyjunni: "Besta ávöxtun í heimi?"

Haustið 2008 hrundi íslenska krónan, sem og bankakerfið. Í framhaldi af því voru sett upp gjaldeyrishöft sem standa enn og eru einskonar múrar utan um hagkerfið. Þá varð einnig til það sem kallað er aflandskrónur sem skilgreinda eru sem "sem verðmæti í innlendum gjaldeyri í eigu eða vörslu erlendra aðila, eða ávísun á slík verðmæti, sem lúta sérstökum takmörkunum samkvæmt reglum um gjaldeyrismál." Þetta eru fjármunir sem menn þora ekki að sleppa út úr peningakerfinu (eru lokaðir inni!) enda myndi það þýða mikið útstreymi gjaldeyris og væntanlega fall krónunnar.

Í skýrslu frá Viðskiptaráði segir: "Einn stærsti ókostur gjaldeyrishaftanna er hve hamlandi þau eru fyrir framgang og vöxt atvinnulífs, sem er undirstaða hagvaxtar og bættra lífskjara hérlendis. Eftir því sem lengra líður frá upptöku hafta aukast lamandi áhrif þeirra á efnahagslífið. Þessi áhrif koma fram á ólíka vegu, til dæmis bíða fyrirtæki með aukin umsvif á meðan höftin vara, nýsköpunar- og sprotafyrirtæki eiga erfiðara með vöxt á erlendum mörkuðum og fyrirtæki þurfa að fara óhagkvæmari leiðir til að ná rekstrarlegum markmiðum. Samkeppnishæfni Íslands skerðist í samanburði við önnur lönd og því er hætt við því að fólk og fyrirtæki kjósi frekar að starfa og fjárfesta utan landsteinanna. Allt þetta er til þess fallið að draga úr hagvexti." 

Eigendur aflandskróna fá vexti og um þetta fjallar Friðrik Jónsson í pistli á Eyjunni og segir meðal annars: "

Á rétt rúmum þremur árum hafa s.s. eigendur aflandskróna fengið greitt jafngildi tæplega þriðjungs höfuðstóls krónueigna sinna í erlendum gjaldeyri, en höfuðstólinn er enn sá sami, og vandinn jafn stór.

Er þá nokkuð skrítið að eigendur þessara aflandskróna eru hvorki að tapa sér af áhyggjum yfir því að geta ekki losað féð strax úr landi, né hafi áhuga á því að fjárfesta þeim í íslensku atvinnulífi?

Af hverju í ósköpunum ættu þeir að vilja gera það?

Þetta er án efa besta ávöxtun í heimi."

Á sama tíma berast þær fréttir að ávöxtun á almennum (óverðtryggðum) sparireikningum, sem yfirleitt eru í eigu almennings, beri neikvæða vexti, vegna verðbólgu. Einn hvati hennar er krónan og óstöðugleiki sem fylgir henni. Það er almennt viðurkennt að krónan veldur óstöðugleika, sveiflum og verðbólgu.

Það er margt skrýtið í "krónuhausnum" ! Sumir virðast mokgræða, á meðan eignir annarra rýrna. 

Á mannamáli heitir það óréttlæti!


Ásmundur Einar: Svona er staðan!

Ásmundur-Kastljós 5-1-2011Nei-foringinn á Íslandi, Ásmundur Einar Daðason, skrifar grein um ESB-málið í dag og spyr um stöðuna í ESB-málinu.

Við hjá Evrópusamtökunum getum sagt honum hver staðan er: Það er í góðum gír, það er á kostnaðaráætlun (og mun ekki kosta "einhverja milljarða" eins og margir Nei-sinnar góla yfir nær stöðugt þjóðina) og það hefur ekki sett stjórnsýsluna á hliðina (eins og margir Nei-sinnar hrópa hástöfum!).

Ásmundur segir að mikill meirihluti landsmanna ger sér grein fyrir að betra sé fyrir Ísland að vera fyrir utan ESB en innan. Getur verið að það sé vegna þess að þeir vita ekki og það liggur ekki fyrir, hver niðurstaða aðildarviðræðna verður? Fólk verður jú að vita niðurstöðu þeirra og taka síðan afstöðu í málinu. Þann rétt vill Ásmundur hinsvegar ekki veita íslensku þjóðinni!

Við viljum benda Ásmundi á að um tveir af hverjum þremur vilja samkvæmt nýrri könnun ljúka aðildarviðræðum við ESB!

Ásmundur vill hinsvegar hlaupa frá hálfkláruðu verki, enda nátengdur sterkum hagsmunahópum, sem vilja nánast ekki breyta neinu í íslensku samfélagi.


Var skálað í kampavíni?

Kampavín"Mér skilst að hafi nú verið skálað í kampavíni bæði í Brussel og ESB-hæðum utanríkis-ráðuneytisins og ýmsir þar brosað á milli eyrna."

Þessi ummæli eru úr "drottningarviðtali" við Jón Bjarnason í Morgunblaðinu, sem eyddi heilli opnu undir Jón í helgarblaðinu þann 8.1.2011. Eins og fram hefur komið í fréttum lét Jón af embætti sem ráðherra sjávarútvegs og landbúnaðarmála um áramótin, ásamt Árna Páli Árnasyni, sem lét af embætti efnahags og viðskiptaráðherra.

En okkur er spurn: VAR SKÁLAÐ Í KAMPAVÍNI Í BRUSSEL OG ANNARSSTAÐAR?

Hvaða heimildir hefur Jón fyrir því?

Eða er þetta bara fullyrðing í sama stíl og. t.d. umræður hans um veðurfar á Íslandi í samtölum við fjölmiðla? Fáir komast með tærnar þar sem Jón hefur hælana í því efni! Virkileg sérgrein!

Jón getur annars verið nokkuð ánægður með plássið sem hann fékk í MBL, en ekki er víst að sú frægð nái lengra en út fyrir "Moggadalinn." !


Bölvun eða blessun? ASÍ fundar um krónuna

Ein krónaÁ vef ASÍ stendur í tilkynningu: "Þriðjudaginn 10. janúar stendur Alþýðusamband Íslands fyrir morgunverðarfundi um gjaldmiðilsmál. Yfirskrift fundarins er Íslenska krónan – bölvun eða blessun. Haldin verða fjögur stutt erindi og að þeim loknum verður opnað fyrir umræður. Fundurinn fer fram á Hilton Reykjavík Nordica og stendur frá kl. 8-10. Fundurinn er öllum opinn."

Þeir sem tala eru: Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ: Hvaða valkosti eigum við í gjaldmiðilsmálum?
Arnór Sighvatsson, aðstoðarbankastjóri Seðlabanka Íslands: Munurinn á því að taka upp gjaldmiðil einhliða eða taka upp evru með aðild að ESB.
Friðrik Már Baldursson, forseti Viðskiptadeildar HR: Kostir sveigjanlegs gjaldmiðils við hagstjórn.
Ragnar Árnason, prófessor við HÍ:Gjaldmiðilsmálin eru brennidepli og munu verða það á næstu misserum.

Síðan verða umræður.

Ljóst er að gjaldmiðilsmálin eru knýjandi.


Nýr stjórnmálaöfl, vilja bæði ljúka aðildarviðræðum - fleiri væntanlega á leiðinni

ESB-ISL2Nýr flokkur, sem m.a. styður að ljúka aðildarviðræðum við ESB, hyggst bjóða fram í næstu þingkosningum, sem, að öllu óbreyttu, fara fram vorið 2013. Ber flokkurinn heitið Lýðfrelsisflokkurinn og er hefur bráðabirgðastjórn verið skipuð. Flokkurinn staðsetur sig hægra megin við miðju stjórnmálanna.

Þá hefur flokkur/hreyfing/framboð Guðmundar Steingrímssonar, sem einnig vill ljúka aðildarviðræðum, fengið nafn;Björt framtíð.

Fleiri framboð' eru í bígerð, þannig að "valfrelsi" kjósenda mun aukast í næstu þingkosningum hér á landi og þar með verða væntanlega rofin einhver skörð í "Fjórflokkinn."


Evrópubúar treysta ESB best til að glíma við fjárhagsvandræðin

Já-ÍslandÁ vef samtakanna Já Ísland segir: "Þann 22. desember síðastliðinn voru kynntar niðurstöður nýrrar könnunar Eurobarometer þar sem íbúar aðildarríkja ESB sem og íbúar umsóknarríkja voru spurðir um hverjum þeir treysta best til þess að bregðast við áhrifum fjármála- og efnahagskreppunnar. Það var Evrópusambandið sem fékk hæsta hlutfall svara, meira en þjóðþing ríkjanna. Könnunin fór fram í Nóvember og fól í sér viðtöl við 31.659 íbúa 27 aðildarríkja Evrópusambandsins sem og umsóknarríkja.

Eftirfarandi spurning var borin upp: „Að þínu mati, hver af eftirfarandi er færastur um árangursríkar aðgerðir gegn áhrifum fjármála- og efnahagskreppunnar?“ Evrópusambandið kom út á toppnum, með 23% atkvæða, en næst á eftir Evrópusambandinu voru þjóðþing ríkjanna. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, Bandaríkin og aðrir fylgdu síðan á eftir (sjá mynd að neðan).

Þetta sýnir að íbúar Evrópusambandsins og umsóknarríkja treysta enn Evrópusambandinu best til þess að tækla afleiðingar fjármála- og efnahagskreppunnar."


Verður rjúpnaveiði bönnuð ef við göngum í ESB?

Það margt sem mönnum liggur á hjarta í sambandi við ESB-málið og ótrúlegar spurningar sem vakna. Eina slíka, í skrautlegra lagi, er nú að finna á Evrópuvefnum og snýr að rjúpnaveiðum. Spurningin er skemmtileg, en um leið lýsandi fyrir margt sem menn ranglega "klína" á Evrópusambandið (kannski af því þeir vita ekki betur?). Spurningin er svona:

"Ég sat í veiðikofa um daginn eftir rólegan rjúpnadag og var að ræða við félaga mína um ESB. Sjálfur er ég mjög hlynntur því að fá að kjósa um ESB aðild og því að aðildarviðræður við sambandið verði kláraðar. En eitt kom upp í þessum samræðum sem ég vil spyrja um. Þarna var fullyrt við mig að við inngöngu í ESB myndu allar veiðar á fuglum (rjúpu og svartfugli) verða bannaðar. Er þetta rétt?"

Svar Evrópuvefsins byrjar svona: "Hugsanleg innganga Íslands í ESB mun engu breyta um veiðar á rjúpu hér á landi. Öllum aðildarríkjum Evrópusambandsins er heimilt að leyfa veiðar á rjúpu á yfirráðasvæði sínu en aðildarríki hafa leyfi til að kveða á um strangari verndarákvæði. Íslensk stjórnvöld gætu þess vegna áfram ákveðið hvort og hvenær veiðar á rjúpu væru leyfðar. Þær tegundir svartfugla sem heimilt er að veiða á Íslandi eru alfriðaðar í Evrópusambandinu. Vilji stjórnvöld óbreytt fyrirkomulag veiða á þessum tegundum, ef til aðildar Íslands að sambandinu kæmi, þyrftu þau að semja um það í viðræðunum við ESB." (Leturbreyting, ES-blogg) 

Síðar í svarinu segir: "Í áliti meirihluta utanríkismálanefndar Alþingis um aðildarumsókn að Evrópusambandinu kemur fram að við mótun samningsmarkmiða skuli meta hvernig halda megi opnum möguleikum á að halda áfram veiðum á tegundum eins og lunda með vísan til aldalangrar hefðar...Telur meirihlutinn jafnframt mikilvægt að stefnt verði að því að forræði þessara mála verði sem mest í höndum íslenskra stjórnvalda."

Friðun á ákveðnum fuglategundum er einmitt núna til umræðu! En það eru íslensk stjórnvöld sem standa að henni!


Staðlausir stafir andstæðinga ESB um "milljarða umsókn" - stjórnsýslan alls ekki á hvolfi!

RÚVHún var athyglisverð fréttin á RÚV um kostnað vegna ESB-umsóknarinnar, en í henni kom fram að kostnaður vegna ESB-umsóknar er alls ekki talinn í milljörðum, eins og sumir hafa kastað vanhugsað fram og til þess eins gert að þyrla ryki í augu fólks!

Og stjórnsýslan er langt í frá á "hvolfi" eins og kemur fram í fréttinni. Nokkuð sem andstæðingar ESB hrópa hátt opinberum vettvangi! Í fréttinni segir: "Í umræðu um kosti og galla umsóknar Íslands að Evrópusambandinu hefur alls kyns rökum verið varpað fram. Meðal þess sem andstæðingar ESB aðildar hafa sagt er að kostnaður við umsóknina hlaupi á milljörðum og að stjórnsýslan sé undirlögð af vinnu við umsóknina. Af þessum sökum sendi fréttastofa RÚV öllum ráðuneytum fyrirspurn um beinan og óbeinan kostnað þeirra af viðræðum um aðild Íslands að ESB.

Fyrirspurnin var send undir lok október og spurt var um kostnað ráðuneytanna fyrstu 9 mánuði ársins. Svör hafa nú borist frá öllum ráðuneytum.

Hjá 6 ráðuneytum fengust þær upplýsingar að enginn beinn kostnaður félli til vegna viðræðna við Evrópusambandið ."

Síðar segir: "Í utanríkisráðuneytinu nemur bókfærður kostnaður 101,6 milljónum króna, þar af eru laun starfsmanna 20 milljónir og ferðakostnaður 65 milljónir. Samkvæmt fjárlögum var 150 milljónum króna varið til þessara viðræðna allt síðasta ár. Fullyrðingar þess efnis að kostnaðurinn hlaupi á milljörðum virðast því ekki standast skoðun.

En það hefur ekki bara fallið til beinn kostnaður. Laun embættismanna, sem komið hafa með einum eða öðrum hætti að viðræðunum eru líka kostnaður en eru þó ekki bókfærð þannig. Í utanríkisráðuneytinu hafa um 30 starfsmenn komið að viðræðunum en 20 í fjármálaráðuneytinu. Færri starfsmenn hafa komið að málum, með einum eða öðrum hætti í hinum ráðuneytunum en í langflestum tilfellum er þetta lítið hlutfall starfa þeirra enda sinna embættismennirnir þessu meðfram öðrum störfum. Það virðist ofmælt að stjórnsýslan sé undirlögð af þessu verkefni því í velferðarráðuneytinu er áætlað að um sé að ræða rúmlega 6 mánaða vinnu eins manns, en í innanríkisráðuneytinu er um tveggja mánaða vinnu að ræða. (Leturbreyting, ES-bloggið)

Andstæðingum ESB finnst gaman að hrópa úlfur, úlfur! Og gera það óspart!


Vopnabúrið kostar!

Seðlabanki ÍslandsÍ fréttum hefur komið fram að Seðlabanki Íslands er kominn með digran varasjóð, sem Már Guðmundsson kallar sjálfur "vopnabúr." Í hefðbundnum skilningi eru vopnabúr notuð til þess að: a) Undirbúa eða geta framkvæmt árás eða b) Verja sig.

Líklegt verður að teljast að vopnabúrið (sem er um 1000 milljarðar króna, meira en hálf þjóðarframleiðsla!) verði notað til að verja gengi krónunnar, þegar höftunum verður aflétt og krónunni sleppt lausri.

Er þetta ekki enn eitt dæmið um kostnaðinn við krónuna?

Í viðskiptablaðinu má lesa frétt sem tengist þessu og í henni segir: "Seðlabankinn áætlar að vaxtagreiðslur af gjaldeyrislánum ríkissjóðs og bankans muni nema 33 milljörðum króna á þessu ári. Á móti koma vaxtagreiðslur vegna ávöxtunar forðans.

Seðlabankinn greindi frá því morgun að hann hafi fullnýtt lánin frá Norðurlöndunum sem samið var um í tengslum við efnahagsáætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Heildarlánveitingar Íslands nema nú 753 milljörðum króna í því skyni að styrkja gjaldeyrisforða Seðlabankans. Forðinn nemur nú í heildina 1.030 milljörðum króna og er hann allur skuldsettur."

Í tilkynningu frá Seðlabankanum segir: "Vaxtagreiðslur af gjaldeyrislánum ríkissjóðs og Seðlabanka Íslands eru áætlaðar 33 ma.kr. á þessu ári. Á móti þessum vaxtagreiðslum koma vaxtatekjur vegna ávöxtunar forðans, en áætlað er að hreinn vaxtakostnaður af forðanum sé um 3-4%, en það samsvarar um 1½-2% af landsframleiðslu.

Í ljósi óvissu á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og í ljósi áforma um losun gjaldeyrishafta er mikilvægt fyrir Ísland að vera með stóran gjaldeyrisforða um þessar mundir þrátt fyrir umtalsverðan kostnað við forðahaldið. Þegar aðstæður breytast er vonast til að hægt verði að minnka gjaldeyrisforða jafnframt því sem unnið verður að því að draga úr skuldsetningu hans."

Til samanburðar má geta þess að áætlaður kostnaður við nýjan Landspítala er um 50 milljarðar og þetta er um það bil áttföld framlög á fjárlögum 2011 til Umhverfisráðuneytisins!

Bendum einnig á pistil Friðriks Jónssonar um málið.


Egill Helgason fjallar um áhugaverða grein í Financial Times

Egill HelgasonEgill Helgason, segir í færslu í Silfri Egils á Eyjunni, frá athyglisverðri grein í Financial Times um ESB og Evrópu.

Færsla Egils hefst svona: "Á tíma þegar í tísku að tala illa um Evrópusambandið tekur Financial Times upp hanskann fyrir það í leiðara.

FT segir að Evrópusambandi sé merkasta tilraun heimsins í ríkjasamvinnu. Falli Evrópusambandið væri það mikið áfall fyrir samvinnu milli ríkja.

Í leiðaranum segir að stærstu mál samtímans séu alþjóðleg: Fjármálakreppan, óstöðugleiki gjaldmiðla, loftslagsbreytingar, útbreiðsla kjarnorkuvopna og fólksflutningar.

Ekkert af þessum málum sé þess eðlis að einstök ríki geti leyst þau."

Svo segir Egill: "Aðferð Evrópusambandsins sé að fara í miklar og þess vegna flóknar alþjóðlegar samningviðræður um svona mál. Stundum séu samningarnir of óljósir og götóttir til að duga.

FT segir að auðvelt sé að hæðast að þessari aðferði, en valkosturinn sé verri – að láta vandamáli grafa um sig þar til þau eru jafnvel orðin tilefni stríðsátaka.

Því beri að hlúa að Evrópuhugmyndinni – og ekki bara vegna Evrópu."


Evrópudagurinn 12. janúar

EvrópusamvinnaÍ tilkynningu segir:

Fulltrúar evrópskra samstarfsáætlana og þjónustuskrifstofa standa fyrir kynningu á styrkja og samstarfsmöguleikum á vegum evrópskra og norrænna samstarfsáætlana.Kjörið tækifæri fyrir einstaklinga, skóla, fyrirtæki, stofnanir og samtök að kynna sér möguleika til samstarfs á flestum sviðum menntunar, menningar og atvinnulífs.

Áætlanir sem kynntar verða á Háskólatorgi eru:

Menntaáætlun ESB
7. rannsóknaráætlun ESB
Evrópa unga fólksins
Menningaráætlun ESB
EURES - Evrópsk vinnumiðlun
Enterprise Europe Network
Norðurslóðaáætlun
Euroguidance
eTwinning - rafrænt skólasamstarf
Nora
Europass
Almannavarnaáætlunin
COST
MEDIA
Evróvísir
Samkeppnis og nýsköpunaráætlun ESB
Euraxess – Rannsóknarstarfatorg
Espon
Norrænt samstarf

ALLIR VELKOMNIR!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband