Leita í fréttum mbl.is

Össur um niðurlægingu og "lagagleypingar"

Á Eyjunni stendur: "Ein af allra sterkustu rökunum fyrir inngöngu Íslands í Evrópusambandið að mati Össurar Skarphéðinssonar, utanríkisráðherra, er sú staðreynd að íslenskir þingmenn verða í viku hverri að taka möglunarlaust við ýmsum tilskipunum, reglum og ákvörðunum frá Evrópusambandinu

Í viðtali við RÚV segir Össur þetta hreint og beint niðurlægjandi fyrir þingmenn hérlendis. Þeir hafi engar leiðir eða tök á að hafa áhrif á þann aragrúa skipana sem frá Brussel berist.

Komið hefur í ljós að skýrsla sérfræðinga sem unnin var fyrir Norðmenn og kynnt í dag sýnir að EES-samningurinn hafi á átján ára tímabili reynst Norðmönnum mjög ábatasamur. Hins vegar feli sá samningur í sér meira framsal á fullveldi en raunveruleg innganga í sambandið.

Össur bendir á að litlu hafi munað að EES samningurinn á sínum tíma hafi ekki staðist stjórnarskrá Íslands og síðan þá hafi þróunin verið hröð."


Sema Erla um matvælaverð á DV.is

Sema Erla SerdarSema Erla Serdar, er nýr bloggari á DV.is og skrifar þar pistla um Evrópumál. Í nýjasta pistlinum segir hún: "Það er vitað að með aðild Íslands að Evrópusambandinu munu tollar á vörur og landbúnaðarvörur frá aðildarríkjum ESB falla niður. En hvað þýðir það fyrir okkur neytendur?

Jú, að matvælaverð muni lækka svo um munar.

Undir lok síðasta árs unnu hagfræðingarnir Daði Már Kristófersson, dósent við Háskóla Íslands, og Erna Bjarnadóttir, hjá Bændasamtökunum, skýrslu fyrir samningahóp Íslands um landbúnað. Í þessari skýrslu kemur fram svart á hvítu með afnámi þessara tolla má reikna með að verð á kjúklingum, eggjum og svínakjöti lækki um allt að 40 - 50%. Ekki nóg með það heldur munum mjólkurvörur lækka um allt að 25%. Einnig má reikna með að verð á nautakjöti muni lækka."


Guðmundur Gunnarsson skrifar meira um gjaldmiðilsmál

Guðmundur GunnarssonGuðmundur Gunnarsson, skrifaði fyrir skömmu nýjan pistil um gjalmiðilsmál og segir þar meðal annars:

"Á ráðstefnu ASÍ um gjaldmiðilinn í vikunni sýndu Ragnar Árnason prófessor við HÍ, Arnór Sighvatssonar aðstoðarseðlabankastjóri og Friðrik Már Baldursson prófessor við HR fram á að slök efnahagsstjórn undanfarna áratugi hafi skapað þann vanda sem við erum í með gjaldmiðilinn. Stjórnendur peningamála hafi gert alvarleg mistök í aðdraganda þess að gjaldmiðillinn ofreis og hrundi með falli bankanna í kjölfarið og gjaldþrots Seðlabankans.

Þeir sem stjórnuðu hér á landi á meðan þetta gerðist halda því fram að þeir hafi gert allt rétt og stöðugleikinn snúist bara um að hafa góða stjórnun á krónunni!!??

ESB andstæðingar verja krónuna á hverju sem gengur. Gott sé að hafa sveigjanlegan gjaldmiðil svo leiðrétta megi slaka efnahagsstjórn með því að færa peninga frá launafólki til útflutningsfyrirtækja. Það væri skerðing á fullveldi sérhagsmuna ef krónan væri lögð niður sagði Ragnar Árnason.

Í könnunum hagfræðinga kemur fram að jafnaði hafi um 30% tekna heimilanna undanfarna áratugi hafi horfið við þessar leiðréttingamillifærslur. Eignaupptaka hjá launamönnum er réttlætt með því að verið sé að halda uppi atvinnustigi í atvinnubótavinnu þar sem afraksturinn rennur milliliðalaust frá heimilunum til fárra efnamanna."


Noregur: Ekki til umræðu að segja upp EES-samningnum

NoregurÍ annarri frétt á RÚV segir: "Jónas Gahr Störe, utanríkisráðherra Noregs, segir að ekki komi til greina að segja upp samningunum um Evrópska efnahagssvæðið og leita eftir tvíhliða samningi við Evrópusambandið í staðinn.

Störe tók í hádeginu á móti nýrri skýrslu þar sem fram kemur hörð gagnrýni á EES-samninginn. Samstarfinu á Evrópska efnahagssvæðinu er lýst sem ábatasömu en ólýðræðislegu.

Það var norska ríkisstjórnin sem bað helstu sérfræðinga landsins um að skoða kosti og galla samningsins um EES. Íslendingar eiga aðild að honum ásamt Lichtenstein. Niðurstaða skýrslunnar er þegar kunn: Samningurinn hefur á 18 ára tímabili reynst Norðmönnum afar ábatasamur en felur í sér meira framsal á fullveldi en innganga í sjálft Evrópusambandið.

Störe segir í viðtali við viðskiptablaðið Dagens Næringsliv í morgun, að þrátt fyrir galla komi ekki til greina að segja samningnum upp og leita eftir tvíhliða viðskiptasamningi við Evrópusambandið eins og gagnrýnendur EES vilja. Andstæðinga er meðal annars að finna innan ríkisstjórnarinnar. Störe segir að draumar um tvíhliða samning séu blekkingin ein. Hins vegar sé lýðræðishallinn á núverandi samningi vissulega umhugsunarefni."

Sjá einnig umfjöllun á vef Já-Íslands


ESB fer gegn Ungverjalandi

ESBÁ RÚV segir: "Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins steig í dag fyrsta skrefið í áttina að því að hefja mál á hendur Ungverjalandi vegna nýrra stjórnskipunarlaga sem talið er að gangi í berhögg við sáttmála sambandsins.

Jose Manuel Barroso, framkvæmdastjóri ESB greindi frá þessu á fundi framkvæmdastjórnarinnar í Strassborg. Hann sagði að sambandið gæti ekki lengur unað við það að í gildi væru stjórnskipunarlög í Ungverjalandi sem brytu gegn grundvallaratriðum lýðræðisins. Margir Ungverjar eru sama sinnis. Þeir saka stjórn Viktor Urban forsætisráðherra og stjórn hans um að hafa fellt úr gildi ýmsar hömlur sem settar voru á stjórnvöld þegar kommúnistar misstu völdin árið 1989."


Samningur tryggir efnislega umræðu!

Kristján VigfússonKristján Vigfússon, aðjúnkt við HR, skrifaði grein í FRBL fyrir síðustu helgi um Evrópumálin og segir þar meðal annars: "Samningaviðræðurnar ganga út á að opna og ræða efnislega hvern kafla eða málaflokka sem sáttmálar Evrópusambandsins taka til. Nú fyrir áramót var búið að opna 11 af þessum 33 köflum og loka 8. Eftir eru 22 mismikilvægir kaflar. Gefið hefur verið út af utanríkisráðherra að fyrir mitt ár 2012 verði búið að opna alla kafla samningaviðræðnanna. Þar skipta mestu máli kaflarnir um landbúnað, gjaldmiðilsmál, byggðastefnu, orkumál og sjávarútveg en þeir hafa ekki enn verið opnaðir. Það eru í raun þeir kaflar sem virkilega þarf að semja um og líklegt er að samningsaðilar hafi þegar mótað sér samningsafstöðu í þessum málaflokkum og séu með ákveðin þolmörk í huga um hversu mikið megi gefa eftir svo um ásættanlega samninga sé að ræða.

Smærri umsóknarríki hafa verið um tvö ár að semja
Ef skoðaður er sá tími sem hefur farið í samningaviðræður einstakra smærri umsóknarríkja sem við höfum helst viljað bera okkur saman við þá kemur í ljós að ekki hefur tekið nema að meðaltali um 2 ár að ljúka aðildarviðræðum frá upphafi til enda. Það tók Íra eitt og hálft ár að ljúka viðræðum. Svía, Finna og Austurríkismenn rúmt ár. Litháa, Letta, Slóvaka og Maltverja tæp tvö ár. Eista, Slóvena og Kýpverja tók það tæp þrjú ár að semja en þar á bæ spiluðu inn í flókin deilumál m.a. um stöðu minnihlutahópa innan ríkjanna við ríki Evrópusambandsins."

Síðar segir Kristján:

"Loks hægt að rökræða efnisatriði
Nægur fjöldi sérfræðinga er hjá báðum aðilum í samninganefndunum til að vinna hratt og vel og ljúka viðræðum á næstu 12 til 15 mánuðum. Það eina sem kemur í veg fyrir að þessum samningaviðræðum ljúki fyrir kosningarnar 2013 eru þá heimatilbúin vandamál þar sem einstakir ráðherrar eða annar hvor ríkisstjórnarflokkurinn hefur hagsmuni af því að tefja málið.
Samningsaðilar hafa því tæplega eitt og hálft ár til að ljúka samningum fyrir kosningar ef pólitískur vilji er fyrir hendi en auðfundið er að færa rök fyrir því að það sé mikilvægt fyrir kjósendur í þessu landi að samningum verði lokið fyrir næstu alþingiskosningar og efnisatriði aðildarsamnings verði til umræðu í kosningabaráttunni. Það muni þá loksins verða hægt að takast á um Evrópumálin efnislega en ekki eins og fram til þessa fyrst og fremst á tilfinningaþrungnum þjóðernisnótum."


Árni Snævarr með grein á Já-Ísland.is

Árni SnævarrÁrni Snævarr, fyrrum fréttamaður, skrifar grein um Evrópumál á vef Já-Ísland, sem hefst svona: 

"Er Evrópusambandið á leið til helvítis? Þetta er ekki lengur bara spurning sem varpað er fram á vefsíðum ritglaðra öldunga á Íslandi sem orna sér við hlýjar minningar af þjóðernishyggju æskuáranna, heldur spurning sem spurt er af fullri alvöru af þungaviktarmönnum í Brussel.

Fáir hafa þó enn orðið til þess að fara rækilega ofan í saumana á þeim hugmyndum sem einna líklegastar eru til þess að bjarga Evrunni og eru leynt og ljóst til umræðu á meðal leiðtoga Evrópusambandsins en það er „tveggja hraða Evrópa.“

Jean-Claude Piris lét nýlega af störfum sem yfirmaður lagadeildar ráðherraráðs sambandsins og hefur sem slíkur lagt gjörva hönd á að finna lausnir eða að minnsta að kosti að sníða pólitískum lausnum innan sambandsins lagalegan búning. Piris er raunar einn af tengdasonum Íslands; kvæntur íslenskri konu og Íslendingum haukur í horni í viðræðum við Evrópusambandið.

Piris kynnti á dögunum bók sína the Future of Europe – towards a two speed-EU? á opnum fundi í Brussel. Í hnotskurn telur Piris að vanda Evrunnar megi að verulegu leyti rekja til fæðingargalla. Á sama tíma og ríkin sameinuðust um mynt, hafi heildarútgjöld ríkjanna og efnahagsstefna verið í áfram höndum aðildarríkjanna. Þarna á milli hafi skapast mikil togstreita; ekki síst eftir að Þjóðverjar – af öllum! – urðu fyrstir til að rjúfa svokölluð Maastricht-viðmið um hámarks fjárlagahalla. Aðrir sigldu svo í kjölfarið og sumir slepptu sköpunargleðinni lausri á bókhaldið.

Piris fer í saumana á fjórum möguleikum til að sporna við þróuninni og viðurkennir að engin þeirra sé nein töfralaus.Hann segir hreint út að Lissabon-sáttmálinn hafi ekki aðlagað sambandið að fjölgun í 27 aðildarríkja. Hann telur engan pólitískan vilja vera fyrir enn einni sáttmálagerð. Í stuttu máli leggur hann til að kjarni aðildarríkjanna skipi sér í framvarðasveit “avant-garde” en taki eftir sem áður þátt í starfi og verði bundinn af ákvörðunum allra 27 á öðrum sviðum. Kjarninn yrði skipaður Evru-ríkjunum sautján en hin aðildarríkin tíu myndu sigla síðar í kjölfarið. Piris bendir á að með þessu sé verið að viðurkenna í orði það sem þegar sé orðið á borði og má í því sambandi nefna neitunarvaldið sem Bretar beittu í desember síðastliðnum á leiðtogafundi ESB." (Mynd: Visir.is)


Króatía: Næstum 60% stuðningur við aðild að ESB

DubrovnikUm 58% Króata vilja að landið gangi í ESB, samkvæmt nýrri könnun. Þjóðaratkvæði (ekki bindandi, en mikilvæg þó) verður haldið á sunnudaginn. Aðeins 1 af hverjum 4 Króötum eru á móti aðild.

Ivo Josipovic, forsætisráðherra, telur að landið muni hagnast verulega á aðild er varðar, menntun, tækni og aukin viðskipti!

Skynsamleg afstaða!

Ef aðild verður samþykkt, mun Króatía verða 28.aðildarríki ESB, en aðeins fyrir 16 árum  geisaði blóðugt stríð í gömlu Júgósalvíu og þar létu um 20.000 Króatar lífið.

Væntanleg aðild Króatía er því einnig stórt og mikilvægt skref til varanlegs aukins lýðræðis, friðar og virðingar fyrir mannréttindum.

(Myndin er frá hinni sögufrægu borg, Dubrovnik, við Adríahaf)


Danskir atvinnurekendur styðja upptöku Evrunnar

KaupmannahöfnFrétt á www.visir.is hefst svona: "Samtök atvinnulífsins í Danmörku (Dansk Industri) eru enn þeirrar skoðunar að upptaka evrunnar væri í þágu hagsmuna dansks efnahagslífs, þrátt fyrir umrótið á evrusvæðinu. Þetta segir Karsten Dybvad, framkvæmdastjóri samtakanna.

„Við höfum ekki skipt um skoðun,“ svaraði Dybvad þegar Fréttablaðið spurði hann hvort Dansk Industri talaði enn fyrir upptöku evru. „Í skoðanakönnunum sjáum við að forystumönnum fyrirtækja sem vilja taka upp evru hefur fækkað frá því sem var, en um leið sjáum við aukinn stuðning við tengingu dönsku krónunnar við evruna.“

Dybvad segist telja að mikil andstaða við upptöku evrunnar í Danmörku samkvæmt skoðanakönnunum sé vegna þeirrar óvissu, sem ríki á evrusvæðinu. „Ef maður styngi upp á því að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um evruna á morgun, myndi fólk sennilega segja manni að bíða hægur og sjá hvernig mál þróast. En við styðjum áfram upptöku evru.“"

Öll fréttin


Frakkland og matsfyrirtækin - einkunnir eða bara álit?

ParísEins og fram hefur komið í fréttum lækkaði matsfyrirtækið Standard and Poor's lánhæfismat Frakklands og níu annarra Evruríkja fyrir helgina. Frakkland fór úr hæsta flokki, AAA í AA+. Þessi ákvörðun hefur verið harðlega gagnrýnd, en Morgunblaðið eyðir öllum leiðara dagsins undir þetta, hvað annað!

Annað svokallað matsfyrirtæki, Fitch, hélt einkunni sinni óbreyttri og hið þriðja, Moody's er með Frakkland ennþá AAA, og segir ástandið stöðugt.

Matsfyrirtækin komu sterklega til sögu í hinni frábæru kvikmynd, The Inside Job, sem sýnd var hér á landi fyrir skömmu. Þau gáfu nefnilega allskonar "ruslbréfum" toppeinkunn og reyndu svo að sverja allt saman af sér í yfirheyrslum á bandaríska þinginu, með þeim rökum að einkunnir þeirra væru í raun bara "álit" (enska: opinions!) 

Hér má sjá átakanlegt myndskeið um þetta, úr Inside Job!

Fleiri myndskeið er að finna á YouTube, notið leitarskilyrðin "rating agencies inside job" meðal annars þetta hér, sem er reyndar ekki í IJ.

Spurningin hlýtur því að vakna hvort í dag sé um að ræða sömu "álit" og toppar fyrirtækjanna tala um í Inside Job!


Þorsteinn Pálsson um gjaldmiðilsmál í FRBL

Þorsteinn PálssonÞorsteinn Pálsson, skrifar áhugaverðan pistil í Fréttablaðið í dag um gjaldmiðilsmál og umræðuna um gjaldmiðilinn. Hann segir:

"Alþýðusambandið efndi í vikunni til fundar um þá spurningu hvort íslenska krónan væri böl eða blessun. Í góðu samræmi við íslenska umræðuhefð setti Morgunblaðið hins vegar ofan í við forystumenn sambandsins fyrir að halda fund um upptöku evrunnar.

Af sjálfu leiðir að skoða þarf aðra kosti til samanburðar ef krónan þykir ekki duga til að veita launafólki öryggi og atvinnulífinu samkeppnishæfa stöðu. En rétt er að íhuga fyrst okkar íslenska Mammon með því að meta reynsluna af sjálfstæðum eigin gjaldmiðli og hversu líklegt er að hann geti svarað framtíðarkröfum þjóðarinnar. Forystumenn Alþýðusambandsins byrjuðu því umræðuna á réttunni.

Eftir að gjaldmiðillinn hrundi verður ekki hjá því komist að ræða hvort endurreisa eigi efnahagslífið á þeim rústum eða finna nýjar undirstöður. Í þeirri umræðu dugar ekki að loka augunum fyrir því sem hér gerðist og láta hana einvörðungu snúast um vanda annarra. Á sama hátt er heldur ekki unnt að láta eins og sá vandi sé ekki til.

Talsmenn launafólks benda réttilega á að útilokað er að bjóða því nýja framtíð með sama óstöðugleika og það hefur búið við. Eins hafa forystumenn atvinnulífsins að frátöldum þeim sem fara fyrir sjávarútvegi og landbúnaði bent á að íslensk fyrirtæki þurfa viðlíka samkeppnisumhverfi og erlendir keppinautar njóta. Þar fara hagsmunir saman."


Króatar kjósa um aðild 22. janúar

VZagrebisir.is segir frá: "Þrátt fyrir fjármálakreppu meðal ríkja Evrópusambandsins (ESB) segjast tæplega 58 prósent Króata styðja aðild landsins að sambandinu samkvæmt nýrri skoðanakönnun samkvæmt frétt á fréttavefnum EUobserver.

Þjóðaratkvæðagreiðsla verður haldin um ESB-aðild í Króatíu 22. janúar næstkomandi. Niðurstaða hennar er ekki bindandi fyrir stjórnvöld, en verði aðild samþykkt er áformað að Króatía verði 28. aðildarríki ESB hinn 1. júlí á næsta ári.

Stuðningur við aðild að ESB hefur aukist verulega frá því í apríl á síðasta ári, þegar skoðanakönnun sýndi að um 26 prósent vildu að Króatía gengi í ESB."

Verði aðild samþykkt, verður Króatía 28. aðildarríki ESB og annað ríkja fyrrum Júgóslavíu að ganga í sambandið, en Slóvenía gekk í ESB árið 2004. Myndin er frá Zagreb, höfuðborg Króatíu.


Vaxtamunur upp á 200 milljarða!

GGylfi Arnbjörnssonylfi Arnbjörnsson, skrifar pistil um gjaldmiðilsmál á Pressuna og gerir þar m.a. allskyns kostnað vegna krónunnar að umtalsefni, sem og viðbrögð ritstjóra Morgunblaðsins við umfjöllun ASÍ um gjalmiðilsmál. Gylfi segir:

"Niðurstaða greiningar Alþýðusambandsins er, að þessi ákvörðun ríkisstjórnarinnar hefur verið þjóðinni æði dýrkeypt. Vaxtamunur milli Íslands og Evrópu hefur lengst af verið 4-5% m.v. vaxtakjör ríkissjóðs – hina svokölluðu grunnvexti – og 7-11% fyrir húsnæðiskaupendur. Krónan hefur á þessum áratug sem liðin er fallið ekki einu sinni, ekki tvisvar heldur þrisvar verulega og er nú svo komið að landsmenn þurfa að ráðstafa allt að 18% ráðstöfunartekna sinna til þess að standa undir þessum mikla vaxtamun! 

Greiðslubyrði ríkissjóðs vegna 4-5% vaxtamunar er á bilinu 50-60 milljarðar króna á ári sem er álíka fjárhæð og kostar að reka allar lífeyris- og félagstryggingar á vegum stjórnvalda! Á þessum þremur árum sem liðin eru frá hruni hefur vaxtamunurinn einn tekið til sín vel á annað hundrað milljarða króna.
Þrátt fyrir það furðar ritstjórinn sig á því að ársfundir Alþýðusambandsins hafi ítrekað samþykkt kröfu um breyttar áherslur í peninga- og gengismálum. Hann skilur bara ekkert í því að launafólk krefjist þess að hætt verði að hirða fimmtund eigna okkar og rekna með gengisfellingum. Þvert á móti sakar hann forseta samtakanna um ,,að tala niður krónuna‘‘ sem viðbrögð við málefnalegri greiningu á þeim vanda sem þjóðin stendur frammi fyrir í kjölfar hrunsins."
Bendum svo á þennan pistil Gylfa um sama mál, gjaldmiðilinn.

Hvernig væri að stefna á GÓÐA hagstjórn?

ASÍ hélt morgunfund um gjaldmiðilsmál í vikunni og þar var Ragnar Árnason einn ræðumanna og varði þar krónuna. Rætt var við Ragnar í Speglinum í gærkvöldi og þar sagði Ragnar að Íslendingum hefði ekki tekist vel upp við stjórn peningamála, það væri staðreynd.

Þetta hefði leitt til falls á krónunni, mikilla sveiflna, óþægilega mikillar verðbólgu og gengisflökts, sem ylli erfiðleikum bæði gagnvart fyrirtækjum og einstaklingum. Nú væru því höft á krónunni (sem er þá væntanlega afleiðing af gjaldmiðlinum!).

Ragnar vill framkvæma kalt hagsmunamat í gengismálum en vill halda krónunni að því gefnum að hér verði rekin "sæmilega skynsöm efnahagsstjórn" en sagði einnig að efnahagsstjórnin þyrfti ekki "að vera neitt stórkostlega góð til þess að krónan sé okkar besti kostur."

En ef við getum ekki treyst þessu, segir Ragnar að það sé ekki svo slæmt að gera Ísland að einskonar fjölmyntasvæði, þar sem allir geta í raun notað þann gjaldmiðil, sem þeir kjósa! Þannig myndi verða til samkeppni um gjaldmiðla, en Seðlabankinn ætti samt áfram að gefa út krónuna!

Til hvers að vera þá að gefa út eigin gjaldmiðil ef allir gætu notað einhverja (væntanlega alþjóðlega) gjaldmiðla? það kostar jú talsverðan slatta að halda úti eigin mynt.

Og er það sem Ragnar segir um að efnahagsstjórnin þurfi ekki að vera neitt stórkostlega góð fyrir krónuna, ekki bara það sama og hafa óbreytt ástand? Að halda öllu áfram opnu fyrir skussaskap, kæruleysi og skorti á aga í ríkisfjármálum?

Eru landsmenn ekki búnir að fá nóg af slíku, með tilheyrandi verðbólgu, okurvöxtum og verðtryggingu?

Hvernig væri bara stefna á alvöru gjaldmiðil og GÓÐA hagstjórn?


Nýr pistill Guðmundar Gunnarsonar um gjaldmiðilsmál

Guðmundur GunnarssonGuðmundur Gunnarsson, fyrrum formaður Rafiðnaðarsambandsins, skrifar pistil um gjaldmiðilsmál á Eyjuna (en pistillinn er í raun grein eftir Guðmund, sem hann birti í norsku tímariti). Guðmundur segir:

"Hvers vegna launamenn vilja losna við krónuna?
Margir af norskum kunningjum mínum spurst fyrir um hvað liggi helst að baki áhuga íslendinga á því að ganga inn í ESB. Ég ætla hér að fara yfir helstu atriði sem rædd hafa verið innan íslenskrar verkalýðshreyfingar undanfarin misseri.

Því er ákveðið haldið að almenning á Íslandi að krónan sé bjarghringur Íslands af tilteknum hópi fólks. Krónan er góð fyrir skuldlaust efnafólk og það er einmitt það fólk sem stendur hvað ákafast gegn breytingum hér á Íslandi. Í reglulegum gengisfellingum krónunnar verður þessi hluti þjóðarinnar sífellt ríkari með stórkostlegum eignatilfærslum innan íslensks samfélags.

Í umræðum þessa fólks um stöðuna er talað eins og líf hafi byrjað á Íslandi í október 2008 eftir algjört kerfishrun og 50% gengisfellingu krónunnar með öll mælitæki núllstillt. Öll tiltæk ráð eru nýtt til þess að halda í gjaldmiðil sem valdhafar geta gengisfellt til að leiðrétta efnahagsleg mistök með því að færa hluta að launum verkafólks til sín.

Fjöldi er hins vegar annarrar skoðunar og bendir á hversu stóran þátt krónan átti í þeim hamförunum sem skullu á landinu haustið 2008. Þá tapaði fjórðungur íslenskra heimila öllu og þau standa auk þess frammi fyrir ókleifu skuldafjalli. Kaupmáttur féll þá um 20% og atvinnuleysi nær þrefaldaðist. Hvers vegna stendur íslenskur almenningur mun verr eftir efnahagshrunið en t.d. almenningur í Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi og jafnvel Írlandi? Þar bjó fólk við gjaldmiðil sem bauð ekki upp sömu geggjun og íslenska örmyntin gerir í ógnarlitlu hagkerfi.

Íslenskir launamenn búa við sveiflukenndan örgjaldmiðil sem hefur valdið því að síðan 1980 hafa að jafnaði farið um 12% af launum í að greiða vaxtamun milli Íslands og ESB, sem veldur hærra vöruverði og meiri húsnæðiskostnaði. Heildarkostnaður heimila launamanna á Íslandi af krónunni á þessum tíma samsvarar því að 30% af tekjum heimilanna.

Þetta ástand verja fyrirtækin í útflutningi af öllum mætti, þau vilja geta selt sína vöru í erlendum myntum, en greitt launamönnum í íslenskri krónu. Öll stærstu fyrirtæki Íslands gera upp í evrum eða dollurum, rekstrarkostnaður krónunnar lendir þar af leiðandi á minni fyrirtækjum og launamönnum.

Íslenska krónan er svæsnasti óvinur íslensks launafólks og veikindi hennar nærast á lækkuðum kaupmætti fólksins. Fjórða árið í röð verður fólk að spara við sig og það er í vaxandi mæli óánægðara með afkomu sína. Sífellt fleiri verða að spara við sig í nauðsynjum, auk þess eru sett ný þjónustugjöld í skólum og aðkomugjöld að í heilbrigðisþjónustu."


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband