Leita í fréttum mbl.is

Tveir þéttir pennar í Fréttablaðinu

Bergur EbbiTveir góðir stings niður penna í Fréttablaðinu í dag, en þetta eru þeir Guðmundur Andri Thorsson, rithöfundur og Bergur Ebbi Benediktsson, lögfræðingur (mynd).

Kíkjum á hvað þeir eru að skrifa:

Guðmundur Andri skrifar: 

"Efnahagshrunið varð ekki út af reiði Davíðs eða þýlyndi Geirs, ágirnd útrásarvitfirringa, fláttskap framsóknarforkólfa eða læpuskap Samfylkingarinnar. Það varð ekki vegna skapgerðarbresta ráðamanna. Ekki bara að minnsta kosti, en við munum alltaf hafa skammsýna ráðamenn, ágjarna kaupsýslumenn og hrokafulla bankamenn meðal okkar: hrunið varð vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem sköpuðust hjá þessu þjóðarkríli í gættinni að ESB. Og lærdómurinn: Við þurfum að komast af sérleiðunum á sjálfa þjóðbraut viðskiptanna. Hugmyndin um Ísland sem efnahagslegt eyland sem spilar til skiptis á Kanann og Kínverjann er stórhættuleg. Ísendingar eru ekki klóka sérleiðaþjóðin og þar með þrotlaust umhugsunarefni öðrum þjóðum. Við þurfum umgjörð um efnahagslífið. Við þurfum skjól.

Og í útlöndum er einmitt skjól."

Allur pistill Guðmundar Andra

 

Bergur Ebbi (úr Sprengjuhöllinni) skrifar:

"Vandamálið liggur í kerfinu en ekki í fólki. Okkur skortir aðhald, aga og yfirsýn. Það er eðlilegt. Íslenskir stjórnmálamenn halda í fullri alvöru að umræður um messuhald í sveitum séu merkilegri en utanríkismál. Evrópusambandið er afgreitt af mörgum leiðandi stjórnmálamönnum sem húmbúkk og leiðindi. Þeim finnst miklu skemmtilegra að opna rafvætt kúabú eða rífast um misheppnaða hörpudiskaútgerð. Í slíkum málum hafa þeir allavega einhver völd, eitthvað að segja og eitthvað að gera. Ekki viljum við að vesalings stjórnmálamennirnir verði gerðir kjaftstopp með leiðindamali úr möppudýrum í Brussel. Það væri eins og að troða sokki í trantinn á manni sem er í miðri sögu."

Og síðar skrifar Bergur Ebbi:

"Ísland hefur undanfarna áratugi verið með gríðarlega landsframleiðslu. Hér eru mikil náttúruauðæfi en fátt fólk. Mér leiðist að segja það, en við höfum sóað svo miklu fé með lélegu skipulagi að það er nánast grátlegt. Og hefði það ekki gerst ef við hefðum verið aðilar að ESB, jafnvel með evrópskan banka í samkeppni við þá innlendu, og erlenda peningastjórn og aðhald í stjórnsýslu? Nei. Það hefði ekki gerst. Þá hefði verið sett spurningamerki við milljarða ríkisstyrki, ríkisábyrgðir, taumlausar lánveitingar til verkefna án framtíðarsýnar. Þá hefði verið sett spurningamerki við pólitískar ráðningar embættismanna, óhagstæða samninga ríkisins við flokksgæðinga. Þá hefði verið sett spurningamerki við allar „sérstöku aðferðirnar" sem við Íslendingar eigum að þurfa til að lifa."

Öll greinin eftir Berg Ebba


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það sem mér fannst áhugaverðast í greininni hans Bergs Ebba var eftirfarandi:

Íslenskt fólk býr nú við gjaldeyrishöft. Peningar mega bara streyma inn í landið en helst ekki út úr því. Þetta er brot á grundvallarreglu EES-samningsins um frjálsa för fjármagns en við megum þetta því við eigum svo bágt.

Hvenær ætla Evrópusamtökin að fara að spyrja Samfylkinguna að því af hverju lausnir ástandsins á Íslandi eru allar í andstöðu við EES samninginn.  Það væri auðveldara ef eini flokkurinn sem segist vilja ganga í ESB fari að vinna í anda ESB.  En það er líklega langt í land með það því eins og Bergur Ebbi skrifar:

Evrópusambandið er afgreitt af mörgum leiðandi stjórnmálamönnum sem húmbúkk og leiðindi. Þeim finnst miklu skemmtilegra að opna rafvætt kúabú eða rífast um misheppnaða hörpudiskaútgerð. Í slíkum málum hafa þeir allavega einhver völd, eitthvað að segja og eitthvað að gera. Ekki viljum við að vesalings stjórnmálamennirnir verði gerðir kjaftstopp með leiðindamali úr möppudýrum í Brussel. Það væri eins og að troða sokki í trantinn á manni sem er í miðri sögu.

Svona greinar hjálpa okkur sem styðja inngöngu Íslands í ESB.

Stefán Júlíusson (IP-tala skráð) 22.6.2010 kl. 01:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband