Leita í fréttum mbl.is

START!

IS-ESB-2"Lögð er þung áhersla á sérstöðu Íslands og tekið fram að lausnir á deilumálum viðræðnanna verði að þjóna hagsmunum beggja aðila. „Ísland yrði minnsta, strjálbýlasta og vestasta aðildarríki ESB. Það er langt frá hinum ríkjunum og glímir við óblíða náttúru. Þessar staðreyndir eru til merkis um sérstöðu Íslands og munu móta viðræðurnar," segir í greinargerðinni. Þar segir enn fremur að viðræður um þá hluta löggjafar ESB sem EES-samningurinn nær yfir ættu að vera einfaldar. Íslendingar muni hins vegar færa rök fyrir því að þær sérlausnir sem þegar eru viðurkenndar í EES-samningnum byggi á gildum rökum. Þar er til að mynda um að ræða reglur um fjárfestingu og um orku- og umhverfismál. Einnig þurfi að taka tillit til sjálfbærrar nýtingar Íslendinga á til dæmis hvölum og ákveðnum fuglategundum. Þá skuli eignarréttur og yfirráð yfir orkuauðlindum og vatni eingöngu vera á höndum aðildarríkjanna sjálfra."

Þetta er hluti fréttar í Fréttablaðinu í dag um þá staðreynd að í dag hefst í raun með formlegum hætti það samningaferli sem sett var í gang með umsókn Íslands að ESB, Evrópusambandinu.

Ljóst er að mikil áhersla verður lögð á sérstöðu Íslands sem þjóðar (og efnahagskerfis). Það er einnig ljóst að það er ekki ætlunin að afsala yfirráðum yfir auðlindum landsins.

Fréttamannafundur um málið verður haldinn í Brussel kl. 10.00 og má sjá hann hér

En hvernig bregst dagblað Nei-sinna, Morgunblaðið, við þessu? Kíkjum á leiðara dagsins:

" Eitt blómlegasta skeið íslenskrar efnahagssögu stóð frá 1991 í hálfan annan áratug. Kaupmáttur óx jafnt og þétt. Atvinnuástand var í blóma. Veruleg eignamyndun átti sér stað hjá fólki og fyrirtækjum. Skattar voru lækkaðir ár frá ári og ýmsir skattar aflagðir."

Á þessum tíma stórjukust líka samskipti og viðskipti okkar við Evrópu, ekki síst vegna tilkomu EES-samningsins, sem í upphafi átti að vera einskonar "fordyri" að ESB.

"Frelsi einstaklinga til orðs og æðis snýst um samkeppni, frjálsan markað og umfram allt fagleg og lögleg vinnubrögð."

Segja má að þetta sé ESB í hnotskurn, ESB snýst að mjög miklu leyti um VIÐSKIPTI, virka samkeppni, frelsi á mörkuðum og fagleg og lögleg vinnubrögð. Þarna hittir leiðarahöfundur Morgunblaðsins naglann á höfuðið, sem er jákvætt!

Og í lokin segir í leiðaranum:

" Á Íslandi skaut rótum illgresi í lystigarði frjáls atvinnulífs sem skipaður var af um það bil 20-25 viðskiptaóvitum. Nú hefur illgresinu verið eytt, enda er grundvallaratriði í huga frjálshyggjumanna að láta ekki skattgreiðendur bera kostnaðinn af misheppnuðum viðskiptaævintýrum einkaaðila. Evrópulöndin ákváðu öll að bjarga sínum bönkum með tilheyrandi kostnaði skattgreiðenda. Íslendingar eru að því leyti heppnir - bankarnir eru búnir að fara á hausinn og nýtt upphaf er næsta skref."

Úff, hvað við erum í raun heppin að allt HRUNDI hér á skerinu, KRÓNAN, BANKARNIR! Lukkunnar pamfílar!

Kannski er þetta bara það besta sem nokkurn tímann hefur gerst í sögu landsins? Sitja t.d. uppi með gjaldmiðil í höftum og sem aðrar þjóðir skrá ekki einu sinni hjá sér, reikna ekki með! Skemmtilegt!

En hvað er svo næsta skref? Um það segir ekkert.

Fyrir Evrópusinna er hinsvegar málið alveg á hreinu: Aukin og mun virkari samskipti við Evrópu, virk aðild að ESB, þjóð meðal þjóða!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnlaugur I.

STOPP !

Vindhaninn Össur Skarphéðinsson baðar sig nú i gylltum sölum ESB elítunnar í Brussel með helstu silkihúfum þessa valdaapparats !

Þessi litli trúður íslenskra stjórnmála telur nú loks í upphöfnum ESB hégóma sínum að nú sé hann sko orðinn:

"Maður með mönnum"

Svona einskonar: "Þjóð meðal þjóða"

En sem betur fer er ESB vindbelgurinn Össur Skarphéðinsson alls ekki Íslenska þjóðin.

Hann talar þarna heldur ekki fyrir munn Íslensku þjóðarinnar og raunar er það svo að hann er þarna úti í algjörri andstöðu og í skömm mikils meirihluta Íslensku þjóðarinnar ! 

Megi skömm hans verða uppi meðan land vort byggist !

Gunnlaugur I., 27.7.2010 kl. 09:31

2 Smámynd: Jón Frímann Jónsson

Þessi grein Morgunblaðsins fer nú bara með ekkert annað en lygi. Enda kostaði bankahrunið íslendinga yfir 800 milljarða króna (kostnaður við krónuna ekki talinn með),  er þá talinn kostnaður vegna gjaldþrots Seðlabanka Íslands meðtalinn. Í þá daga var Seðlabanka Íslands stjórnað af núverandi ritstjóra og væntanlega höfundi leiðara dagsins.

Árin frá 1991 til ársins 1994 voru lituð af kreppu sem var ekki leyst fyrr en með aðild Íslands að EES samningum samkvæmt sögunni. Þannig að þarna er Morgunblaðið vísvitandi að blekkja lesendur.

Jón Frímann Jónsson, 27.7.2010 kl. 10:41

3 Smámynd: Lárus Baldursson

Gott mál.. og nú má ekki semja af sér í aðlögunarferlinu, við verðum að fá samkeppnis hæfar samgöngur og niðurgreiðslur frá ESB til að ísland verði ekki óaðlaðandi jaðarsvæði í Evrópu, íslenskir bændur verða að fá bætur til að verða samkeppnis hæfir, launþegar á íslandi verða að fá bætur vegna bágrar stöðu krónunnar og svakalegrar skerðingar á eftirlaunum ef evran verður tekin upp hér á landi og ég tali nú ekki um hreinlega ráni banka og fjármálastofnana á fasteignum almennings, vegna gallaðs regluverks EEA, Icesave verður að deila jafnt á þegna ESB, annað kemur ekki til greina annars "STOPP"!

Lárus Baldursson, 27.7.2010 kl. 10:52

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

11.12.2009: "Ég hef verið í þeim hópi sem hafði miklar áhyggjur af þróun mála hér landi allt frá árinu 2003 og varaði við innan og utan Landsbankans," segir Yngvi Örn Kristinsson hagfræðingur."

"Lækkun bindiskyldu Seðlabankans á því ári [2003] skapaði um 800 milljarða króna útlánagetu hjá innlendum lánastofnunum. Sú útlánageta fann sér framrás meðal annars í íbúðalánum. Hækkun lána og lánshlutfalls Íbúðalánasjóðs á árinu 2004 var olía á eldinn," segir Yngvi Örn í ítarlegu viðtali í helgarblaði DV.

"Tvennar stóriðju- og virkjanaframkvæmdir á árunum 2004 til 2008, sem juku innlenda fjárfestingu um 40 prósent á ári, hlutu að leiða til ofþenslu. Tilslakanir í ríkisfjármálum, meðal annars lækkun skatta frá 2005 og miklar opinberar framkvæmdir, hlutu einnig að magna vandann."

Yngvi Örn Kristinsson - Reyndi að vara þá við

Þorsteinn Briem, 27.7.2010 kl. 13:11

5 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Úr Össuri í Eldinn

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 27.7.2010 kl. 13:55

6 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Villi er greinilega að benda okkur á að hann sé júrótrass.. á bótum í ESB ;)

Óskar Þorkelsson, 27.7.2010 kl. 14:17

7 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Í reglum Evrópusambandsins er tiltekið að velta sambandsins megi ekki vera meiri en 1,27% af þjóðarframleiðslu aðildarríkjanna en hún er nú rúmlega 1%.

Evrópusambandið fer með samanlagt 2,5% af opinberu fé aðildarríkjanna og ríkin sjálf þar af leiðandi 97,5%."

Þorsteinn Briem, 27.7.2010 kl. 15:00

8 Smámynd: Jón Frímann Jónsson

Vilhjálmur, Þessi mynd lýsir mjög vel þeim hugsunarhætti og fordómum sem andstæðingar ESB á Íslandi boða og lifa við í dag.

Jón Frímann Jónsson, 27.7.2010 kl. 15:08

9 Smámynd: Þorsteinn Briem

Lárus Baldursson.

Verði evran tekin upp hérlendis fá íslenskir lífeyrissjóðir tekjur sínar EINGÖNGU í sterkum myntum, aðallega evrum, þar sem íslenskir launþegar fengju greitt í þeirri mynt, og greiddu því iðgjöld til lífeyrissjóðanna í evrum.

Og Tryggingastofnun ríkisins fengi framlög frá íslenska ríkinu í evrum, þannig að íslenskir lífeyrisþegar fengju allan lífeyri greiddan í evrum.

Íslenskir lífeyrisþegar gætu því auðveldlega búið í ódýrustu evrulöndunum, til að mynda við Miðjarðarhafið.

Við Íslendingar seljum okkar vörur aðallega til Evrópusambandslandanna, sem greiða hæsta vöruverðið.


Þaðan koma flestir erlendir ferðamenn hér og við flytjum aðallega inn vörur og aðföng frá Evrópusambandslöndunum, til að mynda til framleiðslu hér á landbúnaðarvörum, til dæmis tilbúinn áburð, kjarnfóður og dráttarvélar.

"Íslenskar" landbúnaðarvörur hafa hækkað hér gríðarlega í verði vegna gengishruns íslensku krónunnar og hækkunar á verðtryggðum lánum, sem meðal annars stafar af hækkun á verði landbúnaðarvara.

12.3.2009:


"Hrein eign lífeyrissjóðanna til greiðslu lífeyris nam 1.615 milljörðum króna í janúarlok. Hún hafði LÆKKAÐ um 29 milljarða króna frá áramótum. Munaði þar mestu um 50 milljarða lækkun á erlendum eignum sjóðanna í janúar, fyrst og fremst vegna styrkingar krónu í mánuðinum.

Þetta kemur fram á vef Greiningar Íslandsbanka. Erlendar eignir lífeyrissjóðanna voru í lok janúar 424 milljarðar króna, sem samsvarar 26 prósentum af heildareignum þeirra.

Hins vegar jókst eign í innlendum skuldabréfum og verðbréfasjóðum um rösklega 10 milljarða, auk þess sem sjóðfélagalán og aðrar eignir hækkuðu nokkuð.

Lán til sjóðfélaga, en þar er aðallega um verðtryggð íbúðalán að ræða, námu 167 milljörðum í janúarlok og eru því um það bil 10 prósent húsnæðisskulda heimila við lífeyrissjóðakerfið."

Enn rýrna eignir lífeyrissjóðanna


Lífeyrissjóður verslunarmanna lækkaði lífeyrisgreiðslur um 10% 1. júlí síðastliðinn en Lífeyrissjóðurinn Gildi lækkaði greiðslur til lífeyrisþega um 10% 1. júní í fyrra en 3,5% 1. júní síðastliðinn og lækkar þær aftur um 3,5% 1. nóvember næstkomandi.

Lífeyrissjóðurinn Gildi lækkaði lífeyri um 10% í fyrra


Lífeyrissjóðurinn Gildi lækkar lífeyri um 7% á þessu ári, 2010


Lífeyrissjóður verslunarmanna lækkar lífeyrisgreiðslur um 10%


"Lífeyrissjóðir flýta fyrir því að unnt sé að afnema gjaldeyrishöft
með því að kaupa skuldabréf af Seðlabanka Íslands fyrir jafnvirði 88 milljarða króna."

Lífeyrissjóðir kaupa skuldabréf


Tryggingastofnun ríkisins hækkaði ekki lífeyrisgreiðslur um síðustu áramót og mun að öllum líkindum ekki heldur hækka þær um næstu áramót
, að sögn félags- og tryggingamálaráðherra.

"Formaður nefndi að fjárlög íslenska ríkisins fyrir árið 2010 komu út fyrir helgi og sagði ÖBÍ [Öryrkjabandalag Íslands] hafa miklar áhyggjur af því sem fram kemur í frumvarpinu.

Ekki er gert ráð fyrir að bætur almannatrygginga hækki, til dæmis verði engin vísitöluhækkun um næstu áramót. Sagði hann að oft væri talið að öryrkjar bæru tvöfaldar byrðar, þ.e. skattahækkanir og skerðingar á bótum."

Bætur almannatrygginga hækka ekki - Öryrkjabandalag Íslands

Þorsteinn Briem, 27.7.2010 kl. 18:08

10 Smámynd: Sleggjan og Hvellurinn

"Evrópulöndin ákváðu öll að bjarga sínum bönkum með tilheyrandi kostnaði skattgreiðenda. Íslendingar eru að því leyti heppnir"

Hérna er hann að gefa í skyn að bankagjaldþrotin hefði ekki kostað neitt. Sem er ekki rétt.

Næjir að nefna innspítinguna sem ríkisstjórnin þurfti að borga til bankana til þess að laga eiginfjár hlutfallið. Og einni 300 milljarða reikningur sem fellur á skattgreiðendur við gjaldþrot seðlabanka íslands.

Sleggjan og Hvellurinn, 27.7.2010 kl. 20:13

11 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Laun og hlunnindi drógust saman um rúma 38 milljarða milli áranna 2008 og 2009 en atvinnuleysisbætur hækkuðu hins vegar á milli ára um 16,7 milljarða.

Þetta kom meðal annars fram við álagningu opinberra gjalda árið 2010."

Laun lækkuðu um 38 milljarða króna og atvinnuleysisbætur hækkuðu um 17 milljarða króna í fyrra

Þorsteinn Briem, 27.7.2010 kl. 21:03

12 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

,,enda er grundvallaratriði í huga frjálshyggjumanna að láta ekki skattgreiðendur bera kostnaðinn af misheppnuðum viðskiptaævintýrum einkaaðila"

Þetta er mikill barnaskapur hjá kallinum.  Almenningur borgar alltaf brúsann með einum eða öðrum hætti - og alveg sér í lagi ef um fjármálastofnanir og helstu fyrirtæki landsins er að ræða. 

Almenningur, þjóðin, landið í heild,  er að borga gígatískt, bæði beint eins ognefnt hefur verið og einnig með óbeinum hætti vegna frjálshyggjuævintýris dabba og sjalla.  Gígantískt.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 27.7.2010 kl. 21:40

13 Smámynd: Guðjón Eiríksson

"....á meðan land vort byggist"

Nú er Gunnlaugi mikið niðri fyrir. Farinn að ossa og véra og ég veit ekki hvað.

Þegar utanríkisráðherra tjáir sig opinberlega, að ég tali nú ekki á erlendri grund, þá talar hann fyrir hönd þjóðar sinnar. Þannig er það nú bara.

Guðjón Eiríksson, 27.7.2010 kl. 22:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband