Leita í fréttum mbl.is

Stefán Haukur í ítarlegu viðtali um ESB-ferlið

Stefán JóhannessonFréttablaðið birti í helgarútgáfu sinni ítarleg viðtal við Stefán Hauk Jóhannesson, aðalsamningamann Íslands gagnvartt ESB. Í viðtalinu segir m.a.: 

,,Er það rétt sem Joe Borg sagði á dögunum að Ísland væri heppið að vera ekki í hópi fjölda ríkja að semja um inngöngu eins og Malta var á sínum tíma. Eða lendir meiri vinna á ykkur en ef Ísland væri að sækja um aðild samferða öðrum ríkjum?

Sú vinna sem lendir á okkur yrði hvorki meiri né minni við það að vera í hópi með öðrum. ESB semur við hvert og eitt ríki á eigin forsendum en hefur viljað semja við nokkur ríki í einu því það er að mörgu leyti auðveldara fyrir ESB að gera það þannig.

Þegar við gerðum EES-samninginn var mikill styrkur að því að vera í hópi með hinum EFTA-löndunum. En það var ekki síst af því að þau ríki töluðu einni röddu við ESB. Þetta á ekki við í aðildarviðræðum, því þar er hvert ríki að semja fyrir sig.

Það væri kannski ekki verra að vera með öðrum ríkjum í hópi en það að við séum ein veitir ef til vill meiri sveigjanleika fyrir ESB til að nálgast sérlausnir fyrir okkur án þess að ég vilji fullyrða neitt um það.

Þið eruð að fara að karpa við hörkuþjóðir eins og Þjóðverja og Englendinga. Eigið þið einhvern séns í fimm hundruð milljóna manna samband?

Það er mikil einföldun að horfa á höfðatölu í þessu samhengi. Þetta snýst um að hafa þekkingu og reynslu á þeim málefnasviðum sem samningarnir snúast um. Það fólk sem hefur verið beðið um að taka að sér þetta verkefni hefur gert það í krafti sérfræðiþekkingar sinnar og reynslu.

Ég tel að það sé góð sátt um samninganefndina og í samningahópum taka þátt sérfræðingar úr ýmsum áttum, sérfræðingar og hagsmunaaðilar, og það er það sem við erum að byggja á og njóta góðs af.

Ég held við þurfum ekki að hafa áhyggjur af stærð ESB. Evrópusamvinnnan snýst að miklu leyti um málamiðlanir, að finna sameiginlegar lausnir og taka tillit til séraðstæðna í hverju ríki. Í EES-samningaviðræðunum sást hvað íslensk stjórnsýsla getur þegar á reynir."

Í viðtalinu er m.a. komið inn á aðkomu bænda að þessu ferli og um það segir í viðtalinu: 

,,Í næstu viku er fjögurra daga fundur um landbúnaðarmál. Bændasamtökin eru í einum samningahópanna en segjast ekki vilja taka þátt í þessu ferli. Í hverju taka þau ekki þátt og hvað þýðir það? Hamlar það ykkur í þessu rýniferli?

Við höfum átt prýðilegt samstarf við Bændasamtökin en þau hafa gefið til kynna að þau muni ekki taka þátt í rýnifundum úti í Brussel, sem eru vonbrigði. Þetta þýðir að við þurfum að styðjast við þá krafta sem við höfum í landbúnaðarráðuneytinu og það fólk í utanríkisráðuneyti sem hefur tekið þátt í þessu á landbúnaðarsviði.

Það hefði að sjálfsögðu verið æskilegra að hafa Bændasamtökin með enda búa þau yfir mikilli þekkingu. Ég vil ekki vera með getgátur um hvort þetta tefji fyrir, við vinnum bara eins og við getum. Þetta hefur ekki áhrif á rýniferlið núna, því það er ESB sem skýrir sína hlið í næstu viku. En á seinni fundunum, sem verða í lok janúar, þurfum við að gera grein fyrir íslenskri löggjöf og það er mikil vinna að undirbúa það.

Auðvitað hefði verið betra að hafa Bændasamtökin í því og ég vona að þau geri það. Við stefnum á að vera undirbúin fyrir þá fundi og ég á ekki von á öðru.

Þetta getur þá þýtt að Ísland fer verr undirbúið en ella í viðræðurnar?

Hjáseta Bændasamtakanna getur komið niður á undirbúningi og því gæti staða okkar verið lakari en ella."


Allt viðtalið 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband