Leita í fréttum mbl.is

Þráinn Bertelsson í Fréttatímanum: Geðveika þjóðrembu helst að finna í ESB-málinu

Þráinn BertelssonÞráinn Bertelsson, þingamaður er í viðtali í áramótaútgáfu Fréttatímans og ræðir þar ýmislegt, eins og menn gera gjarnan um áramót. Hann drepur niður fæti við ESB-málið og segir um það:

„Þannig að ég er hóflega bjartsýnn og þótt ég sé sem betur fer aldrei mjög bjartsýnn þá er ég alls ekki svartsýnn á framtíðina. Þessi geðveika þjóðremba hefur minnkað og hana er kannski helst að finna í einhverjum taugabiluðum fjandskap við Evrópusambandið eða eitthvað svoleiðis. En það er bara eins og gengur. Við verðum aldrei sammála um alla hluti en ég held að það stefni í að við getum verið sammála um fleira og fleira og þá kannski ákveðin grundvallargildi sem eru þá forsenda þess að framtíðin geti verið farsæl.“

Um stjórnmálin og afturhvarfið til þeirra segir Þráinn:

„Það er gífurlegur munur á því að hafa áhuga á stjórnmálum og að taka þátt í þeim. Munurinn er eiginlega svipaður því að skrifa bók og gagnrýna hana. Og ég held að það sé nú miklu erfiðara að skrifa bókina en gagnrýna en mér finnst þetta ákaflega spennandi og skemmtilegt. Það sem kom mér á óvart var að sjá að í lýðræðinu okkar eru áhrif og völd einstaklinga miklu minni en ég hélt að þau væru. Ég hélt að einstakir þingmenn gætu fengið miklu meira áorkað og svo framvegis heldur en raunin er. Og það er bara gott. Það er alveg prýðilegt að breytingar og lagasetningar þurfi að fara í gegnum þessa mulningsvél sem 63 þingmenn eru. Það er bara alveg nauðsynlegt. Ég vildi bara óska að ég gæti látið meira gott af mér leiða en ég er ánægður með að mér finnst vera hlustað á sumt af því sem ég segi sem telja má skynsamlegt...Það koma leiðinlegir tímar þegar maður er að skrifa. Það er líka stundum gaman að gera kvikmyndir en mestur tíminn fer í bið og einhver vandræði. Þetta er eins í stjórnmálunum. Það er stórkostlega gaman að geta stuðlað að framfaramálum en síðan er mikið um leiðinlegt tuð sem skilar litlu. Þetta er bara eins og annað í lífinu. Stundum er gaman og stundum ekki. Ég geri ekkert tilkall til þess að lífið sé eins og samfelld fullnæging. Þetta er ekkert skemmtilegasti vinnustaður sem ég hef verið á en þarna er margt af bæði góðu og skemmtilegu fólki.“  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þetta eru ómerkileg orð léttvægs manns. Þarf hann virkilega á því að halda að bregða öðrum um geðveiki og taugabilun? Kannast hann ekkert við heilbrigða þjóðerniskennd? Metur hann einskis fullveldi þjóðarinnar, eins og foreldrar hans og þeirra foreldrar hafa eflaust gert? Myndi hann vilja, að ESB réði okkar fiskikvótum og skammtaði okkur 3,1% af makrílveiðum NA-Atlantshafs? Er það "geðveik þjóðremba" að árétta okkar þjóðarréttindi og halda í okkar æðsta vald í löggjafarmálum? Aldrei hefði Jón Sigurðsson samþykkt það hrikalega löggjafarvalds-afsal sem yfirlýst og staðfest yrði með aðildarsamningi við Evrópubandalagið.

Ummæli Þráins í þessu máli eru ólundin einber, engin rök látin fylgja, orðum hans til stuðnings. Allt í lagi, hann hefur svo sem leyfi til að stimpla sig út úr skynsamlegri umræðu. En ykkar standard er ekki betri en svo, að þið sláið þessu upp sem merkilegu!

Jón Valur Jensson, 31.12.2010 kl. 14:39

2 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Þráinn Bertelsson býður upp á venjulegt þrugl:

„Þannig að ég er hóflega bjartsýnn og þótt ég sé sem betur fer aldrei mjög bjartsýnn þá er ég alls ekki svartsýnn á framtíðina. Þessi geðveika þjóðremba hefur minnkað og hana er kannski helst að finna í einhverjum taugabiluðum fjandskap við Evrópusambandið eða eitthvað svoleiðis.

Er Þráinn: hóflega bjartsýnn, aldrei mjög bjartsýnn, eða ekki svartsýnn ? Lifir Icesave-stjórnin til vors, með aðstoð svona njóla ? Eru fleirri svona geðveiki-sjúklingar í stjórnarliðinu ? (Svarið er já !)

Loftur Altice Þorsteinsson, 31.12.2010 kl. 22:17

3 identicon

Þráinn notar geðveikur og taugabilaður sem áhersluorð. Nýlega varð nokkur umræða um orðanotkun rithöfundarins Andra Snæ. það er mikið álitamál að nota orð úr læknisfræði á neikvæðan hátt. Hver myndi nota orðið hjartveikur mep svipuðum hætti? orð úr læknisfræði eru ekki gildishlaðin en þau verða það þegar þau eru notuð í pólitísku samhengi. Þess vegna er rétt að sleppa þessu alveg. Það eru til fjölmörg orð í pólitískri umræðu sem henta betur.

Hrafn Arnarson (IP-tala skráð) 1.1.2011 kl. 11:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband