Leita í fréttum mbl.is

Grein í Bændablaðinu - ESB hafsjór af tækifærum fyrir íslenska bændur?

bændablaðiðÍ nýjasta Bændablaðinu er áhugaverð grein eftir hagfræðing Bændasamtakanna, Ernu Bjarnadóttur, en í henni er fjallað um dreifbýlisaðstoð landbúnaðarstefnu ESB. Tónninn í greininni er óvenju jákvæður, enda finnur Bændablaðið (les: Bændasamtökin) ESB flest til foráttu. En kíkjum á greinina.

Í henni er m.a. sagt frá því að Finnska ríkið í samvinnu við ESB eyðir umtalsverðum fjármunum í nýliðun í landbúnaði, þ.e. reynir að fá ungt fólk til að starfa við landbúnað. Fram kemur að hámarks stuðningur getur numið um 40.000 Evrum, eða um 6.5 milljónum íslenskra króna.

Þá ræðir Erna ýmis önnur mál er t.d. varða umhverfismál og velferð búfjár og dýra og þar kemur fram að sérstakar greiðslur eru í boði til bænda sem eru með kýr og svín, til þess að stuðla að bættri velferð dýranna.

Þá nefnir Erna verkefni sem snúa að verndun votlendis, nýræktunar á skógi, verndun menningararfs, úrvinnslu málma, endurvinnslu plasts, framleiðslu á lífeldsneyti, nýtingu bíómassa, notkunar á endurnýjanlegum orkugjöfum, útbreiðslu internets og upplýsingatækni í sveitum, sem og stuðningi við fólk sem vill taka upp nýja starfsemi.

Þetta er allt að finna í grein Ernu, en þetta eru væntanlega allt hlutir sem myndu "rústa íslenskum landbúnaði" eins og vanalega er viðkvæðið úr Bændahöllinni, þegar rætt er um ESB.

Í lok greinarinnar segir Erna: "Hér er aðeins tæpt á örfáum atriðum úr skýrslunni en aftast í henni er að finna töflur sem gefa yfirlit um verkefni og fjármögnun þeirra."

Er ESB kannski hafsjór af tækifærum fyrir íslenskan landbúnað? Þá vaknar spurningin hvort forysta bænda loki augunum?

Lesa meira hér (Það vantar á krækjuna í Bændablaðinu!)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sá "hafsjór tækifæra" sem þið sjáið í grein Ernu fjalla um þau plön sem Finnar hafa gert um umsókn til ESB á árunum 2007 til 2013.

Það sem einkennir þó þessa "styrki" sem um er rætt er að Finnland þarf sjálft að greiða meir en helming þeirra úr eigin ríkiskassa. Allir styrkirnir frá ESB eru skilyrtir því að mótframlag Finna sé að lágmarki 55% og þaðan af meira.

Að bera saman finnskan landbúnað við þann íslenska er svipað og bera saman epli og appelsínur. Svo ólíkur er landbúnaður þessara landa. Til dæmis er meðalbú í Finnlandi um helmingi minna en hér á Íslandi. Jarðrækt spilar mun stærri hlut í finnskum landbúnaði og svo mætti lengi telja.

Þá er rétt að benda á þá staðreynd að finnskir bændur, sem voru lægt settir tekjulega fyrir inngöngu í ESB hafa lækkað um helming í launum eftir inngöngu, á uppreiknuðu verðlagi. Þar að auki hefur þeim fækkað um meira en helming og útlit fyrir að sú fækkun eigi eftir að verða mun meiri. Þetta er óhugnanleg staðreynd sem ekki verður horft framhjá.

Vissulega býður ESB upp á ýmsa styrki, skárra væri nú miðað við það framlag sem við eigum að leggja þangað. En þeim styrkjum er stjórnað frá Brussel, þar er ákveðið hvort og í hvað þeir skulu notaðir og enginn styrkur fæst til landbúnaðar nema viðkomandi ríki leggi að minnsta kosti jafn mikið fram, eða meira!

Styrkjakerfi ESB er búið til fyrir allt annað umhverfi en við búum við. T.d. eru þeir í flestum tilfellum miðaðir við landstærð, það segir að búskussar sem eiga stórar jarðir geta tutlað út úr þessu kerfi miklar fjárhæðir, jafnvel þó enginn búskapur sé stundaður að viti, en velbúandi bóndi sem á einungis land fyrir sig og sitt bú fær ekkert.

Í reynd hefur þetta þó virkað þannig í Evrópu að þeir sem eiga peninga fá styrki en þeim sem minna eiga af fé og því í meiri þörf fyrir styrki, er haldið utan þeirra. Þannig virkar styrkjakerfi landbúnaðar ESB í raun!!

Gunnar Heiðarsson, 17.5.2011 kl. 22:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband