Leita í fréttum mbl.is

ESB-málið í FRBL

Jón Steindór ValdimarssonJón Steindór Valdimarsson, einn af forvígismönnum Já-Ísland, skrifaði grein í fréttablaðið 28.júní um ESB-málið og segir þar m.a.: "Að mínu mati leikur enginn vafi á því að aðild Íslands getur orðið til góðs. Þess þarf að gæta að aðildin tryggi framtíðarhagsmuni okkar sem fullvalda og sjálfstæðrar þjóðar. Lífskjör og starfsskilyrði atvinnuveganna í víðu samhengi vega þar þyngst. Nefna má þætti á borð við efnahagslegan stöðugleika sem skapar festu í rekstri ríkis, sveitarfélaga, fyrir-tækja og heimila, samkeppnishæfa vexti, afnám verðtryggingar, lægra verð landbúnaðarafurða og aðgang að mörkuðum en ekki síst það að geta tekið þátt í mótun og setningu þeirra reglna er varða eigin örlög.

Stöndum saman
Til þess að ná þessum markmiðum þarf að halda á íslenskum hagsmunum af festu og samheldni. Veita þarf ríkisstjórn og samninganefndinni í senn virkan stuðning og aðhald í þessu mikilvæga verkefni. Samninganefndin er vel skipuð þrautreyndum samningamönnum. Engin ástæða er til að ætla annað en að hún nái góðum árangri.

Öll grein Jóns

Ólafur StephensenLeiðari FRBL fjallaði líka um málið og í honum segir Ólafur Þ. Stephensen: "Nýtt skeið í aðildarviðræðum Íslands og Evrópusambandsins hófst í gær. Þá lauk formlega rýnivinnunni þar sem löggjöf Íslands og ESB var borin saman og hinar eiginlegu samningaviðræður hófust.

Rýnivinnan tók óvenjulega stuttan tíma, um átta mánuði. Það sýnir annars vegar að viðræðuferlið er skilvirkt og hins vegar að Ísland er vel undir aðild að Evrópusambandinu búið. Fram hefur komið að 21 kafla af 33 í regluverki Evrópusambandsins hafi Ísland þegar leitt að mestu eða öllu leyti í íslenzk lög. Það er til vitnis um þá aðlögun Íslands að regluverki Evrópusambandsins sem átt hefur sér stað á þeim sautján árum sem samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið hefur verið í gildi.

Ísland er einfaldlega miklu lengra komið í aðlögun sinni að sambandinu en önnur ríki sem sótt hafa um aðild. Hægt var að ljúka samdægurs viðræðum um tvo kafla af fjórum, sem byrjað var að ræða í gær."

Síðar skrifar Ólafur: "Algengt viðkvæði hjá hagsmunaaðilum bæði í landbúnaði og sjávarútvegi er hins vegar að ómögulegt sé að byggja á fordæmum innan ESB og til lítils að reyna að hagnýta breytt viðhorf til stjórnunar fiskveiða. Þessi öfl tala fyrir ýtrustu kröfum; í raun óbreyttu ástandi. Það eru auðvitað óraunhæfar kröfur og eingöngu til þess fallnar að veikja samningsstöðu Íslands, enda eiga þeir sem setja þær fram það sameiginlegt að vilja alls engan samning.

Kannanir hafa ítrekað sýnt að mikill meirihluti Íslendinga vill ljúka aðildarviðræðunum við ESB og fá að greiða atkvæði um niðurstöðuna. Skylda samningamannanna er að leitast við að ná sem beztum samningi.

Viðræðurnar geta siglt í strand en sagan sýnir að þær klárast alltaf á endanum. Í fyrri viðræðum ESB við umsóknarríki hefur oft ekki verið höggvið á hnútinn í erfiðustu málunum fyrr en á lokametrum viðræðnanna, þegar lýðræðislega kjörnir ráðamenn aðildarríkjanna taka við verkefninu af embættismönnum."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband