Leita í fréttum mbl.is

FRBL: Staðan í ESB-málinu

ESB-ISL2Prentmiðlar komu aftur út í dag og í Fréttablaðinu er grein eftir þremenninga í samninganefnd Íslands gagnvart ESB um stöðuna í ESB-málinu, en þetta eru þau Stefán Haukur Jóhannesson, Björg Thorarensen og Þorsteinn Gunnarsson.

Þau skrifa: "Eftir því sem viðræðunum vindur fram kemur smám saman í ljós hvað aðildarsamningur - og aðild - getur falið í sér í einstökum málaflokkum. Í samningskaflanum um "Samevrópsk net", sem nær yfir regluverk ESB til að koma á sameiginlegu orku-, fjarskipta- og samgöngukerfi, er til að mynda að finna ákvæði um að tengja beri fjarlæg svæði við Evrópu. Fram hefur komið í viðræðunum að Evrópusambandið lítur svo á að lagning sæstrengs frá Íslandi til Evrópu gæti fengist skilgreint sem forgangsverkefni í orkuflutningsáætlun sambandsins og þannig gæti Ísland notið stuðnings við slík áform."

Og síðar segir: "Ríkjaráðstefnan um aðild Íslands fór fram í beinu framhaldi af leiðtogafundi ESB um aukið aðhald í ríkisfjármálum og efnahagsmálum. Ákvarðanir ESB um að takast á við skulda- og fjármálakreppuna kunna að sönnu að hafa áhrif á framtíðarsamstarfið innan vébanda Evrópusambandsins.

Samninganefndin mun fylgjast með þeirri þróun og leggja mat á hana út frá hagsmunum Íslands í yfirstandandi viðræðum en eitt af þeim samningsmarkmiðum sem lagt er upp með í áliti Alþingis lýtur að því hvernig tryggja megi stöðugleika íslensku krónunnar með þátttöku Íslands í myntsamstarfinu ERM II.

Rétt er að hafa í huga að staðan á evrusvæðinu og aðgerðir ESB til að takast á við skuldavanda ákveðinna Evrópuríkja tengist ekki aðildarviðræðum Íslands eða stækkun ESB með beinum hætti eins og merkja má af því að Króatía undirritaði aðildarsamning sinn við ESB nú í desember. En þróunin í Evrópu og á evrusvæðinu hefur hins vegar umtalsverða þýðingu fyrir íslenska hagsmuni enda er mikill meirihluti okkar utanríkisviðskipta við aðildarríki ESB.

Næstu skref

Í mars næstkomandi verða fleiri samningskaflar opnaðir og svo aftur í júní í lok dönsku formennskunnar í ESB. Fram undan er að takast á við erfiða kafla í samningaferlinu, þar á meðal um sjávarútvegsmál, landbúnaðarmál og umhverfismál. Enginn þarf að óttast að viðræðurnar einkennist af asa eða óðagoti. Þvert á móti ráða gæði starfsins hraðanum og viðræðum mun ekki ljúka fyrr en góður samningur liggur fyrir.

Vandað hefur verið til verka í málsmeðferð allri og eiga hagsmunaaðilar og félagasamtök hrós skilið fyrir virka þátttöku í ferlinu. Alþingi er í lykilhlutverki en utanríkismálanefnd fær allar upplýsingar og fylgist á virkan hátt með hverju skrefi."

Ljóst er að innan samninganefndar Íslands er mikil þekking og kunnátta um samningagerð. Ein besta sönnun þess er sú staðreynd að aðalamningamaður Íslands, Stefán Haukur, stjórnaði undanfarin átta ár samningaviðræðum Rússlands og WTO (Alþjóðaviðskiptastofnunin) og lauk þeim samningum fyrir skömmu með aðild Rússlands að WTO. Stefán Haukur skrifaði fyrir jól grein um þetta, sem vert er að benda á.

Rétt eins og það er mikilvægt fyrir Rússa að fá sæti við borðið hjá WTO er ekki síður mikilvægt fyrir Ísland að fá sæti við "ESB-borðið" þar sem mikilvægar ákvarðanir eru teknar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband