Leita í fréttum mbl.is

Grein Benedikts Jóhannessonar um gjaldmiðilsmál í Fréttatímanum

Hér má lesa grein Benedikts Jóhannessonar um gjaldmiðilsmál, sem birtist í Fréttatímanum fyrir páska. 

BenediktMargir velta því fyrir sér þessa dagana hvaða gjaldmiðill henti Íslendingum. Afdrifaríkt verður að kasta krónunni á glæ. Því er afar mikilvægt að hugsa vel sitt ráð. Þjóðin hefur áður gert grundvallarbreytingar í gjaldeyrismálum, breytingar sem höfðu varanleg áhrif á daglegt líf Íslendinga um langt árabil.

Ísland var með alþjóðlega mynt

Í upphafi 20. aldar voru Íslendingar í myntbandalagi með öðrum Norðurlandaþjóðum. Sama gengi og svipað verðlag gilti á svæðinu. Meirihluti utanríkisviðskipta var við Norðurlöndin. Því fundu landsmenn ekki mikið fyrir því þótt þessi sameiginlega króna breytti um gengi gagnvart öðrum myntum. Í fyrri heimsstyrjöldinni riðlaðist bandalagið. Þó hefur gengi norsku, dönsku og sænsku krónanna fylgst þokkalega að þau tæplega 100 ár sem liðin eru frá því að leiðir greindust. Ein af gömlu bandalagsþjóðunum fór þó aðra leið. Íslenski hundraðkallinn frá 1918 er ekki dansks fimmeyrings virði í dag.

Ný mynt, verðtryggð króna

Eftir sextíu ára basl með sjálfstæða krónu var verðbólga hér orðin slík að krónanrýrnaði um nær helming á hverju ári. Enginn vildi spara. Íslendingar fundu þá upp nýja einingu, verðtryggða krónu. Verðtrygging er vissulega til annars staðar, en hvergi er hún jafnútbreidd og á Íslandi. Ástæðan er sú að krónan sjálf er ónýt. Enginn vill lána öðrum til áratuga í venjulegum krónum. Með verðtryggðri krónu er tryggt að Íslendingar skulda alltaf jafnmikið að raunvirði, þótt  launin rýrni við hverja gengisfellingu.

Peningastefna með hæstu vöxtum

Í upphafi 21. aldar var Seðlabanka Íslands falið að halda verðbólgunni í skefjum með vaxtastefnu. Peningastefna bankans var í samræmi við viðurkenndar hagfræðikenningar. Vextir voru hækkaðir til þess að sporna við verðbólgu. Útlendingar freistuðust af hávaxta krónubréfum. Gengi krónunnar styrktist og innflutningur jókst. Útflutningsfyrirtæki fengu minna en áður fyrir sína vöru. Vaxtahækkanir höfðu þó lítil áhrif á neyslu, því að flestir voru með lán í verðtryggðum krónum eða erlendri mynt sem fóru eftir öðrum lögmálum. Eftir sjö ár hrundi efnahagskerfið, krónan var sett í höft. Hundruð milljarða króna í eigu útlendinga voru læst inni. Til varð tvöfalt gengi: Aflandsgengi og afleitt gengi.

Áhætta við evru

Af þessu má sjá að Íslendingar taka talsverða áhættu með því að ganga í myntbandalag:

  1. Verðbólgan verður ekki lengur sú mesta Vesturlöndum.
  2. Vextir verða ekki lengur miklu hærri hér en í nágrannalöndum.
  3. Vægi verðtryggingar verður lítið og menn eiga auðvelt með að reikna út hvað þeir skulda.
  4. Ekki verður lengur hægt að lækka laun almennings í einu vetfangi með gengisfellingu.
  5. Þjóðin verður af sínu helsta tómstundagamni, gjaldeyrisbraski.

Vonandi verður þessi listi til þess að menn hugsa sig mjög vel um, áður en þeir taka upplýsta ákvörðun um að kasta sinni ástsælu krónu. Þar með fórna þeir hagstjórn sem færði Íslendingum svo margt á undangenginni öld sem aðrar þjóðir fóru á mis við.



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Alfreð Herlufsen

Ágæti Benedikt, vantar ekki eitthvað meira með þessari annars góðu grein?

Vantar ekki að nefna þann veikleika þjóðarinnar að eyða um efni fram?

Vantar ekki að nefna það að iðjulega er samið um kauphækkanir sem standast ekki, sé miðað við tekjur þjóðarbúsins?

Verður ekki gjaldmiðilsfall þegar samið er um óraunsæjar kauphækkanir, sem er sama gjörð eins og að eyða meira en er aflað?

Benedikt, er ekki nauðsynlegt að koma með heildarmyndina þegar verið er að greina stór álitamál?

Ef þjóðin væri meðlimur í ESB þá fengi hún enga aðild að gjaldmiðli þjóðanna, sé miðað við hvernig hún fer að ráði sínu í efnahagsmálum, er það ekki rétt hjá mér Benedikt?

Ég er enginn sérfræðingur um efnahagsmál, en ég veit hvenær veskið mitt er tómt og ég get ekki borgað það sem á mér hvílir. Þá dreg ég mig inn í skel og spara og spara eins ég mest má, til að komast í þá stöðu að ég geti borgað mín gjöld og gert skyldu mína.

Er þetta ekki grundvallaratriði í öllum búskap, hvort heldur hann er einstaklinsmiðaður eða þjóðfélagsmiðaður?

Ég endurtek þakkir fyrir þín ágætu skrif og hógværð í málflutningi.

Margir mættu taka þig til fyrirmyndar, en ég bið þig að bæta við ítarlegri útleggingum frá þessum vinkli sem ég hér hef tíunda að nokkru.

Sigurður Alfreð Herlufsen, 6.4.2012 kl. 13:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband