Leita í fréttum mbl.is

Samningsafstaða Íslands gagnvart ESB í tveimur köflum birt

Á www.vidraedur.is segir þetta:

Samningsafstaða Íslands varðandi tollabandalag annars vegar og utanríkistengsl hins vegar í samningaviðræðum Íslands og ESB hefur verið birt á viðræður.is. Samningsafstaðan var send framkvæmdastjórn ESB og aðildarríkjum sambandsins eftir að um hana var fjallað í viðkomandi samningahópum, samninganefnd Íslands og utanríkismálanefnd Alþingis, og hún samþykkt í ráðherranefnd um Evrópumál og ríkisstjórn. Búist er við því að viðræður hefjist í viðkomandi málaflokkum fyrir lok þessa árs.

Kafli 29 um tollabandalagið heyrir ekki undir EES-samninginn. Markmið tollabandalagsins er að örva viðskipti á milli aðildarríkja og við þriðju ríki og bæta samkeppnisskilyrði og samkeppnishæfni evrópskra fyrirtækja. Aðildarríki tollabandalags ESB hafa sameiginlega tollskrá gagnvart þriðju ríkjum en tollar á innflutning og útflutning falla hins vegar niður milli aðildarríkjanna, enda fara vörusendingar óhindrað yfir landamæri eins og um innanlandsviðskipti sé að ræða. Í samningsafstöðunni kemur fram að Ísland muni með nauðsynlegum lagabreytingum tryggja áframhaldandi öflug eftirlitsúrræði með ólöglegum innflutningi til landsins, ekki síst fíkniefnum. Í samningsafstöðunni er einnig vikið að hugsanlegum neikvæðum áhrifum sem breyttir tollar gætu haft á innflutning aðfanga til mikilvægra atvinnuvega, eins og til orkufreks iðnaðar, landbúnaðar og fiskvinnslu. Minnt er á að ESB er uppálagt að hafa að leiðarljósi þarfir aðildarríkja fyrir hráefni og hálfunnar vörur og að sama skapi tryggja að skilyrðum til samkeppni milli aðildarríkja sé ekki raskað hvað fullunnar vörur varðar. Um þessi atriði verður þó samið í kafla 30 um utanríkistengsl og kafla 11 um landbúnað, þó ekki sé útilokað að leita þurfi lausna í kafla 29 síðar í ferlinu.

Kafli 30 um utanríkistengsl er heldur ekki hluti af EES-samningnum. Kaflinn nær m.a. til viðskipta við ríki utan sambandsins, þ.m.t. fríverslunarsamninga og tolla, mál sem varða þróunarsamvinnu og mannúðar- og neyðaraðstoð. Í samningsafstöðu Íslands kemur fram að stefna Íslands á sviði þróunarsamvinnu og mannúðar- og neyðaraðstoðar falli vel saman við stefnu ESB á þeim sviðum. Í afstöðunni eru gerðar kröfur á sviði utanríkisviðskipta um að leitað verði leiða til að innflutningur á aðföngum til orkufreks iðnaðar, hráefnis til fiskvinnslu og aðfanga til fiskveiða og fiskeldis raskist sem minnst við aðild. Ennfremur er óskað eftir samstarfi við ESB um að áhrif aðildar Íslands að sambandinu hafi sem minnst áhrif á viðskipti við lönd utan þess. Síðast en ekki síst er lögð áhersla á að varðveita hið nána samband Íslands og Færeyja sem endurspeglast m.a. í Hoyvíkur-samningnum. Í afstöðunni er gerður fyrirvari um að tollverndin sé mikilvæg stuðningsráðstöfun í landbúnaði og að á því máli þurfi að taka í 11. kafla viðræðnanna um landbúnað og dreifbýlisþróun. Ennfremur áskilur Ísland sér rétt til að koma að málinu síðar ef ekki finnast viðunandi lausnir í 11. kafla.

Samningaviðræðurnar um aðild Íslands að Evrópusambandinu snúast um 33 kafla í regluverki ESB, auk kafla um stofnanir og annað. Alls hafa 18 samningskaflar verið opnaðir frá því að efnislegar aðildarviðræður hófust í júní á síðasta ári og er samningum þegar lokið um 10 þeirra. Alls hefur samningsafstaða Íslands í 24 köflum verið birt á viðræður.is."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband