Leita í fréttum mbl.is

Dúndur leiðari um Evrópumálin í FRBL

Þórður Snær JúlíussonEinn ákveðnasti leiðari um Evrópumál í langan tíma, birtist í Fréttablaðinu þann 14.september og er eftir Þórð Snæ Júlíusson. Leiðarinn hefst með þessum orðum:

"Íslensk umræða um Evrópusambandið (ESB) snýst að mestu um hversu mikil upplausn ríkir innan sambandsins. Stóryrtir andstæðingar þess að aðildarferli Ísland fái að klárast með þjóðaratkvæðagreiðslu leggja línurnar með einföldunum, dómsdagsvísum og þjóðrembu. Þeim tókst meira að segja að láta kosningar um forseta Íslands snúast um ESB. Sigurstranglegur frambjóðandi þurfti meira að segja að þvo af sér aðildarsinna-stimpil sem sitjandi forseti klíndi á hann með því að líkja inngöngu í sambandið við það að leigja herbergi í brennandi húsi.

Vandamál ESB er vissulega risavaxið. Þar var skuldavandi einkabanka og óráðsía einstakra ríkja gerð að yfirþyrmandi vandamáli heillar heimsálfu. Alls nema skuldir Evrulandanna samanlagt 88,2 prósentum af vergri landsframleiðslu þeirra, langt frá 60 prósenta markinu sem sett var í Maastricht-skilyrðunum sem ríki þurfa að uppfylla til að geta tekið upp evru sem gjaldmiðil. Fjórtán lönd innan sambandsins uppfylla ekki þetta skilyrði. Hagvöxtur innan evrusvæðisins er neikvæður, atvinnuleysi 11,3 prósent og verðbólga sums staðar mikil. Enn getur brugðið til beggja vona og tilvera þess er langt í frá meitluð í stein. En standi sambandið erfiðleika sína af sér er ljóst að það mun verða mun sterkara á eftir.

Það eru líka batamerki að eiga sér stað í Evrópu. Samþykkt þýska stjórnlagadómstólsins á því að stofnun stöðugleikasjóðs evrusvæðisins, ESM, samræmist þýsku stjórnarskránni hefur lægt öldur á mörkuðum álfunnar. Tilkynningu Evrópska seðlabankans um áætluð kaup á ótakmörkuðu magni skuldabréfa sem útgefin hafa verið af stórskuldugum evrusvæðisins var einnig vel tekið. Fjárlagahalli á Ítalíu og Portúgal hefur verið að dragast saman og írska ríkið fór í vel lukkað skuldabréfaútboð fyrr á þessu ári. Og evran, sem fjórðungur alls gjaldeyrisvaraforða heimsins er geymdur í, styrkist dag frá degi um þessar mundir."

Eins og margir hafa tekið eftir hefur gengi krónunnar verið að síga umtalsvert og það hefur gerst á mjög skömmum tíma, þrátt fyrir að krónan sé í gjaldeyrishöftum. En í seinni hluta leiðarans gerir Þórður skuldastöðu að umræðuefni, sem og samningsstöðu Íslands að umtalsefni:

"Og þegar lítið auðlindaríkt eyríki, sem hefur náð að minnka fjárlagahalla sinn úr 13 prósentum af vergri landsframleiðslu niður í nánast engan, snúið miklum samdrætti upp í stöðugan nokkurra prósenta árlegan hagvöxt, endurskipulagt bankakerfið sitt, náð verðbólgu niður og minnkað atvinnuleysi í 4,4 prósent, bankar upp á og vill inn þá lítur það vel út fyrir ESB. Það sýnir styrkleika út á við.

Þessi staða gerir það að verkum að samningsaðstaða Íslands gagnvart sambandinu hefur líkast til aldrei verið betri. Ef kröfur okkar um fullt forræði yfir stýringu veiða og skiptingu aflaheimilda innan íslenskrar efnahagslögsögu, um að landið verði allt skilgreint sem svæði norðurslóðalandbúnaðar og að sambandið aðstoði okkur við afnám hafta svo við getum tekið fyrr upp evru en ella eiga einhvern tímann eftir að nást í gegn þá er það núna, þegar ESB er veikt fyrir.

Því er það augljóst hagsmunamál fyrir þjóðina alla, sem á skilið að fá að kjósa um besta mögulega samning sem við getum fengið við sambandið, að ljúka yfirstandandi viðræðum. Þá getur hún tekið upplýsta ákvörðun um hvernig hún vilji haga framtíð sinni í kjörklefa. Þjóðin á rétt á því að taka þessa ákvörðun sjálf og hún á rétt á því að gera það á grundvelli besta mögulega samnings sem hægt er að ná við ESB. Það er ólíðandi að þröngur hópur sérhagsmunaafla ætli sér að taka þann ákvörðunarrétt af henni. Það má einfaldlega ekki gerast."

Hægt er að taka heilshugar undir þessi orð Þórðar - það er lýðræðislegur réttur þjóðarinnar að fá að kjósa um aðildarsamning! Lítil klíka má ekki hindra það!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sleggjan og Hvellurinn

Mjög skelegg og góð grein og eftir standa NEI sinnar með allt niðurm sig.

Sleggjan og Hvellurinn, 14.9.2012 kl. 17:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband