Leita í fréttum mbl.is

Egill Almar Ágústsson í Viðskiptablaðinu: Fjárfestum í hagsæld

Á vef JáÍsland stendur: "Egill Almar Ágústsson, meistaranemi í hagfræði og fjármálum við Brandeis háskóla í Bandaríkjunum, ritaði grein sem birtist í Viðskiptablaðinu þann 29. nóvember, en í greininni fjallar hann um viðskiptaumhverfið á Íslandi, vankanta þess og nauðsyn þess að byggja grunn fyrir meiri fjárfestingu og þar með aukna framleiðni hér á landi. Greinina má lesa hér að neðan.

Nýlega gaf McKinsey og Company út skýrslu um íslenskan efnahag. Ein af þeirra niðurstöðum var sú að Ísland er með 20% lægri framleiðni en löndin sem við viljum bera okkur saman við. Við vinnum lengur en nágrannaþjóðir okkar og fáum lægri laun. Skýrslan fjallar enn fremur um að viðskiptaumhverfið sé lélegt á Íslandi, að fjármögnun sé erfið og að fjárfesting sé allt of lítil. Í raun er skýrslan að segja að það verði að laga grunnviðskiptaumhverfið á Íslandi til þess að byggja upp grunn fyrir meiri fjárfestingu og þar með aukinni framleiðni og þar með hagvöxt og hagsæld. Menntun er annað lykilatriði en ég ætla ekki að fjalla um hana hérna. Förum aðeins yfir þá hluti sem þarf að laga.

Það þarf að laga viðskiptaumhverfið

Fyrirtæki fjármagna sig í dag á lélegum kjörum. Vextir eru breytilegir eða lánin verðtryggð. Fastir vextir eru varla í boði til langs tíma og jafnframt eru vextir mikið hærri en í nágrannalöndum. Lánakerfið á Íslandi gerir það að verkum að fyrirtæki geta orðið fyrir miklum skakkaföllum. Þetta kemur í veg fyrir að fyrirtæki geti fjárfest sem er alger grundvöllur þess að framleiðni fyrirtækjanna aukist. Enn fremur gera háir vextir og léleg kjör það að verkum að fyrirtæki ákveða ekki að fjárfesta þrátt fyrir að tækifærin séu fyrir hendi. Jafnframt gera skakkaföll tengd fjármögnun það að verkum að fjárfesting sem hefur átt sér stað getur tapast. Þetta gerðist í hruninu. Fyrirtæki sem höfðu verið í góðum rekstri voru eyðilögð vegna þess að lánin hækkuðu. Þetta leiddi til gífurlegs taps fyrir Ísland og lækkaði getu atvinnulífsins til að greiða há laun.

Hvernig aukum við framleiðni?

Í hagfræði er fjallað um að einn aðalgrundvöllurinn fyrir hagvexti og hagsæld sé að land sé með mikla fastafjármuni. Fastafjármunir eru hlutir í hagkerfinu sem við höfum fjárfest í og eru notaðir til að búa til þá framleiðslu sem hagkerfið byggist upp á. Með fastafjármunum er átt við hótelin sem gera okkur kleift að bjóða ferðamönnum til Íslands, skipin sem gera okkur kleift að veiða fisk, tölvurnar sem gera okkur kleift að skrifa hugbúnað og allt annað sem við notum til að búa til þá framleiðslu sem er þjóðarframleiðsla Íslands. Ef land býr yfir miklum fastafjármunum er framleiðni há og þar með eru laun há.

Það þarf meiri fjárfestingu

Við þurfum að byggja upp umhverfi þar sem mikil innlend- og erlend fjárfesting á sér stað. Til að ná þessu markmiði þurfum við að vera með gott viðskiptaumhverfi. Við þurfum að losa okkur við gjaldeyrishöftin og auka framleiðni í efnahagnum.

Lykilatriði til að ná þessum markmiðum er að taka upp alþjóðlegan gjaldmiðil og eina leiðin til að gera það er að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru. Með því að taka upp evru lögum við fjármögnunarumhverfið á Íslandi. Vextir lækka mikið en það verður líka hægt að taka lán með föstum vöxtum til langs tíma. Þetta mun gera fyrirtækjum (og einstaklingum) kleift að búa til áætlanir og fjárfesta mun meira en áður. Þetta mun gera það að verkum að breyting í gengi gjaldmiðilsins mun ekki eyðileggja fyrir fjárfestingunum. Upptaka evru og meðfylgjandi afnám gjaldeyrishafta mun leiða til meiri erlendrar fjárfestingar. Erlendir fjárfestar vilja stöðugt viðskiptaumhverfi þar sem hægt er að byggja upp rekstur. Þeir hræðast gjaldeyrishöft og mikið flökt á genginu.

Við verðum að auka framleiðni hér á landi og leiðin til þess er að bæta viðskiptaumhverfið og þar með auka fjárfestingu í því sem eykur framleiðni. Með aukinni framleiðni getum við hækkað laun og lífskjör í landinu. Evra og Evrópusambandið er grundvallaratriði ef við ætlum að ná þessu góða markmiði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband