Leita í fréttum mbl.is

Sema Erla á DV-blogginu: Ræðum lífskjör almennings í ESB-málinu

Sema Erla SerdarSema Erla Serdar, verkefnastjóri hjá Já-Ísland, skrifar góða grein á DV-bloggið um ESB-málið og leggur þar áherslu á að kjör almennings séu of lítið rædd í sambandi við málið. Grein hennar hefst svona: "

Umræðan um mögulega aðild Íslands að Evrópusambandinu tekur til margra þátta sem nauðsynlegt er að ræða. Þá á ég við þætti eins og sjávarútveg, landbúnað, fullveldi og fleira í þeim dúr, en umræðan stjórnast oftar en ekki af slíkum þáttum. Að mínu mati gleymist hins vegar oft að ræða um hvað aðild Íslands að ESB snýst fyrst og fremst um. Það er, lífskjör almennings á Íslandi.

Í dag einkennist Ísland af litlu atvinnuframboði, háu matvælaverði, háum vöxtum, verðtryggingu, gjaldeyrishöftum, fáum tækifærum og ónýtum gjaldmiðli sem heimilin í landinu bera gríðarlega háan kostnað af. Ég á bágt með að trúa því að slík lífskjör séu framtíðarsýn margra Íslendinga.

Í dag höfum við, fólkið í landinu, fengið tækifæri til þess að ákveða hvernig framtíð við viljum á Íslandi, og hvort sú framtíð eigi að einkennast af þáttum eins og þeim sem nefndir eru hér að ofan. Eða hvort við göngum í Evrópusambandið, tökum upp evru, og bætum lífskjör almennings á Íslandi.

Lægra matvælaverð
Á árunum 2008 - 2012 hækkaði matvælaverð á Íslandi um 32%. Ítrekað hefur verið rannsakað hvað muni gerast með matvælaverð á Íslandi eftir inngöngu í ESB og alltaf virðist niðurstaðan vera sú sama. Matvælaverð mun lækka! Sem dæmi má nefna að verð á kjúklingum, eggjum og svínakjöti mun lækka um allt að 40 - 50% og mjólkurvörur um allt að 25%. Ég hef margoft nefnt þetta áður, einfaldlega vegna þess að slíkum sparnaði fyrir heimilin má ekki gera lítið úr.

Lægri vextir
Annað sem mikið hefur verið rætt um og rannsakað í tengslum við aðild Íslands að ESB eru lánakjör okkar Íslendinga miðað við lánakjör Evrópuríkjanna, sérstaklega á húsnæðismarkaði.

Með íslensku krónuna og verðtryggðu lánin búum við hér á landi við gríðarlega háar vaxtagreiðslur, miðað við nágranna okkar í Evrópu. Sem dæmi má nefna á árunum 1998 - 2010 voru nafnvextir á húsnæðislánum hér a landi um 12% meðan þeir voru mest 5% í Evrópu. Í dæmi sem ASÍ tók til skoðunar kom í ljós að á meðan evrópsk fjölskylda var að borga um 5 - 800 þús.kr. í vexti á ári, var íslensk fjölskylda með sama lán að borga um 1 - 2 milljónir króna í vexti á ári.

Með aðild Íslands og upptöku evru gefst okkur tækifæri til þess að taka lán á betri kjörum, án verðtryggingar, og þannig munu heimilin í landinu spara sér gríðarlega háar upphæðir í vaxtagreiðslur á ári hverju."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband