Leita í fréttum mbl.is

Egill um Ólaf á Eyjunni

Egill HelgasonOrð forseta lýðveldisins á erlendri grundu í Sviss hafa orðið mönnum tilefni til skrifa og á Eyjunni skrifar Egill Helgason:

"Það er kannski ekki alveg rétt hjá forseta vorum að Ísland sé gott dæmi um hvernig er að standa utan Evrópusambandsins og njóta velgengni. Það getur verið að það henti Íslendingum að vera utan ESB, en við erum varla nein fyrirmynd þótt tekist hafi að rétta aðeins úr efnahagslífinu hér eftir fáránlega óstjórn og hrun.

Ísland er reyndar með aukaaðild að ESB í gegnum EES samninginn. Sjálfur David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, hefur talað um að slíkt fyrirkomulag sé ómögulegt. Þannig taki ríki við tilskipunum án þess að ráða nokkuð um þær.

Ríki Evrópu hafa gengið í Evrópusambandið af ýmsum ástæðum, ríki Austur-Evrópu fóru til dæmis þangað inn eftir áratugalanga hörmungasögu. Í aðeins einu Evrópusambandsríki er í alvöru talað um úrsögn.

Það er í Bretlandi – eða nánar tiltekið Englandi – því fylgi við ESB er mun meira í Skotlandi. Bandaríkjamenn vara bresku ríkisstjórnina við að stíga þetta skref – segja að það muni dæma Breta til áhrifaleysis. Það verður forvitnilegt að sjá þessa umræðu í samhengi við fríverslunarsamning ESB og Bandaríkjanna sem er í burðarliðnum."

Síðan segir Egill: "

Sviss er fyrir utan með sína fjármagnsparadís – og Norðmenn hafa sína olíu. Fjármagnsparadísir eitra efnahagslíf heimsins, olían eitrar umhverfið. En Svisslendingar og Norðmenn vita ekki aura sinna tal. Samt eru til dæmis Norðmenn út um allt í Evrópu að gæta hagsmuna sinna. Það geta Íslendingar ekki. En við erum líka örríki sem skiptir fjarskalega litlu máli í hinu stóra samhengi. Þannig gátum við til dæmis hannað útgönguleið úr bankahruninu hér sem hefði varla gengið meðal stærri þjóða.

Og svo má spyrja hvort forsetanum finnist upplausn Evrópusambandsins vera fýsilegur kostur, að Evrópuþjóðir fari aftur að keppa sín á milli eins og áður í stað samvinnu? Hann er alltaf mjög neikvæður í tali gagnvart ESB – en þegar Kína er annars vegar er hann með eindæmum jákvæður. Þeir eru fáir þjóðarleiðtogarnir í Evrópu sem tala með þessum hætti.

Í framhaldi af þessu má benda á viðtal við Einar Benediktsson sendiherra sem birtist í síðasta þætti af Silfri Egils."

(Leturbreyting ES-bloggið)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Best fer á því að Egill taki viðtal við sjálfan sig í þessum áróðursþætti Rúvsins sem skattgreiðendur borga.Egill er ekkert annað en senditík ESB, sem rekur stöðugan áróður fyrir aðild Íslands.Það myndi hugsanlega spara skattgreiðendum á Íslandi fé ef Egill talaði bara við sjálfan sig.Niðurstaðan varðandi aðild yrði sú sama.Nei við ESB. 

Sigurgeir Jónsson, 24.1.2013 kl. 11:38

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Allt var það satt og rétt sem forsetinn sagði um beitingu hryðjuverkalaganna og máttu Gordon Brown og aðrir fá að heyra það. 

En við erum sjálf ekki algerlega hvítþegnir englar. Það eru ekki allar þjóðir Evrópu sem gátu fengið tugi milljarða ókeypis inn í hagkerfi sitt, svo sem 40% af byggingarkostnaði Hörpu, tekið það frá grandalausu og auðtrúa fólki í Bretlandi og Hollandi svo sem lífeyrisþegum, líknarsjóðum og sveitarsjóðum og haldið því eftir hér í landinu í formi mannvirkja, sem voru að miklu leyti reist fyrir þetta illa fengna fé.

Á sínum tíma var hér heima talinn mikill fengur að því að peningarnir úr Icesave kæmu "beint og milliliðalaust" inn í íslenska hagkerfið, af því að Iceasave bæri í sömu stöðu og bankaútibú hér innan lands.  

Ómar Ragnarsson, 24.1.2013 kl. 13:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband