Leita í fréttum mbl.is

Íslenskt ho ho og ESB - Sigurlaug Anna um Íslenska hestinn og ESB

Hestar og afurðir af þeim hafa verið mikið í fréttum að undanförnu og þar er Ísland ekki undanskilið. Íslenski hesturinn blandast meira að segja (á öllum fimm gangtegundunum) inn í ESB-umræðuna!

Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Já-Íslands skrifaði grein í MBL þann 27.2 og einnig er greinina að finna á Eyjunni. Sigurlaug byrjar svona:

"Í desemberhefti Eiðfaxa skrifar Karola Schmeil undarlega grein sem ber heitið „Evrópusambandið og íslenski hesturinn“. Megin inntak greinarinnar er það að íslenska hestinum stafi af því sérstök hætta ef Ísland gangi í Evrópusambandið, aðallega vegna sjúkdóma sem kunna að berast hingað til lands og vegna blöndunar við önnur hestakyn. Þetta er mjög sérkennileg niðurstaða því það er ljóst að íslendingar fara fram á varanlega sérlausn varðandi innflutning á lifandi dýrum til landsins og ekkert sem bendir til annars en að Evrópusambandið fallist á slíka sérlausn.

Hræðsluáróður

Gaman hefði verið að lesa grein um þau viðfangsefni sem hestamenn velta sérstaklega fyrir sér í sambandi við aðildarviðræður Íslands og ESB. Grein sem hefði á faglegan og fræðandi hátt haft það að markmiði að upplýsa lesendur. Þess í stað er grein Karolu hlutdræg, gildishlaðin og augljóslega ætluð til að vekja hræðslu. Það er ekki að sjá að höfundur hafi kynnt sér viðfangsefnið sem fjallað er um.

Áfram bann á innflutningi lifandi dýra, fersku kjöti og plöntum

Ef samningsafstaða Íslands, frá því í desember 2012, í 12. kafla um matvælaöryggi og dýra- og plöntuheilbrigði er skoðuð, sést að farið er fram á að viðhaldið verði banni við innflutningi lifandi dýra, að löggjöf ESB um dýraheilbrigði og um viðskipti með lifandi dýr gildi ekki að því er varðar Ísland. Sérfræðingar á þessu sviði telja líklegt að fallist verði á slíka sérlausn fyrir Ísland vegna sérstöðu landsins á þessu sviði, komi fyrir því sterk vísindaleg rök. Hins vegar er ljóst að einungis fullbúinn samningur milli Íslands og ESB getur endanlega sagt til um hvort fallist verði á afstöðu Íslands í málinu. Einnig er farið fram á áframhaldandi bann við innflutningi fersks kjöts og plantna.

Sóknarfæri fyrir íslenskan matvælaiðnað

Íslenskir búfjárstofnar eru viðkvæmir vegna legu landsins og einangrunar og tekist hefur að miklu leyti að halda sjúkdómum í skefjum. Þetta er sérstakt afrek og eftirsóknarvert að viðhalda. Sjúkdóma- og lyfjalausar íslenskar kjötvörur eru einmitt sérstaða og sóknarfæri fyrir íslenskan matvælaiðnað við inngöngu Íslands í ESB. Þess vegna þurfum við að láta á það reyna að semja þannig við ESB að þeir hagsmunir verði tryggðir."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband