Leita í fréttum mbl.is

Tvær góðar greinar í FRBL

FRBLVert að vekja athygli á tveimur góðum greinum í FRBL í dag. Sú fyrri er eftir Helga Magnússon, fyrrum formann Samtaka iðnaðarins en hann er m.a að velta fyrir sér eftirköstunum eftir landsfund Sjálfstæðisflokksins. Helgi skrifar m.a. annars um þá ákvörðun landsfundarins að hætta beri aðildarviðræðum við ESB:

"Ekki er unnt að draga aðra ályktun af þessu en þá að flokkurinn treysti þjóðinni ekki til að taka þessa mikilvægu ákvörðun. Ef menn trúa því að kjósendur fari sér að voða í þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB þá er það ekkert annað en grímulaus forsjárhyggja og hún er Sjálfstæðisflokknum ekki samboðin og fellur ekki að grunnstefnu hans.

En hvers vegna verður þá einangrunarstefna ofan á þegar landsfundur ályktar? Á því kunna að vera ýmsar skýringar. Ein er sú að nokkrir fyrrum ráðamenn í flokknum hafa lengi farið mikinn í öfgakenndri andstöðu sinni við Evrópusambandið og mælt eindregið gegn samningaviðræðum, hvað þá samningum, og einskis svifist í málflutningi sínum. Þeir voru fyrirferðarmiklir á fundinum og höfðu sitt fram ekki síst vegna þess að núverandi forysta flokksins er veik og ráðvillt og hefur ekki burði til að leiða stefnumótun flokksins inn á farsælar brautir. Fyrir það mun flokkurinn gjalda í komandi kosningum.

Ég hef þá trú á sjálfstæðisfólki almennt að því líki ekki við eingangrunartilburði og gamladags hræðsluáróður. Réttkjörnir forystumenn flokksins hljóta að sjá þetta en þá virðist skorta kjark og þor til að standa gegn háværum öfgaöflum."

Í þeirri síðari skrifar Magnús Þorlákur Lúðvíksson um gjaldmiðilsmál í grein sem ber yfirskriftina Sir Alex Ferguson bjargar krónunni, þar sem hann segir m.a.: "Krónan er ekkert vandamál í sjálfu sér. Vandinn er sá að hagstjórnin á Íslandi hefur ekki verið nægilega vönduð. Með agaðri hagstjórn verður krónan ekkert vandamál." Þetta er algengt viðkvæði þessa dagana þegar gjaldmiðilsmálin ber á góma og auðvitað er í þessu sannleikskorn. Það þarf ekki mikla þekkingu á efnahagsmálum til að átta sig á því að léleg hagstjórn mun meðal annars valda vandamálum sem gera vart við sig í gegnum gengi krónunnar.

Það er þó ekki þar með sagt að krónan valdi engum vandræðum jafnvel þótt hagstjórnin verði í heimsklassa. Góð hagstjórn mun ekki breyta því að gjaldeyrismarkaður með krónur og skuldabréfamarkaður í krónum munu áfram verða litlir. Og vextir fyrir vikið háir. Þá mun gengisleki áfram verða mikill, sem þýðir það að gengissveiflur krónunnar hafa meiri áhrif á verðlag á Íslandi en til dæmis gengissveiflur í dölum hafa á verðlag í Bandaríkjunum. Verðbólga verður sem sagt áfram hærri hér. Þá má að lokum nefna rannsóknir Seðlabankans sem benda til þess að krónan hafi fremur verið sjálfstæð uppspretta sveiflna í íslensku hagkerfi en dempari á þær. Loftlaus fótbolti mun hægja á spili á fótboltaliðsins jafnvel þótt Sir Alex Ferguson sé fenginn til að stýra því."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband