Leita í fréttum mbl.is

Evrópa-hvenær eða hvort? Furðuleg fréttamennska

Viðskiptaráð og fastanefnd ESB í Osló héldu áhugaverðan fund um viðskiptastefnu Evrópusambandsins á Grand Hótel í fyrradag. Bæði Viðskiptablaðið og Fréttablaðið birtu góðar fréttir af fundinum en Evrópusamtökunum blöskrar hins vegar umfjöllun Morgunblaðsins um þennan fund. Fyrirsögnin í blaðinu í gær var; ,,Ísland nær betri viðskiptasamningum en ESB". Staðreyndin er hins vegar sú að Ísland gerir nánast aldrei fríverslunarsamninga eitt og sér. Það er í langflestum tilfellum innan EFTA samstarfsins. Eina undantekningin þar á er samningur við Færeyinga sem Íslendingar gerðu beint. Svo er reyndar verið að semja við Kínverja en það er ekki frágengið.

Það er reyndar rétt að Grétar Már Sigurðsson, ráðuneytisstjóri, minntist á að EFTA löndin hafi í einstaka tilfellum náð betri samningum en ESB. Hann slóg hins vegar alla varnagla í þessu efni og sagði að þetta væru sérhæfðir samningar á vissum sviðum. Aðalatriðið í málflutningi hans var að við förum oftast í kjölfar Evrópusambandsins enda stærsta viðskiptablokk heimsins þar á ferð með her sérfræðinga á sínum snærum . Að slá síðan fram sem alhæfingu í fyrirsögn að Ísland nái betri viðskiptasamningum en ESB er ekki mjög traustvekjandi blaðamennska.

Staðreyndin er sú að samningar ESB eru mun fleiri og ná yfir víðfeðmara svið. Í flestum tilfellum hafi EFTA löndin komið í kjölfarið á ESB löndunum og jafnvel sett inn í samninga að EFTA löndin myndu fá sambærileg kjör og ESB löndin myndu semja um. Á mörgum mjög mikilvægum sviðum komust við ekki að eins og til dæmis í aðildarviðræðum á milli ESB og Bandaríkjanna um loftferðamál sem er auðvitað gríðarlega mikilvægt mál fyrir land eins og Ísland. Með þessu er ekki verið að segja að við eigum að vera með einhverja minnimáttarkennd gagnvart Evrópusambandinu en að halda því fram að land með 0.01% af heimsviðskiptum geti náð betri samningum en ESB með tæplega 20% af viðskiptum heimsins er annað hvort vísvitandi blekkingarleikur eða stórkarlalegt mikilmennskubrjálæði.

Morgunblaðið þegir síðan þunnu hljóði yfir því að þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Guðfinna Bjarnadóttir, sem var fundarstjóri, varpaði fram stórmerkilegri pólitískri yfirlýsingu á fundinum að það væri ekki spurning hvort heldur hvenær Íslendingar myndu kjósa um aðild að Evrópusambandinu. Það hentar greinilega ekki ritstjórnarstefnu Morgunblaðsins að segja frá slíkum málum.

Reyndar er þetta ekki í fyrsta skipti sem Morgunblaðið tekst á einhvern ótrúlegan hátt að afbaka efni funda um Evrópumál. Skemmst er rifja upp frásögn Morgunblaðsins af fundi sem Háskólinn í Reykjavík hélt fyrr á þessu ári með hollendingunum Pierre Mathjisen. Þar vísaði fyrirsögn Morgunblaðsins í efni fundarins en það var fullkomlega röng túlkun á orðum ræðumannsins. Maður þakkar fyrir að það eru aðrir fjölmiðlar í landinu sem ekki hafa svona ferkantaða heimssýn eins og ritstjórn Morgunblaðsins.

En þá að einhverju jákvæðu. Í Viðskiptablaðinu í gær er ágæt grein eftir Auðbjörgu Ólafsdóttur blaðamann þar sem hún fjallar um evrópumál og stöðu Sjálfstæðisflokksins í umræðunni. Auðbjörg segir meðal annars;

,,Hversu lengi enn mun Sjálfstæðisflokkurinn viðhalda tortrygginni stefnu sinni í Evrópumálum? Fyrr eða síðar mun forysta Sjálfstæðisflokksins þurfa að horfast í augu við að sífellt stækkandi hluti kjósenda flokksins er hlynntur Evrópusambandsaðild og enn stærri hluti hugsanlegra framtíðarkjósenda flokksins. Samkvæmt skoðanakönnun sem Capacent Gallup framkvæmdi í síðasta mánuði fyrir Samtök Iðnaðarins eru 50% stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins hlynntir aðild."

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband