Leita í fréttum mbl.is

Mun ungbarnadauði aukast við inngöngu í ESB?

Þau ánægjulegu tíðindi bárust nýlega frá Sameinuðu þjóðunum að Íslendingar væru í efsta sæti á lífskjaralista samtakanna, Human Development Report 2007. Í þessu sambandi var þó sérkennilegt að heyra til sumra þingamanna, bæði í ræðu og riti, blanda Evrópuumræðunni á Íslandi inn í þennan árangur. Staðreyndin er nefnilega sú að það hefur lítil áhrif á röðun á þennan lista hvort Ísland er fullgildur meðlimur í Evrópusambandinu eða ekki.

Lífskjaravísitala Sameinuðu þjóðanna notar þrjá mælikvarða til að meta árangur.

  1. vísitölu langlífis sem nýfædd börn eiga í vændum.
  2. vísitölu menntunar sem ræðst af einum þriðja af fullorðinsfræðslu og tveimur þriðju af samanlagðri skólasókn á öllum skólastigum.
  3. vísitölu kaupmáttar þjóðartekna á mann.

Evrópusambandið er samstarf sjálfstæðra ríkja sem hafa ákveðið að vinna náið saman á ákveðnum sviðum, meðal annars í atvinnu- og efnahagsmálum. Í þessum málaflokkum þurfa löndin að lúta ákveðinni yfirstjórn ESB. Hins vegur kemur Evrópusambandið lítið nálægt uppbyggingu á heilbrigðis- og menntamálum í aðildarlöndunum nema þá óbeint í gegnum samstarf í gegnum mennta- og lýðheilsuáætlanir sambandsins. Það er því ljóst að tveir fyrstu mælikvarðar S.Þ. á lífskjaralistanum hafa lítið sem ekkert með Evrópusambandsaðild að gera.

Þátttaka Íslands í Evrópusamrunanum, þá sérstaklega aðild okkar að EES, er að flestra mati einn lykilþátturinn í þeirri miklu lífskjaraaukningu sem átt hefur sér stað á Íslandi undanfarin ár. Þó hafa margir hagfræðingar og forráðamenn í íslensku atvinnulífi bent á að ójafnvægi í hagkerfinu og örmyntin króna skapi óþarfa flækjustig og dragi þar með úr verðmætasköpun hér á landi. Þórarinn G. Pétursson, hagfræðingur hjá Seðlabanka Íslands, hefur birt rannsóknir sem sýna að aðild Íslands að Evrópusambandinu og upptaka evru myndi auka þjóðarframleiðslu um 4% og erlend viðskipti um 12%.

Þetta sýnir, þvert á fullyrðingar margra andstæðinga Evrópusambandsaðildar á Íslandi, að það myndi hafa jákvæð efnahagsleg áhrif á Íslandi að ganga í ESB. Innganga í sambandið myndi því eingöngu styrkja stöðu okkar á toppi lífskjaralista Sameinuðu þjóðanna. Svarið við fyrirsögn minni á þessari grein liggur því í augum uppi. Aðild að Evrópusambandinu hefur lítið sem ekkert með ungbarnadauða að gera. Með sömu rökum og þessir þingmenn hafa beitt þá mætti einnig færa sönnur á að fjarvera Ísland úr Alþjóðakjarnorkumálaráðinu hafi tryggt okkur fyrsta sætið á lífskjaralista Sameinuðu þjóðanna!

Andrés Pétursson er formaður Evrópusamtakanna

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband