Leita í fréttum mbl.is

Skammtímalausnir og langtímalausnir

Það er að bera í bakkafullan lækinn að agnúast út í Seðlabanka og ráðamenn fyrir aðgerðaleysi. Við erum land skuldara og þrátt fyrir sterkar undirstöður þá hafa markaðir einhverra hluta vegna sýnt okkur gulaspjaldið, eins og Intrum orðar það og það gengur ekki að gera ekki neitt. Til skamms tíma þarf að standa enn þéttar við bakið á fjármálastofnunum og ríkisstjórn að koma einhuga og fumlaust fram til að styrkja trúverðugleika íslensks efnhagslífs. Til lengri tíma er skynsamlegt að huga að grundvallarþáttum sem snerta stöðugleika í viðskiptum við útlönd, krónuna og tiltrú erlendra viðskiptaaðila og fjárfesta. Evrópusambandsaðild getur verið mikilvægur þáttur í að ná öllum þessum markmiðum, að því gefnu að ásættanleg niðurstaða náist í aðildarviðræðum.

Engin skammtímalausn?

Bent hefur verið á að upptaka evrunnar sé ekki skamtímalauns vegna þess að það taki tíma að ganga í gegnum umsóknarferli, samningaviðræður, þjóðaratkvæðagreiðslu og ganga frá lögformlegum atriðum fyrir aðild að ESB. Eftir að til aðildar kemur þarf Ísland að uppfylla skilyrði fyrir upptöku evru og þar bætast við nokkur ár til viðbótar. Þetta er hárrétt. Ísland mun ekki taka upp evru á einni nóttu. Á sama hátt og kyrrsetumaður mun ekki komast í form við það eitt að kaupa sér kort í líkamsrækt og ráða einkaþjálfara mun Ísland ekki fá evru við umsókn um aðild að ESB. Hins vegar skiptir máli að taka ákvörðun – að taka fyrsta skrefið og senda skilaboð um ásetning. Að mæta í ræktina. Reynsla þeirra aðildarríkja ESB sem hafa tekið upp evruna er sú að áhrifa gætir þegar í stað eftir að ákvörðun um evruaðild hefur verið tekin. Áhrifin koma fram vegna væntinga markaðarins um stöðugleika, aðgerða í efnhagsmálum og ríkisfjármálum og samstarfs við Seðlabanka Evrópu sem eru hluti af aðlögun að upptöku evrunnar. Yfirlýsing um ásetning um Evrópusambandsaðild og upptöku evru gefur til kynna áform um að uppfylla skilyrði um verðbólgu, hallalaus fjárlög og takmörkun skulda við útlönd. Hún sendir skilaboð um að efnahagsumhverfi aðlagist í skrefum þeim viðmiðunum sem gilda á evrusvæðinu. Að viðskiptaumhverfi hér veri allt hið sama og í Evrópusambandinu.

Ekkert ríki er eyland

Ekkert ríki er eyland í alþjóðlegu efnhagslífi. Íslenskt hagkerfi er fremur opið og viðskipti eru að langstærstum hluta við Evrópu. Ríflega 70% viðskipta eru við rík Evrópska efnhagssvæðisins og um helmingur viðskipta er við evrusvæðið. Inngangan í EES var stórt, jákvætt skref fyrir Ísland. Sú einkavæðing og frelsi í fjármálaviðskiptum sem átti sér stað í kjölfarið hafa skapað hér mikinn hagvöxt, ný tækifæri og aukna þjóðarframleiðslu til langframa. Aðild að ESB og evrunni, með ásættanlegum aðildarsamningi, er rökrétt skref fram á við. Skref sem mun fjarlægja viðskiptakostnað við evrusvæðið og á sama tíma losa útflytjendur og innflytjendur undan þeim óþolandi sveiflum sem þau þurfa að búa við. Athuganir hafa sýnt að ESB-aðild og evran muni auka utanríkisviðskipti og þjóðarframleiðslu til langframa.

Trúverðugleiki

Minnsti gjaldmiðill í heimi og staða Íslands utan ESB vekur eðlilega spurningar erlendra aðila um viðskiptaumhverfi, framtíðarhorfur og sveiflur á íslenskum markaði. Aðild að Evrópusambandinu eyðir óvissu um aðstæður á íslenskum markaði. Allt viðskiptaumhverfi hér verður það sama og í ESB, þar sem helstu samstarfsfyrirtæki okkar og samkeppnisfyrirtæki okkar eru. Útskýringar á markaðsaðstæðum, peningamálastefnu og lagalegu umhverfi fyrir fjárfestum og viðskiptaaðilum verða einfaldar og skýrar. Aðstæður hér verða einfaldlega þær sömu og í Evrópu, því alþjóðlega umhverfi sem við erum þegar hluti af og getum kallað okkar heimamarkað. Lagaumhverfi verður það sama og samkeppnisskilyrði verða í stórum dráttum þau sömu. Að sjálfsögðu leysir Evrópusambandsaðild ekki öll vandamál. Það verða áfram sveiflur í hagkerfinu og það koma til nýjar áskoranir koma vegna sameiginlegrar peningamálstefnu á evrusvæðinu. Hins vegar verður stöðugleikinn meiri, trúverðugleikinn meiri og rekstarumhverfi fyrirtækja breytist þegar viðskiptakostnaður við evrur hverfur og breytingar á gengi gjaldmiðilsins gagnvart helstu viðskiptaaðilum sömuleiðis.

Aðalsteinn Leifson er lektor í viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu fimmtudaginn 3. apríl 2008


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband