Leita í fréttum mbl.is

Matvælaverð gæti lækkað um 25% með aðild að ESB

Neytendasamtökin birta á heimasíðu sinni skýrslu sem Evrópufræðasetrið á Háskólanum á Bifröst hefur unnið fyrir samtökin.

Í skýrsluni kemur fram að aðild að Evrópusambandinu myndu þeir tollar sem enn eru milli Íslands og ESB falla niður. Munar þar mestu um landbúnaðarvörur. Þetta myndi skila sér í lægra verði á þessum vörum. Tollar gagnvart ríkjum utan ESB gætu í sumum tilvikum hækkað.

Í skýrslunni sem kynnt var í dag eru skoðaðir kostir og gallar og þeir metnir út frá hagsmunum íslenskra neytenda. Með aðild að Evrópusambandinu fengi Ísland aðild að tollabandalagi Evrópu. Þannig yrðu netviðskipti við fyrirtæki innan ESB ódýrari og einfaldari. Slíkt myndi auka samkeppni gagnvart ýmsum innlendum fyrirtækjum.

Í skýrslunni kemur einnig fram að endurskipuleggja þyrfti íslenskan landbúnað líkt og Svíar og Finnar þurftu að gera áður en þau gengu í ESB. Þannig þyrfti meðal annars að draga úr stuðningi við íslenskan landbúnað en stuðningur við landbúnað á Íslandi er með því mesta sem gerist. Í skýrslunni segir einnig að miðað við þá samninga sem Finnar gerðu ættu Íslendingar góða möguleika að ná samningum varðandi stuðning við innlendan landbúnað.

Þá er einnig búist við að matvælaverð gæti lækkað um allt að 25 prósent með inngöngu Íslands í ESB. Þá ættu vextir á íbúðarlánum að lækka töluvert en erfitt er að segja hversu mikil lækkunin yrði. Þá ætti viðskiptakostnaður að lækka með aðild að ESB og myntbandalaginu en slíkt ætti að geta leitt til lægra vöruverðs. Íslendingar gætu einnig sótt í sjóði sem yrðu til styrktar landbúnaðar og byggðarmála. En einnig yrði samstarf við lönd ESB öflugra á sviðum mennta- og menningarmála.

Neytendasamtökin taka það fram að samtökin taki ekki afstöðu með skýrslunni eða hvort Ísland eigi að sækja um aðild að Evrópusambandinu.


mbl.is Telja líklegt að kjör almennings myndu batna með ESB-aðild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingólfur

Og hvað átti verð að lækka mikið við virðisaukaskattslækkunina?

Annars er það afnám tolla sem þarna mundi lækka verðið. En ESB aðild er ekki neitt skilyrði fyrir afnámi tolla, því stjórnum við sjálf -ennþá. 

Ingólfur, 10.4.2008 kl. 19:11

2 Smámynd: Erna Bjarnadóttir

Það er ekkert nýtt í þessari skýrslu um stöðu íslensks landbúnaðar gagnvart ESB. Það hefur verið marg skoðað í fleiri en einni skýrslu að íslenskur landbúnaður myndi bera minna úr býtum í stuðningi innan ESB. Svíar endurskipulögðu sinn landbúnað áður en þeir gegnu í ESB og af öðrum ástæðum. Finnar lögðu á sig langa og stranga samningavinnu fyrir sinn landbúnað. Síðan það var hefur ESB endurskipulagt landbúnaðarstefnu sína oftar en einu sinni. Í þessari skýrslu er t.d. enga úttekt að finna á hvað var sambærilegt á matvælamarkaði´hér og í Finnlandi þegar Finnar gerðust aðilar að ESB og hvað hefur breyst síðan. Matvælaverð í Finnlandi lækkaði um 11% en verð á afurðum til bænda margfalt meira. Hér á landi hefur margt breyst á undanförnum árum. Tollar gagnvart ESB hafa verið lækkaðir, margvíslegar breytingar urðu líka á vörugjöldum t.d. á síðasta ári. Það er því búið að breyta ýmsu síðan sumar þeirra skýrslna sem vitnað er til í þessari skýrslu voru gerðar. Ég kem hins vegar ekki auga á að skýrsluhöfundar geri neina sjálfstæða úttekt á þessu.

Erna Bjarnadóttir, 10.4.2008 kl. 22:56

3 Smámynd: Jónas Tryggvi Jóhannsson

Það er rétt Ingólfur að við getum sjálf fellt niður tolla og innflutningshöft, og það er verið að ræða það nú fyir alvöru til að stemma við verðbólgu - en við gátum sjálf tekið upp frjálsan markað áður en við fengum hann sem tilskipum frá ESB í gegnum EES samninginn, en samt gerðist það ekki.

Stundum er bara betra að fara reyndar leiðir heldur en að vera að vesenast í því að bíða eftir að íhaldið í sjálfstæðisflokknum átti sig á því að núverandi ástand gangi ekki; matvælaverð og úrval er til skammar, og vextir eru að sliga bæði fyrirtækin og heimilin. Þetta eru hlutir sem leysast með Evrópusambandsaðild, og því skiljanlegt að margir vilja fara þá leið.

Jónas Tryggvi Jóhannsson, 11.4.2008 kl. 16:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband