Leita í fréttum mbl.is

Norðmenn og Nei-sinnar

KlassekampenÍ gær héldu tveir fulltrúar Nei-samtakanna í Noregi fund í Háskóla Ísland og um kvöldið var rætt við þá í löngu máli í Kastljósinu. Fulltrúar norskra-nei sinna eru frá samtökunum "Nei till EU", en þau fá mest af sínum stuðningi frá norsku bændasamtökunum. Varla er því hægt að segja að um sé að ræða hlutlausa aðila. Annar þessara manna er Dag Seierstad (pabbi rithöfundarins Åsne Seierstad), en hann er gamall vinstri pólitíkus og eðlisfræðingur.

Egill Helgason skrifar um heimsókn Nei-sinnanna á bloggi sínu og segir þar:

,,Hér á landi hafa gamlir kommar haft sig mjög í frammi í baráttunni gegn ESB. Raunar er mjög merkilegt að sjá hvernig þeir ná saman við nýja félaga utarlega af hægrivængnum.

Og nú er farið að flytja inn gamla komma frá Noregi.

Dag Seierstad hefur verið áhrifamaður í pólitíkinni yst í vinstrinu í Noregi álíka lengi og Hjörleifur Guttormsson og Ragnar Arnalds á Íslandi. Raunar hefur hann ekki náð svo langt að verða ráðherra eins og þeir, en hann er sprottin upp úr svipuðum jarðvegi – dvaldi til dæmis mikið í sæluríkjunum í Austur-Evrópu á árunum á sjötta og sjöunda áratugnum.

Sjálfur skrifar hann reyndar aðallega greinar í Klassekampen, blað norskra marx-lenínista, meðan Hjörleifur og Ragnar skrifa í Moggann."

Jón Baldvin Hannibalsson fjallar einnig um Norðmennina á heimasíðu sinni og segir m.a.:

,,Menn geta velt því fyrir sér, hvort meirihluti Norðmanna væri jafn staffírugur gegn aðild að Evrópusambandinu, ef það væri jafnilla fyrir Norðmönnum komið og hinum fjarlægu frændum þeirra á sögueynni.  Ætli Norðmenn myndu ekki hugsa sig um tvisvar, ef þeir væru sokknir í skuldir; ef þeir þyrftu að fara með betlistaf í hendi til grannríkja og fjölþjóðasamtaka til þess að biðja um endurfjármögnun skulda eða bara um lánstraust frá degi til dags vegna innflutnings á nauðþurftum; ef meginið af norskum fyrirtækjum væri úrskurðað “tæknilega gjaldþrota”;  ef skuldir fyrirtækja og heimila hefðu tvöfaldast í einu vettvangi vegna gengisfalls norsku krónunnar.

Varla mundi það bæta úr skák, ef Norðmenn yrðu að búa við gjaldeyrisskömmtun og gjaldeyrishöft; ef norsk fyrirtæki og heimili yrðu að borga nær 20% vexti af skuldum sínum á sama tíma og grannþjóðir borguðu um 5%; ef forráðamenn norska velferðarríkisins yrðu að skera velferðarþjónustuna – þ.m.t. heilbrigðisþjónustu og menntakerfi inn að beini, á sama tíma og Norðmenn yrðu að taka á sig verulega skattahækkun, þrátt fyrir kaupmáttarhrun. M.ö.o. ef Noregur væri ekki olíufurstadæmi heldur “a failed economic state” – eða eins konar fátækranýlenda, eins og Ísland kallast nú í fréttunum hjá þeim á BBC World. Ætli það myndi ekki kveða við annan tón?"
 Sjá á www.jbh.is 

GAGNRÝNISLAUST VIÐTAL 

Í Kastljósinu í gærkvöldi var svo viðtal við Seierstad og Jostein Lindland, framkvæmdastjóra Nei-samtakanna, sem var ótrúleg laust við alla gagnrýni og ögrandi spurningar. Seierstad sagði m.a. að Íslendingar ættu að bíða eftir því hvort það fyndist olía við landið!

Þá væri enn mikilvægara fyrir okkur að ganga EKKI í ESB, sagði hann. Hér er því enn og aftur á ferðinni sú goðsögn að ESB ræni aðildarríkin auðlindunum. Af hverju eiga Bretar enn olíu? Af hverju er ESB ekki búið að höggva niður öll tré í Svíþjóð?

Nei-sinnar geta ekki nefnt eitt einasta dæmi um slíkt og hafa ekki gert. Þetta eru því bölsýnisspár.

Og nú á tímum nútíma samskipta, er ESB virkilega spurning um fjarlægðir?

Viðtal Kastljóssins: http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4431387/2009/05/19/2/

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband