Leita í fréttum mbl.is

Hvað segir sagan?

Baldur ÞórhallssonBaldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði skrifar grein í Fréttablaðið í dag og fjallar um atkvæðagreiðslur um EFTA, EES og Schengen. Greinin er hér: 

Alþingi hefur í þrígang samþykkt, að undangengnum hörðum deilum, þátttöku Íslands í samrunaþróun Evrópu. Í ljósi komandi atkvæðagreiðslu á Alþingi um aðildarumsókn að ESB er fróðlegt að fara yfir hvernig atkvæði féllu um aðild að EFTA, EES og Schengen.

Þrír flokkar klofnuðu í afstöðu sinni til EES. Sjö þingmenn Framsóknarflokksins greiddu atvæði gegn EES undir forystu formannsins Steingríms Hermannssonar en sex þingmenn sátu hjá en varaformaðurinn Halldór Ásgrímsson leiddi hópinn. Fimm þingmenn Sjálfstæðisflokksins höfðu verulegar efasemdir um EES. Á síðustu stundu tókst Davíð Oddssyni að fá hluta þeirra til að greiða atvæði gegn frávísunartillögu og tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu. Átökin innan flokksins ristu djúpt. Flokksforystan ákvað í kjölfarið að leggja alla umræðu um hugsanlega aðild að ESB til hliðar þar sem óttast var að hún gæti klofið flokkinn. EES-samningurinn leiddi einnig til átaka og klofnings innan Kvennalistans en Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sat hjá við afgreiðslu hans.EFTA-aðildin leiddi til klofnings innan Alþýðubandalagsins en þrír þingmenn flokksins greiddu atkvæði með aðild á meðan aðrir voru á móti.

Framsóknarflokkurinn var mjög tvístígandi í málinu. Þingflokkur hans ákvað ekki fyrr en nokkrum dögum fyrir atkvæðagreiðslu um umsókn að EFTA að greiða atkvæði gegn henni. Vitað var að nokkrir þingmenn voru hlynntir umsókninni en allir þingmenn flokksins lögðust þó gegn henni sem og aðildinni sjálfri.

Aðildin að Schengen leiddi til klofnings innan Sjálfstæðisflokksins. Þrír þingmenn flokksins sátu hjá við afgreiðslu málsins en ljóst var af málflutningi þeirra að þeir voru andsnúnir aðild. Stjórnarandstöðuflokkarnir höfðu hver sína nálgunina: Samfylkingin var fylgjandi, Vinstri græn á móti og Frjálslyndi flokkurinn klofnaði í afstöðu sinni.

Það er ekkert nýtt að tekist sé á um Evrópumál innan flokka og að þingmönnum sé gefið frelsi til að fylgja sannfæringu sinni. Fróðlegt verður að sjá hvort sami háttur verði hafður á í atkvæðagreiðslu um umsókn að ESB. En ólíka afstöðu má finna innan allra þingflokka til málsins nema Samfylkingarinnar þar sem einhugur ríkir.

Höfundur er prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband