Leita í fréttum mbl.is

Einar K. Guðfinnsson, þá og nú

Einar K. Guðfinnsson horfir til himinsEinar K. Guðfinnsson, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, ritar grein í sitt gamla blað, Morgunblaðið (var þar einu sinni blaðamaður) um sjávarútvegsmál og ESB. Þar segir hann í byrjun greinarinnar:

"Yfirlýstur tilgangur umsóknar að ESB hefur verið að kanna í eitt skipti fyrir öll hvað í boði sé þannig að enginn þurfi að velkjast í vafa. Það gildir ekki síst um sjávarútvegsmálin, því margir helstu ESB sinnarnir hafa reynt að segja okkur að ekkert sé að óttast. Nú hefur spænski Evrópumálaráðherrann Diego López Garrido sagt okkur hvað  sé í boði. Hverjir skilmálarnir séu. Sú lýsing er í algjöru ósamræmi við það sem trúuðustu ESB sinnarnir hafa sagt okkur.

Það er óhætt að taka mark á senjór Garrido. Spánverjar eru heimsveldi á sjávarútvegssviðinu. Fátt óttast aðrar evrópskar sjávarútvegsþjóðir meira en mögulegan ágang spænska fiskiskipaflotans, eftir hálft ár verða Spánverjar í forsvari ESB og svo er Diego Lópes Garrido Evrópumálaráðherra. Orð hans hafa því mikla vigt og skipta höfuðmáli þegar kemur að því að ræða um stöðu Íslands almennt og sjávarútvegsins sérstaklega innan ESB. Og hann svarar skýrt þegar hann er spurður um þessi mál í Ríkisútvarpinu 30. júlí sl. Spænski ráðherrann segir þar orðrétt:

Íslendingar eru í forréttindastöðu

„En það er auðvitað mikilvægt, og ekki bara fyrir Spán heldur allt Evrópusambandið að við varðveitum í framtíðinni, að Íslandi gengnu í það, réttarreglur bandalagsins. Sú staða sem Ísland hefur nú, við getum kallað hana forréttindastöðu, enda er Ísland fyrir utan Evrópusambandið, og getur þannig útilokað önnur ríki frá miðum sínum og náð að hindra erlend fyrirtæki í að kaupa hlut í íslenskum útgerðum... Þetta er nokkuð sem verður augljóslega að endurskoða þegar viðræður hefjast“.

Hvað felst í orðinu endurskoða? Er það ekki teygjanlegt og opið? Hægt er að endurskoða hluti og komast að mörgum mismunandi niðurstöðum. Nei-sinnar hafa margir hverjir hamrað á því að við aðild muni hér allt fyllast af erlendum togurum, sem muni ryksuga miðin. Fyrr í haust sagði hinsvegar utanríkisráðherra Spánar, Miguel Angel Moratinos, sem þá var hér í heimsókn, að við þyrftum ekki að hafa áhyggjur af þessu, við myndum veiða fiskinn, Spánverjar kaupa hann. Þetta var í Iðnó í byrjun september.

Einar K. er með ágæta heimasíðu og þar er að finna ýmislegt. M.a. þessa frétt frá 1991, þegar Einar var framkvæmdastjóri sjávarútvegsfyrirtækis fjölskyldunnar í Bolungavík og í framboði fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Ekki kemur fram úr hvaða miðli fréttin kemur. Tekið skal fram að feitletranir eru bloggara. Orðrétt segir:

Eigum að hefja tvíhliða viðræður við EB um lækkun tolla

16.4.1991

ÍSLENDINGAR eiga að hefja tvíhliða viðræður við Evrópubandalagið um lækkun tolla á fiskafurðum, enda höfum við öll tromp á hendi til að ná hagkvæmum samningum, telur Einar K. Guðfinnsson, framkvæmdastjóri á Bolungarvík, sem skipar 2. sætið á lista sjálfstæðismanna á Vestfjörðum. Hann segir Íslendinga geta gengið óhrædda og upprétta til slíkra samninga og EB-grýla Framsóknarmanna sé tilbúningur þeirra og hræðsluáróður.

"Mín stefna í þessu máli er alveg klár og skýr. Sjálfstæðisflokkurinn mótaði á sínum tíma þá afstöðu að leita eftir tvíhliða viðræðum við Evrópubandalagið um lækkun á tollum á fiskafurðum. Við þá stefnumörkun var haft í huga að verið væri að taka á því sem þýðingarmest væri fyrir okkur Íslendinga. Ríkisstjórnin kaus að fara aðrar leiðir og það hefur ekki skilað árangri," segir Einar K. Guðfinnsson framkvæmdastjóri á Bolungarvík.

"Framsóknarflokkurinn hefur í kosningabaráttunni reynt að beita einhvers konar EB-grýlu á þjóðina. Hér á Vestfjörðum hafa menn séð í gegnum þennan tilbúning og hræðsluáróður og málflutningur okkar Sjálfstæðismanna hefur hitt í mark. Við göngum því óhræddir og uppréttir til þessara viðræðna, en hörmum um leið að ríkisstjórnin skuli hafa kosið að ganga til EB viðræðnanna án þess að leita umboðs Alþingis.

Það er ekki pólitískur ágreiningur í landinu um að allir samningar við Evrópuþjóðirnar eigi að miðast við að við höldum óskoruðu fullveldi og yfirráðarétti yfir auðlindum hafsins í kringum landið. Áróður andstæðinga okkar í þessum efnum er því rakalaus og ég held við höfum öll tromp á hendi til að ná hagstæðum samningum. Evrópuþjóðirnar eru orðnar háðar okkar fiskafurðum og ég held að þörf þeirra fyrir hagkvæma og skynsamlega samninga sé ekki minni en okkar."

Er þetta sami Einar og sá sem skrifar í dag? Getum við ekki gengið upprétt til samninga við ESB? Höfum við ekki enn þann dag í dag öll tromp á hendi? Veiðireynsluna, hefðina, 70% staðbundna stofna? Er þörf ESB fyrir hagkvæma og skynsamlega samninga ekki jafn mikilvæg fyrir sambandið og okkur? Hefur ESB hag af því að þurrka upp Íslandsmiðin?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Eruð þið virkilega að bera saman inngöngu í Evrópusambandið nú og undir vald þess á flestum sviðum við milliríkjasamninga um lækkun tolla á fiskafurðum fyrir tæpum tveimur áratugum síðan þegar sambandið var auk þess ekki einu sinni til í þeirri mynd sem við þekkjum í dag heldur fyrst og fremst efnahags- og tollabandalag?

Es. Þess utan, Evrópusambandið hafði ekki heldur haf af því að 80% fiskistofna innan lögsögu sambandsins væru ofveiddir - en það varð samt niðurstaðan þökk sé sameiginlegri sjávarútvegsstefnu þess.

Hjörtur J. Guðmundsson, 7.8.2009 kl. 10:44

2 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Ef Íslendingar stæðu utan alþingis og ríkisstjórnar í dag ( ennþá á stigi Höfðingjaveldisins gamla) og okkur byðist að stofna Alþingi og Ríki byggt á þeim grunni sem við höfum í dag þá myndi mörgum Hirtinum blöskra að þurfa að afhenda fiskveiðiréttindi fyrir kvótakerfi handa útvöldum. Að hafa sameiginleg myntkrónu myndi eyðileggja gildi vöruskiptanna. Að einhvert kerfi stjórnaði fiskveiðum og landbúnaði. Hvað yrði þá um mína byggð og mína dalsbúa? Myndu ekki frjósamari byggðirnar ná undirökunum? Myndi valdið ekki flytjast allt til Reykjavíkur? Hingað til hafi menn verið sjálfstæðir á sinni þúfu og nú á að setja reglur um allt og mennta fólk með áróðri um sameiginlega hagsmuni. Ekki minn Hjörtur hann stæði keikur eftir. Enda hefði hann aldrei samþykkt kristnitökuna á sínum tíma með þeim fáranlegu rökum að ein lög skyldu yfir alla ganga.

Gísli Ingvarsson, 7.8.2009 kl. 11:09

3 Smámynd: Evrópusamtökin, www.evropa.is

Hjörtur, líttu á feitletranirnar, þá áttarðu þig á samhenginu....

Evrópusamtökin, www.evropa.is, 7.8.2009 kl. 12:13

4 Smámynd: Haraldur Hansson

Ég er búinn að lesa færsluna tvisvar og feitletranir vandlega. Það sem ég sé frá EKG er tvennt:

1991 - talað fyrir verslunarsamningi við Evrópubandalagið, þar sem "lækkun tolla á fiskafurðum" er megin málið.

2009 - talað gegn inngöngu í Evrópusambandið og vísað til ummæla spænsks ráðherra í því samhengi.

Athugasemdirnar í lokin skil ég þannig að höfundur bloggfærslunnar sé að leggja þetta tvennt að jöfnu! Getur það verið?

Innganga í Evrópusambandið kallar á breytingu á stjórnarskrá og framsal á m.a. löggjafarvaldi til yfirþjóðlegrar stjórnar. Að leggja það að jöfnu við verslun með fisk er hreint og beint galið.

Haraldur Hansson, 7.8.2009 kl. 14:59

5 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Evrópusambandið var ekki til árið 1991. Ok?

Þá var það einungis EF/EEC og allt allt allt annað en það er í dag og varð með tilkomu Maastricht, Amsterdam, Nice og Lissabon sáttmálunum. Já þetta breytist hratt. Ef þið vitið þetta ekki þá vitið þið ekki neitt.

Margir héldu að þeir væru að ganga í efnahagsbandalag þegar þeir gengu í EF/EEC. Núna sitja þeir hinsvegar fastir inni í The European Union. Komast ekki út þaðan út aftur án þess að fremja sjálfsmorð í leiðinni. Þetta er eins og að fá ólæknandi vírus: Eurosclerosis. Það vitum við núna. Það eina sem gildir hér er því að ganga aldrei í þetta bandalag, því það þýðir alltaf á endanum helför þjóðríkis Íslands.

Reynið svo að geta ykkur til hvernig ESB muni líta út og heita árið 2027. Þá mun það heita: THE UNITED STATES OF EUROPE - og þið orðnir ómerkir orða ykkar allra.

Gunnar Rögnvaldsson, 7.8.2009 kl. 16:09

6 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Þessi Einar K. er eigi einn af þeim sem kemur til með að móta framtíðina.  Barn síns tíma.

Hinsvegar er þetta nefnilega ekki rétt hjá honum:

"Nú hefur spænski Evrópumálaráðherrann Diego López Garrido sagt okkur hvað  sé í boði. Hverjir skilmálarnir séu."

Það var ákaflega erfitt að átta sig á hvað umræddur Diego var að meina.  Sem nótaðist best á því þegar gæjinn Kristin RUV fór að spyrja útí reglur esb þar að lútandi og hvernig þær myndu virka - þá snarbakkaði Díegó gæjinn og pakkaði í vörn og fór að tala óljóst og loftkennt.  "Halda möguleikum opnum í framtíðinni" o.þ.h.

Hinsvegar eru alveg ýmsar hliðar á þessum sjávarútvegsmálum og lögsögunni.  (Samt útilokað að ræða af viti um slíkt við andsinna sem kunnugt er)

Td. bara ef að ónýttar fiskitegundir eru veiðanlegar inní lögsögunni.  Eiithvað sem ísl. hirða eigi um að veiða - afhverju mættu þá ekki erlendingar veiða það ?

Það eru svona spurningar sem vakna varðandi esb (og þá miðað við að alls engar undanþágur eða sérlausnir fengjust)

Ómar Bjarki Kristjánsson, 7.8.2009 kl. 18:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband