Leita í fréttum mbl.is

Gjaldmiðill allra landsmanna...?

50-kallÆskuminningar eru, sem betur fer hjá flestum, jákvæðar. Ein af myrkustu minningum bloggritara tengist þó gjaldmiðilsmálum. Úti á landi var eitt sinn rekið byggingafyrirtæki, sem var með um 30-40 menn í vinnu. Faðir ritara var einn af eigendum.  Fyrirtækið hafði reist allskyns byggingar, skólahúsnæði ofl. Svo var ráðist í byggingu fjölbýlishúss. Reksturinn, og byggingin, gekk vel. Sett var fast verð á íbúðirnar, sem allar seldust.  Þetta var á tíma ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsen, (1980-1983).

Ritara minnir að það hafi verið mánudagur. Í hádegisfréttum, yfir ýsunni og kartöflunum, var sagt frá því á gömlu Gufunni, að gengi íslensku krónunnar hefði verið fellt með "myndarlegum" hætti. Þetta var gert að kröfu sjávarútvegsins (til gamans má nefna að loðnan er jú á tíkallinum og þorskurinn á krónunni). 

Afleiðingarnar fyrir þetta litla fyrir urðu afgerandi. Kostnaður vegna lána og annað jókst gríðarlega, svo mikið að það reið fyrirtækinu að fullu. Það varð gjaldþrota. Fyrirtækið, sem hafði verið byggt upp með dugnaði og vinnusemi var ekki lengur til. Allir starfsmenn þess misstu vinnuna, sem og eigendurnir. Þetta varð líka mikið áfall fyrir föður ritara, sem hafði nú misst fyrirtækið, sem var hans líf og starf. Og þetta var ekki síðasta gengifelling íslenslu krónunnar, þær hafa verið margar eftir þetta.

Ritari hugsar oft um þetta í sambandi við okkar blessaða gjaldmiðil, ÍSLENSKU KRÓNUNA. Það virðist nefnilega einkenna hana að hún þjónar sjaldan öllum landsmönnum í einu, er sjaldnast "króna allra landsmanna." Einn daginn er hún svakalega góð fyrir alla sem flytja inn vörur (sterk), hinn daginn er hún svakalega góð fyrir þá sem flytja út (veik). Eins og einmitt núna.

Það sést því á þessu litla dæmi að það vantar jafnvægið, stöðugleika, sem gerir það að verkum að allir eru nokkurn veginn sáttir, en ekki annaðhvort himinlifandi eða hundfúlir!

Hér er örlítið um gengisfellingar af vef HÍ. Höfundur er Gylfi Magnússon, þáverkandi dósent, núverandi viðskiptaráðherra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Já, merkilegt. En ætli þetta með að henta ekki öllum alltaf sé bundið við íslenzku krónuna eða bara gjaldmiðla almennt? Útflytjendur á evrusvæðinu eru t.d. ekkert of ánægðir með evruna núna og hafa ekki verið um árabil vegna hás gengis hennar. Svo mjög reyndar að margir þeirra hafa flutt starfsemi sína til landa þar sem evran er ekki gjaldmiðill s.s eins og frá Finnlandi til Svíþjóðar eða Írlandi til ríkja í Austur-Evrópu. Það er þannig langur vegur frá því að allir séu sáttir við evruna á evrusvæðinu.

Hjörtur J. Guðmundsson, 15.12.2009 kl. 12:26

2 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Það sem því miður er mest áberandi við þennan pistil er nafnleysið. Það lýsir miklu hugleysi.

En án sjávarútvegs og landbúnaðar hefði góði faðir þinn ekki átt neitt byggingarfyrirtæki því það hefði þá ekki verið mögulegt. Ekki möguleg án viðskipta við útlönd. Það var sjávarútvegur Íslands sem skaffaði föður þínum möguleikana á að reka byggingarfyrirtæki sem gat byggt úr einhverju örðu en torfi og rekaviði. Án sjávarútvegsins hefði ekki verið hægt að flytja inn innviðina til að byggja upp restina af hagkerfinu:

  • verkfæri
  • sement
  • timbur 
  • innviði og græjur til að byggja semventsverksmiðju
  • bíla og vörubíla
  • dráttarvélar
  • nagla
  • steypujárn
  • dælur

og svo framvegis.

Þið á Evrópusamtökunum hafið ekki hinn minnsta skilning á því að sjávarútvegur og landbúnaður Íslands byggði upp landið. Hann bjó til velmegun í landinu. ALLT sem þið standið á núna á rætur sínar að rekja til tekjuöflunar sjávarútvegs og landbúnaðar. Það eru fjármunir þessara atvinnugreina sem skaffa þá peninga sem búa til restina af hagkerfinu. Eggið kom ekki á undan hænunni.

Þið verðið að vaxa upp og læra kæru Evrópusamtök. Að vera svona clueless er afar takmarkandi fyrir ykkur. Við byggjum öll ennþá í sjálfsþurftarbúskap ef þið mættuð ráða.

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 15.12.2009 kl. 16:41

3 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Ég vil taka það skýrt fram að ég er hvorki dósent né Evrópufræðingur. 

Kveðjur aftur 

Gunnar Rögnvaldsson, 15.12.2009 kl. 16:49

4 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

ESB árið: 1983: Fastgegni dönsku krónunnar við EMS:

Fyrstu 7 árin, frá október 1983 fram til mars 1990, voru stýrivextir fastir 7,5%. Það var sem sagt engin stýrivaxtabreyting í heil 7 ár. Afleiðingarnar voru hörmulegar.  

ESB árið 1993: 

Árið 1993 var veðbólga 1,3% í Danmörku. Stýrivöxtum var stjórnað frá Þýskalandi. Þeir voru þá 9,5%.

Allt tímabilið frá 1982–1996 voru stýrivextir í Danmörku nánast í engu samræmi við verðbólgu í landinu. Engu var hægt að stýra nema með aðgerðum í ríkisfjármálum og höftum frá yfirvöldum því ekkert var gengið og ekkert var stýrivaxtavopnið. Lánafyrirgreiðsla var mjög erfið því vextir voru svo háir að arðsemi fjárfestinga gat ekki borið þessa vaxtabyrði. Fjárfestingar drógust saman og neysla minnkaði, því laun voru frosin föst vegna offramboðs á vinnuafli. Öllu var stýrt með álögum, refsingum og afskiptasemi ríksins sem þandist út eins og stór blaðra. Í þessu ferli urðu til svo mörg „léleg“ störf og „léleg“ afleidd störf að það hefur heft stórkostlega allan hagvöxt allar götur síðan.

Írland 2009:

Stýrivextir á Írlandi hafa verið neikvæðir eða óvirkir stóran hluta þess tíma sem seðlabanka ESB hefur verið trúað fyrir vaxtaákvörðunum og peningapólitík þar í landi. Afleiðingarnar hafa ekki látið á sér standa. Allt írska bankakerfið er komið í faðm ríkisins. Hrikalegur samdráttur og gjaldþrot. Atvinnuleysi er 13%. Verðhjöðnun er 6%. Írland er sokkið.

Spánn 2009:

Spánn er búið að verðleggja sig út af landakorti samkeppnishæfni innan sem utan myntbandalagsins. Spánn er í ómögulegri aðstöðu því Spánn getur ekki fellt gengið og ekki prentað peninga. Mikil - og sennilega stærsta byggingabóla sögunnar - myndaðist á Spáni í miklu innstreymi fjármagns sem kom eins og flóð vegna þess að það var of lágt verðlagt af seðlabanka landsins sem er í Þýskalandi. Þessi bóla er því að mestu verk seðlabanka Evrópusambandsins í Frankfürt. Spánn er sokki. Atvinnuleysi er þar 20% og 42% hjá ungmennum.

Svo eru það:

LETTLAND: sokkið

ESITLAND: sokkið

LITHÁEN: sokkið

GRIKKLAND: á leið í ríkisgjaldþrot

AUSTURÍKI; 2 af 6 kerfislega mikilvægum bönkum landsins hafa verið þjóðnýttir. Búist við meiru. Búist við virkilega slæmum fréttum.

FINNLAND: samdráttur er þar meiri núna en var þegar Sovétríkin hundu ofan á Finnland í kreppu árið 1990. Samdráttur og atvinnuleysi er þar meira en á Íslandi 

Viljið þið meira af stöðugleika ESB?  

Gunnar Rögnvaldsson, 15.12.2009 kl. 19:10

5 Smámynd: Evrópusamtökin, www.evropa.is

Kæri Gunnar. Saga þessi er eitt lítið dæmi, nöfn óþarfi, þó GT sé nefndur.En bloggritari veit allt um mikilvægi sjávarútvegs, á sjálfur rætur sínar að rekja til sjóbúðar á Snæfellsnesi, fæddur og uppalinn í sjávarplássi, vann í fiski frá 7.bekk í grunnskóla, hefur verið til sjós o.s.frv. “Fílar” einnig íslenskar landbúnaðarafurðir í botn, osta,smjör, rjóma og lambakjöt, hrísgrjónagraut úr nýmjólk með slátri. Fullyrðingar þínar sem þessar;

,,Þið á Evrópusamtökunum hafið ekki hinn minnsta skilning á því að sjávarútvegur og landbúnaður Íslands byggði upp landið...” dæma sig því sjálf. Þú veist sjálfsagt hvernig staðan er í íslenskum landbúnaði í dag, finnst þér hún glæsileg? T.d. staða mjólkurbænda? Er það ESB að kenna?

Evrópusamtökin, www.evropa.is, 15.12.2009 kl. 19:20

6 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Ef þér finnst staða bænda erfið á Íslandi þá ættir þú að prófa ESB. En Íslendingar ráða sínum landbúnaði sjálfir. Það er aðalatriðið að ráða málum í eigin húsi. Þá er hægt að leysa þau.

En ef Ísland væri með evru sem gjaldmiðil þá er ég 100% viss um að Ísland myndi mjög hratt verðleggja sig út úr myntbandalaginu og reyndar heiminum öllum - og hætta að geta selt svo mikið sem einn sporð af fisk til útlanda sökum innri verðbólgu sem ekki væri lengur hægt að lagfæra í gegnum gengið.  

Hér er ekki um að ræða 77 sardínur í $28 dós á mann eða 2000 tonn á ári eins og á Möltu. Hér er um að ræða 1,3 milljón tonn á hverju ári. Þetta eru þeir fjármunir sem notaðir eru til að byggja restina af íslenska hagkerfinu með. Grunnur efnahagslegrar tilveru Íslendinga. Eina leiðin til að nýta landhelgi og auðæfi sjávar Íslands væri þá að láta útlendinga um að veiða fiskinn okkar. Þeir einir gætu keppt á mörkuðunum með því að borga lág laun, lítinn kostnað, miklu lægri skatta og með því að sigla um í ryðhrúgudöllum. Öðru nafni: þrælakistum.

Þetta yrði ekki skínandi falleg útgerð, heldur þrælakista. Þá myndu Íslendingar þurfa að flytja inn fisk sér til matar. Einungis vegna ógæfulegrar útópíu vissra kjána stjórnmálamanna og hagsmunasamtaka sem myndi banna Íslendingum að fella gengið, því þá væri ekki lengur til neitt gengi sem hægt væri að fella. Það væri nefnilega horfið. Horfið um alla eilífð til Þýskalands og kæmi aldrei þaðan aftur.

Það er því virkilega mikið í húfi hér fyrir okkar góða land og okkur þjóðina. Mjög mikið í húfi. Sjálf tilvera þjóðarinnar er hér í húfi.

Það er ekki hægt að hafa bæði mél í munni og blása 

Kveðjur 

Gunnar Rögnvaldsson, 15.12.2009 kl. 19:54

7 Smámynd: Haraldur Hansson

Ólafslögin voru sett 1979 (áður en fjölbýlishúsið var byggt) og það var vegna óðaverðbólgu!

Svo, boðskaður sögunnar er ... hver?

Af því að verktaki samdi af sér í óðaverðbólgu fyrir tæpum þremur áratugum er best að kasta frá sér fullveldinu og gjaldmiðlinum og gera Ísland að hluta Evrópuríkisins?

Haraldur Hansson, 15.12.2009 kl. 20:38

8 Smámynd: Evrópusamtökin, www.evropa.is

Hans, það var ekki um að ræða e-n verktaka sem "samdi af sér" og boðskapurinn er e.t.v. þessi: Það er (og hefur verið) mörgum íslenskum atvinnurekandanum erfitt að horfa til lengri tíma vegna óstöðugleika íslenska gjaldmiðilsins og þeirra "valda" einnar atvinnugreinar að fá verðgildi gjaldmiðilsins samkvæmt eigin óskum. Þetta er nú varla svo torskilið!

Evrópusamtökin, www.evropa.is, 15.12.2009 kl. 23:06

9 Smámynd: Haraldur Hansson

Þú ferð reyndar rangt með nafnið mitt, en látum það vera.

Það sem ég benti á er að Ólafslögin voru sett 1979 og þar með var tekin upp verðtrygging. Hún var beinlínis vegna óðaverðbólgu.

Sá sem selur framleiðslu sína á tímum óðaverðbólgu, gegn föstu verði sem ákveðið er eitthvað fram í tímann, verður að gera ráð fyrir rýrari krónum í lok samningstímans. Geri hann það ekki er viðbúið að illa fari.

Mikil verðbólga er skaðvaldur óháð því hvað veldur henni. Á því tímabili sem þú nefnir (og fyrr) voru gerðar tilraunir með handstýrt gengi sem mistókust. Menn geta deilt um hvaða kostur er bestur í stjórn peningamála, en sísti kosturinn hlýtur að vera að kasta frá sér stjórntækjunum og láta þau í hendur fjarlægs valds sem ekki mun haga ákvörðunum sínum eftir íslenskum aðstæðum.

Haraldur Hansson, 16.12.2009 kl. 12:35

10 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Ég tek undir með ritara þessa pistils um afleiðingar gengisfellinga fyrri ára. Þær voru alveg skelfilegar. Krónan okka er ónýt og ég bara skil ekki það fólk sem vill halda í þennan ránrýra og handónýta gjaldmiðil.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 16.12.2009 kl. 16:01

11 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Ef einhver gjaldmiðill er ónýtur er það evran sem var hönnuð út frá pólitískum forsendum en ekki hagfræðilegum. Þ.e. sem stórt skref í áttina að því Evrópusambandsríki sem nú hefur verið sett á laggirnar. Jafnvel fyrrum aðalhagfræðingur Seðlabanka Evrópusambandsins, dr. Otmar Issing, hefur sagt að evran hefði aðeins átt að vera tekin upp í mesta lagi í Þýzkalandi, Frakklandi og Benelúx löndunum. Sérstaklega  það að taka ríki sambandsins í Suður-Evrópu inn í evrusvæðið hefði verið tóm vitleysa. Þau hagkrefi sem mynda evrusvæðið eru einfaldlega alltof ólík og ein miðstýrð peningamálastefna hentar þeim einfaldlega engan veginn. Þess má svo geta að íslenzka hagkerfið er síðan enn ólíkara þeim sem mynda evrusvæðið en þau innbyrðis.

Hjörtur J. Guðmundsson, 17.12.2009 kl. 16:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband