Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009

Athyglisvert málþing á mánudag

Evrópusamtökin vilja vekja athygli á þessu áhugaverða málþingi. 
 

Hvernig er samið við ESB?
Málþing Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands í tilefni af útgáfu bókarinnar:
Inni eða úti: Aðildarviðræður við ESB
Mánudaginn 11. maí milli klukkan 12 og 13 í Odda 101

Boðað hefur verið að væntanleg ný ríkisstjórn muni stíga það sögulega skref að sækja fyrir Íslands hönd um aðild að Evrópusambandinu. Bók um það hvernig aðildarviðræður við Evrópusambandið fara fram kemur út mánudaginn 11. maí, í ritröð Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands og Rannsóknaseturs um smáríki. Bókin verður kynnt á málfundi sem fer fram í Odda 101 í hádeginu á mánudag. Þar mun Magnús Árni Magnússon, forstöðumaður Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, flytja erindi þar sem hann leggur út frá efni bókarinnar. Höfundurinn, Auðunn Arnórsson, mun segja nokkur orð. Umræðum stýrir Þorsteinn Pálsson, ritstjóri Fréttablaðsins.


Úlfar í Fréttablaðinu

UlfarÚlfar Hauksson, stjórnmálafræðingur og sérfræðingur um sjávarútvegsmál, skrifar góða grein í Fréttablaðið í dag undir yfirskriftinni ÁTÖK UM EVRÓPU. Þar segir m.a.:

,,Eins og komið var inn á hér í upphafi er dómur sögunnar skýr. EFTA- og EES-aðildin voru hreyfiafl framfara. Við Íslendingar höfum nú val um að halda áfram að feta braut frelsis og losa okkur undan klyfjum vonlausrar efnahagsstefnu og ganga til liðs við ESB ásamt flestum af okkar helstu viðskipta- og vinaþjóðum. Hinn kosturinn er að taka skrefið til baka út úr EES og byggja einhæft samfélag á grundvelli útflutnings frumframleiðslu og takmarkaðs innflutnings nauðsynja með tilheyrandi gjaldeyrishöftum og frelsisskerðingu almennings. Um þessa tvo kosti snýst Evrópuumræðan."

Úlfar er einnig höfundur bókarinnar GERT ÚT FRÁ BRUSSEL, sem fjallar á mjög faglegan hátt um sjávarútvegsmál (sjá mynd)

Greinin Úlfars í Fréttablaðinu er hér eða á www.evropa.is

 


Mikill meirihluti Íslendinga vill aðildarviðræður við ESB

Rúmlega 61% íslensku þjóðarinnar vill aðildarviðræður við ESB. Þetta kom fram í fréttum Sjónvarpsins í kvöld. Gallup gerði könnunina.  Stuðningur er meiri meðal íbúa á í þéttbýli en í dreifbýli.  Samkvæmt könnuninni eru fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokks en VG, andsnúnir aðild. Tæplega 80% þeirra sem kusu Samfylkingu eru fylgjandi aðild. Hvað varðar spurninguna um aðild eru hópar já-sinna og nei-sinna nánast jafn stórir í könnuninni.

Úr þessu er því bara hægt að túlka eftirfarandi: Þjóðin vill athuga hvað fæst út úr aðildarviðræðum við ESB! Það er ekki eftir neinu að bíða.

Sjá frétt RÚV og niðurstöður: http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item263923/

MBL frétt

Mikill meirihluti vill viðræður

(Mynd RÚV)

 


Snilldarleg Björg um stjórnarskrá

Björg ThorarensenBloggari verður að vekja athygli á erindi, sem Björg Thorarensen, prófessor í lögum við H.Í., hélt á prestaþingi fyrir skömmu. Það er hverjum áhugamanni um stjórnarskrá (sem og öðrum!) hollt að hlusta á erindið. Það er varla hægt að gera þetta betur en Björg gerir. Hægt er að nálgast það á vefsíðu RÚV, með því að smella á þessa krækju:

http://dagskra.ruv.is/ras1/4431871/2009/05/05/


ESB málið til Alþingis

Samkvæmt fréttum fjölmiðla hefur ríkisstjórnin ákveðið að vísa ESB málinu til Alþingis.

http://www.mbl.is/mm/frettir/kosningar/2009/05/05/esb_malid_til_althingis/

Nú reynir á að við stöndum saman að þrýsta á þingmenn um þetta mikla hagsmunamál.

Hér að neðan er að finna tilkynningu frá SAMMÁLA-hópnum:


Ágæti viðtakandi
 
Við erum sammála og höfum undirritað sömu yfirlýsingu á www.sammala.is.
 
Ekki fer á milli mála að í sameiningu komum við þessu mikilvæga máli á dagskrá stjórnmálanna í aðdraganda kosninganna.
 
Í yfirlýsingu okkar sagði:
 
Við erum sammála um að ríkisstjórnin sem tekur við völdum að loknum kosningum 25. apríl eigi að hafa það eitt af sínum forgangsverkefnum að skilgreina samningsmarkmið og sækja um aðild að ESB.

Nú gildir að halda verðandi ríkisstjórn við efnið og senda henni skýr skilaboð.
 
Þess vegna vil ég hvetja þig til þess kanna hvort þú getir ekki fengið a.m.k. einn vin eða kunningja til þess að slást í hópinn með okkur og undirrita yfirlýsinguna með okkur.
 
Takist hverju okkar að ná þessu markmiði verðum við svo mörg að ekki er hægt annað en taka mark á óskum okkar um að sækja um aðild og leggja aðildarsamning fyrir þjóðina.
 
Að hika er sama og að tapa!
 
VIÐ ERUM SAMMÁLA
Jón Steindór Valdimarsson
sammala@sammala.is
www.sammala.is

Tjónið af hruni krónunnar (Úr glerhúsinu í VBL)

Hér er að finna stórfína grein eftir Sigurð Má Jónsson, aðstoðarritstjóra Viðskiptablaðsins frá 30. apríl. Birt með góðfúslegu leyfi höfundar. 


SMJEf krónan er bara mælitæki, hvers vegna er þá svona mikið rifist um hana? Ekki er að sjá að önnur mælitæki kalli á jafn heitar umræður og væri þó sjálfsagt tækifæri til þess fyrir þrasgjarna þjóð. Því er freistandi að halda að krónan sé annað og meira en bara mælikvarði á hagstjórn eða hitamælir hagkerfisins eins og sumir vilja segja. Hugsanlega er hún tákn um sjálfstæði okkar og getu til að lifa í þessu landi þar sem við þurfum að takast á við hagsveiflur rétt eins og öldur sem brotna á ströndum landsins.
 
Það sýndi sig hins vegar að krónan var ekki tilbúin í þann leik sem við buðum henni uppá, svo sem skortsölu og skefjalausa spákaupmennsku. Þá var krónan eins og lítil skekta á stórsjó á meðan öruggari myntir sigldu framhjá enda kom á daginn að enginn treysti sér til að styðja við hana. Krónan hefur alltaf verið til merkis um sjálfstæði þjóðarinnar þótt enn megi deila um þá ákvörðun að kasta dönsku krónunni og taka upp þá íslensku á sínum tíma. Engin leið er að segja til um hvernig þróunin hefði orðið hér á landi ef það hefði ekki verið gert. En við sitjum uppi með íslensku krónuna og munum sjálfsagt gera það næstu árin, hvort sem okkur líkar það vel eða illa.
 
Tjónið vegna hruns krónunnar er af öðrum ástæðum og miklu meira en tjónið sem hlaust af falli bankanna. Það kemur meðal annars fram í verðbólgu, hækkandi verðlagi, verðtryggðum lánum og miklum hækkunum á erlendum skuldum fyrirtækja, ríkis, sveitarfélaga og einstaklinga. Sömuleiðis birtist það í háum vöxtum innanlands og erfiðleikum íslenskra fyrirtækja erlendis þar sem gjaldmiðillinn er jafn forsmáður og Jón Hreggviðsson forðum.
 
Þetta mikla tjón sem hefur orðið vegna falls gjaldmiðils okkar nemur hundruðum ef ekki þúsundum milljarða króna og hefur leitt af sér mestu eignaupptöku og gjaldþrotahrinu Íslandsögunnar. Krónufallið er meginástæðan fyrir greiðsluerfiðleikum og gjaldþrotum fyrirtækja og einstaklinga, samhliða vaxandi atvinnuleysi sem ógnar hratt nýju bankakerfi.
 
Þess vegna er tjón Íslands núna svo miklu meira en við sjáum í nokkru öðru landi sem glímir við afleiðingar heimskreppunnar. Þetta má glöggt sjá með því að bera saman tjón almennings og fyrirtækja á Íslandi og í öðrum löndum innan evrunnar – en þar er ekkert sambærilegt tjón að finna. Kreppan þar er fyrst og fremst vegna samdráttar og atvinnuleysis. Færa má rök fyrir því að tjónið vegna gjaldmiðilsins sé nálægt 70% - 80% af heildartjóninu hér á landi.  Og það er skaði sem heldur áfram að vaxa og ógnar nú allri framtíð heimila og atvinnulífs hér á landi sem þurfa að berjast áfram með ónýtan gjaldmiðil og lokun á erlendum fjármálamörkuðum. Um leið kemur það í veg fyrir að súrefni berist til atvinnulífsins og tefur þar með fyrir endurreisninni.   

Einnig að finna á www.evropa.is


 


ESB reiðubúið fyrir umsókn - Olli Rehn í RÚV

rehn-111Olli Rehn, yfirmaður stækkunarmála hjá ESB sagði í fréttum (og Spegli) RÚV í kvöld að ekki standi á ESB að semja við Ísland um aðild að sambandinu. Rehn segir ennfremur að hann eigi ekki von á því að umsókn Íslands fengi neikvæð viðbrögð hjá neinu af þjóðþingum aðildarríkjanna. Orétt segir m.a. í frétt RÚV: ,,Olli Rehn segir að Evrópusambandið sé búið undir að fá aðildarumsókn frá Íslandi ef ákveðið verður að sækja um."

Í viðtalinu í Speglinum talar Rehn m.a. um verkefni framtíðarinnar á Norðursvæðunum, en þar sér hann fyrir sér samstillt Norðurlönd gegna mikilvægu hlutverki varðandi vistvæna orku og þess háttar. Einnig Ísland og Noreg, ef löndin kysu að ganga í ESB. Hann segist einnig þess fullviss að dyr ESB standi Noregi opnar, vilji Norðmenn aðild.

Hann sagði einnig að Ísland gæti haft áhrif á breytingar á fiskveiðistefnu ESB ef landið gengi í ESB, því fyrr því betra. Sérstaklega yrði hugað að aðlögun Íslands að fiskveiðistefnu ESB í samningaviðræðum. Gerð yrði úttekt á þeim málum.

Sjá frétt RÚV hér:

Spegilsupptaka:


Joe Borg segir lausn finnast varðandi sjávarúvegsmálin

Joe BorgEnginn vafi leikur á því að Íslendingar hafa mikla þekkingu á sjávarútvegsmálum, veiðum og vinnslu. Það mál sem harðast er tekist á um varðandi mögulega aðild Íslands að ESB eru sjávarútvegsmál. Margir velta því fyrir sér hvernig lausn við fengjum. Joe Borg, sem fer með sjávarútvegsmál hjá ESB sagði nýverið á blaðamannafundi að hann ,,væri þess fullviss" að Ísland myndi fá lausn varðandi sjávarútvegsmálin. Í MBL birtist frétt um málið en þar segir m.a.:

„Ef Ísland ákveður að sækja um aðild þarf að semja um (sjávarútvegsmál) sem hafa til þessa verið viðkvæm. Ég get ekki sagt fyrir um hver niðurstaða slíkra viðræðna yrði en ég er viss um að ef Ísland ákveður að sækja um aðild... mun landið finna í framkvæmdastjórninni samningsaðila sem er reiðubúinn til að ræða með mjög jákvæðum hætti hvort hægt sé að finna lausn sem tryggir að framtíð íslenskra sjómanna verði svipuð og verið hefur til þessa, en það yrði að vera innan marka sameiginlegu sjávarútvegsstefnunnar.“

Það er því alveg ljóst og varla hægt að segja það skýrar en Borg gerir að það er mikill vilji hjá ESB að finna lausn fyrir Ísland varðand i sjávarútvegsmál. Er ekki kominn tími að ræða við ESB?

Öll frétt MBL er hér

Þess má einnig geta að ESB sækist nú markvisst eftir íslenskri þekkingu í málaflokknum og hefur íslenskur sérfræðingur, Stefán Ásmundsson, hafið störf í Brussel. Hans verkefni felast í ráðgjöf varðandi endurskoðun hinnar sameiginlegu fiskveiðistefnu ESB, sem nú fer fram og á að vera lokið 2012.


Til hamingju með 1. Maí!

Evrópusamtökin óska öllu verkafólki til hamingju með daginn!

Réttindi ,,hins vinnandi manns" eru málefni sem sífellt verður að berjast fyrir.

Hér eru nokkrar krækjur á fréttir um 1. Maí á Norðurlöndunum:

Politiken: (Danmörk)

Dagens Nyheter: (Svíþjóð)

Dagbladet: (Noregur)

Smá fróðleikur um 1. Maí:

http://is.wikipedia.org/wiki/1._ma%C3%AD

http://visindavefur.hi.is/svar.php?id=2299


Ellefu firrur um Evruland (Fréttablaðið)

Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, skrifar beinskeytta grein í Fréttablaðið í dag undir fyrirsögninni ,,Ellefu firrur um Evruland." Á frekari málalenginga er lesendum bloggsins bent á að smella á krækjuna og lesa þessa þörfu grein:

http://www.visir.is/article/20090501/SKODANIR03/265759978/-1

Í Morgunblaðinu er einnig að finna góða grein eftir Gylfa Arnbjörnsson, forseta ASÍ, þar sem hann kemur m.a. inn á Evrópumálin og framtíðarmarkmið í efnahagsmálum Íslands.

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband