Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2010

Tyrkland og ESB á VoxEu.org (Gylfason/Wijkman)

TyrklandDr. Þorvaldur Gylfason (H.Í.) og Per Magnus Wijkman, frá háskólanum í Gautaborg, rita grein um Tyrkland og ESB á vefsíðuna www.voxeu.org. Þeir stinga meðal annars upp á því að Tyrklandi verði boðin aðild að Evrópska Efnahagssvæðinu (EES).  Þannig sé t.d. hægt að efl viðskiptaleg tengsl milli Tyrklands og Evrópu. Í Tyrklandi búa um 73 milljónir manna.

Greinin er hér


Hefði gjaldþrot Grikklands verið betra?

Mykonos-GrikklandiEfnahagsvandræði Grikkja er mikil og að lang stærstum hluta heimatilbúin í Grikklandi. Fjallað hefur verið ítarlega um ástæður vandræða Grikkja hér á síðunni, http://evropa.blog.is/blog/evropa/entry/1014711/,

Hinsvegar er staðan þannig að nú þarf Grikkland aðstoð, frá ESB og Alþjóða gjaldeyrissjóðnum, sem nemur allt að 120 milljörðum Evra.

Því má hinsvegar velta fyrir sér hvað myndi gerast ef Grikkland myndi fara á hausinn.  Eitt er vitað að þá myndu mjög margir aðilar tapa gríðarlegum fjármunum. Líklega myndi þjóðargjaldþrot leiða til mikils stjórnmálalegs óstöðugleika og samfélagslegrar hættu. Vert er að minna á að herforingjastjórn var eitt sinn við völd í Grikklandi, áður en landið gerðist aðili að Evrópusambandinu.

Því má segja að það séu tveir slæmir kostir í stöðunni, a) að láta Grikkland "rúlla" eða b) að veita Grikklandi aðstoð. Seinni kosturinn hefur verið valinn samkvæmt beiðni Grikkja sjálfra.

Þeir hafa viðurkennt að þeir eru hjálpar þurfi. Því er gott að geta leitað til aðila sem geta veitt slíka hjálp. Það kemur í veg fyrir þróun, sem í versta falli gæti orðið skelfileg fyrir land og þjóð (11 milljónir Grikkja).

Til eru þeir aðilar hérlendis sem hefði þótt það gott að sjá Grikkland fara í þrot, Evruna og myntbandalagið hrynja til grunna og ólgu skapast í Evrópu. Vonandi verður þeim ekki að ósk sinni!

Myndum við vilja sjá Ísland fara gjörsamlega á hausinn?


Vestfirðingar í samevrópsku orkuverkefni

VestfirðirRÚV greindi í gær frá mjög áhugaverðu sam-evrópsku orkuverkefni, sem Fjórðungssamband Vestfjarða (FV) hefur gerst aðili að. Það snýst m.a. um þróun endurnýjanlegra orkugjafa. Hér má heyra frétt RÚV

Verkefnið heitir RENREN og eru m.a. aðilar frá Þýskalandi og N-Svíþjóð aðilar að því. Hér er heimasíða þess, en þetta verkefni er hluti af LEONARDO áætlun ESB.

Ástæða er til að óska FV velfarnaðar í þessu verkefni, sem segja má að sé gott dæmi um verkefni þar sem sam-evrópsk þekking safnast saman og er nýtt í almannaþágu. Verður spennandi að fylgjast með þessu!

Mynd: FV

 


Króatar hálfnaðir í aðildarviðræðum

Frá ZagrebKróatar eru hálfnaðir í aðildarviðræðum við ESB. Búið er að loka 18 af 35 köflum í viðræðunum. Nýlokið er kaflanum um frjálst vöruflæði, en fyrir dyrum standa m.a. mikilvægir kaflar á sviði dómsmála og öryggismála. Það er fréttaveitan EurActive, sem greinir frá.

Króatar stefna að því að verða fyrsta ríkið inn í ESB, síðan Rúmenía og Búlgaría gengu í ESB árið 2007.

Frétt EurActive er hér


Mikið tjón vegna öskunnar!

FlugleiðavélFramkvæmdastjórn ESB hefur hvatt yfirvöld aðildarríkjanna til þess að grípa til aðgerða í því skyni að bæta flugfélögum skaðann vegna öskunnar frá Íslandi.

Talið er að tjónið vegna öskuhamfaranna nemi um 3 millörðum dollara, eða næstum 400 milljörðum íslenskra króna. BBC greindi frá en einnig má lesa frétt Wall Street Journal um málið:

http://online.wsj.com/article/BT-CO-20100427-715135.html?mod=WSJ_World_MIDDLEHeadlinesEurope

ESB: http://europa.eu/rapid/pressReleasesAction.do?reference=MEMO/10/152 


Er Ísland samfélag bænda og fiskimanna?

Styrmir GunnarssonÞað er óneitanlega athyglisvert að fylgjast með skrifum helsta hugmyndafræðings Nei-sinna á Íslandi, Styrmis Gunnarssonar, fyrrum Moggaritstjóra, í Mogganum á sunnudögum. Þar birtir hann sínar hugmyndir um lífið og tilveruna.

Í sínu nýjasta bréfi sínu fjalla Styrmir um skýrsluna (hvað annað?) og segir hana vera ákveðna hreinsun. Orðrétt segir: ,,Sú hugafarsbreyting, sem þessari hreinsun fylgir, mun leiða í ljós að besta leiðin fyrir þetta litla  samfélag fiskimanna og bænda á norðurslóðum, er að hafa allt opið, engin leyndarmál, allt gagnsætt hvað almannahag varðar.“  Gott og vel, alveg hægt að vera sammála Styrmi hér varðandi ,,hið opna semfélag."

Síðar fer hann að ræða sitt uppáhald, beint lýðræði og segir: ,,Seinni hluta marsmánaðar var frá því skýrt í Bretlandi, að Gordon Brown hygðist leggja til að innan skamms tíma, nokkurra, missera, hefði hver einasti þegn Bretaríkis aðgang að sinni eigin heimasíðu. Þar gæti hinn sami þegn átt öll þau samskipti, sem hann þyrfti á að halda við yfirvöld.“ Með þessu segir Styrmir að panta mætti skólavist, tíma hjá lækni, vegabréf o.s.frv.

Um er að ræða draumsýn um (næstum) hið fullkomna upplýsingasamfélag, þar sem allir eru ,,online“.

En það eru þessi skörpu skil í hugmyndaheimi Styrmis, sem vekja athygli ritara. Hinsvegar hið ,,gamla“ samfélag bænda og sjómanna og hið ,,nýja“ samfélag breiðbandstenginga, milliliðalausra samskipta og mikillar lýðræðislegrar virkni borgaranna. Hvernig fær Styrmir þessa mynd til að ganga upp?

Í fyrsta lagi eru ekki næstum því allir sem vilja eða hafa áhuga á því að nýta sér tölvutækni og ekki heldur hafa allir áhuga á að vera virkir þátttakendur í hinu lýðræðislega ferli. Sumum stendur hreinlega bara á sama! Sumir vilja kannski fara til læknisins og panta tíma, eða á skattstofuna að borga skattinn!

Þessi þversagnakennda sýn Styrmis er kannski nokkuð lýsandi fyrir afstöðu Nei-sinna,  að róma hin gömlu gildi samfélags sem einu sinni var ríkjandi samfélagsform, en er það ekki lengur, en á sama tíma að búa í hátæknisamfélagi sem vill vera slíkt samfélag og ber sig að öllu jöfnu saman við önnur slík samfélög.

Og svona rétt í lokin: Á Íslandi starfa um 5000 sjómenn og ríflega 3000 bændur, af um 166.000 vinnufærum einstaklingum.


Grikkland fær aðstoð ESB og IMF/AGS

Fáni GrikklandsGrikkland hefur beðið ESB og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um fjárhagsaðstoð vegna skuldavanda landsins. Komið hefur í ljós að fjárlagahalli landsins er meiri en talið var.

Forsætisráðherrann, jafnaðarmaðurinn George Papandreou, segir þetta vera þann vanda sem fyrri ríkisstjórn hægrimanna skildi eftir sig. Talið er að um miðjan maí fái landið lán sem samsvarar 45 milljörðum Evra.

Ekki er talið að vandi Grikklands muni hafa áhrif á önnur lönd að mati Jean Claude Trichet, bankastjóra Evrópska seðlabankans.

EurActive skrifar um þetta hér


Grænt ljós í Bundestag

Þýska þingið - BundestagFram hefur komið í fjölmiðlum í dag að þýska þingið Bundestag, hefur samþykkt að ESB hefji aðildarviðræður við Ísland, eins fljótt og hægt er. Þetta eru góðar fréttir. Í MBL segir m.a.:

,,Þýska þingið, Bundestag, lagði í dag blessun sína yfir að Evrópusambandið hefji eins fljótt og kostur er viðræður við Ísland um inngöngu í sambandið. Þingið hvatti Íslendinga jafnframt til að ná þverpólitískri samstöðu um að uppfylla skilyrði inngöngu í sambandið.

Í umræðum á þinginu benti sósíaldemókratinn Michael Roth á að jákvætt væri að fá stærstu fiskveiðiþjóð Evrópu inn í sambandið. Michael Link hjá Frjálslynda lýðræðisflokknum sagði að Íslendingar gætu komið sambandinu að gagni við varnarmál í norðvestanverðri álfunni."

Í Fréttablaðinu segir:

,,Fulltrúar allra flokka sögðust fagna aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þýskaland er eina aðildarland Evrópusambandsins sem notfærir sér heimild í Lissabonsáttmála sambandsins um að þjóðþingið þurfi að veita samþykki sitt áður en ráðherra landsins greiðir atkvæði um aðildarviðræður í ráðherraráðinu."


Krækjur!

ÝSAÁ vefsíðu Evrópusamtakanna, www.evropa.is er að finna athyglisverða samantekt um ritdeilu Helga Áss Grétarssonar og Úlfars Haukssonar um sjávarútvegsmál um daginn. Þar eru allar greinarnar og krækjur á þær.

Sjá: http://www.evropa.is/2010/04/23/rimma-helga-og-ulfars-um-sjavarutveg/

 


Jón Steindór: Sterkara Ísland - þjóð meðal þjóða (MBL:23.apríl 2010)

Jón Steindór Valdimarsson: "Þróun alþjóðamála hefur leitt til þess að vogaraflið sem við höfðum vegna legu Íslands er horfið. Nú erum við vegin og metin af eigin verðleikum."

Jón Steindór ValdimarssonFRÁ því Ísland varð sjálfstætt ríki hefur því í öllum aðalatriðum vegnað vel og komist í hóp þeirra ríkja heimsins þar sem lífskjör eru einna best. Þetta hefur að hluta tekist vegna eigin rammleiks og þrautseigju en ekki síður vegna ytri aðstæðna, ekki síst á alþjóðavettvangi, sem sköpuðu þjóðinni afar hagstæð skilyrði.

Vogarafl

Lega landsins varð að gríðarlegu vogarafli í samskiptum okkar til austurs og vesturs. Síðari heimsstyrjöldin leiddi í ljós hernaðarlegt mikilvægi landsins í styrjöldinni sjálfri og síðan í eftirleik styrjaldarinnar, kalda stríðinu, allt til brotthvarfs Bandaríkjahers frá Keflavíkurflugvelli.

Þetta vogarafl nýttum við okkur óspart í uppbyggingunni eftir stríð, t.d. í tengslum við Marshall-aðstoðina, síðan í tengslum við alls kyns viðskipti, bæði til austurs og vesturs, loftferðasamninga og ekki síst beittum við því í tengslum við útfærslu landhelginnar. Þetta varð allt undirstaða fyrir aukna velsæld og síðar framþróun og umbreytingu í atvinnulífinu.

Nýr kraftur

Umbreyting atvinnulífsins seig hægt af stað með aðild Íslands að EFTA 1970 og fríverslunarsamningunum við ESB 1972. Þeir samningar opnuðu samkeppni í iðnaði og þó hún væri erfið í fyrstu varð hún forsenda þess að hér hefur smám saman orðið til þróttmikill iðnaður. Aðild Íslands að EES-samningnum 1994 opnaði fyrir samkeppni á öðrum sviðum atvinnulífsins, nema landbúnaði og sjávarútvegi, auk þess að veita Íslandi aðgang að margvíslegu samstarfi á fjölmörgum sviðum, t.d. vísinda og mennta. Aðildin að EES hleypti enn nýjum krafti í atvinnulífið og þjóðlífið allt.

Þróun alþjóðamála hefur leitt til þess að vogaraflið sem við höfðum vegna legu Íslands er horfið. Nú erum við vegin og metin af eigin verðleikum. Við verðum að spila sem best úr þeim spilum sem við höfum á hendi, þau eru vissulega allgóð og þar leynast inn á milli hin þokkalegustu trompspil.

Efnahagshremmingar þær sem hafa gengið yfir heimsbyggðina og ekki síst skekið Ísland sýna svart á hvítu hve háðar þjóðirnar eru hver annarri. Margs konar önnur verkefni krefjast samvinnu og nægir þar að nefna umhverfismál og nýtingu auðlinda. Þá er býsna nærtækt að benda á eldgosið í Eyjafjallajökli og víðtækar afleiðingar þess á fjölmargar þjóðir.

Hreyfiaflið

Ísland er Evrópuland. Það er því nærtækast að leitað sé eftir samvinnu við Evrópuþjóðir. Ísland hefur gert það með góðum árangri á liðnum áratugum. Við eigum að halda áfram á sömu braut og ganga í Evrópusambandið. Þar getum við beitt okkur á þeim sviðum sem varða okkur mestu og jafnframt miðlað til annarra þar sem við stöndum vel að vígi. Samtímis njótum við styrks af samvinnunni og skjóls af sameiginlegu afli tæplega 30 Evrópuríkja.

Evrópusambandið er hreyfiafl Evrópu og við erum undir áhrifasvæði þess og örlög okkar fara óhjákvæmilega saman. Ísland á að taka fullan þátt í að móta eigin framtíð.

Ég vil sterkara Ísland, Ísland sem er þjóð meðal þjóða – þess vegna er ég Evrópusinni.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband