Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2012

Heimssýn gubbar á nýja stjórnarskrá á Twitter: Súperhúmoristar á ferð!

Stundum er Nei-sinnar alveg sjúklega fyndnir og svo uppátækjasamir, að það hálfa væri nóg!

Hér er gott dæmi um Twitter-færslu einhvers húmoristans  hjá þeim.

heimsyn-gubb

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Og svo er þetta svo uppbyggileg og málefnaleg umræða :) 

"Plís" - reynið að gera betur. Er það virkilega svona sem Nei-sinnar vilja hafa umræðuna? 


Orkumál, ESB og fleira á föstudagsfundi í í H.Í

Í annarri frétt á vef Já Íslands segir einnig þetta:

"Annar fundur í fundaröð Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands Evrópusamræður veturinn 2012-13.

Að hvaða leyti má telja orkuöryggi pólitískt málefni frekar en efnahagslegt í Evrópusambandinu? Hvaða áhrif kann stefna ESB í orkumálum að hafa á Íslandi? Er líklegt að landfræðileg lega landsins auki vægi Íslands í augum ESB með tilliti til málefna Norðurslóða og þeirra auðlinda sem þar finnast? Hvaða áskoranir þurfa Eystrasaltsríkin, sem öll teljast til smáríkja, að takast á við með tilliti til orkuöryggis og hvernig farnast þeim í samskiptum sínum við valdamikla nágranna?

Breytt stefna ESB: Orkuöryggi í Norður-Atlantshafi
Dr. Amelia Hadfield frá Vrije háskóla í Brussel fjallar um efnahagsleg og pólitískt sjónarmið ESB varðandi orkuöryggi og skoðar sérstaklega það hlutverk sem Ísland kann að leika með tilliti til landfræðilegrar stöðu á norðurslóðum og mögulegrar aðildar að ESB.Orkuöryggi í Eystrasaltsríkjunum
Romas Svedas, sérfræðingur í orkuöryggismálum og fyrrverandi aðstoðarráðherra í orkumálum í Litháen, heldur erindi um þær áskoranir sem Eystrasaltsríkin standa frammi fyrir á sviði orkuöryggis og þá möguleika sem felast í svæðisbundnu samstarfi á sviði orkuöflunar.

 

Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur og varaforseti Alþjóða vatnsorkusamtakanna, ræðir orkuöryggi frá íslensku sjónarhorni og tekur þátt í pallborðsumræðum í lokin.

Málstofan hefst kl. 12 í stofu 201 í Odda. Fundurinn fer fram á ensku og allir eru velkomnir. Nánari upplýsingar á vefsíðu stofnunarinnar: www.ams.hi.is

Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands heldur tíu málstofur um Evrópusamrunann og Ísland í vetur. Stofnunin hlaut styrki frá Evrópustofu og úr Jean Monnet sjóði ESB til að stuðla að upplýstri umræðu um Evrópumál á Íslandi"


Guðmundur Gunnarsson: Tryggjum efnahagslegt fullveldi Íslands

Á vefnum hjá Já-Íslandi stendur:"Í grein dagsins fjallar Guðmundur Gunnarsson, fyrrverandi formaður Rafiðnaðarsambands Íslands, um EES-samninginn og kosti hans, sem og möguleikana sem aðild að ESB veitir okkur, en EES gerir ekki. Þá veltir Guðmundur upp spurningunni um fullveldisframsal og stjórnarskrána, sem og hugmyndir Stjórnlagaráðs um fullveldisframsal.

Ísland hefur verið aðili að EES frá árinu 1970. Kostir þess samstarfs fyrir Ísland hafa verið óumdeildir. Vegna EES samningsins bera u.þ.b. 90% af útfluttum sjávarafurðum frá Íslandi til ESB svæðisins enga tolla samkvæmt þeim skilyrðum sem samið var um í EES-samningnum. Evrópska efnahagssvæðið er stærsta markaðssvæðið sem Íslendingar hafa aðgang að, rúmlega 80% af öllum útflutningi frá Íslandi fer til ESB. Útflutningsverðmæti sjávarafurða á Íslandi er um 40% af heildarverðmæti vöruútflutnings landsins.

Það sem skiptir öllu máli fyrir bæði íslenskan sjávarútveg og landbúnað í tengslum við aðildarviðræður að ESB, er sú staðreynd að í aðild felst eina fyrirsjáanlega tækifæri íslendinga til þess að opna á stóran erlendan markað með fullunnar vörur. Allt slíkt er í dag takmörkunum háð sem myndu falla niður við aðild, en með því að hafna viðræðum að ESB má leiða að því allnokkrum líkum að EES samningurinn verði þá endurskoðaður og þar með muni efnahagslegt fullveldi Íslands glatast og ósigrandi skuldaveggur sem mun leiða til þess að lífskjör munu falla umtalsvert á Íslandi." 

Öll greinin 

 


Jón Sigurðsson á Pressunni: Er Evrópusambandið ógnun við fullveldi og þjóðerni?

Jón SigurðssonÞað er alltaf áhugavert þegar Jón Sigurðsson, fyrrum formaður Framsóknarflokksins, lætur frá sér heyra. Í nýjum pistli á Pressunni skrifar hann:

"Afstaða til aðildar Íslands að Evrópusambandinu er ekki sjálfstætt stefnumið, heldur fylgir öðrum almennum sjónarmiðum. Þessi mál eru mikilvæg enda þótt Íslendingar gerist ekki aðildarland.

Þjóðin á valkosti. Annar kosturinn er sérlausnir, sjálfsnægtir að einhverju marki, áhersla á eigið óhæði, forgangur innlendra aðila og eigin öryggismörk t.d. í fæðuframleiðslu, svo og varnaraðgerðir fyrir innlenda framleiðslu á sem flestum sviðum. Kjörorð þessa valkostar eru sérlausnir, sérstaða og óhæði.

Hinn kosturinn er opið hagkerfi og viðskiptalíf, alhliða samskipti við aðrar þjóðir, vaxandi vægi utanríkisviðskipta, þátttaka í fjölþjóðlegu samstarfi með sérhæfingu á tilteknum sviðum, gagnkvæmar skuldbindingar, samstaða og samþætting með öðrum. Kjörorð þessa valkostar eru opnun, sameiginleg þróun og samþætting.

Íslendingar höfðu áður valið síðarnefnda valkostinn með þátttöku í margs konar fjölþjóðasamstarfi og -stofnunum, síðast í EFTA og EES. Aðildin að EES er aukaaðild að Evrópusambandinu, en þar erum við nú annars flokks fylgiríki án áhrifa.

Umræður um aðild Íslendinga að Evrópusambandinu snúast um þetta: Viljum við halda lengra áfram á braut opnunar eða halda óbreyttu - eða velja hinn kostinn? Nú bendir margt til þess að meirihluti á stjórnmálavettvangi Íslendinga hafi skipt um skoðun og vilji til frambúðar hverfa frá valkosti opnunar."

Síðar segir Jón:

"Álitamál um gjaldmiðilinn kristalla þessa valkosti. Hér er um tvennt að velja.

Annars vegar er sameiginlegur gjaldmiðill með stærstu útflutningsmörkuðum þjóðarinnar, Evrulöndunum, með sameiginlegum varasjóði og stofnunum. Hins vegar er krónan. Henni fylgja einhverjar takmarkanir eða höft og kostnaðarsamur varasjóður. Henni fylgja hærri vextir, hún er viðkvæm fyrir sveiflum og þetta markar lífskjaraþróunina. Ár eftir ár koma margar dreifðar ákvarðanir saman eftir nokkra mánuði í gengisfellingum. Allt þetta leiðir til krafna um ríkisábyrgðir, en þeim fylgir pólitísk íhlutun um viðskipti og atvinnulíf.

En málið er flókið og margar blikur á lofti. Önnur álitamál skulu nefnd.

Því er haldið fram að vandi Grikkja, Íra og Portúgala stafi af evrunni. En gengisfall drökmunnar hefði litlu bjargað í Grikklandi því vandinn felst ekki í misvægi í innlendum kostnaði sem erlend tekjuöflun jafnar. Sambærilegt á við um hinar þjóðirnar. Gengisfelling þjóðargjaldmiðils hefði frestað ytri sjúkdómseinkennum, leitt til samfélagsátaka og óeirða - en vandinn legið eftir. Annað dæmi: Ef Íslendingar hefðu haft evru 2008, hefði gjaldmiðillinn ekki hrunið og þá ekki lán almennings heldur." 
 


Elvar Örn um háhælaða Evrópuvakt

Elvar ÖrnÍ góðum pistli eftir Elvar Örn Arason segir í byrjun: "Það er vinsælt umfjöllunarefni í bresku pressunni – sérstaklega hjá tabloid-blöðunum – að segja frá sérkennilegum reglugerðum sem koma frá Brussel. Bretar virðast hafa gaman af því að lesa um embættismennina í Brussel, sem hafa ekkert betra fyrir stafni en að trufla daglegt líf fólk með fáránlegum reglugerðum. Flestar sögusagnirnar eiga uppruna sinn í Bretlandi, þar sem efasemdaraddir gagnvart Evrópusambandinu eru útbreiddar.

Í gegnum tíðina hafa hinar ýmsu goðsagnir um Evrópusambandið lifað góðu lífi hjá almenningi og í fjölmiðlum. Þær eru oftast nær sambland af flökkusögum, ýkjum og hálfsannleik. Sumar hafa verið endurteknar það oft að þær eru nánast orðnar að viðteknum sannindum. Þekktustu dæmin eru sögurnar um að sambandið hafi viljað banna sölu á kengbognum bönunum og agúrkum. Þessar sögusagnir eru öflugt vopn í höndum andstæðinga Evrópusambandsins, því fæstir hafa fyrir því að afla sér upplýsinga um sannleiksgildi þeirra. Í langflestum tilvikum er bara eitt lítið sannleikskorn í sögunum sem síðan er skrumskælt og ýkt."


Sérstök Evru-fjárlög?

Á Vísi.is segir: "Talsverður stuðningur er meðal ríkja Evrópusambandsins (ESB) við hugmyndir um sérstök evru-fjárlög til að vernda evrusamstarfið fyrir áhrifum ósamhverfra hagsveiflna í evruríkjunum. Fjallað var um hugmyndirnar nýverið á fréttaveitunni EurActiv.com sem fjallar um málefni ESB.

Samkvæmt frétt EurActiv voru hugmyndirnar fyrst settar fram í minnisblaði frá skrifstofu Hermans van Rompuy, forseta leiðtogaráðs ESB, frá því í byrjun síðasta mánaðar. Var minnisblaðið skrifað í tengslum við vinnu innan ESB um hvernig styrkja megi evrusamstarfið með það fyrir augum að koma í veg fyrir að skuldakreppan á svæðinu geti endurtekið sig. Hugmyndirnar eru sagðar njóta stuðnings Þýskalands og Frakklands auk fleiri ríkja.

Samkvæmt hugmyndunum yrðu fjárlögin hugsuð til þess að gera ESB mögulegt að bregðast við fjármála- og efnahagslegum áföllum í einstökum evruríkjum. Þá yrðu þau notuð til mótvægisaðgerða í ríkjum í kreppu. Hugmyndirnar hafa þó enn ekki verið útfærðar af neinni nákvæmni. Þá er málið pólitískt viðkvæmt þar sem í því felst að evruríkin myndu deila ríkisfjármálavaldi sínu upp að vissu marki auk þess sem það kallar á flutning fjármuna milli evruríkja.

Seðlabanki Íslands kynnti í síðasta mánuði ýtarlega skýrslu um valkosti Íslands í gjaldmiðilsmálum. Að mati bankans koma tveir valkostir helst til greina í þeim efnum; áframhaldandi notkun krónunnar með vissum umbótum á umgjörð hennar og upptaka evru í kjölfar aðildar að ESB."

Staða ESB-málsins rædd í morgunútvarpi Rásar tvö

Stefán JóhannessonStefán Haukur Jóhannesson, aðalsamningamaður Íslands gagnvart ESB ræddi málið í morgunútvarpi Rásar tvö, þriðjudaginn 30.10. Þar sagði hann meðal annars að þrátt fyrir pólitískar deilur um málið, þá gangi samningsvinnan sem slík vel. Verið sé t.d. að vinna að samningsafstöðu í landbúnaðarmálum, en að hún sé klár í gjaldmiðilsmálum, sem Stefán segir vera mjög mikilvægan.

Hann sagði það vera mikið metnaðarmál hjá samningahópnum að vinna vel í málinu og lagði á það mikla áherslu að þetta væri opið og lýðræðislegt ferli.

Hlustið einnig hér


Stefán Haukur um stöðu viðræðnanna við ESB

Í tilkynningu frá Evrópustofu segir: "Sjöundu ríkjaráðstefnunni í aðildarviðræðum Íslands og ESB er nýlega lokið í Brussel og af því tilefni ætlar Stefán Haukur Jóhannesson, aðalsamningamaður Íslands, að sitja fyrir svörum á opnum fundum Evrópustofu; þriðjudaginn 30. október kl. 17-18 í Reykjavík og fimmtudaginn 1. nóvember kl. 12-13 á Akureyri.


Á ríkjaráðstefnunni í Brussel í síðustu viku voru opnaðir þrír samningskaflar til viðbótar í aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið og hefur nú alls 21 kafli verið opnaður af þeim 33 sem semja þarf um. Samningum er lokið um 10 kafla og hefur þeim verið lokað aftur til bráðabirgða. Enn á eftir að opna 12 kafla í viðræðunum en næsta ríkjaráðstefna er fyrirhuguð í lok desember á þessu ári. Meðal kafla sem hafa ekki verið opnaðir eru kaflarnir um sjávarútveg og landbúnað, sem ýmsir telja að geti orðið erfiðir.


Fundurinn með Stefáni Hauki í Reykjavík fer fram í húsnæði Evrópustofu að Suðurgötu 10 en fundurinn á Akureyri verður á veitingastaðnum RUB23 í Kaupvangsstræti 6. Báðir fundirnir eru opnir almenningi, veitingar verða í boði og allir velkomnir."


Aðalfundur Evrópusamtakanna fimmtudaginn 15. nóvember

EvrópusamtökinAðalfundur Evrópusamtakanna verður haldinn fimmtudaginn 15. nóvember n.k. kl.17.15 að Skipholti 50a (húsnæði Já Ísland).

Dagskrá: 

1. Hefðbundin aðalfundarstörf.

2. Evrópumaður ársins. Tilkynnt um útnefninguna.

3. ,,Schengen og alþjóðleg samskipti Íslands" Jóhann R. Benediktsson, fyrrum sýslumaður á Keflavíkurflugvelli og núverandi framkvæmdastjóri sprotafyrirtækisins HBT flytur erindi.

Allir áhugamenn um Evrópumál hjartanlega velkomnir. 
 


Verðbólga og krónan (fellur)

Í Morgunkorni frá Íslandsbanka segir þann 29.10:

"Fróðlegt verður að sjá hvernig spá Hagstofunnar verður hvað verðbólgu varðar, enda verða oft talsverðar breytingar á milli útgáfa þar sem forsendur breytast stöðugt frá einum tíma til annars. Í júlí reiknaði Hagstofan með 5,4% verðbólgu í ár, sem er á svipuðu róli og aðrar nýlegar spár sem birtar hafa verið reikna með. Á næsta ári reiknaði Hagstofan með 3,9% verðbólgu en 2,8% árið þar á eftir. Var þessi spá Hagstofunnar frá því í júlí töluvert bjartsýnni á verðbólguhorfur á næstu tveimur árum en flestar aðrar spár sem birtar hafa verið nú í haust, og kæmi því ekki á óvart að meiri verðbólgu yrði spáð nú. Á hinn bóginn áætlaði Hagstofan að gengi krónunnar myndi veikjast um 2,8% í ár og 0,6% á næsta ári en myndi styrkjast lítillega eftir það. Er sýn þeirra þar með heldur svartari en þeirra aðila sem hafa gefið út spá í haust sem reikna með að gengið muni styrkjast strax á næsta ári."

Einn helsti veröbólguvaldurinn er krónan og hún heldur áfram að falla, þrátt fyrir gjaldeyrishöft, nú er gengisvísitalan komin yfir 227 stig! Myndin er skjáskot af www.m5.is.

krona0608-2910

Meira að segja Morgunblaðið gerir þetta að umtalsefni í frétt fyrir fjórum dögum og þar segir: "Veiking krónunnar frá í ágúst hefur verið rúmlega 9% og hefur það unnið gegn styrkingu hennar framan af ári eftir að breytingar voru gerðar á fjármagnshöftunum í mars. Greiningardeild Arion banka bendir á þetta og segir að gangi veiking síðustu mánaða ekki til baka muni það orsaka umtalsverða verðbólgu næstu mánuði."

Ástandið í gjaldmiðilsmálum er eins og á skjálftasvæði! Stöðugur óstöðugleiki!


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband