Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2012

"Léttar" lygar og bull!

dv-logoÍ helgarblaði DV helgina 31.8-2.september er sagt frá hreinum lygum Nei-sinna, sem keyrðar hafa verið í formi auglýsinga í kvikmyndahúsum landsins í sumar. Þar kemur fram að ungur stjórnmálafræðinemi í H.Í, Viktor Orri Valgarðsson, fjalli um þetta á vefsíðnni www.hamragrill.is, en þar skrifar hann undir fyrirsögninni "Bullið" :

"Lýðnum er - held ég - ljóst að sú stjórnmálamenning, umræðuhefð, stjórnsýslubrask og samkeppnisklíkupólitík sem við höfum lifað frá örófi hrundi harkalega árið 2008. En upp rísa iðjagrænir Íslendingar; nýir stjórnmálamenn og lýðræðisborgarar sem taka við arfi áranna. Til þess að komandi kynslóðir stjórnmálamanna falli ekki eins og flís við rassa eldri uppalenda þurfum við sannarlega betra kerfi - en við þurfum líka fólk sem hefur vitund og vilja til þess að læra af mistökum fyrri tíða. Fólk sem stundar upplýsta og heiðarlega umræðu um samfélagsmál - án innihaldslausra upphrópana og áróðurs og án þess að draga fjölbreytileika viðhorfa í dilka. Það gerist ekki af sjálfu sér; við þurfum að taka meðvitaða ákvörðun um að haga okkur öðruvísi. Hvers vegna sé ég þá enn þá svona óheiðarleg áróðursmyndbönd - og það frá ungu fólki?"

Síðan segir Viktor: "Ég hef ekki dregið mig í dilka „sannra“ Evrópusinna eða Evrópuandstæðinga, enda litla ástæðu séð til og haft margvíslegar skoðanir á málinu. Bíð bara forvitinn eftir að taka afstöðu til aðildarsamnings.

Ég get samt ekki orða bundist þegar logið er að almenningi - blákalt til þess að afla fylgi við fyirframgefnar kenndir með öllum ráðum. Svo eftirfarandi verð ég að leiðrétta:

a) „Hverjir kusu eiginlega alla þessa gaura í framkvæmdastjórn ESB? - Enginn“

Hið rétta er að Evrópuþingið kýs framkvæmdastjórn ESB, semsagt rúmlega 750 þingmenn sem eru kosnir beint af íbúum ríkjanna. Kosið er eftir að Leiðtogaráðið, skipað leiðtogum allra aðildaríkja, leggur fram tillögu um framkvæmdastjórnina; s.s. nánast nákvæmlega eins og skipun ríkisstjórna í þingræðisríkjum.

b) „Er þá ekkert hægt að losa sig við þá ef þeir standa sig illa? - Neinei, þeir gera það ekkert“

Hið rétta er að Evrópuþingið getur hvenær sem er kosið framkvæmdastjórn ESB burt. Árið 1999 sagði framkvæmdastjórnin af sér í heild, eftir ásakanir um spillingu og hótun um slíka vantrausttillögu.

c) „En hver kaus forseta Evrópusambandsins? Enginn“

Hið rétta er að forseti leiðtogaráðsins var kosinn af leiðtogaráðinu sjálfu, þeim sömu og sýsla um dagleg málefni sinna ríkja og skipa þúsundir embættismanna þar. Hann er hins vegar ekki forseti ESB heldur leiðtogaráðsins og formlega séð talsmaður þess út á við. Í reynd gegna leiðtogar tiltekinna ríkja hins vegar frekar því hlutverki og völd hans innan ESB eru lítil.

d) „En hvað með Evrópuþingið ... [hér á milli kom eina efnislega rétta fullyrðingin í myndbandinu] ... já, en, ráða þeir einhverju? Geta þeir komið með tillögur? Sko, þeirra vinna er náttúrulega ekki að koma með tillögur. Þeirra vinna er að samþykkja það sem kemur frá framkvæmdastjórninni.“

Hið rétta er að framkvæmdastjórnin leggur lagafrumvörp formlega fram, en Evrópuþingið getur farið fram á slíka framlagningu. Þegar frumvarp hefur verið lagt fram tekur að jafnaði við flókið ferli samákvörðunartöku (e. co-decision)þingsins og ráðherraráðsins, sem kasta frumvarpinu sín á milli með breytingum og athugasemdum, hafna því eða samþykkja.

Mér er alveg sama hvaða skoðanir þið hafið á Evrópusambandinu - en ekki ljúga að fólki og mála ímyndaða skratta á veginn. Þá fáum við aldrei betri stjórnmál.


Plís, hættum þessu bulli"

Í umfjöllun DV er vitnað í upplýsingafulltrúa Nei-sinna sem segir að menn hafi vilja hafa þetta á "léttu" nótunum. Hér er því virkilega um "léttar" lygar að ræða!

Í sömu grein eru svo athyglisverð ummæli frá Atla Gíslasyni, óháðum/flokkslausum þingmanni, en hann segir að ESB sé samband stórþjóða í Evrópu. Við bendum honum hinsvegar á að 15 af 27 aðildarríkjum sambandsins eru með færri en 10 milljónir íbúa!

Það er alveg á hreinu að sennilega er von á mun meir bulli og jafnvel ósannindum frá Nei-sinnum á komandi mánuðum!


Myndræn útfærsla á aðildarviðræðum Íslands og ESB

Stefán Haukur Jóhannesson, aðalsamningamaður Íslands gagnvart ESB birti þann 7.september áhugaverða mynd á Fésbókarsíðu sinni að loknum fundi með alþjóðanefnd ASÍ. Myndin skýrir sig sjálf og sýnir að aðildarviðræður ESB og Íslands eru á góðu róli!

En, það eru erfiðir/krefjandi kaflar eftir og þeir gera málið virkilega spennandi fyrir landsmenn og kosningabæra, sem fá að greiða atkvæði um aðildarsamning, þegar hann liggur fyrir! Smellið á myndina til að fá hana stærri.

stefan-samningar-esb

 


ECB samþykkir kaup skuldabréfa

Evra

Fréttablaðið birti þann 7.september þessa frétt:

"Seðlabanki Evrópusambandsins ætlar að kaupa skuldabréf verst settu evruríkjanna til að knýja fram lækkun á vaxtakostnaði ríkjanna, þannig að þau eigi þá auðveldara með að ráða við afborganir af skuldum sínum.

 

Á blaðamannafundi í gær sagði Mario Draghi, seðlabankastjóri ESB, að með þessu væri bankinn að standa við fyrri yfirlýsingar um að allt verði gert til að styðja við bakið á evrunni.

 

"Óttinn við að evran hrynji er ástæðulaus," sagði hann.

 

Christine Lagarde, yfirmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, fagnaði þessum áformum og sagði sjóðinn ætla að leggja fé til verkefnisins, eins og Draghi óskaði eftir.

 

Draghi sagði að ákvörðun um þetta hefði verið tekin næstum því samhljóða á fundi bankaráðs. Aðeins einn ráðsmanna hefði verið á móti, en hann vildi ekki upplýsa hver það hefði verið.

 

Þýski seðlabankinn hefur hins vegar ítrekað lýst andstöðu sinni við þessi áform, sem nú hafa verið samþykkt."

BBC fjallaði um þetta mál í gær og þar var rætt við starfsmann þýsks banka í London, sem sagði að ríkisstjórni bæði Bretlands og Bandaríkjanna hefðu frá 2007 keypt fimm sinnum meiri skuldir en Evrópski seðlabankinn 


Gunnar Bragi og hraðinn!

Þingflokksformaður Framsóknar, Gunnar Bragi Sveinsson (hann er það ennþá!) kvartar yfir því í lítilli frétt í and-ESB-blaðinu (Morgunblaðinu) að hraðinn á vinnunni í utanríksimálanefnd vegna byggðakaflans (sjá eldri frétt hér) sé of mikill. Og telur að það þurfi að ræða málið betur.

En okkur er spurn: Vill Gunnar Bragi yfirhöfuð nokkuð hafa hraða á einhverju sem tengist ESB-málinu?

Nei, sennilega vill hann engan hraða! Óskastaðan hans á því máli er líklega kyrrstaða! 

Sem myndi þýða að þjóðin fengi ekki að kjósa um aðildarsamning. 


Byggðamálakaflinn klár í ESB-samningaviðræðum

Stefán Jóhannesson

Í fréttum RÚV 31.ágúst kom fram að byggðakaflinn í samningaviðræðum Íslands og ESB, er klár. Sett er fram sú skoðun að Ísland sé allt svokallað harðbýlt svæði og að það sé grunnforsenda Byggðakaflans. Þetta kom fram í viðtali við aðalsamningamann Íslands, Stefán Hauk Jóhannesson.

Í fjölmiðlum hafa menn hinsvegar verið að rífast um það hvort kaflinn sé farinn úr nefnd Alþingis eða ekki, en Árni Þór Sigurðsson, VG, segir að kaflinn sé klár og farinn/afgreiddur úr nefndinni.

Stefnt er á að opna kaflann um byggðamál nú í haust.

ESB hefur nú þegar sagt að það viðurkenni sérstöðu Íslands á þessu sviði og landbúnaðar.


Der Spiegel: Bjartari tímar framundan?

Der Spiegel segir frá því í frétt á alþjóðlegu síðu sinni (á ensku) að búist sé við jákvæðum hagvexti á Evru-svæðinu á næsta ári, eftir þær þrengingar sem svæðið hefur gengið í gegnum eftir hrunið/krísuna 2008. Þetta komi fram í nýrri skýrslu frá þýska verlsunarráðinu.

Í fréttinni segir að samkeppnishæfni margra Evru-ríkja sé að aukast, og að mörg lönd hafi náð góðum árangri í ýmsum endurbótum.

Þá sé viðskiptahalli að minnka í mörgum ríkjum. Dæmi er tekið af Ítalíu, sem náði fyrr á þessu ári að vinna upp allan viðskiptahalla landsins.

Í skýrslunni eru þó einnig sagt að vandræði með að afla lánsfjár sé neikvætt fyrir viðskiptalífið og að þetta sé t.d. alvarlegt vandmál á Grikklandi. 


Krónan fellur - þrátt fyrir loforð um annað

Íslenska krónan hefur fallið töluvert síðust daga og er nú Evran komin yfir 154 krónur og féll krónan um hálft prósent í dag. Ýmisir hafa sagt að krónan muni styrkjast á næstunni, en svo virðist ekki vera. Gjaldmiðill í höftum virðist ekki vera trygginf fyrir stöðugu gengi!

Mynd frá vefsíðunni www.M5.is sýnir þetta ágætlega. Er "rússíbaninn" byrjaður?

kronan-3-9


ANDRÉS PÉTURSSON Í FRBL: AÐ LÆSA DYRUM

Andrés PéturssonAndrés Pétursson, formaður Evróðusamtakanna, skrifaði góða grein í Fréttablaðið, þann 31.ágúst, undir fyrirsögninni AÐ LÆSA DYRUM. Grein Andrésar birtist hér í heild sinni:

AÐ LÆSA DYRUM

Það er sérkennilegt en um leið sorglegt að fylgjast með enn einni tilraun andstæðinga aðildar Íslands að Evrópusambandinu að stoppa ferli viðræðnanna. Þegar Alþingi samþykkti á lýðræðislegan hátt að hefja þessa vegferð þá litu margir á þetta sem einn möguleika af mörgum til að koma okkur út úr þeim vandræðum sem efnahagshrunið haustið 2008 olli okkur. Hvort það tekst á eftir að koma í ljós enda ekki búið að klára þessar viðræður. Síendurteknar fullyrðingar nei-sinna að ekki sé um neitt að semja eiga alls ekki við rök að styðjast enda höfum við Evrópusinnar margoft bent á dæmi um sérlausnir í aðildarsamningum annarra landa.

Hvers vegna má ekki ganga þennan veg til enda og láta síðan þjóðina útkljá málið á lýðræðislegan hátt? Eru andstæðingar aðildar ef til vill hræddir um að eitthvað jákvætt komi út úr ferlinu?

Tímabundnir efnahagsörðugleikar í nokkrum ríkjum Evrópusambandsins eru notaðir sem röksemd fyrir því að draga þurfi umsóknina til baka. Ákveðnir fjölmiðlar reyna markvisst að draga upp dómsdagsmynd af ástandinu í Evrópu og reyna að koma því inn hjá landsmönnum að Evrópusambandið sé að hruni komið. Samt geta þessir sömu aðilar ekki svarað þeirri spurningu af hverju Evrópusambandið semur við Landhelgisgæsluna um eftirlit á Miðjarðarhafi, er á góðri leið með að skipuleggja næstu kynslóð rannsóknar- og menntaáætlana fram til ársins 2020, tekur virkan þátt í aðgerðum gegn gróðurhúsalofttegundum og er á vissan hátt í framvarðasveit þeirra stofnana sem berjast gegn mansali og alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi. Hljómar þetta eins og félagsskapur sem er að fara að leggja upp laupana?

Með þessu er ekki verið að gera lítið úr þeim miklu vandræðum sem nokkur ríki í Evrópu glíma við. En slíkir örðugleikar eru ekki einskorðaðir við ríki Evrópusambandsins. Mörg ríki innan og utan Evrópu eiga við mikla efnahagsörðugleika að etja. Einnig má benda á að ýmis ríki Bandaríkjanna eru á vissan hátt gjaldþrota. Svarið hjá nánast öllum þessum ríkjum er ekki að hlaupa hvert í sína áttina heldur reyna þau að leysa úr sínum vandræðum með samvinnu en ekki sundrung.

Deilum Íslendinga við nokkur nágrannaríki okkar vegna makrílveiða hefur einnig verið beitt sem röksemd í þessari innilokunaráráttu. Vert er þó að benda á að deilan stendur einna mest við Noreg og ekki eru þeir í Evrópusambandinu! Að vísu eru Írar og svo Danir fyrir hönd Færeyinga aðilar að deilunni og þess vegna blandast ESB í málið. Deilan stendur því alls ekki við Evrópusambandið í heild sinni heldur tvö af aðildarlöndum þess.

Samsæriskenningar um að Evrópusambandið sé á einhvern hátt í heilögu stríði við Ísland eiga því ekki nokkra stoð í veruleikanum. Og óháð aðildarviðræðunum þá þyrftum við hvort sem er að útkljá þetta deilumál á ásættanlegan hátt fyrir alla aðila.

Það hentar hins vegar skammtíma þjóðernisöfgapólitíkusum að þyrla upp moldviðri í kringum þetta mál og blása það upp sem allsherjarsamsæri ESB gagnvart Íslandi. Staðreyndin er hins vegar sú að aðildarviðræður Evrópusambandsins við umsóknarríki eru sjaldan línulegt ferli. Nánast alltaf koma upp einhver mál sem hægja á ferlinu og báðir aðilar þurfa að hugsa upp viðeigandi lausnir. Dæmi um slíkar sérlausnir eru til dæmis skilgreiningar á „heimskautalandbúnaði" og „háfjallalandbúnaði" sem voru útbúnar þegar Finnar, Svíar og Austurríkismenn gengu í ESB árið 1995. Einnig má benda á landamæradeilur Slóvena og Króata sem töfðu aðildarviðræðurnar við Króatíu í næstum því heilt ár.

Í stað þess að reyna að þvælast fyrir aðildarviðræðunum og leggja stein í götu samninganefndar Íslands við nánast hvert einasta skref ættu stjórnmálamenn og flokkar að sameinast um að klára þetta mál með sóma. Allir aðilar eru sammála um að íslenska þjóðin muni eiga síðasta orðið í þessu máli. Af hverju að loka og læsa dyrunum þegar ekki er ljóst hvort þessi leið geti aðstoðað okkur til að komast út úr þeim vandræðum sem hrunið árið 2008 kom okkur í?


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband