Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2013

Andrés Pétursson í FRBL: SAMNINGAR OG SÉRLAUSNIR

Andrés PéturssonAndrés Pétursson, formaður Evrópusamtakanna, skrifaði grein í FRBL föstudaginn 4.janúar um ESB-málið. Grein hans birtist hér í heild sinni með góðfúslegu leyfi hans.

SAMNINGAR OG SÉRLAUSNIR

Andstæðingar aðildar Íslands að Evrópusambandinu fara nú hamförum í áróðri sínum gegn aðildarviðræðunum sem nú standa yfir. Af einhverjum ástæðum þykjast sumir þeirra geta túlkað viðræðurnar sem einstefnuakrein þar sem Ísland eigi litla eða enga möguleika á því að hafa áhrif á þann samning sem í boði verður. Maður kippir sér í sjálfu sér ekki upp við að misvel upplýstir bloggarar fari stundum með staðlausa stafi í þessu máli. En þegar aðilar sem eiga að vera ábyrgir, eins og ritstjórar blaða og formenn einstakra stjórnmálaflokka, gera slíkt hið sama er nauðsynlegt að leiðrétta það lýðskrum og afbakaðar staðreyndir sem þessir aðilar hafa borið á borð fyrir landsmenn á undanförnum misserum.

Þegar þessir aðilar eru spurðir þeirrar einföldu spurningar hvers vegna Ísland eitt landa sem sótt hafi um aðild að ESB eigi ekki neina möguleika á því að hafa áhrif á þann samning sem í boði er verður lítið um svör. Þessir sömu aðilar eru líka spurðir hvers vegna ESB sendi ekki bara laga- og reglugerðarpakka sinn í heild sinni og umsóknarlöndin segi þá bara já eða nei. Ef það sé raunin þurfi ekki að hefja neinar aðildarviðræður! Að sjálfsögðu verður þá fátt um svör. Ástæðan er einföld; öll aðildarlönd hafa fengið sérlausnir á þeim sviðum þar sem þjóðhagslega miklir hagsmunir eru í húfi.

Málamiðlanir

Alþingi Íslendinga ákvað að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Það þýðir að við göngum inn í ákveðið ferli sem ESB hefur þróað undanfarin fjörutíu ár og hefur reynst vel. Varðandi Ísland hefur þetta sjaldnast skapað vandamál því við höfum lagað okkar samfélag að reglugerðarramma ESB undanfarin tuttugu ár í gegnum EES-samninginn. Staðreyndin er sú að báðir samningsaðilar reyna að ná málamiðlunum um umdeild atriði. Engir tveir aðildarsamningar eru eins enda hagsmunir þjóða misjafnir. Samninganefnd ESB ver hagsmuni sambandsins og samninganefnd Íslands í okkar tilfelli ver hagsmuni okkar. Af samningatæknilegum ástæðum ræða menn aldrei um undantekningar heldur um sérlausnir, annaðhvort tímabundnar eða varanlegar. Mörg dæmi eru um varanlegar sérlausnir í aðildarsamningum annarra þjóða. Þar má til dæmis nefna sumarhúsakaup erlendra aðila í Danmörku og kaup útlendinga á landi á Möltu. Það er síðan íslensku þjóðarinnar að ákveða hvort þeir samningar sem íslenska samninganefndin nær séu ásættanlegir fyrir íslenska þjóð.

Þrátt fyrir að umræðan verði stundum mjög þvælin verður að hrósa sumum andstæðingum aðildar Íslands þegar þeir reyna að halda þessu máli á þokkalega upplýstu plani. Það á til dæmis við um Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra. Hann hefur viðurkennt að sérlausnir séu í boði fyrir aðildarríkin. Það gerði hann til dæmis í grein nýlega um Ungverjaland. Að vísu dró hann þar ályktanir varðandi sérlausnir Ungverja sem ég er algjörlega ósammála. En það skiptir í sjálfu sér ekki máli í þessu samhengi. Staðreyndir eru nefnilega á hreinu. Það er ekki til neinn „one size fits all" samningur. Hver aðildarsamningur er sérstakur og það er síðan þjóðarinnar að ákveða hvort sá samningur sé ásættanlegur fyrir okkar hagsmuni.


"Hvað mundi gerast ef Ísland tæki upp evru, fyrir utan að gjaldmiðillinn breyttist?"

EvraSpurning vikunnar á Evrópuvefnum er þessi: "Hvað mundi gerast ef Ísland tæki upp evru, fyrir utan að gjaldmiðillinn breyttist?"

Þessi spurning er það stór að svarið við henni er svona: "Spurningunni um hvað mundi gerast ef Ísland tæki upp evru og gerðist aðili að Efnahags- og myntbandalaginu er ómögulegt að svara á tæmandi hátt í stuttu svari. Ætla má að upptaka evru hefði margvísleg áhrif á efnahagslífið sem þar að auki gætu haft víxlverkandi áhrif á samofna þætti efnahagslífsins. Endanlegt svar um heildaráhrifin af upptöku evru er því háð töluverðri óvissu.

Evrópuvefurinn hefur fjallað um upptöku evru og áhrif hennar á ýmsa þætti efnahagslífsins svo sem laun, verðbólgu, hagvöxt og húsnæðislán."

Að loknum þessum texta eru svo krækjur inn á margar spurningar og svö sem tengjast málinu og er áhugasömum beint þangað.

Ritari hefur nánast engan hitt sem hefur ekki viljað fræðast meira um Evrópusambandið! Evran er einn (stór) hluti af þessu dæmi!

Svo á að kjósa um allt heila klabbið þegar samningurinn liggur fyrir.


Össur: Óðs manns æði að hætta viðræðum við ESB

dv-logoDV skrifar í dag: "„Aðildarviðræðurnar í heild sinni eru á góðum skriði, og komnar mjög langt, og væri óðs manns æði, og algerlega gegn hagsmunum Íslands að hætta við allt saman núna þegar við erum farin að sjá til lands.“ Þetta segir Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra, spurður hvort hann sé sáttur við það hvar aðildarviðræðurnar á milli Íslands og ESB standa í dag."

Hærra fjárfestingarstig í Grikklandi en hér á landi!

Morgunblaðið birti um áramótin í samstarf við bandaríska storblaðið The New York Times áramótablað sem heitir 2013 TÍMAMÓT. Innihélt blaðið greinar eftir ekki minni menn en Zbigniew Brzezinski, sem var þjóðaröryggisráðgjafi Jimmy Carters á árunum 1971-1981 og fleiri erlenda aðila. Margt gott var í þessu ágæta blaði.

Einnig voru greinar eftir innlenda blaðamenn blaðsins, þar á meðal Hörð Ægisson, viðskiptablaðamann. Í grein hans Bati en blikur á lofti, er að finna þetta:

"Á síðasta ári var fjárfestingarstigið í hinu kreppuhrjáða ríki Grikklandi jafnvel hærra en hér á landi. Þjóðhagsspá Seðlabankans gerir ráð fyrir því að fjárfestingarstigið verði aðeins ríflega 17% í árslok 2014. Hrun í fjárfestingu og innlendri eftirspurn var vissulega óhjákvæmilegur fylgifiskur falls fjármálakerfisins haustið 2008. (Krónan hrundi, innskot ES-bloggið) Því verður þó ekki haldið fram að það sé til marks um öflugan efnahagsbata að fjárfesting verði enn töluvert undir sögulegu meðaltali sex árum frá bankahruni.

Það eru hins vegar blikur á lofti á næsta ári. Hætt er við því að sá efnahagsárangur, sem þó hefur náðst, muni aðeins reynast svikalogn í baksýnisspeglinum ef íslenskir stefnusmiðir misstíga sig þegar kemur að stærsta hagsmunamáli þjóðarinnar um þessar mundir - uppgjöri föllnu bankanna og í kjölfarið lausn aflandskrónuvandans."

Það er áhugavert að velta þessu fyrir sér - hversvegna er fjárfesting/fjárfestingarstig hér á landi ekki meira eða hærra en raun ber vitni? Er það krónan og höftin sem fæla frá?

Lars Christiansen er sennilega á þeirri skoðun, en hann sagði frá því um daginn í heimsókn hér að hann hefði hitt viðskiptamenn sem einmitt lýstu því að þeir hefðu hætt við fjárfestingar vegna haftanna.

Grikkir eru hinsvegar með alþjóðlega sterkan og gjaldgengan gjaldmiðil, Evruna.

Skiptir þetta máli? 

Krónan fellur enn og hún hefur ekki þýtt raunaukningu á útflutningi frá landinu, en þetta eru einmitt helstu rök áköfustu "krónusinna"!

Leturbreyting í tilvitnun: ES-bloggið.


Uppalandinn!

Þetta sýndir þörfina á góðri/vitrænni umræðu um gjaldmiðilsmál:

"Vanmetinn eiginleiki krónunnar er að hún er uppalandi.

Hálfvitakynslóðin sem komst til vits og ára milli 2000 og 2008 hélt að skuldsett eyðsluæði væri lykillinn að hamingjunni.

Krónan kennir okkur að eyða minna og spara."

Sá sem þetta ritar er sá sami og samtök Nei-sinna þurftu að láta sigla sinn sjó vegna ummæla um að "þurrka ætti VG af þingi" í desember síðastliðnum.

Krónan uppalandi? Þvílíkt grín!

Leturbreyting: ES-bloggið.


Breytingar á Rannís: Menntaáætlun ESB og Nordplus þangað

Í frétt á Rannis.is segir: "Rannís tekur breytingum nú um áramótin, en frá og með 1. janúar 2013 flytjast Landskrifstofur Menntaáætlunar Evrópusambandins og Nordplus til Rannís. Þar með sameinast nokkrar af stærstu styrktaráætlunum Evrópusambandsins og Norrænu ráðherranefndarinnar undir einni stofnun. Markmiðið með sameiningunni er að styrkja erlent samstarf á sviði menntunar, rannsókna og nýsköpunar á Íslandi og einfalda aðkomu umsækjenda að áætlununum.

Verkefni og starfsfólk Menntaáætlunar ESB og Nordplus hafa nú flust frá Háskóla Íslands yfir til Rannís. Fyrst um sinn verður starfsemin á tveimur stöðum, þar sem Rannís verður áfram á Laugavegi 13 og starfsemi Menntaáætlunar (Comenius, Leonardo, Erasmus og Grundtvig) og Nordplus í Tæknigarði við Dunhaga.

Í undirbúningi er einnig að flytja umsýslu innlendra sjóða á sviði menntamála, menningar- og æskulýðsmála frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu til Rannís á árinu."


Krónan lækkað um 12% á hálfu ári = 2% á mánuði!

Ein krónaKrónan, gjaldmiðill Íslendinga, heldur uppteknum hætti og fellur, í frétt a visir.is segir: "Gengi íslensku krónunnar tók dýfu rétt fyrir áramótin þvert á spár sérfræðinga. Hefur gengið ekki verið veikara í tæp tvö ár.

Gengisvísitalan mælist nú 231 stig og hefur ekki verið hærri síðan í febrúar árið 2010. Miðað við stöðu vísitölunnar í sumar hefur gengi krónunnar fallið um nærri 12%.

Þá eða í ágúst tók gengi krónunnar að veikjast töluvert og töldu sérfræðingar almennt að um skammtímaáhrif væri að ræða enda ferðamannastraumurinn til landsins enn í hámarki. Nefndir voru til sögunnar hlutir eins og miklar greiðslur sveitarfélaga og fyrirtækja af erlendum lánum. Þessi niðursveifla myndi jafna sig út þegar kæmi fram á veturinn.

Staðan er samt sú að dollarinn hefur hækkað í verði um tæp 8% síðan um miðjan ágúst, evran hefur hækkað um rúm 14% sem og danska krónan. Þá hefur breska pundið hækkað um tæp 11%."

2013 fer vel af stað...ekki!


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband