Leita í fréttum mbl.is

Carl Bildt í DV: Aðlögunin hluti af endurreisn Svíþjóðar og viðspyrna

Carl BildtDV birtir í dag viðtal við Carl Bildt, utanríkisráðherra Svía, sem var staddur hér á landi í tilefni þings Norðurlandaráðs. Kíkjum á bút úr viðtalinu, en það er Jóhann Hauksson, blaðamaður, sem spyr:

,,Þú varst forsætisráðherra þegar bankakreppa skall á í Svíþjóð í byrjun níunda áratugarins. Hvaða aðgerðir til endurreisnar skiluðu mestum árangri?

„Þetta var margt sem leiddi til þess að okkur tókst að ná okkur upp úr kreppunni á þeim tíma. Eftir á að hyggja heppnaðist okkur vel að endurreisa bankakerfið sjálft og leysa vandann sem því fylgdi. Við gripum til ýmissa yfirgripsmikilla kerfisbreytinga. Þetta fór síðan saman við inngöngu okkar í Evrópusambandið. Það leikur enginn vafi á því að eftir að við vorum gengin í ESB hafði það góð áhrif og stuðlaði að auknum stöðugleika efnahagslífsins og þróun þess. Þetta fólst sem sagt í aðgerðum innan fjármálakerfisins, umbótum í efnahagslífinu og inngöngu í Evrópusambandið.“

Íslendingar eru í þeim fasa að reyna að ná sér á strik eftir bankahrun og hafa sótt um aðild að Evrópusambandinu. Umsóknin er umdeild og mætir andstöðu til dæmis innan sjávarútvegs og landbúnaðar. Hvernig hefur sænskum landbúnaði vegnað innan ESB?

„Sænskum landbúnaði vegnar mjög vel innan Evrópusambandsins. Hann hefur fengið sinn stuðning og jafnvel of mikla aðstoð því hún er kostnaðarsöm. En almennt séð má segja að aðlögunin að Evrópusambandinu á sínum tíma hafi veitt viðspyrnu og hafi gefið sænsku efnahagslífi aukið þrek. Ef við berum alþjóðakreppuna nú saman við kreppuna snemma á tíunda áratugnum má sjá að Evrópa kemst miklu betur frá henni nú en þá. Þetta má rekja til miklu nánari samvinnu landanna innan ESB. Þetta var miklu erfiðara þá en nú og það má rekja beint til samstarfsins innan Evrópusambandsins.“  

(Leturbreyting: ES-bloggið) 


Evrópuþingið vill styrkja rétt Internetnotenda: Þú átt að geta "eytt" þér af netinu!

facebookMargir sem nota internetið gera sér grein fyrir því að það er erfitt að "eyða" sér af netinu og taka það út það sem maður hefur sett inn. T.d. eyðist ekki Facebokk-síða, þó notandinn eyði henni. Hún er aðeins sett í geymslu!

Þá eru dæmi um að fólk hafi verið rekið úr vinnu vegna mynda og brandara sem það hefur sett á netið. Það skiptir því máli hvernig notendur "hegða" sér á netinu, sem virðist ekki "gleyma."

Þing Evrópuþingsins ræðir nú þessi mál og hyggst endurskoða löggjöf um þessi mál, frá 1995, áður en Google og Facebook urðu til.

Markmiðið er að styrkja rétt internet-notenda á þessu sviði.

EU-Observer greinir frá þessu á vef sínum og lesa má fréttina hér 

Ps. Þar kemur einnig fram að s.k. tölvuþrjótar hafi "hakkað" sig inn í tölvukerfi OECD, til að nálgast þar fjármálaupplýsingar. 


Össur í FRBL: Valkostur Heimssýnar? Ekki til!

Össur SkarphéðinssonÖssur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, skrifar ein greinina í viðbót um ESB-málið í FRBL í dag. Össur segir:

,,Aðild smáríkja eins og Íslands að Evrópusambandinu virðist leiða til verulegrar aukningar á erlendum fjárfestingum hjá þeim. Þegar umsvif fyrirtækja í þeim eru skoðuð kemur líka í ljós að fjárfestingar þeirra margfölduðust í öðrum ríkjum á fjórum fyrstu árunum eftir aðild, mest í löndum Evrópusambandsins. Þannig virðist full þátttaka í samstarfi Evrópuþjóðanna á sviði efnahags- og viðskiptamála skapa fyrirtækjum nýtt svigrúm til að vaxa og fjölga störfum. Þetta kemur í ljós þegar menn skoða opinberar tölur um fjárfestingar sem tengjast fimm smáríkjum sem gengu í Evrópusambandið árið 2004.

Jákvæð Evrópuskref

Staðreyndin er sú, að í hvert skipti sem Ísland hefur stigið skref í átt að nánari samruna við Evrópu, þá hafa erlendar fjárfestingar stóraukist á Íslandi. Um leið hafa orðið til ný störf. Það gerðist með aðildinni að EFTA á sínum tíma. Það gerðist aftur þegar við urðum hluti af EES-samningnum. Það mun endurtaka sig enn einu sinni þegar við göngum í Evrópusambandið. Það getum við lært af reynslu Maltverja, Kýpverja, Slóvena, Slóvaka og Eistlendinga. Hugsanlega gerist það einnig, þegar kemur að því að Íslendingar taka upp evruna.

Þvert á það sem haldið er fram af Heimssýn og þeim „innmúruðu og innvígðu" á Evrópuvaktin.is (sem formaður utanríkismálanefndar kallar „hægriöfgamennina") þá er sú aukning sem varð í erlendum fjárfestingum hér á landi í kjölfar EES-samningsins rök með því - en ekki gegn - að hvert skref til nánari samvinnu við Evrópu eykur traustið á Íslandi. Það leiðir til meiri fjárfestinga hér á landi. Það eykur svigrúm fyrirtækja til að vaxa og það skapar ný störf. Þurfum við ekki á nýjum störfum að halda? Jú, - svo sannarlega."

Og síðar segir Össur:

,,Hver er valkostur Heimssýnar?

Það er fullkomlega lögmæt afstaða að hafna Evrópuleiðinni. Menn verða þá að gera það á grundvelli raka. Við, sem fylgjum Evrópuleiðinni, eigum þá kröfu á hina, sem hafna henni, að þeir sýni fram á betri leið út úr vandræðum Íslands. Þeir verða að sýna að þeir hafi betri aðferðir til að útrýma atvinnuleysi á Íslandi.

Hver er valkostur Heimssýnar? Það hefur enginn maður heyrt af honum.

Hann er ekki til."


Öll greinin 


Baldur Kristjánsson: Þurfum að vera fullgild í hópi Evrópuþjóða

Baldur KristjánssonBaldur Kristjánsson, guðfræðingur, er með áhugaverða hugleiðingu á Eyju-bloggi sínu. Við bendum á það og krækjan á færsluna er hér. (Mynd: Smugan.is)

Vertu með - sköpum Sterkara Ísland!

Sterkara Ísland!Viljum minna alla áhugamenn um Evrópusamvinnu að samtökin STERKARA ÍSLAND berjast fyrir aðild Íslands að ESB.

Hvetjum fólk til þess að vera með! Á þessari síðu er hægt að skrá sig í samtökin og gerast virkur í því að skapa STERKARA ÍSLAND!

Einnig: http://www.sterkaraisland.is/skraning/


Eru krónan og höftin meiriháttar viðskiptahindrun?

Ein krónaÞessa dagana er mikið rætt um þörfina á erlendri fjárfestingu hér á landi. Össur Skarphéðinsson, "Utanríkis" bendir á þetta í grein fyrir skömmu.

Þeir sem fylgjast með efanahagsmálum vita að lönd þurfa erlenda fjárfestingu og lönd vilja fjárfesta hvort í öðru. Þetta er hluti af því sem kallað er alþjóðleg viðskipti.

En við þetta vaknar spurningin hve fýsilegt fyrir fjárfesta að koma hingað til lands eins og staðan er í gjaldmiðilsmálum, krónan er jú "innilokuð" í höftum. Sem samkvæmt fréttum verða að minnsta kosti fram á næsta vor.

Gerist eitthvað á meðan svo er? Er hægt að "vinna" með gjaldmiðil sem er í slíku ástandi? Gjaldmiðil sem ekki er treystandi til þess að vera hluti af og í frjálsu markaðshagkerfi?

Þetta hlýtur að flokkast sem meiriháttar viðskiptahindrun! 


Sverrir Jakobsson í FRBL: Svik við málstaðinn?

Sverrir JakobssonSverrir Jakobsson skrifar grein í Fréttablaðið í dag um ESB-málið og rifjar þar m.a. upp þá staðreynd að gert var samkomulag um ESB-málið í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Þá talar hann um þá aðlögun sem menn hafa verið að tala um og segir:

,,Þetta aðlögunarferli er hins vegar ekki nýtt af nálinni heldur hefur það verið í gildi síðan Ísland gekk í evrópska efnahagssvæðið fyrir hartnær tveimur áratugum. Í ferlinu sjálfu felst ekki óafturkræf nálgun við Evrópu­sambandið sem kemur í veg fyrir að þjóðin geti hafnað aðild að ríkjasambandinu. Það sjáum við af reynslu Noregs, sem tvisvar hefur farið í gegnum slíka aðlögun án þess að landið sé nú hluti af ESB. Það hafa því engar forsendur breyst frá því að VG kaus að setjast í ríkisstjórn með þessa stefnu. Þetta viðurkennir Hjörleifur Guttormsson í grein í Smugunni 26. október og kallar þá ákvörðun „reiðarslag". En hvað með þann þorra flokksstjórnarmanna sem, ólíkt Hjörleifi, studdi stjórnarsamstarf á grundvelli þessarar samstarfslýsingar vorið 2009? Hafa þeir endurskoðað sína afstöðu og vilja nú hætta stjórnarsamstarfi við Samfylkinguna? Þeirri spurningu verða hundraðmenningar að svara hreinskilnislega, ef ekki sameiginlega þá hver fyrir sig. Forystumenn VG eru jafnbundnir af þeirri samþykkt flokksins, að ganga til stjórnarsamstarfs á grundvelli áðurnefnds samstarfssáttmála, og þeir eru af öðrum stefnumótandi samþykktum flokksins.

Það er ekkert vafamál að sá hluti samstarfsyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar sem tekur til Evrópusambandsins ber meira mót af stefnu Samfylkingarinnar heldur en stefnu VG. En svo er ekki um alla hluta hennar. Í samstarfsyfirlýsingunni segir t.d. líka: „Umhverfisvernd sem hefur sjálfbæra þróun samfélags og efnahags að leiðarljósi er sá grunnur sem ný atvinnu- og auðlindastefna stjórnarinnar byggir á. Þannig eru tekin mikilvæg skref í átt til hins nýja græna hagkerfis sem skilar jöfnum vexti, og tryggir að ekki sé gengið á höfuðstól auðlindanna." Það er eðlileg krafa helsta flokks umhverfis­sinna á Íslandi að ríkisstjórnin starfi í anda þeirrar atvinnustefnu sem hún hefur sjálf markað og að aðilar innan hennar vinni hvorki í orði né verki gegn anda samstarfsyfirlýsingarinnar."

Allur pistill Sverris (Mynd: FRBL)


Algjörlega STRAND!

deserted-island.jpgNei-samtökin, Heimssýn, blása til ráðstefnu um strandríki á föstudaginn. Þar á að ræða Grænland, Ísland, Færeyjar og Noreg út frá ,,samfelldri landfræðilegri keðju" sem sagt er að löndin myndi.

Þetta er nokkuð fyndið, því ef hugmyndafræði Heimssýnar verður ofan á hér á landi, þá verður Ísland meira STRAND-ríki en nokkru sinni fyrr. Algjörlega strand! 


Þýski mótorinn kominn á fullt?

german_flagAtvinnuleysi í Þýsklandi er í sögulegu lágmarki um þessar mundir. Um þetta bloggar Elvar Örn Arason á Eyjunni og hann segir m.a.: ,,Fjöldi atvinnulausra hefur ekki verið lægri í Þýskalandi í átján ár. Tæp hundrað þúsund manns hafa fengið vinnu í mánuðinum og þar með eru atvinnulausir rétt innan við þrjár miljónir eða 7%. Atvinnu- og félagsmálaráðherrann, Ursula von der Leyen, greindi alsæl frá tölunum á blaðamannafundi nokkrum dögun fyrr en áætlað var. Fyrir fimm árum voru meira en fimm miljónir án atvinnu í Þýskalandi.

Atvinnuleysið hefur minnkað jafnt og þétt frá því um mitt árið 2009. Það er einstakt afrek hjá Þjóðverjum að takast að draga úr atvinnuleysi í dýpstu efnahagskreppu frá seinni heimsstyrjöld og ýmsir hagfræðingar segja þetta sé kraftaverki líkast."

Allur pistill Elvars 

 


Ísland nálgast EVRU-viðmiðin

EvraEins og fram hefur komið í fréttum lækkaði Seðlabankinn vexti í dag um 0.75%. Í frétt á www.visir.is segir: ,,Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka vexti bankans um 0,75 prósentur. Vextir á viðskiptareikningum innlánsstofnana lækka í 4,0% og hámarksvextir á 28 daga innstæðubréfum í 5,25%. Vextir á lánum gegn veði til sjö daga, svokallaðir stýrivextir, lækka í 5,5% og daglánavextir í 7,0%."

Sem stendur er verðbólga í landinu um 3.3 prósent og hefur hún hrapað úr 18% í ársbyrjun 2009. Verðbólgumarkmið Seðlabanka er 2.5% Útlit er fyrir að verðbólga lækki frekar á næstunni.

Þetta leiðir hugann að viðmiðum Evrunnar, sem eru:

1. Halli á rekstri hins opinbera má ekki vera 3% af landsframleiðslu.
2. Skuldir hins opinbera mega ekki vera yfir 60% af landsframleiðslu.
3. Verðbólga sé ekki meiri en 1,5% umfram meðaltal í þeim þremur ESB-ríkjum sem hafa minnsta verðbólgu undangengið ár.
4. Langtímanafnvextir (á mælikvarða skuldabréfa ríkisins til 10 ára) séu ekki meiri en 2% umfram samsvarandi vexti í þeim þremur aðildarríkjum ESB sem hafa minnsta verðbólgu.
5. Að gengi gjaldmiðils umsóknarríkisins hafi ekki sveiflast umfram 15% vikmörk í kringum tiltekið viðmiðunargengi undangengin tvö ár."

Það er ljóst að Ísland er að nálgast Evru-skilyrðin aftur, að minnsta kosti varðandi vexti og verbólgu. Sem er mikilvægt.

Gjaldmiðilsmál okkar eru jú í ólestri með krónu í öndunarvél, sem menn þora varla að snerta.

Það gengur ekki til framtíðar, fyrir almenning og atvinnulíf!

En skuldir og hallarekstur á ríkissjóði eru vandmál.

 


Evrópa er þarna úti - búið að sækja um hjá ESB!

Sigmundur Davíð GunnlaugssonSigmundur Davíð Gunnlaugsson er ágætlega pennafær. Það hefur sés að undanförnu í blaðgreina-seríu, sem hann hefur kallað HVAÐ GETUM VIÐ GERT og hafa birst í Fréttablaðinu. Alls er um fjórar greinar að ræða. Hingað til.

Þar fer Sigmundur yfir sviðið og kemur með sína sýn á málefnin. Í fjórðu grein sinni sagði Sigmundur í inngangi: 

"Í þremur greinum hef ég fjallað um forystu framsóknarmanna í uppgjöri við fortíð, leiðandi stefnu í lýðræðisumbótum og málefnum heimila og atvinnulífs. Í síðustu grein rakti ég 10 af þeim málum sem Framsókn hefur barist fyrir síðastliðin 2 ár. Margt af því hefur þegar sannað gildi sitt og er nú ofarlega í umræðunni. Ástæða er til að nefna nokkur slík atriði til viðbótar." 

Gott og vel. En það sem einkennir þessar greinar er eins og að útlönd séu varla til. Það örlítið minnst á AGS (IMF) og Icesave í grein III, annars er þetta allt saman "innanríkis."

Og ekki segir Sigmundur orð um ESB eða hvernig Ísland á að haga samskiptum sínum við aðrar þjóðir.

Sem er svolítið kindugt, sérstaklega í ljósi þess að í skýrslu Evrópunefndar Framsóknarflokksins árið 2007, segir orðrétt:

,,Framsóknarflokkurinn vill vera leiðandi afl í Evrópuumræðunni á Íslandi. Líkt og í öðrum stjórnmálaflokkum hérlendis er mismunur á afstöðu manna til Evrópusambandsaðildar. Burtséð frá því er mikilvægt að til staðar sé þekking innan flokksins sem unnt er að byggja á ef mál taka aðra stefnu á vettvangi Evrópumála en verið hefur undanfarinn áratug eða svo."(Feitletrun, ES-blogg)

Halló! Halló, Framsóknarflokkur: Evrópa er þarna úti - hún er til! ESB líka! Það er meira að segja búið að sækja um!
 


Vigdís Hauks ekki af baki dottin! Vill fá undanþágu frá þróunaraðstoð!

Vigdís HauksdóttirVigdís Hauksdóttir fékk töluverða athygli eftir hina andvana fæddu þingsályktunartillögu sem hún lagði fram um daginn.

"Heimssýnartillagan" var svo illa unnin að hún var ekki þingtæk og málið allt hið vandræðalegasta, fyrir þá sem að því komu. Birgitta Jónsdóttir baðst opinberlega afsökunar á þessu magnaða klúðri.  

En nú reynir Vigdís að spyrna við fótum.

Fram kemur á www.visir.is í dag að Vigdís komi nú fram með tillögu um að Ísland fái undanþágu frá greiðslum í þróunarsjóð EFTA, sem miðar að því að ríkari lönd styðjui við þau sem eru verr stödd.

Hún blandar að sjálfsögðu ESB inn í málið og segir menn ekki vilja ,,styggja" sambandið!

Þetta eru náttúrlega fáránleg rök. Ísland er hluti af alþjóðlegu samstarfi á mörgum sviðum og þetta er einn hluti af því.

Það er því miður mikið af fólki sem hefur lent illa í "krísunni" hér á landi og með þeim ber að standa.

Það eru einnig mjög margir úti í heimi sem hafa lent illa í þessu og þetta er leið Íslands til þess að láta sitt af hendi rakna og sýna samstöðu

Fé þetta er m.a. til að aðstoða lönd sem eru að ná sér á strik eftir áratuga kúgun kommúnista í Evrópu, s.s. í Búlgaríu og Rúmeníu.  

Vigdís er í Framsóknarflokknum. Hvernig er það, er hann ekki ennþá félagshyggjuflokkur? Eru þessar hugmyndir í samræmi við stefnu flokksins?


Andri Geir um ESB á Eyjunni með flestar athugasemdir - viðtalið

andri-geir-a.gifFréttin um Andra Geir Arinbjarnarson og viðtalið við hann í "Silfri  Egils" um síðustu helgi er sú frétt á Eyjunni, sem hefur flestar athugasemdir/komment. Andri var að tala um ESB og í fréttinni segir: 

,,Yngri kynslóðir munu segja „nei“ við foreldra sína og flytjast til Evrópusambandsins ef eldri kynslóðir segja „nei“ við aðild að sambandinu. Næsta kynslóð mun þá einfaldlega leysa sína stöðu sjálf með því að fara úr landi og flytjast til ESB.

Þetta sagði Eyjubloggarinn Andri Geir Arinbjarnarson í Silfri Egils í dag, en Andri Geir hefur verið afkastamikill þjóðfélagsrýnir eftir hrun.

Og síðar segir: ,,„Ef þetta verður ekki leyst, þá mun næsta kynslóð bara leysa þetta sjálf með því að fara bara úr landi og flytjast til ESB,“ sagði Andri Geir. „Tifandi tímasprengja tikkar í grunnskólum og framhaldsskólum landsins.“ 

Öll fréttin og allt Silfurs-viðtalið


Enn um Ögmund og Stöð tvö

Ögmundur JónassonEins og fram hefur komið vill dóms og mannréttindamálaráðherra, Ögmundur Jónasson, flýta aðildarviðræðunum við ESB. Þessu lýstu hann yfir í umtöluðu viðtali á Stöð tvö í gærkvöldi. Horfið hér

En vill Ögmundur afgreiða málið án þess að landið, stjórnkerfið og stofnanir séu óundirbúin?

Á s.s. bara að hespa þessu af í flýti? Er það ekki "íslenska leiðin"?  

Hvernig væri að VANDA málið og reyna að ná sem bestum samningi? Er eitthvað að því? 

Og láta svo þjóðina kjósa! 


Bloggað um styrkjamál BÍ að austan

Einar Ben Þorsteinsson (frá Egilstöðum) er alfarið á móti styrkveitingu BÍ til Nei-samtakanna. Á bloggi sínu segir hann: ,,Það að Bændasamtök Íslands sjái sér fært að styrkja stjórnmálasamtökin Heimssýn sérstaklega er ákaflega merkileg staðreynd. Sem meðlimur í Bændasamtökum Íslands verð ég að mótmæla því harðlega að fé okkar félagsmanna sé notað í þessum tilgangi."

Svo segir hann að ,,siðferðilega orkar ákvörðun stjórnenda Bændasamtakanna mjög tvímælis, og vonandi verður þetta pólitíska prump dregið tilbaka." 

Hér er öll færsla hans en í athugasemd við færsluna segir á einum stað:

,,Bændur hafa ekkert val um aðild sína að bændasamtökunum, og eru tilneyddir að leggja þeim til sjálfsaflafé.

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur ítrekað talið slíka skylduaðild brjóta gegn félagafrelsi manna, er þá litið sérstaklega til þess hvort samtökin sem um ræðir séu pólitísks eðlis. Leiðir skylduaðild að slíkum samtökum til þess að einstaklingar eru neyddir til að styðja málstað sem þeir eru ekki fylgjandi, líkt og í tilviki Einars.

Má sjá þessa niðurstöðu í MDE í Máli Sigurðar Á. Sigurjónssonar.

Er munur á slíkum styrkjum hvort þeir komi frá sameiginlegum sjóðum ríkisins, eða skattpíndum félagsmönnum, líkt og í tilviki Bændasamtakanna."


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband