Leita í fréttum mbl.is

Andrés Pétursson: Hvað nú hr. forseti?

Andrés PéturssonAndrés Pétursson, formaður Evrópusamtakanna ritar grein í MBL í dag um áherslur forseta Íslands í utanríkismálum. Grein hans birtist hér í heild sinni: 
 
HVAÐ NÚ HR.FORSETI? 
"Hún er æpandi þögnin á Bessastöðum varðandi málefni nóbelsverðlaunahafans Liu Xiaobo. Kínverjar reyndu að kúga Norðmenn til að falla frá áformum sínum að veita honum friðarverðlaun Nóbels. Sem betur fer hlustuðu frændur okkar ekki á þá. Forseti Íslands svarar því hins vegar engu hvað honum finnist um þetta mál. Það verður á móti að hrósa borgarstjóranum í Reykjavík, Jóni Gnarr, fyrir hans framgöngu en hann hikar ekki við að segja hug sinn í þessu máli. Það mættu fleiri taka borgarstjórann sér til fyrirmyndar í þessu máli. 

Forseti lýðveldisins hefur verið í fararbroddi þeirra aðila sem vilja auka samskiptin við rísandi veldi í Asíu og er ekkert að því. En á sama tíma hefur hann barist gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu, bæði leynt og ljóst. Ég er ekki að segja að við eigum ekki að hafa samskipti við Kínverja eða aðrar þjóðir í Asíu. Síður en svo, ég held að við eigum að halda áfram að eiga góð samskipti við aðrar þjóðir. Það er hins vegar ekkert sem hindrar að við eigum góð samskipti við þjóðir eins og Kína þótt við gengjum í Evrópusambandið.

Við þurfum hins vegar að meta hvernig okkar hagsmunum er best borgið. Er það í öflugu sambandi við okkar næstu nágrannaþjóðir þar sem lýðræði og mannréttindi eru í hávegum höfð? Eða viljum við binda okkar trúss við þjóðir þar sem aðrar áherslur gilda í þeim efnum?

Reynsla annarra smáþjóða getur vísað okkur veginn. Simon Busuttil, maltneskur þingmaður, og Joe Borg, fyrrum utanríkisráðherra Möltu og sjávarútvegsráðherra Möltu, hafa báðir sagt frá því að áhugi Kínverja á samskiptum við Möltu hafi stóraukist eftir að Malta gekk í Evrópusambandið. Bæði hafi áhugi Kína á fjárfestingum á Möltu aukist og diplómatísk tengsl hafi styrkst. Það sama er upp á teningnum í Grikklandi núna.

Er ekki tími til kominn að forseti Íslands hvetji til nánari samskipta við þau lönd sem við eigum í mestu og bestu sambandi við, þ.e. lönd Evrópusambandsins? Það myndi einnig styrkja samningsstöðu okkar gagnvart rísandi veldum Asíu og tryggja langtímahagsmuni Íslands í hinum ört samtengda heimi verslunar og viðskipta."

Andrés Pétursson er formaður Evrópusamtakanna, fjármálastjóri og á sæti í stjórn Sterkara Íslands.


Svíþjóð: Byggingabransinn á fullri ferð - aftur

krani_1034421.jpgFram kom í sænska ríkissjónvarpinu í gærkvöldi að það hefur birt verulega til í sænskum byggingariðnaði. Mest er byggt af svokölluðum búsetu-íbúðum, sem felur í sér s.k. búsetuétt (í líkingu við það sem Búseti gerir hér á landi).

Talið er að byggingariðnaðurinn muni vaxa um 3% á þessu ári og 5% á næsta ári. Mest er byggt í stórborgunum, t.d. Gautaborg og Málmey (Malmö) um þessar mundir.

Einnig er mikið um viðhaldsverkefni og endurnýjanir, enda sænska skattakerfið notað með virkum hætti með þetta að markmiði

Frétt SVT


Nýr vefur um ESB-málið há Utanríkisráðuneytinu

ISESBVekjum athygli á að opnaður hefur verið nýr vefum á vegum Utanríkisráðuneytisins um ESB-málið. http://esb.utn.is/vidraedur/

Margt fróðlegt er að finna á vefnum um umsóknarferlið og hluti því tengdu.


Málþing um Finnland, Svíþjóð og ESB

H.Í.Vekjum athygli á þessu málþingi hjá Alþjóðastofnun H.Í. þ. 15.október: ,,Málþing á vegum Alþjóðamálastofnunar og Rannsóknaseturs um smáríki í samvinnu við Evrópufræðasetrið í Svíþjóð og Alþjóðamálastofnun Finnlands....Allir eru velkomnir."

FIFTEEN YEARS ON
Finland and Sweden in the European Union

A seminar organized by the Institute of International Affairs and Centre for Small State Studies at the University of Iceland in cooperation with the Swedish Institute for European Policy Studies and the Finnish Institute of International Affairs.

October 15, 2010
At the National Museum of Iceland in Reykjavik. 

Á þessari krækju má finna allar upplýsingar.

 


Bjarni Harðar úr bóksölunni upp í ráðuneyti til Jóns Bjarnasonar

BjarniHardarStarfsmönnum Sjávarútvegsráðuneytisins fjölgaði um einn í dag, þegar Bjarni Harðarson, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins og núverandi vara-bæjafulltrúi VG í Árborg, varð ráðinn til tímabundinna starfa, sem upplýsingafulltrúi Jóns Bjarnasonar og sjávarútvegsráðuneytisins.

Í frétt á RÚV segir: ,,Bjarni er fyrrverandi ritstjóri og blaðamaður en í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að hann hafi fjallað sérstaklega um málefni sjávarútvegs- og landbúnaðar við fréttaskrif. Bjarni er jafnframt varabæjarfulltrúi Vinstri grænna í Árborg, og því flokksbróðir Jóns Bjarnasonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Hann situr jafnframt í stjórn Heimsýnar. Bjarni sat á þingi fyrir Framsóknarflokkinn árin tvöþúsund og sjö til átta en sagði af sér eftir að tölvupóstur sem hann sendi aðstoðarmanni sínum fór jafnframt til fjölmiðla landsins en þar bað Bjarni aðstoðarmanninn um að láta fjölmiðla vita, í skjóli nafnleyndar, af harðri gagnrýni innan flokksins í garð varaformannsins."

Heimssýn eru samtök þeirra sem berjast gegn aðild Íslands að ESB og það gerir Jón Bjarnason einnig. Það sameinar því Jón og Bjarna, sem og sú staðreynd að þeir eru í sama stjórnmálaflokki.

Á vef Alþingis, þar sem Bjarni vann einu sinni, má lesa þetta:

,,Stúdentspróf ML 1981. Nám í sagnfræði og þjóðfræði við HÍ 1982-2007.
Landbúnaðarverkamaður 1976-1979. Verkamaður á Höfn í Hornafirði 1980. Verkamaður í Ísrael og Palestínu 1982. Ritstjóri Stúdentablaðsins 1983. Blaðamaður á Tímanum og NT 1984-1985. Blaðamaður á Helgarpóstinum 1985-1986. Ritstjóri Bóndans 1986. Ritstjóri og aðaleigandi Bændablaðsins 1987-1994. Ritstjóri Þjóðólfs, málgagns framsóknarmanna á Suðurlandi, 1988–1991. Ritstjóri og eigandi Sunnlenska fréttablaðsins 1991-2006. Bóksali á Selfossi frá 2006. Stofnaði Sunnlensku bókaútgáfuna 2001.
  Stofnfélagi og formaður Sögufélags Árnesinga um árabil. Stjórnarmaður í Þroskahjálp á Suðurlandi frá 1990. Hefur unnið við þáttagerð fyrir Ríkisútvarpið. Stjórnarmaður í Draugasetrinu ehf. á Stokkseyri frá 2003 og stjórnarformaður Icelandic Wonders á Stokkseyri frá 2005. Í Þingvallanefnd 2008."

Alls voru 29 umsækjendur sem sóttu um stöðuna, ekki er listi yfir þá á vefsíðu ráðuneytisins. Ekki er því vitað hvort um var að ræða fleiri flokksmenn VG í hópi umsækjenda. 

Við óskum Bjarna velfarnaðar í starfi og að allt gangi vel með tölvupóstinn!  


Árni Þór: "Evrópuvaktin í gíslingu hægri-öfgamanna"

Árni Þór SigurðssonÍ nýjum pistli á vefritinu Smugunni segir Árni Þór Sigurðsson, þingmaður og formaður þingsflokks VG, að vefmiðillinn Evrópuvaktin sé í gíslingu hægri-öfgamanna. Árni skrifar:

"Vefmiðillinn „Evrópuvaktin“ hefur verið starfræktur um nokkurt skeið. Var til hans stofnað til að fjalla um málefni Evrópusambandsins, þróun evrópskra stjórnmála og tengsl Íslands og Evrópusambandsins. Hugmyndin á bak við slíkan vefmiðil er góð en því miður er nú orðið ljóst að þessi vefmiðill er til allt annarra hluta hugsaður. Hann er nú ekki síst notaður til að koma á framfæri pólitískum áróðri og árásum hægri öfgamanna undir forystu þeirra Björns Bjarnasonar og Styrmis Gunnarssonar. Vafalaust undir dyggri handleiðslu hrunkeisarans í Hádegismóum, Davíðs Oddssonar.

Þetta sést ekki síst á því að vefmiðillinn er iðulega fullur af hóli og sjálfsánægju með framgöngu Sjálfstæðismanna í hverju sem þeir taka sér fyrir hendur. Um leið er látlaust ráðist að pólitískum andstæðingum með óhróðri og ósannindum ef ekki vill betra til, jafnvel þótt í hlut eigi andstæðingar ESB-aðildar. Með framgöngu sinni vinna þeir Björn og Styrmir baráttunni gegn ESB-aðild ómælanlegt tjón, enda fjölmargir sem geta með engu móti samsamað sig þeim hatursfulla áróðri sem þessir hægri öfgamenn stunda.

Nú nýlega birtist „frétt“ undir fyrirsögninni „Árni Þór þegir um meistarasamning sinn við ESB-þingmenn.“ Í „fréttinni“ segir m.a.:

„Árni Þór Sigurðsson, þingmaður vinstri-grænna og formaður utanríkismálanefndar Alþingis, hefur litið á það sem meginhlutverk sitt, frá því að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir var mynduð að tryggja framgang ESB-aðildar Íslands. Hinn 4. og 5. október var stofnuð sameiginleg nefnd þingmanna frá ESB-þinginu og Alþingi. Við stofnun nefndarinnar var samþykkt ályktun, sem ber öll merki þess, að þeir, sem hana samþykktu af Íslands hálfu berjist fyrir aðild Íslands að ESB. Árni Þór Sigurðsson samdi um ályktunartextann fyrir Íslands hönd. Hann var þannig úr garði gerður, að Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á fundi sameiginlegu nefndarinnar hafnaði honum hinn 5. október.“

Hér er ekki frekar en fyrri daginn leitast við að vanda fréttaflutning heldur er pólitískur rétttrúnaður látinn ráða efnistökum og umfjöllun og vitaskuld ekki reynt að ræða við þennan agalega formann utanríkismálanefndar Alþingis. Sannleikurinn er sá að afstaða mín til aðildar að ESB er óbreytt, ég tel að hagsmunum Íslands sé betur borgið utan ESB en innan. Um leið vil ég að fram fari opin og lýðræðisleg umræða um kosti og galla ESB-aðildar og ólíkt þeim Birni og Styrmi óttast ég ekki niðurstöðu þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er ein af meginástæðum þess að ég tel rétt að ljúka viðræðum við ESB og kynna niðurstöðurnar þjóðinni sem síðan á lokaorðið."

Í lokin segir svo Árni: "Evrópuvaktin skeytir hins vegar hvorki um skömm né heiður, hún er nú þegar í gíslingu hægri öfgamanna og grefur undir málefnalegri andstöðu við ESB-aðild. Vinstrimenn, hvar í flokki sem þeir eru, geta ekki átt neitt samneyti við þjóðernisöfgar eins og Evrópuvaktin er orðin boðberi fyrir." 

Meira: http://www.smugan.is/pistlar/fastir-pennar/nr/4157 


Össur Skarphéðinsson um ESB-málið í MBL

Össur SkarphéðinssonÖssur "utanríkis" Skarphéðinsson, skrifar ítarlega grein um ESB-málið í Morgunblaðið í dag. Í greininni fer hann yfir málið og í byrjun hennar varar hann við því að draga umsóknina til baka og hætta aðildarviðræðum. Össur skrifar: 

,,Á þeim krossgötum sem Íslendingar standa í dag er þýðingarmikið að þeir fái sjálfir að velja hvert ber að stefna í kjölfar þungbærs efnahagshruns. Ein af leiðunum í boði liggur í gegnum Evrópusambandið. Samningar um aðild eru formlega hafnir og samkvæmt ákvörðun Alþingis á ferlinu að ljúka með því að þjóðin fær frelsi til að velja hvort hún vill standa innan, eða utan sambandsins. Forsenda upplýstrar ákvörðunar er að fullgerður samningur liggi fyrir. Þá fyrst getur sérhver Íslendingur á grundvelli jafnræðis tekið sjálfstæða og upplýsta afstöðu. Þeir sem tala fyrir því að ónýta hina þríþættu ákvörðun Alþingis um viðræður, samning og þjóðaratkvæðagreiðslu, vilja því í reynd svipta þjóðina frelsinu til að velja sér og börnum sínum framtíð. Það væri ólýðræðislegt og ekki fallið til að setja niður deilur í samfélaginu. Ábyrgðarleysi af því tagi er skaðlegt fyrir hagsmuni, og orðstír, Íslands og því væri óráð að hætta við formlegar samningaviðræður núna."

Síðan víkur Össur að tveimur mikilvægustu málaflokkum aðildarviðræðnanna, en það eru sjávarútvegur og landbúnaður: 

,,Ýmsir óttast að aðild leiði til þess að Íslendingar tapi auðlindum sínum. Í skriflegri greinargerð Íslands við upphaf samningaviðræðnanna í júlí er skýrt af Íslands hálfu að aldrei verður fallist á framsal á yfirráðum auðlinda. Mitt mat er jafnframt að reglur Evrópusambandsins skapi engri þjóð rétt til að krefjast aflaheimilda úr staðbundnum stofnum innan íslensku efnahagslögsögunnar. Erfiðasta viðfangsefnið verður fremur á sviði gagnkvæmra fjárfestinga, og að tryggja að aðild færi ekki atvinnu á sviði sjávarútvegs úr landinu. Skýrsla framkvæmdastjórnarinnar um sjávarútveg á Íslandi kvað skýrt að orði um að innganga Íslands myndi leiða til breytinga á sjávarútvegsstefnu sambandsins. Vart verður það skilið með öðrum hætti en menn telji æskilegt að taka tillit til sjónarmiða Íslendinga. Á þetta verður að reyna við samningaborðið. Niðurstaðan í sjávarútvegi mun ráða mestu um hvort Íslendingar samþykkja eða hafna aðild."

Um landbúnaðinn segir Össur: 

,,Um landbúnað er staða okkar betri en margir gefa sér fyrirfram. Finnska leiðin, sem leiddi til þess að norðurskautslandbúnaður varð til í reglum Evrópusambandsins, byggðist á rökum, sem eiga enn betur við Ísland. Með harðfylgi ættum við því að geta náð enn rýmri heimildum en þeir. Reglur sambandsins geta tekjið tillit til fábreytni tegunda í framleiðslu, til fjarlægðar frá mörkuðum, og til einangraðra erfða, sem njóta sérstakrar verndar út frá sjónarmiðum líffræðilegrar fjölbreytni. 

Evrópusambandið hefur jafnframt gert fæðuöryggi að forgangsþætti. Ísland liggur fjarri matarkistum heimsins. Það er landfræðilega einangrað, og viðkvæmt gagnvart hamförum á borð við eldgos, stríð, eða faraldra í skepnum og mönnum. Engin evrópsk þjóð er því í jafn ríkri þörf fyrir skothelt fæðuöryggi og við Íslendingar.

Sterkustu vopnin liggja þó í landbúnaðinum sjálfum. Íslenskir bændur framleiða afurðir sem flokka má sem hágæðavörur. Reynslan, eins og af grænmetinu, sýnir að Íslendingar eru líklegir til að halda mikilli tryggð við innlenda framleiðslu. Aðild að Evrópusambandinu mun jafnframt opna tækifæri til að brjótast inn á nýja markaði, þar sem vaxandi áhersla er á hágæðavörur, og strangar kröfur með tilliti til umhverfisgæða í framleiðslu og heilsu neytendanna. Í þessu felast sóknarfæri, ekki síst fyrir unga bændur framtíðarinnar."

Öll greinin

(Mynd: DV)
 


Ungverjar glíma við umhvefisslysið

Frá því er greint á EuObserver að ESB hafi þegar í dag sent sérfræðinga til Ungverjalands í kjölfar hins alvarlega umhverfisslyss, sem varð þar í síðustu viku.

Sérfræðingarnir eru m.a byrjaðir að fyrirbyggja frekari hamfarir, en þeir koma m.a frá Belgíu, Frakkland, Svíþjóð, Austurríki og Þýskalandi.

Talið er að um 700.000 rúmmetrar af menguðum úrgangi frá álverksmiðjunni í Ajka hafi runnið úr varnargarðinum sem brast. Sjö létu lífið og yfir hundrað haf þurft að leita til læknis, aðallega vegna brunasára.

Búið er að handtaka eiganda verksmiðjunnar.

Video frá The Guardian


Ungverjar biðja ESB um aðstoð vegna ál og umhverfisslyss

Álver í KínaEins og fram hefur komið í fréttum varð alvarlegt umhverfisslýs í Ungverjalandi í vikunnu, þegar stífla með úrgangi úr álveri brast. Fjórir létu lífið. Samkvæmt fréttasíðunni Euractive hefur ríkisstjórn Ungverjalands beðið ESB um aðstoð við hreinsunarstarf.

Sett verður í gang það sem kallað er "European Civil Protection Mechanism" sem vinnur með mál sem þessi. ESB-löndin eru aðilar að þessu samstarfi (sem er hnattrænt), en Króatía og EES-löndin; við, Noregur og Lichtenstein, eru líka með.

(Álverið á myndinni tengist ekki Ungverjalandi) 

 


Össur "utanríkis" : Makríllinn orðinn íslenskur þegn (DV)

Össur SkarphéðinssonÍ DV segir eftirfarandi: ,,Makríllöndin, þar á meðal Evrópusambandslöndin, geta sjálfum sér um kennt því þau komu lengi vel í veg fyrir að Íslendingar fengju að koma að borðinu þar sem menn semja um veiðarnar,“ segir Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, í tilefni bréfs þriggja framkvæmdastjóra Evrópusambandsins til hans og Jóns Bjarnasonar út af makríldeilunni. Össur og Jón hafa þegar svarað bréfinu sameiginlega.

,,Annars er þetta stormur í vatnsglasi. Ég held að þessir þremenningar í Brussel séu fyrst og fremst að friðþægja gagnvart reiðum Skotum sem sjálfir hafa með öðrum veitt 200 þúsund tonn af makríl umfram það sem heimilt er. Þá er nú ótalið það sem ekki kemur fram í löndunartölum. Okkar tölur eru þó öruggar, og hægt að treysta þeim, en það vita allir, og Evrópusambandið best, að tölur þeirra eru ekki þær nákvæmustu í heimi,” segir Össur.

Hann segir að við blasi að makríllinn sé búinn að „slá tjöldum sínum við Ísland til frambúðar“. Það sjáist af því að hann hrygni nú kringum allt land.

,,Þar með er makríllinn orðinn íslenskur þegn, og eðlilegt að Íslendingar vilji veiða hann í samræmi við það,” segir utanríkisráðherra."

Öll frétt DV, sem á líka myndina!


Már Guðmundsson hélt líka ræðu á aðalfundi SF

Á sama fundi hélt Már Guðmundsson, Seðlabankastjóri, einnig ræðu, sem hann nefndi "Upp úr öldudalnum." Í henni reyndi hann að meta "ástand og horfur" í íslenskum efnahagsmálum. Ræða Más er 11 síður að lengd og má lesa hér en í lok hennar segir Már:

"Að lokum vil ég segja þetta: Takist okkur að ljúka því
ætlunarverki að endurreisa traust á íslenskt efnahagslíf sem er
kjarninn í áætlun stjórnvalda með AGS og þar með talið að
komast út úr höftunum og opna aðgang að erlendum
lánsfjármörkuðum munum við komast upp úr öldudalnum.
Hitt er
svo annað mál hversu hröð sú sigling verður sem þá tekur við.
Það getur verið að við þurfum að sætta okkur við minna í þeim
efnum en áður. Það er þó alls ekki víst. Sé rétt á spilunum haldið
getur lítið land með okkar legu og auðlindir haft margvíslega
möguleika. Það sem við megum hins vegar ekki gera aftur er að
reyna að þvinga hagkerfið hraðar en það kemst með hrikalegum
afleiðingum fyrir stöðugleikann." (Feitletrun: ES-blogg)

SpennitreyjaOg hvar stendur þá hnífurinn í kúnni? Er það ekki óviðunandi staða í gjaldmiðilsmálum sem er hér að bremsa allt? Hvaða erlendi aðili, sem undir EÐLILEGUM kringumstæðum myndi kannski vilja fjárfesta hér, treystir (og getu runnið) með gjaldmiðli í höftum (les: spennitreyju) ?? 


Þorsteinn Már í Fiskifréttum: Lítill fiskur í stórri tjörn

Þorsteinn Már BaldvinssonEinn reyndasti útgerðarmaður Íslands, Þorsteinn Már Baldvinsson, er umfjöllunarefni í athyglisverðri grein í nýjasta hefti Fiskifrétta. Er greinin byggð á erindi Þorsteins á aðalfundi Samtaka fiskvinnslustöðva, SF.

Aðalumfjöllunarefni greinarinnar (og fyrirlesturs Þorsteins) er samanburður á íslenskum og norskum sjávarútvegi. 

Hann bendir m.a. á að Norðmenn standi sig mun betur í markaðsstarfi en við. Hann segir einnig að Norðmenn séu mun umsvifameiri í fiskveiðum en við.

Við lestur greinarinnar fær lesandinn það á tilfinninguna að Þorsteinn sé e.t.v. að benda á það að kannski þvert á það sem menn halda, þá sé Ísland ekki risastór fiskveiðiþjóð: ,,Íslenskur sjávarútvegur er lítill í alþjóðlegu samhengi. Við erum nánast eins og lítill fiskur í stórri tjörn." Lesa má alla grein Þorsteins hér (á bls. 6-7)

En hvað kemur þetta ESB-málum við? Jú, við fulla aðild myndi íslenskur sjávarútvegur fá 100% tollfrjálsan aðgang að mörkuðum í Evrópu. Slík myndi t.d veita íslenskum sjávarútvegi forskot á Norðmenn í þessu samhengi.

Grein Þorsteins er afar áhugaverð. 

(Mynd: Viðskiptablaðið) 

 


Skýrsla um garðyrkjubændur og ESB - væntanleg áhrif hér

GrænmetiSamtök Garðyrkjubænda sendu í vikunni frá sér skýrslu, sem Hagfræðistofnun H.Í. hefur gert og ber heitið Staða og horfur garðyrkjunnar – Ísland og Evrópusambandið.  Í byrjun hennar segir:

 ,, Í þessari skýrslu er fjallað um stöðu garðyrkjunnar og undirgreina hennar. Horft er sérstaklega til reynslunnar af afnámi tolla á tómötum, gúrkum og paprikum árið 2002 og hvað hægt sé að læra af þeirri reynslu. Þar að auki eru áhrif frekara tollaafnáms metin út frá fyrri reynslu og skoðað hver gætu orðið áhrif aðildar Íslands að Evrópusambandinu á stöðu garðyrkjunnar. Þessi skýrsla er unnin að beiðni Sambands garðyrkjubænda og hófst vinna haustið 2009 og lauk í ágúst 2010.“

Sé rýnt í niðurstöður hennar kemur í ljós að aðild að ESB myndi hafa breytingar í för með sér fyrir þessa litlu atvinnugrein (um 400 heilsársstörf, í um 140 fyrirtækjum, með framlag til landsframleiðslu upp á 0,15%, sem hefur minnkað með árunum.)

Sérstaklega er horft til Finnlands varðandi samanburð: ,, Af reynslu Finna má sjá að landbúnaðurinn hefur tekið örum breytingum frá aðild. Bú hafa stækkað en þeim hefur fækkað en landsvæði undir ræktun ýmiskonar landbúnaðarvara hefur þó ekki mikið breyst. Svipaða sögu er að segja af garðyrkjunni í Finnlandi.Fyrirtækin hafa stækkað mjög ört á þessu tímabili en að sama skapi hefur þeim fækkað en þó er það flatarmál sem notað er undir ræktina óbreytt. Samsetning framleiðslunnar hefur breyst. Opnun markaðar hefur gert það að verkum að innlendir aðildar eru hættir að rækta margskonar blóm og hafa þess í stað fundið sínu fyrirtæki farveg í ræktun á pottaplöntum eða öðrum tegundum grænmetis og ávaxta.“

Síðar er bent á þetta: ,, Skjót aðlögun í tekjum ræktenda í finnskum gróðurhúsum eftir aðild er athyglisverð. Tekjusamdráttur var töluverður strax við aðild en árið eftir höfðu tekjur aukist og náð fyrra stigi. Svo virðist sem finnsk garðyrkja hafi aðlagast betur inngöngu í ESB en finnskur landbúnaður í heild sinni. Það má einnig merkja af nýlegri gögnum frá aldamótum til ársins 2008 en þar má sjá að hlutfall styrkja af tekjum ræktenda í gróðurhúsum hefur farið lækkandi. Tekjur ræktunarinnar hafa verið að aukast undanfarin ár en á sama tíma hafa styrkir staðið í stað sem bendir til þess að ræktunin sé sjálfbærari í dag en árin eftir aðild.“

Í skýrslunni segir að aðild myndi alls ekki leiða af sér dauðadóm yfir garðyrkjunni í heild sinni, ,,en ræktendur og ráðamenn þurfi þó að undirbúa sig undir breytingar á samsetningu innlendrar ræktunar.

Skýrslan sýnir e.t.v. vel að í komandi aðildarviðræðum þarf sérstaklega að huga að stöðu og málefnum garðyrkjubænda. Íslenskt grænmeti er í háum gæðaflokki og íslenskir neytendur kunna að meta það.  

 

 


Össur og Jón skrifuðu ESB svarbréf

Makríll á sundiÍ sambandi við bréf frá ESB vegna deilna um makrílveiðar hafa Össur Skarphéðinsson og Jón Bjarnason ritað svarbréf. Það má lesa hér

Málið sýnir kannski e.t.v. að samningaviðræður um sjávarútvegsmál verða ekki eins og að drekka vatn, þegar aðildarviðræður Íslands og ESB hefjast af fullum krafti á næsta ári.


John Lennon lifir!

John LennonHeimurinn minnist John Lennon í dag, sem hefði orðið 70 ára, hefði hann lifað. Lennon var hinsvegar skotinn til bana fyrir utan heimili sitt þann 8. desember 1980. Hann lifir hinsvegar enn í hugum okkar.

Hann fæddist í Liverpool á Englandi og stofnaði þegar fram liðu stundir frægustu, og að margra mati, bestu hljómsveit heims, The Beatles eða Bítlana. 

Aldrei hafa tveir menn, þ.e. Lennon og (Paul) McCartney náð að upphefja tónlistarsköpun á sviði dægurtónlistar á jafn hátt plan. Það má næstum segja að þeir séu eitt af undrum veraldar.

John Lennon var pólitískur, svo mikið að bandaríska ríkisstjórnin á dögum Richard Nixons óttaðist hann. Þetta má sjá í frábærri heimildarmynd, The U.S. vs. John Lennon.

Við Íslendingar reistum friðarsúluna, sem er fallegt og táknrænt listaverk, til minningar um frábæran listamann.

Einn af fallegri textum poppsögunnar er einnig eftir Lennon, IMAGINE

Imagine there's no heaven
It's easy if you try
No hell below us
Above us only sky
Imagine all the people
Living for today...

Imagine there's no countries
It isn't hard to do
Nothing to kill or die for
And no religion too
Imagine all the people
Living life in peace...

You may say I'm a dreamer
But I'm not the only one
I hope someday you'll join us
And the world will be as one

Imagine no possessions
I wonder if you can
No need for greed or hunger
A brotherhood of man
Imagine all the people
Sharing all the world...

You may say I'm a dreamer
But I'm not the only one
I hope someday you'll join us
And the world will live as one 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband