Leita í fréttum mbl.is

Sterkara Ísland - Þjóð meðal þjóða

Sterkara ÍslandNý samtök sem berjast fyrir aðild Íslands að ESB, Þjóð meðal þjóða, hafa verið stofnuð. Um er að ræða samtök sem byggja á sama grunni og "Sammála" gerðu á sínum tíma.

Nýr vefur hinna nýju samtaka er nú opinn og er hann að finna á www.sterkaraisland.is

Í grein þar segir Jón Steindór Valdimarsson, forsvarsmaður samtakanna: 

,,Þeirri skoðun vex sífellt fiskur um hrygg að hagsmunum okkar Íslendinga sé ekki best borgið með núverandi fyrirkomulagi gjaldmiðilsmála. Með öðrum orðum að krónan dugi okkur ekki lengur sem gjaldmiðill. Það virðist einnig orðin skoðun flestra að tómt mál sé að tala um að taka upp annan gjaldmiðil en evruna og þá aðeins með þeim hætti að ganga fyrst í ESB og síðan í Myntbandalagið. Að þessu leyti eru kostirnir skýrir og óþarft að eyða púðri á annað.

Það er hrein rökleysa að halda því fram að þeir, sem vilja aðild að ESB og evru, séu að bjóða fram skyndilausn til að bregðast við bráðum vanda. Skyndilausn sem taki í raun mörg ár að ná fram og þess vegna sé hún ekki tæk. Með aðild að ESB og evru er bent á leið til að breyta til langs tíma þeirri umgjörð sem við setjum efnahags- og þjóðlífi okkar, leið sem tekur nokkur ár að feta þar til settu marki er náð."

Evrópusamtökin hvetja alla Evrópusinna að vera með og styðja málefnið! Áfram Ísland!

Ps. Minnum á leik "ESB-umsækjendanna" Íslands og Króatíu í dag kl. 15.00 á EM i handbolta. 

Sendum jákvæðar hugsanir til Vínar!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Hansson

Menn eiga að nýta skoðanafrelsið og virkja líka tjáningarfrelsið til að afla málstað sínum stuðnings.

En það er nokkuð sérstakt að lesa þessar skýringar. Allt sem þarna stendur snýst um gjaldmiðilinn. Að krónan dugi ekki og evran sé það eina sem komið geti í staðinn. Sama evran og sögð var "í stórhættu" í Silfrinu í gær. Sama evran og málsmetandi evrópskir fjölmiðlar segja að eigi í vök að verjast (hér). Sama evran og nú er myllusteinn um háls Grikkja.

Þegar frá líður verður evran ekki stóra málið, gangi Ísland í ESB. Breyting á stjórnkerfinu, skert forræði í eigin málum, afsal löggjafarvalds, tilflutningur æðsta dómsvalds og hættan á að valdið verði of fjarlægt verða þá þyngri á metunum. ESB er ekki gjaldmiðill.

Haraldur Hansson, 25.1.2010 kl. 12:56

2 Smámynd: Evrópusamtökin, www.evropa.is

Gjaldmiðilsmál er mjög mikilvæg fyrir okkur Íslendinga, þ.e. sú spurning hvort hér eigi að vera stöðugur og virtur gjaldmiðill, eða gjaldmiðill sem hægt er að gengisfella út og suður, með tilheyrandi ógurlegheitum fyrir stóran hluta landsmanna (það eru jú alltaf einhverjir sem græða á gengisfellingum!). Er krónan alvöru gjaldmiðill Hans? Króna sem er í höftum og ekki gjaldgeng í alþjóðlegum viðskiptum! Er þetta ekki gjaldmiðill í öndunarvél?

Varðandi Grikki, að þá er Evran ekki aðalvandamálið þar, heldur óvarlegur ríkisbúskapur, spilling og fleiri þættir. Þetta er ekki vandamál sem er tilkomið vegna Evrunnar í Grikklandi. Grikkir (eins og aðrir) hafa farið óvarlega í ýmsum málum, en nú er komið að skuldadögum.

Evrópusamtökin, www.evropa.is, 25.1.2010 kl. 21:53

3 Smámynd: Haraldur Hansson

Fyrir það fyrsta þá heiti ég Haraldur, en þakka svarið.

Það kemur mér ekki á óvart að svarið er um gjaldmiðilinn eingöngu. Krónan er engin heilög kýr fyrir mér, en ef það á að sleppa henni þarf að koma eitthvað betra í staðinn. Ef Moggi þykir ekki nóg hlutlaus má lesa um gjaldmiðil sem glímir við heilsubrest með því að smella hér.

Þótt Grikkland glími við syndir fortíðarinnar er alveg klárt að það þyngir þeim róurinn að hafa ekki eigin gjaldmiðil. Spánn, Portúgal og Írland eru á leið í evru-ógöngur líka og síðan fylgja Eystrasaltslöndin, Ítalía, Austurríki og Finnland fljótlega. Það væri ekki gæfulegt fyrir Ísland að feta þessa slóð. Eitt bankahrun er nóg.

Haraldur Hansson, 25.1.2010 kl. 22:14

4 Smámynd: Evrópusamtökin, www.evropa.is

Afsakaðu HARALDUR, en nafnaruglið var algjört óviljaverk! Gjaldmiðlar eiga, rétt eins og aðrir, sín "ups and downs". Við íslendingar erum hinsvegar í slæmri stöðu og verðum með gjaldmiðil í gjörgæslu næstu misserin, eða m.ö.o, algjört "downs". Það sem vantar hér er stöðugleikinn, þannig að fólk og fyrirtæki geti gert áætlanir sem byggðar eru á traustum grunni. Veitir krónan þann grunn? En alveg getum við verið sammála; eitt bankahrun er nóg og vonandi á íslensk þjóð ALDRE eftir að ganga í gegnum slíkt aftur!

Evrópusamtökin, www.evropa.is, 26.1.2010 kl. 08:31

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

Fáránlegt að fara að tengja okkur við þessa evru, sem hvort sem er "fengist" ekki vegna órafjarlægðar okkar frá Maastricht-skilyrðunum fyrr en eftir áratugi í fleirtölu! Miklu nær væri að taka upp dollar eða norsku krónuna (það síðarnefnda virðist koma til greina í hugum sumra norskra stjm.manna), enda getur sú síðarnefnda átt það til að sveiflast heldur meira í ætt við okkar krónu en aðrir gjaldmiðlar. Svo er ekkert að því að taka góða sveiflu öðru hverju - m.a.s. Jón Steindór var að viðurkenna gagnsemi þess í tilfelli krónunnar fyrir okkar atvinnuvegi nú á nýliðnum degi í Mogganum (í smáfrétt á 1. síðu, sbr. heilsíðufrétt á s. 12). Áfram frjálst Ísland!

Jón Valur Jensson, 27.1.2010 kl. 04:08

6 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Það er staðreynd sem hefur verið þekkt lengi að evrusvæðið er byggt á brauðfótum. Hagkerfin sem mynda það eiga enga þá samleið sem nauðsynleg er til þess að slíkt myntbandalag virki sem skyldi. Það var von forystumanna Evrópusambandsins að úr því myndi bætast en sú hefur ekki orðið raunin og ekkert sem bendir til þess að svo verði. Þvert á móti hefur vandamálið orðið stærra. Þannig uppfyllir evrusvæðið ekkert af skilyrðum hagfræðingsins Roberts Mundell um hið hagkvæma myntbandalag sem njóta almennt viðurkenningar á meðal hagspekinga og hefur aldrei gert.

Þetta er kjarni málsins sem er viðurkennt af aðilum sem bæði eru mjög hlynntir sambandinu eða andvígir því og allt þar á milli. Þannig má t.d. nefna dr. Ottmar Issing, fyrrum aðalhagfræðing þýzka seðlabankans og síðar Seðlabanka Evrópusambandsins, sem er mikill evru- og Evrópusambandssinni en hefur vakið athygli á þessu vandamáli sem gæti hæglega leitt til endaloka evrusvæðisins.

Staðreyndin er einfaldlega sú að evrusvæðið er risi á brauðfótum og þangað inn eigum við ekkert erindi.

Hjörtur J. Guðmundsson, 27.1.2010 kl. 17:54

7 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Gleymum því svo ekki, sem Evrópusambandssinnar gera iðulega annað hvort viljandi eða vegna vanþekkingar, að stöðugleiki á einu sviði í hagkerfinu leiðir til óstöðugleika annars staðar eins og t.d. Joseph Stiglitz hefur bent á. Ef genginu yrði haldið stöðugu hér eins og yrði með upptöku evru þýddi það að sveiflurnar hyrfu ekki heldur kæmu fram annars staðar, einkum í atvinnustiginu og leiddi nær óhjákvæmilega í tilfelli Íslands til mikils og viðvarandi atvinnuleysis.

Hjörtur J. Guðmundsson, 27.1.2010 kl. 17:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband