Leita í fréttum mbl.is

Um ræðu formanns Bændasamtakanna á Búnaðarþingi

Haraldur BenediktssonBúnaðaþing var sett í dag og það var að sjálfsögðu leiðtogi íslenskra bænda, Haraldur Benediktsson, sem setti samkunduna. Hann eyddi töluverðum tíma ræðu sinnar í að ræða ESB-málið, en það er mál sem bændur neita alfarið að ræða!

Um það sagði hann m.a.:,,Langmesta óvissa um framtíð landbúnaðar er heimatilbúin.  Í kjölfar alþingiskosninga í vor var mynduð fyrsta íslenska ríkisstjórnin sem hefur aðild að ESB á stefnuskránni.  Ekki vil ég gera lítið úr sjónarmiðum sem telja aðild að ESB vera framfaraskref fyrir Ísland þó engin haldbær rök aðildarsinna finnist nú lengur fyrir aðild."

Greinilegt er að Haraldur hefur ekki haft fyrir því að kynna sér helstu rök aðildarsinna, eða að hann lokar augunum fyrir þeim. Hið síðara verður að teljast líklegra. Hér með er Haraldi bent á helstu rök fyrir aðild góðri grein eftir Benedikt Jóhannesson.

Í sambandi við umsókn talar Haraldur um vélabrögð og brellur og landbúnaðarstefnu ESB telur hann fyrst og fremst þjóna milliliðum og stórlandeigendum, en ekki hagsmunum bænda eða neytenda! Samkvæmt orðum Haraldar er því greinilega eitthvað rosalegt samsæri í gangi!

Þá segir Haraldur ennfremur: ,,Búnaðarþingið sem sett er í dag tekur þátttöku Bændasamtakanna í aðildarferlinu til umræðu.  Við höfum tilnefnt í samningahópa en spyrjum okkur nú hvort við eigum að starfa þar áfram eða draga okkur til baka.  Við fengum skýr skilaboð frá bændum á bændafundum í haust.  Félagsmenn okkar kæra sig ekki um að samtök þeirra dragist til ábyrgðar.  En þótt vinna í samningahópum sé með okkar aðild eða án er það Alþingi og ríkisstjórn sem móta eiga þær varnarlínur og samningsmarkmið sem samninganefnd Íslands þarf að gæta að.  Þau bera ábyrgð á aðildarferlinu og útkomunni."

Samkvæmt þessu vilja bændur og samtök þeirra FIRRA sig allri ábyrgð á málinu og varpa alfarið ábyrgðinni á Alþingi og ríkisstjórn!

Og hann heldur áfram: ,,Nú liggur fyrir að verkefnið er að bylta starfsumhverfi landbúnaðarins eins og fram kemur í skýrslu framkvæmdastjórnar ESB sem kom bændum ekki á óvart.  Brátt verður hafist handa við að sníða landbúnaðarstefnu okkar að sameiginlegu landbúnaðarstefnu ESB.  Engar vísbendingar eru þar um undanþágur fyrir íslenska bændur enda eru þær ekki til." (Feitletrun ES-blogg)

Þetta er athyglisvert: Býst Haraldur við að ESB komi með undanþágur eða sérlausnir tilbúnar í byrjun? Þær samningaviðræður sem Ísland fer væntanlega í, snúast um að finna lausnir sem tryggja stöðu íslenskra bænda. Blogg þetta vill benda Haraldi á vísbendingu um sérlausn sem fordæmi eru fyrir, en það er hin s.k. ,,heimskautalausn" um stuðning við landbúnað norðan 62. breiddargráðu, sem bæði Finnar og Svíar nota í dag. Þessa lausn kallaði Haraldur ,,sjónhverfingar" í MBL um daginn, en Finnar börðust hart fyrir þessu. 

Það verður að segjast eins og er að aðkoma Bændasamtakanna að ESB-málinu er vægast sagt sérkennileg. Um leið og samtökin neita að ræða málið og hrópa NEI, NEI,NEI, gera samtökin allt til þess að berjast gegn aðild, sem gæti þýtt betri lífskjör fyrir almenning, aukinn efnahagslegan stöðugleika, betra og tryggara starfsumhverfi fyrirtækja, upptöku á nothæfum gjaldmiðli og trúverðugleika á sviði alþjóðastjórnmála!

Samtökunum má í raun lýsa með þessum orðum: STATUS QUO - ÓBREYTT ÁSTAND!!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Leitt fyrir ykkur að bændasamtökin skuli vera á móti ESB. Það vill bara svo einkennilega til að þessi samtök eru búin að kynna sér rækilega hvaða áhrif aðild hefur fyrir Íslenskan landbúnað. Á því er þeirra ákvörðun byggð. Á þvi byggist líka andstaðan og "áróðurinn", ég vil nú leifa mér að kalla það frekar upplýsingagjöf.

Varðandi sérlausn ESB fyrir landbúnað norðan 62. breiddargráðu, þá byggist sú lausn á því að viðkomandi þjóð fær heimild til að styrkja sinn landbúnað norðan þessara marka. Viðkomandi þjóð verður að greiða þessa styrki sjálfar. Það er ekki um að ræða neina styrki frá ESB til þessa. Þar af leiðandi er þetta sjónhverfing. 

Gunnar Heiðarsson, 1.3.2010 kl. 03:06

2 Smámynd: Úlfar Hauksson

Mjög athyglisvert að sjá að sumum finnist sjálfsagt að skattgreiðendur í öðrum ESB löndum greiði fyrir þá umframstyrki sem heimild hefur fengist fyrir landbúnað norðan 62. br. gráðu! Sjónarmið BÍ er algjörlega forkastanlegt. Hvar hefur landbúnaður Evrópuríkis verið settur í uppnám við aðild að ESB? Hefur hin rækilega kynning BÍ á málinu leitt slíkt í ljós og þá hvar? Staðreyndin er sú að ef íslenskur landbúnaður fer fjandans til við aðild þá er Ísland fyrsta landið sem lendir i slíku ferli. Og því spyr maður, er líklegt að svo fari?

Úlfar Hauksson, 1.3.2010 kl. 03:43

3 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Þú spyrð hvar landbúnaður er í uppnámi í Evrópu.

Frakkland, Holland, Danmörk, Spánn og Finnland, þetta eru þau lönd sem mér dettur fyrst í hug, í þessum löndum stendur landbúnaður frammi fyrir miklum vanda vegna reglna ESB.

Það mætti telja mörg fleiri.

Gunnar Heiðarsson, 1.3.2010 kl. 06:07

4 Smámynd: Árni Gunnarsson

Enginn hefur ennþá borið það til baka að t.d. mjólk er miklum mun ódýrari hér en í mörgum ESB löndum. Hvað er það sem vantar? Ef regluverk EES yrði afnumið hér þá gæti myndast beinn markaður milli sauðfjárbænda og neytenda og stórbætt stöðu margra í þeirri grein. Verksmiðjubú með mjólkurframleiðslu er hringavitleysa á Íslandi. Bændur eiga að skilja það sjálfir að landbúnaður er að mestum hluta lífsstíll á Íslandi og ferðaþjónusta býður upp á gífurlega möguleika. Ísland er fámennt land og strjálbýlt. Við eigum að halda sem flestum jörðum í byggð án þess að byggja verksmiðjur á hverjum bæ.

Af mörgum bændum sem ég þekki eru þeir einir áhyggjulausir og með traustan efnahag sem búa hóflegum fjölskyldubúskap og nýta hvern grip með alúð og góðri umhirðu.

Íslendingar eu alls ekki skyldugir til að vera bandvitlausir af græðgi.

Árni Gunnarsson, 1.3.2010 kl. 12:11

5 Smámynd: Úlfar Hauksson

Himmm, sem sagt það að franskir bændur séu ósáttir við eitt og annað þýðir að landbúnaður sé í uppnámi og allt er það ESB að kenna og ef ESB nyti ekki við væru bændur í Frakklandi hoppandi glaðir og ánægðir! Þetta er náttúrúlega svo mikið bull... að manni er orðavant

Úlfar Hauksson, 2.3.2010 kl. 01:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband